Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 12:02:50 (3954)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það verður að segja eins og er að það er sigur skynseminnar þegar það gerist að sópað er burtu úr þessu frv. stórum hluta af því sem þar átti upphaflega að vera. En það er óhjákvæmilegt að spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar hvernig standi á því að mönnum dettur í hug að flytja svona mál. Hvernig stendur á því að það gerist að menn flytji svona vitlaus mál á Alþingi Íslendinga?
    Ég held að það vefjist ekki fyrir neinum að þrískipting valdsins er ein undirstaða vestræns lýðræðis. Það er framkvæmdarvald, það er dómsvald og svo er það Alþingi sjálft, löggjafarvaldið.
    Við höfum reynt að skýra þessa þrígreiningu. Við höfum reynt að undanförnu að aðgreina betur en áður dómsvaldið frá framkvæmdarvaldinu og að koma því skipulagi á að mönnum sé ljóst að hlutleysis eigi betur að vera gætt en menn töldu að áður hefði verið. Með því frv. sem hér er til umræðu átti í sumum tilvikum að taka vald, sem hreppstjórar höfðu, og færa það til sveitarstjórna og sveitarstjórnirnar áttu að taka ákvarðanir sem í sumum tilvikum hefðu getað orðið stórkostlega bótaskyldar ef rangt var að staðið. Hver átti þá að greiða bæturnar? Ríkið. Átti þetta þá að vera undir eftirliti sýslumanna? Ekki aldeilis. Sveitarstjórnirnar gátu farið sínu fram, sent reikninginn beint á ríkið. Það er út af fyrir sig alveg furðulegt að mönnum detti í hug að grauta saman valdinu á þann hátt sem hér var lagt til. Mér er til efs að þörf sé á því mannahaldi sem er í íslensku ráðuneytunum ef ungir strákar nýkomnir úr skóla fá það hlutverk að valsa í lagasafninu og setja upp einhverjar formúlur fyrir því hvernig eigi að spara 18 millj. og brjóta allar réttarhefðir og venjur og koma með annað eins skrípi eins og lagt var til í þessu sambandi.
    Ég ætla að vitna í örfáar greinar sem segja sitt um stöðu mála.
    4. gr., sem fjallar um hreppstjórana, hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Í 3. gr. tilskipunar um skyldu manna að bjarga mönnum, sem sýnast dauðir, 4. ágúst 1819, falla niður orðin ,,eða til sveita sóknarpresti eða hreppstjóra, ef skemmra er til þeirra, og skal það gert sumpart til þess, að embættismenn þessir eða sýslumenn geti, þangað til læknir kemur, séð um rétta meðferð á hinum sjúka, og sumpart til þess að þeir geti gert ráðstafanir þær, er þörf er á, ef einhver kynni að hafa til ábyrgðar unnið.``
    Gott og vel. Sé þetta látið falla burt þá eru til sveitarfélög á Íslandi þar sem ekki er sóknarprestur. Færi hreppstjóri líka þá er það náttúrlega orðin spurning á hvers ábyrgð þessi lík eiga þá að vera eða þeir sem sýnast dauðir.
    Það varð einum sýslumanni að falli að fylgjast ekki nógu grannt með þeim skyldum sem eru í þessum lagatexta. Þegar mönnum dettur í hug að sópa svona löguðu út þá spyr maður: Hvaða lífsreynslu hafa þeir menn að baki sem hafa setið við það að leggja svona lagað til?
    Ég ætla að vísa í 11. gr. af því að það er eitt af þeim vinsælu málaferlaatriðum sem verið hafa í gegnum tíðina. Það eru landskiptalög sem þar eru til umræðu. Í skýringum við greinina er sagt svo:
    ,,Í 16. gr. landskiptalaga, nr. 46 27. júní 1941, eru ákvæði um að landeigendum sé í sumum tilfellum frjálst að skipta sjálfir landi. Þegar skiptin eru sérstaklega vandasöm er þeim þó skylt að fá til aðstoðar hreppstjóra, úttektarmann eða trúnaðarmann Búnaðarfélags Íslands. Í greininni er lagt til að tilvísun til hreppstjóra verði felld niður.``
    Það er því verið að gefa undir fótinn að fjölga skuli möguleikum á deilumálum þar sem menn strika nýjar línur til að skipta landi og tilkynna engum með formlegum hætti hvaða ákvarðanir hafa verið teknar. Fjölmörg slík deilumál eru uppi og mörg óleysanleg með öllu en með því að losa um þessi formlegheit þá er skipulega unnið að því að skapa enn þá meira öngþveiti en þó er í þessum efnum.
