Fjárlög 1993

87. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 11:32:44 (3884)

     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) :
    Herra forseti. Fjárln. hefur nú lokið vinnu sinni fyrir 3. umr. fjárlaga og ég vil í upphafi máls míns þakka félögum mínum í nefndinni fyrir samstarfið sem eins og hefur komið fram hér áður hefur verið gott. Ég vil einnig á ný þakka bæði starfsfólki þingsins og embættismönnum úr hinum ýmsu ráðuneytum og stofnunum sem til okkar hafa komið og aflað fyrir okkur upplýsinga. Það hefur verið allt saman á hinn besta veg.
    Við 3. umr. fjárlaga hefur fjárln. m.a. unnið að hinum hefðbundnu störfum við að fara yfir tekjuhlið fjárlaga, ræða við B-hluta stofnanir, skoða þær brtt. sem dregnar voru til baka við 2. umr. fjárlaga og fara yfir 6. gr. fjárlaga sem fjallar um ýmsar heimildir til fjmrh. að gera margs konar ráðstafanir, einkum við kaup eða sölu ríkiseigna.
    Ég vil í upphafi gera nokkuð að umræðuefni þau vinnubrögð sem hafa tíðkast hér og eru ekki ný við tekjuhlið fjárlaga. Fjárln. byrjar sína vinnu á haustin þegar þing kemur saman, er reyndar byrjuð sína vinnu nokkuð fyrr hvað varðar gjaldahlið fjárlaganna, og strax í september er hún byrjuð að kalla til fundar við sig forsvarsmenn ýmissa sveitarfélaga og tala við þá um þeirra óskir varðandi gjaldahliðina.
    Það er nú svo að einhvern veginn finnst mér að það sé erfitt að deila út gjöldum án þess að vita hverjar tekjurnar verða. Það er farið aftan að hlutunum að í síðustu vikunni sem þessi vinna stendur, þegar búið

er að vinna að þessum málum í marga mánuði, þá koma einhverjar áætlanir um það á einum degi hverjar tekjur ríkisins koma til með að verða að lokum. En í því frhnál. sem ég mæli fyrir og er frá minni hluta fjárln. fjöllum við um tekjuhliðina, um breytingar á gjaldahlið, um viðræður við nokkrar stofnanir í B-hluta og höfum síðan nokkur lokaorð. Ég vil með nokkrum orðum fylgja þessu frhnál. úr hlaði.
    Varðandi tekjuhliðina átti fjárln. við mikla örðugleika að etja í sínu starfi og þeir örðugleikar eru vegna þess að hér í desember hefur mikið uppnám verið í ríkisstjórnarflokkunum og það hafa birst síðbúnar og illa undirbúnar ríkisstjórnarákvarðanir sem stafa af deilum í þingflokkum stjórnarliða og milli þingflokka þeirra og þær hafa gert nefndinni erfitt fyrir í starfi sínu. Ákvarðanir sem hafa birst í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar og verið kynntar nefndinni af einstökum ráðherrum hafa verið dregnar til baka, bæði vegna innbyrðis sundurlyndis í stjórnarflokkunum og ekki síður vegna snarpra viðbragða í þjóðfélaginu þannig að fjárln. hefur átt við mjög mikla erfiðleika og óvissu að etja í starfi sínu hvað varðar tekjuhliðina, og hvað varðar gjaldahliðina einnig því ekki síður hefur hringlandahátturinn verið mikill þar. En þó að ýmis atriði hafi verið dregin til baka, þá standa þó eftir ákvarðanir í frv. sem eiga enn eftir að auka á sundrungu og átök í þjóðfélaginu og auka óvissu um það að þetta fjárlagafrv. sem við erum með hér í höndunum sé raunhæft. Mun ég síðar í máli mínu víkja nokkuð að þeim atriðum nánar í umfjöllun um tekjuhliðina og í stuttri umfjöllun um gjaldahliðina eða þær breytingar sem þar hafa verið gerðar.
    Efh.- og viðskn. á að fjalla um tekjuhlið fjárlaga samkvæmt þingsköpum og hún á að skila áliti til fjárln. um tekjuhliðina. Efh.- og viðskn. hefur ekki síður átt erfitt með að fóta sig á hlutunum en fjárln., en hún skilar áliti um tekjuhlið fjárlaga þar sem hún leggur til að allri tekjuhliðinni og skattafrv. sem eru undirstaða hennar verði vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem þessi mál séu öll það óljós og það illa undirbúin að slíkt sé nauðsynlegt.
