Ferill 21. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 21 . mál.


21. Frumvarp til laga



um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í 2. tölul. V. viðauka, reglugerð 1612/68/EBE eins og henni var breytt með reglugerð 312/76/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, skal hafa lagagildi með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af V. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum samningsins.
     Reglugerðir (EBE) þær, sem vísað er til í 1. mgr., eru prentaðar sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.


    Félagsmálaráðherra skal skipa þriggja manna nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessara laga og getur hún beint tilmælum til viðkomandi aðila þar að lútandi. Alþýðusamband Íslands skal tilnefna einn fulltrúa, Vinnuveitendasamband Íslands annan fulltrúa og þriðji fulltrúinn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Skipunartími nefndar skal vera fjögur ár.
     Komi upp ágreiningur um hvort ákvæði 7. gr. reglugerðar 1612/68 séu haldin er heimilt að vísa þeim ágreiningi til nefndarinnar, sbr. 1. mgr., sem leitast skal við að leysa þann ágreining. Í þessum tilgangi getur nefndin leitað eftir upplýsingum hjá stofnunum, samtökum eða einstökum fyrirtækjum sem veita nefndinni nauðsynlegar upplýsingar um almenn ráðningar- og starfskjör í atvinnugreinum og fyrirtækjum. Verði sátt eigi komið á með aðilum er heimilt að leita til dómstóla.
     Þegar nefndin fjallar um mál sem varðar sérstaklega opinbera starfsmenn er falla undir atvinnu- og búseturéttindi Evrópska efnahagssvæðisins skulu auk fulltrúa skv. 1. mgr. tveir fulltrúar taka sæti í nefndinni. Skal annar þeirra tilnefndur af hlutaðeigandi heildarsamtökum opinberra starfsmanna og hinn af fjármálaráðherra eða Sambandi íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við á.

3. gr.


    Ráðherra getur með reglugerð gefið nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


