Samkomulag um kvöldfund

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 19:10:18 (3823)

     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki setið undir svona ásökunum. Bara alls ekki. Það var að mínu frumkvæði --- það var ég sem var upphafsmaður að því á þessum fundi þingflokksformanna að hafa orð á því að við yrðum að hafa Framsfl. með í ráðum. Ég get hins vegar ekki gert að því ef formaður þingflokksins er ekki

húsinu. Ég veit mætavel að það er hann sem á að annast þessi mál fyrir hönd Framsfl. Hvað gerir maður ef hann er ekki í húsinu? Maður leitar að varaformanninum. Hvar var hann? Hann er utan þings. Hvað gerir maður þá? Maður leitar að ritaranum. Hann var ekki í húsinu því miður.
    Við hinir fjórir komumst að ákveðinni niðurstöðu, eins og ég hef sagt frá. Ég leitaði síðan uppi tvo þingvana framsóknarmenn, annar þeirra er hvorki meira né minna en formaður flokksins, talaði við þá báða sameiginlega og þeir gerðu ekki athugasemd við þetta. Það var niðurstaðan. Þeir gerðu ekki athugasemd. Ég tek það ekki þannig og ég trúi því ekki að viðkomandi þingmenn hafi sagt við síðasta ræðumann að þeir hafi neitað því að halda hér kvöldfund. Þeir sögðu, það var niðurstaðan, við gerum ekki athugasemdir við þetta. En auðvitað má segja sem svo að það hafi átt að labba á milli allra þingmanna Framsfl. og spyrja þá um leyfi. Ég tek ekki að mér slík verk, en hér hefur engum stríðshanska verið kastað. Ég tel að það hafi í fullkomnum heiðarleika og sanngirni verið reynt að leita samkomulags við Framsfl. eða fulltrúa hans í þessu máli, og ég sit ekki undir því að vera borinn slíkum ásökunum sem hér hafa komið fram.