    Ég vil vitna í álit minni hluta efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingar í skattamálum sem er ein af undirstöðum tekjuöflunar ríkissjóðs og langveigamesta breytingin sem gerð er á tekjuhliðinni, en þar segir, með leyfi forseta, í lokasetningu þess ítarlega nál. sem nefndin sendi frá sér á þessum stutta tíma:
    ,,Ýmis atriði frv. eru enn óljós þegar þetta nál. er ritað. Ekki hafa fengist upplýsingar um allar brtt. meiri hlutans og því er ekki mögulegt að gera grein fyrir þeim hér. Minni hlutinn telur með tilvísun til framangreinds rökstuðnings að frv. þetta sé á engan hátt hæft til afgreiðslu. Allt of lítið er vitað um afleiðingar þess. Ekki hefur reynst unnt að fara nægilega vel ofan í lögfræðileg álitamál.
    Alvarlegust eru þó hin hörðu viðbrögð sem málið hefur fengið. Í öllum þeim umsögnum, sem fylgja nál. okkar, kemur fram hörð gagnrýni á frv. Þeir sem að þessu nál. standa muna ekki eftir jafnalvarlegum athugasemdum við nokkurt frumvarp sem ríkisstjórnir hafa flutt í skattamálum.
    Með tilliti til ofanritaðs leggur minni hluti nefndarinnar til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Þær umsagnir sem hafa borist til nefndarinnar eru nú ekki neitt smáræði. Þær eru í þessari bók sem hér er og eru hörð gagnrýni á þetta frv. Það má nærri geta að minni hluti fjárln. átti úr vöndu að ráða þegar þessi umsögn minni hluta efh.- og viðskn. barst en eigi að síður varð niðurstaða minni hluta fjárln. að vegna þess að nefndin hefur unnið eftir bestu getu að skiptingu á gjaldahlið frv. þá leggur hún til að það verði setið hjá við afgreiðslu frv. og alls ekki borin ábyrgð á því en það væri auðvitað full ástæða til þess þó að þessi hafi orðið niðurstaðan að vísa þessu máli öllu saman frá og til ríkisstjórnarinnar. Slík er óvissan og slík er sundrungin sem þetta frv. á eftir að valda ef það verður samþykkt eins og það liggur fyrir nú. Þess vegna vill minni hluti fjárln. enga ábyrgð taka á þessu frv. eða lokaafgreiðslu og þess og það er niðurstaðan í þessu nál.
    Ef vikið er síðan að tekjuhliðinni á ný, þá er það svo að hér hafa verið til umfjöllunar nú í desember fjöldamörg veigamikil frv. í skattamálum hvers konar og ég hef rakið það að slík vinnubrögð væru ekki til mikillar fyrirmyndar því að löggjöf um skattamál er einhver sú vandmeðfarnasta sem Alþingi stendur frammi fyrir. Löggjöf um skattamál er full af smáatriðum sem hafa gífurleg áhrif úti í þjóðfélaginu og það eru alveg furðuleg vinnubrögð að leggja fram frv. um skattamál á lokadögum þingsins. Ef vel ætti að vera þyrftu þessi frumvörp að leggjast fram með fjárlagafrv. sjálfu og vinnast jafnframt þeim og auðvitað að liggja fyrir hverjar tekjurnar verða áður en endanlega er gengið frá því hver gjöldin verða.
    Ég mun nú rekja nokkur atriði varðandi tekjuhliðina og byrja á skatthlutfalli fyrirtækja. Í fjárlagafrv. var gert ráð fyrir því að skatthlutfall í tekjuskatti fyrirtækja yrði lækkað úr 45% í 33%. Síðan hófust miklar kúvendingar fram og aftur eins og í flestöllum málum sem varða þetta frv. Undirbúningurinn virðist hafa verið með þeim hætti að með eindæmum er og ætíð var verið að breyta ákvörðunum frá degi til dags. Skatthlutfallið endaði í 39% og horfið var frá breytingum á reglum um útborgun arðs. Sannleikurinn er sá að þessi breyting í tekjuskatti fyrirtækja er ekki það bjargráð fyrir atvinnulífið sem látið er í veðri vaka. Hún kemur fyrst og fremst þeim fyrirtækjum til góða sem eru með tekjur og tekjuafgang í sínum rekstri fyrir, en hún kemur að engu leyti þeim til góða sem berjast í bökkum og það eru þau fyrirtæki sem efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar þurfa að létta róðurinn fyrir. Þetta ákvæði gerir það ekki.