A. ALMENN GREINARGERÐ


1. Inngangur.


    
Frumvarp þetta er lagt fyrir Alþingi vegna fullgildingar samnings um aðild Íslands að
Evrópsku efnahagssvæði og felur í sér lögfestingu reglugerða Evrópubandalagsins um frjálsa flutninga launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Lögfesting þeirra reglugerða, sem þetta frumvarp nær til, eru reglugerð (EBE) nr. 1612/68 um frjálsa fólksflutninga innan EB og reglugerð (EBE) nr. 312/76 sem er breyting á 1612/68/EBE og er um rétt launafólks til þátttöku í stéttarfélögum. Þessar reglugerðir eru lögfestar beint í íslenska löggjöf með tilvísun í ákvæði samningsins. Þetta þýðir að þau gilda sem íslensk lög frá orði til orðs með þeim breytingum og viðaukum sem vísað er til í samningnum. Atvinnurétturinn sem slíkur byggir fyrst og fremst á 28. gr. EES-samningsins og er nánar útfærður með þessum reglugerðum. En til að skýra samhengið milli atvinnuréttar og búseturéttar er nauðsynlegt að víkja að ýmsum ákvæðum í öðrum reglugerðum sem verða lögfestar af öðrum ráðuneytum og ýmsum tilskipunum sem hafa áhrif á túlkun atvinnu- og búseturéttar. En þessar tilskipanir verða væntanlega lagaðar að íslenskri löggjöf annaðhvort sem sérstök lög eða sem breytingar á öðrum lögum.
     Samningurinn um að koma á Evrópsku efnahagssvæði felur m.a. í sér að aðalreglurnar um frjálsan atvinnu- og búseturétt fólks, sem gilda í Evrópubandalaginu, eigi að gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði inniheldur því í aðalatriðum sömu ákvæði um frjálsan atvinnu- og búseturétt fólks eins og Rómarsamningurinn. Með viðaukum við samninginn eru helstu reglugerðir, tilskipanir o.fl. sem gilda á þessu sviði í Evrópubandalaginu gerðar að hluta samningsins.
     Samningur um Evrópskt efnahagssvæði og ákvæði viðauka V fela í sér að breyta þarf ákvæðum í lögum nr. 26/1982, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 45/1965, um eftirlit með útlendingum (heyrir undir dómsmálaráðuneytið), lögum nr. 18/1985, um vinnumiðlun, og lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl., þannig að sérreglur gildi um þá erlendu ríkisborgara sem samningurinn nær til. Þetta á einkum við um ákvæði um atvinnu- og dvalarleyfi þessara einstaklinga og dvalarleyfi fjölskyldna þeirra.
     Með EES-samningnum verður Ísland hluti af sameiginlegum EES-vinnumarkaði. Á þessum vinnumarkaði er einstökum EES-ríkjum bannað að mismuna ríkisborgurum aðildarríkjanna á grundvelli ríkisborgararéttar með löggjöf eða öðrum ákvæðum um laun og önnur starfskjör.
     Til að auðvelda atvinnu og búsetu launafólks í aðildarríkjunum er í samningnum ákvæði sem efla rétt barna launþegans til náms meðan á dvölinni stendur, sbr. ákvæði 12. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1612/68. Í því sambandi má einnig nefna tilskipun ráðsins 77/486/EBE um menntun barna farandlaunþega og bókun 29 um starfsþjálfun.
     Þá er 30. gr. EES-samningsins mjög mikilvæg fyrir atvinnuréttinn í EES-ríkjunum en hún fjallar m.a. um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi. Í viðauka VII við EES-samninginn eru tilgreindar þær fjölmörgu tilskipanir ráðsins sem tengjast þessu ákvæði en iðulega er um að ræða sérstakar tilskipanir fyrir hverja starfstétt, starfsgrein eða atvinnugrein.
     Fjölmargar reglugerðir og tilskipanir EB, sem öðlast gildi með samningnum, tengjast þannig atvinnu og búseturétti með ýmsum hætti. Í eftirtöldum viðaukum eru taldar upp þær reglugerðir, tilskipanir og aðrar samþykktir EB sem hafa slík ákvæði og ákvæði um aðlögun þeirra: í viðauka V eru EB-samþykktir sem tengjast atvinnu- og búseturétti launþega og fjölskyldna þeirra, sbr. 28. gr. EES-samningsins; í viðauka VI eru EB-samþykktir um félagslegt öryggi, sbr. 29. gr. EES-samningsins; í viðauka VII eru EB-samþykktir um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi, sbr. 30. gr. EES-samningsins; í viðauka VIII eru EB-samþykktir um staðfesturétt sjálfstætt starfandi og búseturétt annarra hópa en launþega og fjölskyldna þeirra og í viðauka IX eru EB-samþykktir um staðfesturétt fyrir þá sem stunda fjármálaþjónustu eins og banka- og vátryggingarstarfsemi. Þá eru í viðauka X um hljóð- og myndmiðlun og viðauka XI um fjarskiptaþjónustu ákvæði um staðfesturétt þeirra sem setja á fót sjálfstæða starfsemi innan þessara greina með þeim takmörkunum sem þar gilda. Í 2. kafla III. hluta EES-samningsins, þ.e. 31.–35. gr., er fjallað um staðfesturétt sem tengist ofangreindum viðaukum og í 3. kafla þess hluta um þjónustu, þ.e. 36.–39. gr.
     Með viðauka V eru þrjár EB-reglugerðir gerðar að hluta samningsins: reglugerð (EBE) nr. 1612/68 um frjálsa flutninga launþega innan EB; reglugerð (EBE) nr. 312/76 er breyting á 8. gr. 1612/68/EBE og er um rétt launþega til þátttöku í stéttarfélögum; reglugerð (EBE) nr. 1251/70 (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um rétt launþega til áframhaldandi dvalar í aðildarríki EB að lokinni vinnu í því ríki.
     Í viðaukum V og VIII eru t.d. 10 tilskipanir sem tengjast atvinnu- og búseturétti sérstaklega. Þær verður að laga að íslenskri löggjöf með umritun og heyra aðallega undir menntamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Þessar tilskipanir eru: 64/221/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um takmarkanir á för fólks vegna allsherjarreglu, öryggis eða heilbrigðis; 72/194/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um að tilskipun 64/221/EBE nái einnig til þeirra sem nota sér rétt til áframhaldandi dvalar í aðildarríki eftir að hafa starfað í því; 75/35/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um að tilskipun 64/221/EBE nái einnig til aðila sem stundað hafa sjálfstæða starfsemi og nota sér rétt til áframhaldandi dvalar í aðildarríki eftir að hafa starfað í því; 68/360/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um afnám takmarkana á ferðum og búsetu launþega og fjölskyldna þeirra innan EB (gildir einnig um sjálfstætt starfandi einstaklinga); 77/486/EBE (heyrir undir menntamálaráðuneytið) um menntun barna innflytjenda; 73/148/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um afnám hafta á flutningi og búsetu sjálfstætt starfandi ríkisborgara aðildarríkja EB innan bandalagsins; 73/34/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um rétt ríkisborgara aðildarríkis til að dvelja í öðru aðildarríki eftir að hafa stundað þar sjálfstæða starfsemi; 90/364/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um búseturétt þeirra sem hafa tekjur frá öðru landi en þeir búa í; 90/365/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um búseturétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga sem látið hafa af störfum; og 90/366/EBE (heyrir undir dómsmálaráðuneytið) um búseturétt námsmanna.

