Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 21:18:09 (4077)

     Frsm. 1. minni hluta heilbr.- og trn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta heilbr.- og trn. Nál. er á þskj. 503 og brtt. sem að minni hlutinn flytur er á þskj. 504.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk umsagnir um það frá Félagi eldri borgara, Landssambandi aldraðra, stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Öldrunarráði.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hann flytur tillögu um á sérstöku þskj. Tillagan gerir ráð fyrir að b-lið 1. gr. frv. verði breytt þannig að heimilt verði að nýta allt að 160 millj. kr. af fé Framkvæmdasjóðs aldraðra á árinu 1993 til rekstrar stofnana fyrir aldraða. Tillaga meiri hluta nefndarinnar gerir hins vegar ráð fyrir því að heimilt verði að nota mjög stóran hluta Framkvæmdasjóðs aldraðra í rekstur framvegis. Fyrsti minni hluti er ekki reiðubúinn til að standa að þeirri takmörkun á framlögum í Framkvæmdasjóð aldraðra. Fyrsti minni hluti telur að heimild af þessu tagi verði að vera tímabundin og sæta reglulegri endurskoðun. Höfuðmarkmið Framkvæmdasjóðs aldraðra hlýtur hér

eftir sem hingað til að vera uppbygging stofnana í þágu aldraðra.
    Undir nál. skrifa: Finnur Ingólfsson, hv. þm. Svavar Gestsson og Sigurður Þórólfsson og eru þeir einnig flm. brtt.
    Þessi brtt., sem hér er um getið, felur það í sér að b-lið 1. gr. sé breytt þannig að á árinu 1993 sé gert ráð fyrir því að ráðstafa megi allt að 160 milljónum kr. af þeim fjármunum sem framkvæmdasjóður hefur tekjur af og það eru fyrir árið 1993 áætlaðar 425 milljónir sem er hinn svokallaði nefskattur sem lagður er á til uppbyggingar á þjónustustofnunum fyrir aldraða og að þetta ákvæði sé einvörðungu bundið við árið 1993.
    Segja má að þær breytingar sem lagðar voru til með upphaflegu frv. sem heilbr.- og trmrh. mælti fyrir á Alþingi séu af þrennum toga spunnar. Í fyrsta lagi að ráðstafa, eins og gert var ráð fyrir ótakmörkuðu fé af Framkvæmdasjóði aldraðra til reksturs stofnana. Hins vegar hefur meiri hluti heilbr.- og trn. flutt brtt. við þetta þannig að gert er ráð fyrir allt að 55% af þeim tekjum sem sjóðurinn hefur sé hægt að ráðstafa til rekstrar og þetta gildi í þrjú ár.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að breyta 3. tölul. 12. gr. laga nr. 82 frá 1989 sem gerir ráð fyrir því að sveitarfélög, einkum dreifbýlissveitarfélög, geti komið á fót heimaþjónustu fyrir aldraða, þ.e. þau verði aðstoðuð af hálfu framkvæmdasjóðs til þess. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að þessum tölulið verði breytt og hann hljóði svo: ,,Að styðja sveitarfélög og heilsugæslustöðvar til að koma á fót og reka heimaþjónustu fyrir aldraða.`` Undir þetta tekur 1. minni hluti og gerir ekki brtt. við.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að afnema 2. mgr. 12. gr. laga nr. 82/1989 þar sem að heimild var til að veita allt að þriðjungi af árlegu ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra til verkefna samkvæmt 3., 4. og 5. tölul. 1. gr.
    Þegar mælt var fyrir því á Alþingi þá lýsti ég því yfir að ég gæti stutt þá hugmynd sem fram kom í þessu frv. Það gerði ég vegna þess að ég tel að það sé vel réttlætanlegt við þær aðstæður sem við búum nú við að taka þá fjármuni tímabundið sem koma í Framkvæmdasjóð aldraðra með sérstökum skatti sem lagður er á alla og ráðstafa því í þágu aldraðra. Það er skoðun mín að það sé til lítils að halda áfram uppbyggingu á þjónustustofnunum, byggja þær upp og láta þær síðan standa auðar vegna þess að ekki séu til peningar til að reka viðkomandi stofnanir. Sérstaklega á þetta við í Reykjavík þar sem þörfin er langbrýnust bæði fyrir uppbyggingu og ekki síður fyrir peninga til reksturs stofnana. Dæmi um þetta er Hjúkrunarheimilið Eir í Grafarvogi þar sem reyndar í dag var ákveðið að ráðstafa 70 millj. kr. til reksturs þeirrar stofnunar á árinu 1993. Hins vegar er það aðeins brot af þeim fjármunum sem þarf til þess að reka þá stofnun á næsta ári eins og nú er búið að byggja þar upp þannig að þetta dugar alls ekki til þess að hægt sé að halda fullum afköstum eða hægt sé að nýta öll þau rúm að fullu sem þar eru þó til ráðstöfunar.
    Hins vegar er frv. mjög opið eins og það var lagt fram upphaflega. Í raun og veru voru engar takmarkanir á því hvað það væri há upphæð sem mætti ráðstafa af nefskattinum til rekstrar og eins væri enginn tími tiltekinn í þessum efnum.
    Ég lagði áherslu á það við 1. umr. að sett yrðu ákveðin tímamörk án þess þó að tiltaka nákvæmlega hver þau ættu að vera. Hins vegar hefur meiri hlutinn, að lokinni þeirri umræðu gert þá tillögu að þetta skuli vera þrjú ár og heimild allt að 55 prósentum.
    Mér finnst þetta of langur tími og sú prósenta, sem þarna er verið að binda, ekki skynsamleg frekar en að veita allt að þriðjungi af árlegu framlagi til reksturs stofnana af ráðstöfunarfénu. Það var því niðurstaða 1. minni hluta nefndarinnar að binda þetta aðeins við árið 1993 af þeirri ástæðu að það er mjög mikilvægt, þegar fjármunir eru teknir og skattlagðir og það gert í ákveðnum tilgangi, að leggja þá í sjóð til uppbyggingar á þessum stofnunum og ekki sé hægt að ráðstafa þeim í framtíðinni með þeim hætti sem þarna er lagt til. En vegna þess hvernig ástandið er núna í augnablikinu og þörfin sérstaklega mikil í Reykjavík, og vel er búið að byggja upp á mörgum stöðum úti um land þá finnst mér réttlætanlegt að núna séu teknar 160 milljónir kr. til ráðstöfunar til reksturs til þess að hægt sé að tryggja að þeir sem hafa brýna þörf fyrir að komast inn á slíkar stofnanir komist þangað inn. Þetta eru fjármunir sem verið er að ráðstafa beinlínis í þágu aldraðra. En það er mikilvægt, og þess vegna er það lagt til af 1. minni hluta, að þetta ákvæði gildi aðeins í eitt ár. Umræðuna þarf að taka upp árlega, hvort þetta sé skynsamlegt jafnvel árið 1994 og ég tala nú ekki um árið 1995. Það er bæði þarft fyrir þingið og fyrir ríkisstjórnina að þessi umræða fari fram og ekki síst er það þarft fyrir málstaðinn sem slíkan.
    Gert er ráð fyrir því að sjóðurinn hafi til ráðstöfunar á árinu 1993 425 millj. kr. Það er gert ráð fyrir því í fjárlögum að 160 millj. kr. séu teknar til reksturs af þeim fjármunum árið 1993 og þar af leiðandi 265 millj. kr. sem fara í stofnframlög.
    Í þeim upplýsingum, sem nefndinni bárust frá heilbrrn. að ósk nefndarmanna, kom fram að sjóðurinn hefur skuldbundið sig nokkuð fram í tímann, það er ekki er hægt að sjá af þessu yfirliti hversu langur tími það er, en þær skuldbindingar eru upp á rúman 1,1 milljarð kr. Nefndarmenn í heilbr.- og trn. hafa hins vegar ekki fengið nákvæmar upplýsingar um það hversu há upphæð það er fyrir árið 1993 sem búið er að skuldbinda sjóðinn í stofnframlögum það árið. Það sýnir nú best traust nefndarmanna á heilbr.- og trmrh. að ekki hefur verið gengið eftir því af hálfu nefndarmanna að sundurliðun og heildarupphæð komi nákvæmlega á því hversu miklar skuldbindingarnar eru í stofnframlögum á árinu 1993. Í trausti þess að það séu ekki yfir 265 millj. kr. er sú brtt. af hálfu 1. minni hluta flutt hér að þessar 265 millj. kr. dugi fyrir

