Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:01:11 (4159)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það stendur á minnisblaði Alþýðusambandsins, Minnisblað um aukna skattheimtu ríkissjóðs vegna efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar. Hér er fyrst og fremst verið að tíunda hina nýju skatta. Þetta er aukin skattheimta á almenning í landinu, þið getið ekki neitað því. En síðan er létt af fyrirtækjunum á móti og það kom fram í máli hagfræðings ASÍ að t.d. vaxtabæturnar koma ekki inn í dæmið fyrr en á árinu 1994 og eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram þá skilar virðisaukaskatturinn sér hægt og hægt. En þetta er allt ný skattheimta engu að síður. Þetta er viðbótarskattheimta. Það breytir því ekki að við erum að ræða skattastefnu ríkisstjórnarinnar, hvernig hún er í framkvæmd, og í raun er þetta aukin skattheimta á almenning í landinu og hún er umfram það sem að var stefnt og átti fyrst og fremst að mæta og var boðað í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember, að það ætti fyrst og fremst að mæta um það bil 4 milljarða kr. skattayfirfærslu af atvinnulífinu yfir á almenning. Hér er um miklu, miklu stærri tölur að ræða, hér er um miklu meiri tilflutning að ræða og hæstv. fjmrh. verður að rökstyðja það á eftir að það sé ekki ef hann ætlar að leyfa sér að halda því fram.
    Það er alveg ljóst að stjórnarandstaðan er andvíg þessu frv. eins og það lítur út og ætlar að gera sitt til að fella það. Takist það þá verðum við auðvitað að setjast niður við að endurskoða skattastefnuna eins og við viljum með nýjum meiri hluta sem þá kynni að myndast á Alþingi.