Fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 13:52:17 (3955)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fagna þeirri niðurstöðu sem orðið hefur um að hverfa frá því að leggja niður embætti hreppstjóra. Ég er þeirrar skoðunar að hreppstjórar gegni mjög mikilvægu hlutverki í íslensku þjóðlífi, hafi gert það í gegnum aldirnar og hafi brýn verkefni með höndum nú eins og áður og þess vegna vil ég aftur ítreka gleði mína yfir því að nú hafi flestir sannfærst um að þessi skipan mála verði varin um næstu framtíð.
    Einnig hefur verið til umræðu sú tillaga að halda áfram að skerða kirkjugarðsgjöld um 20% og nú til þess að fjármagna nokkra starfsþætti þjóðkirkjunnar. Nokkrir hv. þm., m.a. hv. þm. Jón Helgason, hv. þm. Guðrún Helgadóttir, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hafa komið upp og haft af þessu mjög miklar áhyggjur. Rétt er að rifja upp að þetta er í þriðja sinn sem gerð er tillaga um að skerða kirkjugarðsgjöldin um 20%. Það var undir forustu þáv. fjmrh., hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem ákveðið var að skerða kirkjugarðsgjöldin við afgreiðslu lánsfjárlaga árið 1991 um 20%. Þá virtist vera mjög góð samstaða um þá nauðsynlegu aðgerð að því er þáv. ríkisstjórn taldi og ekki annað að sjá en flestir ef ekki allir stuðningsmenn þáv. ríkisstjórnar hafi stutt þessa niðurstöðu. Ég hafði ekki forustu um mótmæli á þeim tíma, sat ekki á Alþingi og ekki heldur á kirkjuþingi sem ég geri ekki heldur nú. Ég studdi þessa aðgerð sem alþýðuflokksmaður og ég bar líka þau orð á vettvangi kirkjunar þar sem þessi mál komu til umræðu. Afstaða mín þá var sú að kirkjunni bæri að taka þátt í þeirri þjóðarsátt sem nauðsynleg væri til þess að bregðast við erfiðum aðstæðum í þjóðarbúinu og ég hef ekki séð að þær efnahagslegu forsendur hafi breyst nema þá til hins verra og þá er spurning hvort það sé ástæða til þess að kirkjan hætti að axla ábyrgð og taka þátt í þeirri nauðsynlegu þjóðarsátt sem flestir eru að leggja sitt af mörkum til. En ef þeir hv. þm., sem ég taldi áðan upp, hafa skipt um skoðun í málinu eftir ítarlega athugun og telja núna ástæðu til að afnema þessa 20% skerðingu vegna þess að aðstæður í þjóðlífinu hafa á einhvern hátt breyst þá er gott að fá að vita um það. Það yrði kannski til eftirbreytni, vonandi ekki fyrir mig en einhverja aðra, að greiða atkvæði með ákveðinni ráðstöfun í stjórn en greiða svo atkvæði gegn sömu hugmynd og sömu ráðstöfun þegar komið er í stjórnarandstöðu. Má þá kannski dæma aðrar gerðir eftir sömu fótsporum. Trúi ég því ekki en það kann að vera að aðrir mundu gera slíkt. Auðvitað er ekki gott mál að þurfa að skerða lögbundna tekjustofna um jafnháa upphæð og hér er um að ræða. Þessu mótmælti núv. kirkjumálaráðherra á sínum tíma og ég skil mótmæli hans mjög vel. En hann skilur það líka mætavel að aðstæður hafa breyst í þjóðfélaginu og ekki síður hitt, og í því liggur meginbreytingin frá því er fyrst var gripið til þeirrar ráðstöfunar árið 1991, að hæstv. kirkjumálaráðherra hafði um þetta fullt samráð við kirkjustjórnina. Þar er um nýja starfshætti að ræða hvað þetta mál varðar vegna þess að þegar fyrrv. ríksstjórn greip til þessarar ráðstöfunar á sínum tíma þá hafði hún um þetta engin samráð. Þetta kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Þrátt fyrir þau vinnubrögð studdi ég þá aðgerð ríkisstjórnarinnar á þeim tíma og geri það því enn.