2. Um rétt launþega og fjölskyldna þeirra.


    
Í 28. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði er launþegum tryggð frjáls för á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi réttindi eru nánar skýrð í viðauka V, 1., 3. og 5. tölul. (tilskipunum 64/221/EBE, 68/360/EBE og 72/194/EBE), 2. tölul. (reglugerðum ráðsins (EBE) 1612/68 og 312/76) og 4. tölul. (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70).
     Launþegar teljast allir ríkisborgarar EES-ríkis sem sækja um og ráða sig í vinnu eða hafa góðar vonir um að fá vinnu í öðru EES-ríki á þeim tíma sem viðkomandi hefur rétt á að dvelja í landinu sem venjulega er þrír mánuðir. Til að tryggja frjálsa för launþega eru reglur um að fjölskylda launþegans eigi rétt á að flytjast með honum. Til fjölskyldu launþegans teljast skv. 1. tölul. 10. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68: a) Maki launþegans og afkomendur þeirra í beinan legg sem eru yngri en 21 árs eða eru á framfæri þeirra; b) ættmenn launþega og maka hans að feðgatali sem eru á framfæri þeirra.
     Þó launþeginn þurfi að vera ríkisborgarari EES-ríkis ef hann ætlar að starfa og búa í öðru aðildarríki þarf fjölskylda hans ekki að vera það til að búa með honum. Fjölskyldumeðlimir, sem ekki eru ríkisborgarar EES-ríkis, þurfa yfirleitt atvinnuleyfi ef þeir ætla að hefja vinnu í öðru aðildarríki og einnig er hægt að krefja þá um vegabréfsáritun eins og síðar er vikið að.

2.1. Um ráðningar, laun og önnur starfskjör.


    
Í 2. tölul. 28. gr. EES-samningsins er kveðið á um að afnema verði alla mismunun sem
byggð er á ríkiborgararétti viðkomandi lands og lýtur að ráðningum, launum og öðrum starfskjörum.
     Atvinnurétturinn og jafnræðisreglurnar eru nánar útfærðar í reglugerð (EBE) nr. 1612/68, II. bálkur, 7.–9. gr. Hér kom fram þær skyldur og þau réttindi sem gilda fyrir launþega frá öðrum EES-ríkjum.
     7. gr. felur í sér mjög afdráttarlaus ákvæði um að ekki megi mismuna launþegum sem eru ríkisborgarar einhvers aðildarríkjanna. Þetta felur í sér sama rétt og skyldur og innlendir launþegar viðvíkjandi öllum ráðningar- og vinnuskilyrðum, þar með talin launakjör, uppsögn úr starfi, komi til atvinnumissis, endurskipun og endurráðning skv. 1 tölul. þessarar greinar; félagsleg réttindi og skattaívilnanir skv. 2. tölul.; þjálfun í skólum er tengjast atvinnulífinu og endurmenntunarstöðvum skv. 3. tölul. Í 4. tölul. þessarar greinar er almennt ákvæði um að ógilda skuli og að engu hafa öll ákvæði bæði í kjarasamningum og ráðningarsamningum sem og öðrum almennum reglum er varða aðgang að atvinnu, ráðningu, launakjör og önnur starfsskilyrði eða uppsagnarákvæði ef þau mæla fyrir um eða heimila mismunun launþega sem eru ríkisborgarar annarra aðildarríkja.
     8. gr. reglugerðarinnar tryggir að launþegar frá öðrum EES-ríkjum skuli njóta sömu réttinda og innlendir launþegar hvað varðar aðild að stéttarfélögum og njóta þeirra réttinda er aðildin veitir. Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 312/76 eykur þessi réttindi með því að fastsetja að launþegar frá EES-ríkjum geti valist til stjórnunarstarfa og forustu stéttarfélags.
     Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1612/68, 9. gr., tryggir launþegum frá öðrum EES-ríkjum jafnan rétt hvað varðar aðgang að íbúðarhúsnæði.

