Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 16:01:37 (4176)


     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég virði það við hv. þm. Vilhjálm Egilsson að reyna að bera sig mannalega og halda hvatningarræðu eins og hann væri staddur á ungmennafélagsfundi. En það voru ekki heppileg ummæli af hans hálfu að nú væri verðugt verkefni fyrir aðila vinnumarkaðarins að grípa til ráðstafana til að treysta atvinnuna. Voru það ekki aðilar vinnumarkaðrins sem voru í vinnu og buðu hæstv. ríkisstjórn upp á samstarf sem hæstv. ríkisstjórn hafnaði, því miður? Það er upphaf ógæfunnar. Gæfuleysi ríkisstjórnarinnar var svo algert á sl. hausti að það leit út fyrir að innan fárra sólarhringa mætti nánast innsigla þjóðarsátt um ráðstafanir til að reyna að treysta atvinnu, til að dreifa þessum byrðum. En hvar var það sem hafnaði þeirri sáttahönd? Það var ríkisstjórnin sem rauf það samstarf og keyrði fram með stefnu sína í ríkisfjármálum og skattamálum. Það liggur alveg fyrir hvernig slitnaði upp úr þeim viðræðum. Og koma nú og segja: ,,Svo væri fínt að aðilar vinnumarkaðarins kæmu svo og leystu atvinnuleysisvandann fyrir okkur eftir áramótin.`` Það er dálítið sérkennilegt af talsmönnum sömu ríkisstjórnar og sleit samstarfi eða viðræðum um slíka þjóðarsátt sem voru í gangi og leit út fyrir að gæti tekist. Og nota sér svo upplýsingar úr þeirri vinnu með þeim svívirðilega hætti, liggur mér við að segja, hæstv. forseti, sem ráðherrarnir gera nú, að reyna að kenna verkalýðshreyfingunni um að hún hafi jafnvel viljað ganga enn lengra í skattpíningu, það segir allt sem segja þarf um það hvernig ríkisstjórnin hegðaði sér í þessu sambandi.
    Nú ætla ég væntanlega í síðustu ræðu um þessi skattamál væntanlega fyrir jólin að koma með eitt hollráð til hv. formanns efh.- og viðskn. svipað og hann er að gefa aðilum út í bæ, ég fer ekki lengra en hérna í næstu sætisröð. Ég held að það væri hollt og þarft verkefni fyrir hv. þm. að gera upp við sig hvort hann getur stutt þessa ríkisstjórn.