Fjárlög 1993

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 17:26:45 (4030)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Vegna þeirrar skerðingar á framlögum sem hér er gert ráð fyrir vil ég, með leyfi forseta, vitna í greinargerð samgn. Alþingis til fjárln. Þar stendur á einum stað:
    ,,Nefndin hefur við umfjöllun um styrki haft hliðsjón af snjómokstursreglum Vegagerðar ríkisins. Vegagerðin ber í flestum tilfellum kostnað af snjómokstri að hálfu á móti heimamönnum. Verði snjómokstur í ákveðnum byggðarlögum þyngri í skauti en eðlilegt getur talist, t.d. vegna fámennis, hefur Vegagerðin hlaupið þar sérstaklega undir bagga. Varð það niðurstaða nefndarinnar að draga bæri nokkuð úr styrkjum til byggðarlaga sem sent höfðu óljósar umsóknir, einnig ef upplýsingar leiddu í ljós að snjómokstri væri að verulegu leyti sinnt af Vegagerð ríkisins. Þeir sem ekki höfðu sent umsókn fengu hálfu lægri styrk en á síðustu fjárlögum. Ákveðið var að skrifa öllum forsvarsmönnum sveitarfélaga sem styrks njóta eða hafa notið og gera grein fyrir þeim vinnureglum sem ætlunin er að styðjast við í framtíðinni. Þær byggjast á því í fyrsta lagi að þessi úthlutun sé ekki endanleg.``
    Í trausti þess að bréfin sem þarna er um getið verði send strax eftir áramót og að úthlutað verði úr liðnum óráðstafað, þá styð ég þessa tillögu.