    Í skýringum við 12. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt lögum um skógrækt, nr. 3 6. mars 1955, er hreppstjórum fyrst og fremst ætlað það hlutverk að hafa milligöngu milli umsjónarmanna skógræktarsvæða og fjáreigenda þegar sauðfé eða geitfé kemst inn á skógræktarsvæði sem er girt. Í greininni er lagt til að þetta hlutverk hreppstjóra verði fært til sveitarstjórna.``
    Þarna er um hreint löggæsluatriði að ræða. Rísi deila á milli landeigenda sem í þessu tilfelli er Skógræktin og þeirra sem eiga laust búfé er það í sjálfu sér lögreglumál. Það er mikil spurning hvernig það er hugsað að sveitarstjórnir eigi í sumum tilfellum allt í einu að gerast löggæsluaðilar. Ég ætla ekki að þreyta þingheim með löngum lestri en get nú ekki stillt mig um að taka hérna athugasemd við 14. gr. líka því hún segir dálítið um vinnubrögðin.
    ,,Samkvæmt farsóttarlögum, nr. 10 19. mars 1958, er hlutverk hreppstjóra að aðstoða héraðslækna

við framkvæmd farsóttavarna, taka við tilkynningum um smitbera og sem fulltrúar lögreglustjóra að taka þátt í aðgerðum sem ákveðnar eru vegna farsótta. Í þessari grein frv. er lagt til að ákvæðið um hreppstjóra verði felld brott og er ekki talin þörf á að fela öðrum aðila það hlutverk sem þeim er ætlað í lögunum.``
    Hér tekur fyrst steininn úr. Menn telja að þær breytingar hafi orðið frá árinu 1958 að engin ástæða sé til að óttast farsóttir. Þær komi trúlega bara ekki meir. En það er kannski einmitt farsóttarlögunum íslensku að þakka að tekist hefur að ná niður dauðsföllum í landinu þannig að meðalaldurinn hefur hækkað verulega. Mér finnst að þegar það gerist að fulltrúar í dómsmrn. eru farnir að semja lög á sviði heilbrigðismála þá hljóti maður að spyrja sig: Hver endar þessi vitleysa?
    Ég get ekki stillt mig um það, herra forseti, að víkja örlítið að þeim greinum sem eftir standa því sá misskilningur gæti slæðst út að þær væru miklu skárri að efni til en þær sem búið er að fella niður. 30. gr. er að því leyti eðlilegust að þar er þó verið að tala um ákveðinn skatt sem menn ætla að leggja á til ákveðins verkefnis og skatturinn er upp á 100 kr. sem á að leggja á hvert ökutæki við skoðun og skráningu og einnig eigendaskiptisskráningu. Það verður að segjast eins og er að skattlagning til ákveðins verkefnis upp á 100 kr. eins og þarna er verið að leggja til segir okkur að nokkuð seinlegt yrði að standa í skattheimtunni í landinu og hætt við að mikið færi í almennan kostnað ef henni væri almennt skipt niður í hundraðkalla. Menn gætu þá sest niður og reiknað út hversu margir þeir þyrftu að vera og hver kostnaður yrði við heildarverkið. En jafnvel þó skatturinn sé aðeins upp á 100 kr. þá dettur mönnum í hug að tryggja það nú svo það gleymist ekki að vísitöluskrúfan skuli halda velli. Ef framfærsluvísitalan hækkar á ráðherra að hafa heimild til að hækka þetta líka.
