Samkomulag um kvöldfund

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 18:55:42 (3813)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður gat þess réttilega að jólin væru fram undan. Það er nú þannig að það skipulag mála, sem menn eru að reyna að ná saman um, byggir einmitt á því að taka tillit til þess

að menn geti komist hver til síns heima á skikkanlegum tíma fyrir jólin og verið þar með fjölskyldum sínum eins og venjulega undanfarin ár.
    Ég get því miður ekki gert að því ef einstakir þingmenn Framsfl. vilja ekki fela forustumönnum sínum í þingflokk umboð til þess að semja um framgang mála. Það verður þá svo að vera.
    En ég vil láta þess getið að það hefur verið afskaplega lítið um kvöldfundi á þessu hausti það sem af er þangað til í þessari lotu sem við erum í miðjum klíðum í. En ég minnist þess m.a. þegar ég og hv. þm. voru samherjar í stjórnarflokkum veturinn 1987--1988 að þá var setið kvöld og nætur fyrir jólin. Þá var setið milli jóla og nýárs og þá var byrjað í byrjun janúar. Ég man eftir hringingum kl. fimm að morgni þar sem maður var beðinn að koma niður í sali Alþingis til að greiða atkvæði. Við höfum ekki upplifað neitt slíkt að þessu sinni, sem betur fer. Tekist hefur að koma í veg fyrir að fundir þyrftu að standa fram á morgun. En auðvitað er það ekkert óvanalegt á þessum tíma árs að hér séu kvöldfundir kvöld eftir kvöld.
    Ég vil líka minna hv. þm. á hvernig hér var ástatt fyrir jólin 1988, það ár sem hann nefndi þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu. Þá voru mjög stífir kvöldfundir fyrir jólin. Vegna hvers? Vegna þess að þáv. hv. ríkisstjórn kom afar seint fram með öll sín mál. Hún gjörbreytti skattkerfinu á þeim tíma og menn urðu að leggja á sig mikla vinnu þess vegna, m.a. þeir sem þá sátu í þáv. fjárhags- og viðskn., sem ég þekki mæta vel, hafandi setið í nefndinni á þeim tíma. Þetta vildi ég að kæmi hérna fram, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta. Ég tel eðlilegt að gera núna matarhlé og hafa það tvo tíma eins og um var talað. En ég fagna því ef forseti hyggst kanna það með hvaða hætti staðið hefur verið að kvöldfundum og næturfundum undanfarin ár þannig að menn þurfi ekki að deila um staðreyndir.