2.2. Um takmarkanir á atvinnu- og búseturétti.


    
Í 3. tölul. 28. gr. EES-samningsins kemur nánar fram hvað frjáls för launþega felur í sér. Í innganginum er þó ákveðið að hægt sé að takmarka þetta frjálsræði þegar þetta er rökstutt með tilliti til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis.
     Þetta er útfært nánar í tilskipun ráðsins 64/221/EBE. Í tilskipuninni kemur fram hvenær takmörkun á útgáfu og endurnýjun dvalarleyfis eða brottvísun úr landi er heimil.
     Í viðauka tilskipunarinnar skv. 4. gr. kemur fram hvaða sjúkdómar geti verið ástæða brottvísunar og neitunar umsóknar um dvalarleyfi. Þetta gildir um smitsjúkdóma vegna almannaheilbrigðis eins og t.d. berkla og sárasótt og um eiturlyfjaneytendur og alvarlega geðræna sjúkdóma vegna almannaöryggis og allsherjarreglu.
     Í tilskipuninni eru einnig tilgreindar þær aðstæður sem ekki réttlæta frávísun, brottvísun og höfnun dvalarleyfis. Takmarkanirnar vegna allsherjarreglu og öryggis verða að byggjast eingöngu á persónulegri hegðun viðkomandi. Í 2. tölul. 3. gr. tilskipunarinnar er ákvæði um að fyrri refsiverð hegðun sé ekki nægjanleg í sjálfu sér til að slíkum ráðstöfunum sé beitt.
     Dómstóll Evrópubandalaganna hefur í nokkrum dómum túlkað ákvæði tilskipunarinnar. Af þessum dómum má ráða að takmarkanir á för fólks geti ekki byggst á alhæfingum um hópa fólks og að þær hafi heldur ekki það markmið að vera almenn hindrun.
    Tilskipun 72/194/EBE víkkar gildissvið tilskipunar 64/221/EBE þannig að efnisatriðin nái einnig til launþega sem nýtir sér réttinn til að dvelja áfram í EES-ríki eftir að hafa lokið atvinnu þar.
     Með þeim takmörkunum, sem nefndar hafa verið, hafa ríkisborgarar EES-ríkja samkvæmt a-lið 3. tölul. 28. gr. rétt til að taka þeirri vinnu sem þeim stendur til boða í öðru EES-ríki. Í þessum rétti felst að ríkisborgari EES-ríkis er undanþeginn kröfum um atvinnuleyfi. Þessi réttur er nánar útlistaður í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1612/68, 1.–6. gr. Samkvæmt 4. gr. skulu öll ákvæði í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkis, sem takmarka fjölda eða hundraðshluta erlendra ríkisborgara í fyrirtækjum, starfsgrein eða á tilteknu svæði eða á landsmælikvarða, ekki gilda um ríkisborgara annarra aðildarríkja.
    Hér hafa ekki verið nefndar takmarkanir sem bundnar eru við tiltekin störf í viðkomandi landi eins og opinber störf sem getið er annars staðar eða vegna kröfu um próf og hæfni, sbr. t.d. 2. tölul. 6. gr. reglugerðar 1612/68/EBE, eða tungumálakunnáttu, sbr. t.d. lokamálsgrein 1. tölul. 3. gr. reglugerðar 1612/68/EBE sem verður að athuga í tengslum við hverja atvinnuráðningu því það er atvinnurekandinn sem setur fram kröfur um tungumálakunnáttu.

