Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:02:21 (4019)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Milli 2. og 3. umr. fjárlaga fyrir árið 1993 hefur verið fjallað um málefni hjúkrunarheimilisins Eirar og þar er gert ráð fyrir því að verja á fjárlögum ársins 1993 nokkrum upphæðum til þessarar starfsemi, í raun og veru úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Við sem stöndum að þessari tillögu erum andvíg þeirri almennu skerðingu á Framkvæmdasjóði aldraðra sem þar er gert ráð fyrir og teljum því óhjákvæmilegt, þrátt fyrir þær hugmyndir sem uppi eru og liggja fyrir, að flutt verði og samþykkt sérstök tillaga af því tagi sem hér er um að ræða. Verði hún samþykkt má gera ráð fyrir því að hjúkrunarheimilið Eir verði að fullu tekið í notkun á árinu 1993. Þar með leysist verulegur vandi í hjúkrunarmálum aldraðra hér á þessu svæði, en það eru um 150 manns sem eru í svokallaðri brýnni þörf fyrir hjúkrunarvistun í Reykjavík um þessar mundir. Stofnunin er tilbúin og getur tekið á móti fólki. Rekstraráætlanir liggja fyrir, hafa verið afhentar heilbrrn. fyrir löngu þannig að það er ekkert að vanbúnaði að hefja á árinu 1993 fullan rekstur á þessari stofnun, enda verði þessi tillaga samþykkt auk annarra tillagna sem hér hafa verið til meðferðar. Ég segi því já við þessari tillögu, virðulegi forseti, og legg til að þingheimur geri það líka.