    Sömu sögu er að segja um álagningu virðisaukaskattsins. Í frv. er gert ráð fyrir að afla 1.800 millj. kr. viðbótartekna með breytingum á lögum um virðisaukaskatt sem voru í því fólgnar að draga úr skattfrelsi ýmissa neysluþátta sem nú eru án virðisaukaskatts og afnámi endurgreiðslna til sveitarfélaganna vegna ýmiss konar þjónustu. Þessar hugmyndir hafa breyst verulega.
    Í fyrsta lagi var ákveðið að taka upp nýtt þrep í virðisaukaskatti, 14%, á ýmiss konar þjónustu. Jafnframt

var fallið frá álögum á sveitarfélögin í þessu formi en ákveðið að þau leggi fram sérstakt framlag í Atvinnuleysistryggingasjóð. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum frá 23. nóv. sl. var gert ráð fyrir því að virðisaukaskatturinn skilaði 800 millj. kr. í auknum tekjum en með breytingum á gildistökuákvæði hins nýja skattþreps er tekjuaukinn áætlaður 300 millj. Þegar tekið hefur verið tillit til endurgreiðslu til sveitarfélaganna sem nemur 600 millj. kr. og samdráttar vegna minnkandi veltu í þjóðfélaginu um 100 millj. kr. er niðurstaðan sú að áætlaðar tekjur af virðisaukaskatti lækka um 400 millj. kr. frá frv. Þetta lítur ekki svo illa út, en í þessu sambandi er rétt að geta þess og minna á að heildarupphæð virðisaukaskatts hækkar frá árinu í ár úr 39,6 milljörðum kr. í 41 milljarð eða um 1.400 millj. kr. Það er niðurstaðan eftir alla þessa fimleika sem eru reyndar alveg með ólíkindum og hugmyndirnar sem hafa fæðst og dáið varðandi þennan virðisaukaskatt, það er fjölbreytileg flóra. ( Gripið fram í: Það er sorgarsaga.) Það er sorgarsaga að mönnum skuli detta svona hlutir í hug. Hæstv. ráðherrum hefur dottið í hug að skattleggja sérstaklega snjómokstur. Það er mjög við hæfi þessa dagana þegar allt er á kafi í snjó víða um land og hefðu þær hugmyndir sjálfsagt virkað vel á þá sem núna eru með húsin á kafi í snjó og allt bráðófært. Húshitunun hefur ekki sloppið o.s.frv. og það er eingöngu vegna harðrar andstöðu og harðra viðbragða að horfið hefur verið frá sumum áformum en margt stórskaðlegt stendur eftir. Þau áform sem uppi eru um álagningu virðisaukaskatts þjóna ekki því markmiði að auka atvinnu. Þvert á móti setja þau atvinnu fjölmargra í stórhættu og vinna þvert gegn því markmiði sem menn segja þó í orði kveðnu að þetta fjárlagafrv. eigi að þjóna. Virðisaukaskattur á ferðaþjónustu, bækur og tímarit, svo einhver dæmi séu nefnd, sá skattur eykur ekki atvinnu. Hann getur minnkað atvinnu en hann eykur hana ekki.
    Þá komum við að þeim kafla í tekjuhliðinni sem samdráttur í veltu í þjóðfélaginu skapar. Hann hefur áhrif á innflutning og vörugjöld og ýmsa aðra tekjuliði frv. Það er því atvinnustefnan og hvernig tekst að sjá atvinnulífinu farborða þannig að hjólin snúist og það sé velta í þjóðfélaginu sem ekki síst skiptir sköpum um afkomu ríkissjóðs á næsta ári. En um það atvinnustig sem verður, um þá veltu sem verður í þjóðfélaginu, er gífurleg óvissa eins og ég kem að síðar.