2.3. Um ferðafrelsi.


    
Samkvæmt b-lið 3. tölul. 28. gr. EES-samningsins öðlast launþegar rétt til að fara að vild um EES-svæðið til að fá sér vinnu. Þessi réttur felur í sér rétt til að fara til annars EES-ríkis með því að leggja fram persónuskilríki eða vegabréf, sbr. 1. tölul. 3. gr. tilskipunar 68/360/EBE. Þannig verður ekki hægt að krefja launþegann um vegabréfsáritun eða setja sérstök skilyrði fyrir því að hann fái að koma til landsins. Þetta gildir hins vegar ekki um fjölskyldumeðlimi hans ef þeir eru ekki ríkisborgarar einhvers aðildarríkis. Ríkin eru samt sem áður skuldbundin að auðvelda þessum fjölskyldumeðlimum að fá vegabréfsáritun skv. 2. tölul. 3. gr.
     Dómstóll Evrópubandalagsins hefur í máli 321/87 tekið nánari afstöðu til hversu víðtækur rétturinn til aðflutnings er. Í þessum dómi kemur fram að EB-rétturinn eigi ekki að hindra að aðildarríki hafi eftirlit með því hvort útlendingur, sem er búsettur í aðildarríkinu, hafi undir höndum dvalarleyfi svo framarlega sem skylda til að sýna persónuskilríki hvíli einnig á ríkisborgurum viðkomandi lands.

2.4. Nánar um dvalarleyfið.


    
Samkvæmt c-lið 3. tölul. 28. gr. EES-samningsins hafa þeir sem hafa rétt á að flytja til landsins rétt á að dvelja í öðru EES-ríki til að taka þar vinnu í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um starfskjör ríkisborgara þess ríkis.
     Samkvæmt 4. gr. tilskipunar 68/360/EBE eiga EES-ríkin að veita ríkisborgurum annars EES-ríkis dvalarleyfi og fjölskyldu hans ef hann fær þar atvinnu. Staðfesting á þessu dvalarleyfi er veitt með skjali sem ber titilinn „dvalarleyfi“. Til að gefa út slíkt skjal þurfa eftirfarandi skjöl eða gögn að vera fyrir hendi:
     Fyrir launþegann:
    Skjalið sem á að nota eða var notað við komuna til landsins.
    Staðfesting á atvinnuráðningu.
     Fyrir fjölskyldumeðlimina:
    Skjalið sem var notað við komuna til landsins.
    Skjal sem sýnir hvernig fjölskylduböndum er háttað. Það þarf að vera útgefið af yfirvöldum í heimalandi viðkomandi eða í síðasta dvalarlandi.
    Skjal sem sýnir að þeir séu á framfæri launþegans eða voru hluti heimilismanna hans í heimalandinu eða síðasta dvalarlandi. Þetta skjal þarf að vera gefið út af viðkomandi yfirvöldum.
     Dvalarleyfið á skv. 6. gr. tilskipunarinnar að gilda í a.m.k. fimm ár og mögulegt á að vera að framlengja það eftir þann tíma. Tímabundin dvalarleyfi eru gefin út vegna ráðningarsamninga sem gilda í þrjá mánuði til eitt ár. Allt að sex mánaða rof á dvöl breytir ekki gildi dvalarleyfis.
     Fjölskyldumeðlimir, sem eru sjálfir ríkisborgarar EES-ríkis, fá einnig fimm ára dvalarleyfi. Fjölskyldumeðlimir, sem ekki eru ríkisborgarar aðildarríkis, eiga að fá dvalarleyfisskírteini sem gildir jafnlengi og dvalarleyfi launþegans.
     Dvalarleyfi er ekki hægt að afturkalla á þeirri forsendu að atvinnuráðningin sé ekki lengur fyrir hendi þegar um það er að ræða að launþeginn er óvinnufær vegna sjúkdóms eða slys eða er orðinn atvinnulaus að ósekju, sbr. 1. tölul. 7. gr.
     Dvalarleyfið má takmarka í fyrsta skipti sem það er endurnýjað ef leyfishafinn hefur verið atvinnulaus samfellt lengur en 12 mánuði, sbr. 2. tölul. 7. gr. Dvalarleyfið má þó ekki takmarka skemur en 12 mánuði.
     Réttur til dvalar í öðru EES-ríki skal viðurkenndur án þess að dvalarleyfi sé gefið út:
    þegar atvinnuráðning stendur skemur en þrjá mánuði eða
    þegar launþeginn hefur búsetu í öðru EES-ríki og fer þangað reglubundið a.m.k. einu sinni í viku eða
    þegar atvinnan er árstíðabundin og byggir á vinnusamningum sem eru viðurkenndir af yfirvöldunum, sbr. 8. gr.

