Fjáraukalög 1992

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 15:34:16 (3784)

     Guðrún Helgadóttir (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Minni hluti hv. fjárln. kýs að sitja hjá við afgreiðslu liðar 02-872 sem varðar Lánasjóð ísl. námsmanna. Þar er tillaga um að lækka framlag til sjóðsins um 220 millj. kr. sem sjóðstjórnin telur sig ekki þurfa að nýta. Minni hlutinn telur ekki einungis raunalegt að harkaleg lagasetning skuli hafa skert kjör námsmanna að því marki að þeim hefur fækkað um 700 eða um 8% á einu ári heldur þykir minni hlutanum þetta beinlínis hættuleg þróun. Til viðbótar hinum nýju lögum hefur nýskipuð sjóðstjórn fengið nær óskorað vald til setningar reglna sem herða svo að námsmönnum að ástæða er til að óttast að þeim fækki enn, ekki síst þeim sem hafa fyrir fjölskyldum að sjá. Minni hluti hv. nefndar telur að hér sé vegið að þekkingu og rannsóknum í landinu og slíkt athæfi eigi eftir að koma niður á afkomu þessarar þjóðar í framtíðinni. Við eftirlátum því meiri hluta nefndarinnar að bera ábyrgð á þessum aðgerðum. Við höfum varað við þeim án þess að á okkur hafi verið hlýtt og kjósum því að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.