Kjaradómur og kjaranefnd

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 13:47:35 (4148)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði að fyrirvari minn, eins og hv. síðasta ræðumanns, tengist fyrst og fremst því að gera hrein skil á milli þess máls sem hér er á ferðinni og þeirra atburða sem tengdust sama vettvangi á sl. sumri. Að öðru leyti vil ég láta það koma hér fram að þær breytingar sem lagðar eru til á frv. eru að mínu mati til bóta og ég held að með þeim sé komið skipulag sem eigi að geta þjónað vel sínum tilgangi og verið vel brúklegt til þeirra verka sem það er ætlað, þ.e. ákvarða um laun og starfskjör þessara æðstu embættismanna ríkisins. Það þýðir auðvitað ekki að ekki væri hægt að hugsa sér ýmsa aðra tilhögun þessara mála og á það hefur verið bent að þessu er skipað nokkuð með öðrum hætti víða í nágrannalöndum, ýmist með beinni lagasetningu eða með öðrum hætti. En kjaradómur er nú einu sinni það fyrirkomulag sem við höfum valið og ég hef ekki séð að það gefist neitt verr en það annað sem menn hafa brúkað til þess að ákvarða kaup og kjör þessara embættismanna og æðstu yfirmanna í ríkinu sem eðli málsins samkvæmt er ekki heppilegt að standi í samningum um sín kaup og kjör með einhverju reglubundnu eða árvissu millibili. Og í því ljósi að með þessum breytingum er verið að reyna að laga þessi lög að breyttum aðstæðum og samræma meðferð launamála þeirra sem á þessu stigi eru í stjórnsýslunni þá er ég samþykkur þessu frv. og styð þær brtt. sem meiri hluti nefndarinnar leggur til á þskj. 492.