2.5. Áframhaldandi dvalarréttur.


     Samkvæmt d-lið 3. tölul. 28. gr. EES-samningsins hafa ríkisborgarar EES-ríkja rétt á
áframhaldandi búsetu í öðru EES-ríki eftir að hafa stundað þar atvinnu. Í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/71 eru helstu ákvæði um skilyrðin fyrir áframhaldandi dvöl nánar tilgreind:
    Starfsmaður fer á eftirlaun og hefur unnið í landinu síðustu 12 mánuði og verið búsettur þar samfellt í þrjú ár.
    Starfsmaður sem hlýtur varanlega örorku og hefur verið búsettur a.m.k. tvö ár í landinu. Ef um vinnuslys eða atvinnusjúkdóm, sem vinnuveitandi ber ábyrgð á, er að ræða eru engin tímamörk fyrir búsetu í landinu.
    Starfsmaður sem búið og unnið hefur samfellt í þrjú ár í ríkinu en starfar í öðru ríki, en heldur heimili í fyrra ríkinu og hverfur þangað að jafnaði daglega eða a.m.k. einu sinni í viku.
    Ef launþeginn andast þá á fjölskylda hans rétt á áframhaldandi búsetu í landinu. Ef launþeginn andast áður en hann hefur öðlast rétt til búsetu þá á fjölskylda hans rétt á að búa áfram í landinu að uppfylltum þeim skilyrðum sem gefin eru í 2. tölul. 3. gr. reglugerðar 1251/71/EBE.

2.6. Um störf hjá opinberum stofnunum.


    
Í 4. tölul. 28. gr. EES-samningsins er kveðið á um að ákvæði 28. gr. eigi ekki við um
störf í opinberri þjónustu.
     Við gerð Rómarsamningsins var upphaflega litið svo á að þetta ætti við um öll störf í opinberri þjónustu. Þessi skilningur hefur breytst gegnum tíðina, sérstaklega vegna þess að ýmis störf eru í höndum einkaaðila í sumum ríkjum en í höndum opinberra aðila í öðrum ríkjum. Af fjölmörgum dómum Evrópudómstólsins, sem um þetta hafa fjallað, má ráða að það eru fyrst og fremst störf sem tengjast eiginlegum stjórnsýslustörfum og öryggishagsmunum sem eru vernduð með þessum hætti. Atvinnurétturinn nær þannig ekki til þeirra starfa í opinberri þjónustu þar sem um sérstakt trúnaðarsamband milli starfsmanna og hins opinbera er að ræða. Hér er ekki hægt að gefa neinn tæmandi lista um hvaða störf er að ræða sem eru vernduð með þessum hætti þó af dómum dómstóls Evrópubandalaganna megi álykta nokkuð skýran ramma.