    Nú er það svo að bifreiðum heldur áfram að fjölga. Upplýst er að á seinasta ári hafi um 7.000 nýir bílar bæst við en 3.000 verið teknir úr umferð þannig að innbyggð hækkun er í liðnum hvort eð er. En ef við höldum áfram að byggja upp vísitölukerfið með þessum hætti, er þá ekki tímabært að menn fari að endurskoða hvort ekki sé rökrétt að launafólk fái þá vísitöluhækkun á laun ef vísitölukerfið almennt á að halda gildi? Hvaða rök eru fyrir því að bifreiðareigandinn sé frekar fær um að greiða meira en 100 kr. ef framfærsluvísitalan hækkar? Hvaða rök eru fyrir því? Ég hygg að stjórnarsinnum vefjist tunga um tönn að gera grein fyrir því. Ætli nokkur rök séu til fyrir slíku? Ætli þetta sé ekki bara dæmi um það að réttur fólksins á ekki að vera neinn en réttur stofnanna mikill.
    Ég hlustaði á framkvæmdastjóra Umferðarráðs lýsa því yfir að til stæði að gera stóra áætlun sem mundi draga stórkostlega úr umferðarslysum. Það er auðvelt að segja svona lagað. Vegna virðingar fyrir því að viðleitnin í þeim efnum að gera gott er mikils virði og þótt ég sé kannski samt heldur vantrúaður á að árangurinn verði eftir þessari leið þá hef ég ákveðið að styðja þessa skattheimtu upp á 100 kr. en skattheimta er þetta. En ég er sannfærður um það að til að ná verulegum árangri í að fækka umferðarslysum þá verðum við að endurbæta umferðaræðar frá því sem nú er. Löngum er hægt að finna þá staði þar sem mest er hætta á slysum og þar verðum við að endurbæta umferðaræðarnar. Það eitt skilar raunverulegum árangri í þessum efnum og svo löggæsla. Að halda mönnum við þann aga að þeir viti að lögreglan er til eftirlits á vegum landsins. En gott og vel, ég hef fallist á að samþykkja þennan skatt en mér er ómögulegt að henda einum blautum hanskanum enn framan í íslenska verkalýðshreyfingu og segja: Það á að vísitölubinda þetta en það á ekki að vísitölubinda kaupið. Þetta er vopnaburður sem gengur ekki upp. Það er alveg vonlaust að það sé hægt að hafa þjóðarsátt í landinu ef það er ekki einu sinni hægt að leggja á skatt upp á 100 kr. án þess að það sé vísitölubundið að hann eigi að hækka.
    Herra forseti. Þá ætla ég að víkja að fjármálaráðstöfunum á sviði kirkjumála. Nú ber svo við að sú samþykkt sem hér er verið að leggja til er í eðli sínu brot á ákvæðum stjórnarskrárinnar um trúfrelsið í landinu því að samkvæmt þeim ákvæðum á ekki að vera hægt að skylda nokkurn mann til að greiða beint gjald til annars trúfélags en þess sem hann er meðlimur að og sé hann ekki meðlimur að neinu þá á að greiða gjaldið til háskólans. Svo einfalt er þetta. Aftur á móti er hvergi áskilið að íslenska ríkið megi ekki taka sig til og leggja fram peninga til einhvers trúfélags ef því sýndist svo. En beinan skatt til trúfélags má ekki þvinga neinn mann til að greiða nema að hann sé í því trúfélagi. Hér er viðurkennt að allir eigi að greiða til kirkjugarða á þeirri forsendu að hvað sem trúfélögum líði viljum við hafa um að reglur í landinu hvar menn séu grafnir ef þeir eru grafnir. Og ég er hlynntur þeirri reglu. En með þeirri ákvörðun að taka af þessum stofni og færa það í annað eins og hér er verið að gera þá eru menn í reynd að skattleggja þá sem tilheyra ekki íslensku þjóðkirkjunni. Með beinum hætti eru menn að skattleggja þá til þess að greiða fé til hennar. Þetta er önnur hlið málsins. Hin hlið málsins er þessi: Hæstv. fjmrh. hefur gefið út mjög ákveðnar yfirlýsingar um vilja sinn. Hann var reyndar óbreyttur þingmaður þá. Hæstv. dómsmrh. skrifaði magnaða grein um þessa hluti. Hæstv. dómsmrh. vitnaði aftur á kirkjuþingi. Kirkjuþing er ekki jafnmögnuð samkoma og þegar menn fóru í suðurgöngu til Rómar. En ég hygg að menn vilji helst að það standi sem þeir lýsa yfir við hið geistlega vald þegar hið veraldlega mætir á kirkjuþingum til þess að lýsa þar afstöðu sinni. Trúlega verður það ekki til að bæta sambúðina á milli kirkjunnar og hins veraldlega valds ef ekkert er að marka síkar yfirlýsingar. Hitt er þó hálfu verra og ekki hægt undir að búa að biskup landsins skuli leyfa sér að setja jafnaðarmerki á milli allra þingmanna í þessum efnum. Það er vopnaburður sem gengur ekki upp. Biskup landsins verður að greina á milli manna en standa ekki að því að dæma menn í kippum. Slíkar aðferðir við það að úrskurða um viðhorf manna eru löngu úreltar og ég hygg að séu hvergi

liðnar.