    Samkvæmt fjárlagafrv. var gert ráð fyrir að sérstakt bensíngjald hækki um 300 millj. kr. til að mæta niðurfellingu jöfnunargjalds sem verður að fella niður samkvæmt lögum. Í aðgerðum sem kynntar voru í nóvember var gert ráð fyrir að innheimta 300 millj. kr. með hækkun bensíngjalds til þess að standa straum af atvinnuskapandi aðgerðum í formi viðhaldsverkefna sem voru áætlaðar 500 millj. kr. Þessi viðhaldsverkefni voru áformuð í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. nóv. og áttu að fara til viðhalds opinberra bygginga til sérstaks átaks í atvinnumálum. Þetta voru góð áform sem okkur í minni hlutanum leist vel á. Þetta hefði skapað atvinnu, þetta hefði sparað fé þegar fram í sækir og verið á allan hátt góð aðgerð. En það kom því miður í ljós að þetta voru bara loftkastalar og meiri hluti fjárln. gekk í það verk að skera niður þessa loftkastala og nú er gert ráð fyrir að verja 100 millj. kr. til þessara verkefna samkvæmt tillögum meiri hlutans. Innheimta bensíngjaldsins hófst eigi að síður með breytingu á bensínverði þann 1. des. sl. og til að mæta því liggur nú fyrir Alþingi frv. um breytingu á lögum um fjáröflun til vegagerðar þar sem gert er ráð fyrir að innheimta sérstakt bensíngjald sem renni beint í ríkissjóð að upphæð 780 millj. kr. Eins og þingmönnum er kunnugt rennur bensíngjaldið að stórum hluta til vegagerðar en nú er verið að auka hlutann sem rennur beint í ríkissjóð og hafin var innheimta á þessu gjaldi 1. des. til þess að standa straum af verkefnum sem hvergi voru til nema í dagdraumum ríkisstjórnarinnar. Þetta eru náttúrlega fáheyrð vinnubrögð og það er alveg furðulegt hvað hringlandahátturinn er mikill, en það versta í þessu er að með þessum vinnubrögðum er verið að vekja væntingar um atvinnusköpun úti í þjóðfélaginu sem verður svo ekkert af. Það er hið versta við þetta mál.
    Mestu breytingarnar á tekjuhliðinni eru þó í álagningu tekjuskatts þó það komi ekki fram í aukningu á tekjum ríkissjóðs vegna þess að það eru endurgreiddir 4 milljarðar kr. til sveitarfélaganna til að bæta þeim tekjumissi vegna niðurfellingar aðstöðugjalds. Þessar breytingar fela þó í sér stórauknar skattaálögur á allan almenning. Ljóst er að ríkisstjórnin hefur gefist upp við að afla tekna frá þeim sem betur mega sín. Það hefur verið horfið frá áformum um fjármagnstekjuskatt og ákvarðanir um takmarkaðan hátekjuskatt eru tímabundnar.
    Það hafa staðið yfir miklar umræður á Alþingi í allan gærdag um skattaálögur ríkisstjórnarinnar. Í áliti meiri hluta efh.- og viðskn. sem einnig fylgir nál. meiri hluta fjárln. eru raktar þessar breytingar, þessar skattaálögur í tekjuskattinum og allar þær álögur sem koma fram, þær skattbreytingar sem gerðar eru og hafa áhrif á tekjuáætlun fjárlaga. En þær eru eftirfarandi, með leyfi forseta:
    Breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt upp á 3.800 millj. kr. Virðisaukaskattur um 1.300 millj. kr. Bensíngjald, sem ég minntist á áðan, 780 millj. kr. Tryggingagjald 50 millj. kr.
    Af þessari tekjuöflun fara 4 milljarðar sem framlag til sveitarfélaga vegna niðurfellingar aðstöðugjalds. Auk þess er í frv. gert ráð fyrir framlengingu á gildandi lögum um skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem skilar 435 millj. kr. á næsta ári. Þá er í frv. breyting á lögum um umboðsþóknun á gjaldeyrisviðskiptum sem felur í sér lækkun frá núgildandi lögum, eða um 200 millj. í tekjur í stað 315 millj. kr. tekna á árinu 1992. Þegar þetta hefur allt verið dregið saman koma út viðbótarálögur upp á 1.815 millj. kr.
    Eins og fram kom borgar ríkissjóður 4 milljarða til sveitarfélaganna vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins en það er náttúrlega engin vissa fyrir því hver verða verðlagsáhrif til lækkunar á niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Það er a.m.k. ósköp hætt við því að það komi ekki fram nema hluti af þeirri upphæð í verðlaginu, bæði vegna afkomu fyrirtækja og einnig vegna þess að verðlag er komið nokkuð á skrið um þessar mundir þannig að það er erfitt fyrir neytendur að átta sig á því hvað er hvers í verðhækkunum í verslunum eins og stendur. ( Forseti: Má forseti grennslast um það hjá hv. þm. hvort hann á mikið mál eftir eða hvort hann getur lokið ræðu sinni á fimm mínútum eða svo, því það hefur verið óskað eftir því að gera hlé á fundinum vegna þingflokksfunda. Ef hann ætti stutt eftir þá mætti hann ljúka ræðu sinni.) Ég á nú töluvert eftir og er áreiðanlega ekki hálfnaður. ( Forseti: Þá óskar forseti eftir því að hv. þm. geri hlé á sinni ræðu.) Ég er fús að fresta minni ræðu og mun þá halda áfram þegar forseti kallar til fundar á ný. --- [Fundarhlé.]