þeim stofnframlögum sem búið var að lofa á árinu 1993.
    Umsagnir um málið bárust frá mörgum aðilum og þá auðvitað um frv. eins og það lá fyrir strax í upphafi. Það var sent út til umsagnar og segja má að allar þær umsagnir séu nær samhljóða. Ég vitna fyrst í umsögn frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn sambandsins leggst gegn samþykkt frumvarpsins, enda er það í andstöðu við upphaflegan tilgang sjóðsins sem stofnaður var með nefsköttum til að vinna að brýnu verkefni, byggingu stofnana í þágu aldraðra, en mikið skortir á að því verkefni sé lokið.``
    Hér er umsögn frá Félagi eldri borgara:
    ,,Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er mótfallin því að skerða upphafleg markmið Framkvæmdasjóðs aldraðra og getur ekki fallist á þau rök sem sett eru fram í greinargerð með frumvarpinu.``
    Ég ætla að vitna í greinargerð Landssambands aldraðra, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Landssambands aldraðra hefur kynnt sér efni frumvarpsins og getur ekki fallist á réttmæti þess eða röksemdir þær sem fram eru settar í greinargerð með frumvarpinu. Leggur stjórnin því til að frumvarpinu verði vísað frá með eftirfarandi rökstuðningi`` --- sem ég ætla ekki að tíunda hver er.
    Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra kom með álit og niðurstaða þess hljóðar svo, með leyfi forseta:     ,,Það er álit samstarfsnefndar um málefni aldraðra, stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra, að ekki eigi að ætla Framkvæmdasjóði aldraðra að styrkja rekstur öldrunarstofnana.``
    Þannig mætti auðvitað lengi halda áfram, en eins og ég segi eru flestöll þau álit sem nefndinni bárust samhljóða í þeim efnum að þau eru í andstöðu við það sem hér er verið að leggja til. Ég trúi því að álit þessi séu byggð á því hversu mjög frv. gerði ráð fyrir að sjóðurinn væri opnaður, það væri ótakmarkaður tími og sú upphæð ótakmörkuð, þ.e. hversu miklu mætti ráðstafa og til hversu langs tíma. Ég hef þá trú að ef frv. hefði litið öðruvísi út, það hefði verið bundið við ákveðna upphæð til ákveðins tíma til að sinna þeim brýnu verkefnum sem hér er svo sannarlega þörf á og þá ekki síst í Reykjavík, þá hefðu þessar umsagnir litið öðruvísi út. Af þeirri ástæðu flytur 1. minni hluti þá brtt. sem hér liggur fyrir til þess að hægt sé að nýta þessa fjármuni í þágu aldraðra. --- [Fundarhlé.]