Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:51:09 (4171)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. þm. talaði heilmikið um réttlætismál og ég skal ekkert um það efast að réttlætiskennd hans sé mikil og merkileg og til staðar á þessum lokadögum aðventu fyrir jólin. Ég hef reyndar ekki enn þá fengið fullnægjandi skýringu á því hvernig á því stendur að þingmanninum, sem er svo fullur réttlætiskenndar, og félaga hans, hv. formanni Alþb., sem sátu í ríkisstjórn í tvö og hálft ár með flokkum sem vildu koma á fjármagnstekjuskatti tókst ekki að gera það á þeim tíma. Þessi ríkisstjórn hefur ekki setið jafnlengi, munar nokkru enn þá og samt er það talinn vera verulegur skortur á réttlætiskennd að setja ekki skatt á fjármagnstekjur en það lá ekki einu sinni fyrir fullmótað frv. um það efni eftir tvö og hálft ár. Ég hef ekki fengið fullnægjandi skýringar á því. Fyrst réttlætiskenndin var til staðar og allir þessir flokkar í ríkisstjórn, af hverju komu þeir þessu ekki fram á tveimur og hálfu ári? Ég hugsa að almenningur eigi bágt að skilja það fyrst þetta er gríðarlegt réttlætismál og fulltrúar réttlætisins voru allir saman komnir í síðustu ríkisstjórn.
    Í annan stað vil ég nefna þegar þingmaðurinn vekur athygli á því, og ég geri ekki lítið úr því að skuldir heimilanna eru vaxandi, að þingmaðurinn hlýtur að átta sig á að stóraukin húsnæðislán og húsbréfaútgáfa, sem var einmitt tekinn upp í síðustu ríkisstjórn, eykur stórkostlega skuldir heimilanna. Við gefum út húsbréf fyrir 12--15 milljarða á ári. Eru menn að mótmæla slíku? Vilja menn ekki að slíkt eigi sér stað? Tóku menn ekki þátt í slíku? Stóðu menn ekki að slíku? Menn hljóta að ræða þessa hluti í samhengi.
    Ég hef ekki fengið skýringar á því fyrst réttlætið átti meira og minna aðild að ríkisstjórn í tvö og hálft ár að þeir skyldu ekki koma fram þessum atriðum um fjármagnstekjuskattinn, ekki einu sinni undirbúa hann þannig að það væri nothæft.