Samningur um loðnustofninn á hafsvæðinu milli Íslands, Jan Mayen og Grænlands

91. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 20:06:52 (4240)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Þótt ég ásamt stjórnarandstöðunni standi að því nál. sem hér hefur verið flutt af hv. formanni utanrmn., þá þykir mér rétt að gera grein fyrir því að við leggjum afar mikla áherslu á og fögnum því að nefndin hefur ákveðið að taka málið til nánari athugunar og fá þá greinargerð um framkvæmd samningsins og mér þykir nauðsynlegt að fara örfáum orðum um það. Það eru atriði í þessum samningi sem eru ekki fullkomlega ljós og vísa ég þá sérstaklega til þess sem kemur hvað gleggst fram í yfirlýsingum með samningnum og svo 5. og 6. gr. samningsins sjálfs þar sem fram er tekið að Norðmenn skuli hafa rétt til þess að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu allt að 35% af þeim loðnukvóta sem þeim er ætlaður, síðan með takmörkunum í tíma og breiddargráðu. Þarna er ekki fullkomlega ljóst t.d. hvort Norðmenn mundu hafa einnig rétt til að veiða kvóta sem þeir fengju frá Grænlendingum, annaðhvort beint eða í gegnum þriðja aðila. Þetta er að sjálfsögðu afar mikilvægt, ekki síst þegar metið er hvaða kvóti eða hvaða afgangskvóti kemur til okkar veiða að lokum og þá ekki síst þegar samningur er gerður við aðila eins og Evrópubandalagið um skipti á loðnu og karfa.
    Ég ætla ekki að fara að lengja þetta með því að ræða þetta mál. Þetta er margslungið mál og ég vil bara lýsa því að ég fagna því að í utanrmn. var fullkomin samstaða um að gæta þyrfti mikillar varúðar í túlkun á þessu ákvæði og ég treysti því að það verði gert strax þegar þing kemur saman ný.