Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:05:13 (4191)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er komið til atkvæða leiðir ekki til sparnaðar, það leiðir ekki til hagræðingar. Það mun fyrst og fremst auka álögur á sjúklinga, á öryrkja og barnmargar fjölskyldur. Þessar álögur bætast við miklar viðbótarskattaálögur sem þessa dagana er einnig verið að samþykkja á Alþingi. Þó svo að brtt. meiri hlutans mildi að nokkru leyti þær tillögur sem fram komu í upphaflegu frv., þá eru þær verulega íþyngjandi fyrir þá sem þessar álögur þurfa að þola og þess vegna munum við í minni hluta heilbr.- og trn. greiða atkvæði gegn þeim brtt. Tillögur þær sem felast í þessu frv. eru handahófskenndar, þær eru illa undirbúnar. Það er allsendis óvíst með hvaða hætti og hvar þær munu verst koma niður. Gleggsta dæmið um það er tilvísanakerfið og þær breytingar sem verið er að framkvæma á þátttöku foreldra í tannlæknakostnaði skólabarna og því leggjum við til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.