Almannatryggingar

90. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 18:59:59 (4224)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í þessu frv. felst mjög alvarleg atlaga að almannatryggingakerfinu og undirstöðu velferðarkerfisins hér í landinu. Það er gert ráð fyrir því samkvæmt þessu frv. að skera niður velferðarþjónustuna á Íslandi um 1.400 millj. kr. Á undanförnum árum og áratugum hefur það verið þannig að verkalýðshreyfingin hefur aftur og aftur samið um tilteknar félagslegar umbætur gegn því að falla frá tilteknum kröfum í launum. Hér er að hluta til verið að rífa niður félagslegar umbætur sem verkalýðshreyfingin hefur samið um á undanförnum árum og áratugum. Af þeim ástæðum er það þannig, virðulegi forseti, að þó að þetta frv. verði að lögum, þá hljóta átök næsta árs að snúast um það m.a. að reka þau ólög til baka sem menn eru hér að gera tillögu um. Ég segi nei, virðulegi forseti.