    Það hefur verið mér dálítið umhugsunarefni að á Alþingi Íslendinga situr ágætur drengur, fulltrúi Alþfl. og starfandi sóknarprestur, hv. 5. þm. Austurl. Og mér er spurn: Á það eftir að gerast að biskup landsins lýsi því yfir í ofanálag við meðferðina á þingmönnum að ekki skipti einu sinni máli þó prestar landsins séu mættir inn á Alþingi að þá hlaupi skoðanirnar á milli eftir því hvort þeir séu á kirkjuþingi eða hvort þeir séu komnir í þingsalinn, eða eftir því hvort þeir séu í pretikunarstólnum eða hvort þeir séu komnir í þann stól sem ég stend í nú? Eigum við eftir að heyra slíka yfirlýsingu? Hlýtur það ekki að gerast að ætlast verði til þess að menn séu nokkuð staðfastir í stefnumörkun hvað þetta snertir? Er ekki miklu heiðarlegra að leggja til almenna lagabreytingu þannig að menn geti unað við það nokkurn veginn ákveðið hvaða skattur eigi að fara til kirkjunnar og hvað skattur eigi ekki að fara til kirkjunnar og svo sé reynt að standa við það en ekki að ríkið taki að sér það hlutverk að það sé eins og ræningi á þeirri leið sem fjármagnið fer frá sóknarbörnunum til kirkjunnar, að ríkið ré staðsett eins og ræningi við veginn til að seilast í dálítið af þessum fjármunum? Horft til framtíðar þá held ég að fari svo að það hljóti að vera að hv. 5. þm. Austurl., sem er nú farinn að skrifa mikið niður hjá sér, geti verið sammála mér um að það sé eðlilegra að standa þannig að lögunum að menn minnki þá frekar tekjustofna kirkjunnar en standi ekki í því að reyna alltaf að hrifsa til sín eitthvað af því sem henni hefur verið ætlað.
    Þetta hlýtur að vera sérstaklega skýrt í ljósi þess að á erfiðri stundu var einu sinni spurt hvort ætti að gjalda keisaranum skatt. Vafalaust hefði það verið til lýðhylli fyrir þann sem svaraði hefði hann sagt: Það á ekki að gjalda keisaranum skatt. En hann svaraði: Gjaldið keisaranum það sem keisarans er og guði það sem guðs er.
    Herra forseti. Hægt væri að hafa hér langt mál um. Ég tel mig hafa farið yfir þetta frv. til að sýna fram á að það er e.t.v. fyrst og fremst 30. gr. sem hægt er að segja að hálfu að eigi rétt á sér. Allt hitt hefði verið betra að láta ógert, sé horft til sæmdar hæstv. dómsmrh., sé horft til sæmdar hæstv. fjmrh., sé horft til sæmdar hv. 5. þm. Austurl. og sé horft til sæmdar þingsins sem heildar. Ég tel að sá vopnaburður sem er tekinn upp í þessu frv. sé ekki til fyrirmyndar, síst af öllu eftir að menn hafa látið stór orð dynja á öðrum þegar þeir töldu að þeir lægju vel við höggi.