Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

90. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 19:09:23 (4227)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þegar þingmenn voru að kanna gögn vegna sjávarútvegssamningsins sem gerður hefur verið við Efnahagsbandalagið kom í ljós að þessi samningur hafði ekki verið staðfestur af þinginu. Það er að mínu mati nauðsynlegt að staðfesta hann og ég vil lýsa því yfir að ég styð ákvæði hans og get staðið að honum.
    Hér er um að ræða framlengingu á samningi frá 1989 en samningaviðræður út af þeim samningi hófust í kringum 1980 og tók næstum því tíu ár að komast að því samkomulagi. Þær breytingar sem hér eru gerðar eru fyrst og fremst að því er varðar þrengingu á veiðum erlendra aðila í okkar lögsögu, þ.e. að norsk skip hafa aðeins heimild til þess að veiða 35% af kvóta sínum innan íslenskrar lögsögu en að öðru leyti er ákvæðið óbreytt að því er varðar veiðisvæði og veiðitíma en þessi skip geta aðeins veitt til 15. febr. á því ári sem nú fer í hönd.
    Ég vil hins vegar taka fram að ég er ekki sammála túlkunum á þessum samningi sem koma fram á nál. meiri hluta sjútvn. á þskj. 549. Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að fara út í þau atriði hér en treysti því að þau verði tekin til endurskoðunar og yfirfarin vandlega þannig að enginn misskilningur eigi sér þar stað. Ég bendi sérstaklega á ákvæði 6. gr. þar sem kemur fram, með leyfi forseta: ,,Að fengnum tilmælum grænlenskra stjórnvalda getur Ísland veitt fiskiskipum af öðru þjóðerni, sem fengið hafa grænlensk fiskveiðileyfi, sömu réttindi, enda sé gerður um það samningur við Ísland sem gildi fyrir eina vertíð í senn.``
    Í grg. tillögunnar kemur fram, með leyfi forseta, eftirfarandi:
    ,,Fái skip annarra þjóða hins vegar leyfi hjá grænlenskum stjórnvöldum til þess að stunda veiðar úr hlutdeild Grænlands hafa þau ekki heimild til þess að veiða innan lögsögu Íslands nema að fengnu sérstöku samþykki íslenskra stjórnvalda.``
    Á þetta hefur reynt að því er varðar Færeyjar sem ekki eru aðilar að þessum samningi en því var heitið á sínum tíma að litið yrði sérstaklega til Færeyinga í sambandi við þetta mál að því er varðar framsal frá Grænlandi. Ég tel að það beri að túlka þessa grein þannig að ef Grænlendingar framselja sín veiðiréttindi til annarrar þjóðar, þar með talið Efnahagsbandalagsins, þá þurfi t.d. Norðmenn sérstakt leyfi íslenskra stjórnvalda til þess að veiða það magn í íslenskri lögsögu.
    Ég vil jafnframt minna á túlkun að því er varðar 5. gr. samningsins, en eins og fram hefur komið geta Norðmenn og Grænlendingar --- það eru Norðmenn sem eru sérstaklega teknir fram í þessum samningi --- aðeins veitt 35% af sínum heimildum innan íslenskrar lögsögu en ekki þótti ástæða til þess að taka að fram að því er varðar Grænlendinga vegna þess að þeir eiga engin skip sem stunda loðnuveiðar. Ef þeir hefðu átt slík skip, þá hefðu áreiðanlega verið sams konar ákvæði sem sneru að þeim. Þetta þýðir það að ef Norðmenn ná ekki 65% sínum utan okkar lögsögu, þá falla þessi réttindi einfaldlega niður.
    Ef hins vegar er gefinn út viðbótarkvóti, til viðbótar því magni sem ákveðið er til bráðabirgða, þá reynir á 5. gr. og flókin ákvæði í sameiginlegri yfirlýsingu varðandi framkvæmd samningsins sem varðar hugsanlegar bætur vegna þessa. Hér er um mjög takmarkaðar bætur að ræða og ég skil það svo að á móti því að veiðar erlendra aðila voru takmarkaðar innan okkar lögsögu hafi verið fallist á það að breyta ákvæðum um bótaréttinn.
    Þetta eru, virðulegi forseti, viðkvæm atriði sem skipta máli varðandi túlkun þessa samnings. Varðandi túlkun ákvæða sjávarútvegssamnings milli Íslands og Evrópubandalagsins og í trausti þess að vandlega verði farið yfir þetta mál í meðferð hv. utanmrn., þá mun ég standa að samþykkt þessa samnings. Ég tel nauðsynlegt að samin verði sérstök greinargerð um þetta mál og hún lögð fyrir utanrmn. og ég tel að þær ábendingar sem við vorum með í minni hlutanum að því er varðaði sjávarútvegssamninginn hafi nú komið fram. Við töldum að það bæri að flýta sér hægt við afgreiðslu þess máls. Það væri nauðsynlegt að fara vel yfir það, semja vandaðar greinargerðir því þær mundu verða til hliðsjónar varðandi túlkun þessa máls í framtíðinni. Við höfum ekki skilað áliti í minni hluta sjútvn. enn þá, en munum gera það í upphafi næsta árs og munum þá lýsa skilningi okkar á þessu máli, en aðalatriðið er það að á þessu sé sameiginlegur skilningur ráðuneyta og Íslendinga í heild þannig að það fari ekkert á milli mála þegar menn standa í samningum um þetta mál, hver réttur okkar er.
    Ég vildi, virðulegi forseti, taka þetta fram hér við umfjöllun þessa máls en ég legg áherslu á að það hljóti hér afgreiðslu.