3. Um rétt sjálfstætt starfandi og þeirra er stunda þjónustuviðskipti.


    
Samkvæmt 31. gr. EES-samningsins fá ríkisborgarar EES-ríkja leyfi til að hefja sjálfstæða starfsemi eða koma á fót fyrirtæki í öðru EES-ríki. Slíkur réttur kallast staðfesturéttur og felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki, einkum félög eða fyrirtæki í skilningi 2. mgr. 34. gr., með þeim skilyrðum sem landslög setja um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin, þó með fyrirvara um ákvæði 4. kafla. En skv. 2. mgr. 34. gr. er einkum átt við félög eða fyrirtæki stofnuð á grundvelli einkamálaréttar eða verslunarréttar, þar með talin samvinnufélög, svo og aðrar lögpersónur sem lúta allsherjarrétti eða einkamálarétti, þó að frátöldum þeim sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Sama gildir um þá sem setja á stofn umboðsskrifstofu, útibú eða dótturfyrirtæki eða kaupa og selja þjónustu.
     31. gr. samsvarar 52. gr. Rómarsamningsins. Greinin sem slík segir ekki beinlínis til um frjálsa flutninga sjálfstætt starfandi innan Evrópska efnahagssvæðisins. Frelsið felst hins vegar í þrem tilskipunum ráðsins: 73/148/EBE, 75/34/EBE og 75/35/EBE sem tengdar eru EES-samningnum gegnum viðauka VIII, 3.–5. tölul.
     Í formála tilskipunar 73/148/EBE segir að forsendur þess að afnema takmarkanir á staðfesturétti og þjónustuviðskiptum séu þær að afnema þurfi takmarkanir á ferða- og dvalarleyfum. Staðfesturétturinn er ekki framkvæmanlegur nema hægt sé að fá varanlegt dvalarleyfi fyrir það fólk sem óskar að hefja sjálfstæða starfsemi í öðru EBE-ríki. Þeim sem láta í té eða notfæra sér þjónustu annarra verður að tryggja dvalarleyfi meðan slík þjónustuviðskipti eiga sér stað.
     Í tilskipun 75/34/EBE er sjálfstætt starfandi og fjölskyldum þeirra veittur réttur til áframhaldandi búsetu eftir að þeir hafa hætt rekstri. Reglurnar eru sambærilegar og fyrir launafólk. Hins vegar falla þeir sem selja eða kaupa þjónustu ekki undir þessi ákvæði.
     Tilskipun 75/35 setur sömu takmarkanir fyrir ferða- og dvalarleyfi sjálfstætt starfandi og fjölskyldur þeirra og eru í tilskipun 64/221/EBE fyrir launafólk.

4. Um þá sem ekki stunda atvinnustarfsemi.


    
Með viðauka VIII, 6.–8. tölul., eru tilskipanir 90/364/EBE, 90/365/EBE og 90/366/EBE gerðar að hluta EES-samningsins. Þessar tilskipanir veita þeim sem ekki eru launþegar eða eru sjálfstætt starfandi eða fjölskyldum þeirra ferða- og dvalarleyfi í öðru EES-ríki að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
     Tilskipun 90/364 gildir almennt um þá sem ekki eru starfandi. Tilskipun 90/365 inniheldur sérreglur um ellilífeyrisþega og tilskipun 90/366 inniheldur sérreglur um námsmenn. Þessar þrjár tilskipanir voru samþykktar af EB árið 1990 og tóku gildi í EB 1. júlí 1992.
     Tilskipanirnar setja það sem skilyrði fyrir ferða- og dvalarleyfi þeirra sem ekki eru launþegar eða sjálfstætt starfandi að þeir framfæri sig sjálfir og að þeir séu tryggðir fyrir ófyrirséðum útgjöldum, þannig að þeir verði ekki byrði fyrir félagsmálakerfi dvalarlandsins. Það er talið nægjanlegt ef fjármunir, tekjur eða lífeyrir viðkomandi eru hærri en þau tekjumörk sem veita rétt til aðstoðar félagsmálayfirvalda. Ef þessi mælikvarði er ekki nothæfur þá er þess krafist að að fjármunirnir séu hærri en lægsti lífeyrir í viðkomandi landi.
     Dvalarleyfi námsmanna er bundið við námstímann. Námsmennirnir eiga ekki rétt á greiðslu námsstyrkja eða námslána í dvalarlandinu. Dvalarleyfi fyrir námsmenn er einungis veitt til eins árs í senn.
     Fjölskylda þessara hópa hefur skv. 2. tölul. 2. gr. tilskipunar 90/364/EBE rétt til að fá sér launaða vinnu eða koma á fót sjálfstæðri starfsemi í dvalarlandinu.
    Dvalarrétturinn er staðfestur með dvalarleyfi eins og hjá öðrum hópum og almennt yrði slíkt dvalarleyfi veitt í fimm ár eins og fyrir launþega. Undantekning eru námsmenn og einstaka aðrir hópar. Um fjölskyldu viðkomandi gildir það sama og með launþega og ef einhver fjölskyldumeðlimur er ekki ríkisborgari EES-ríkis fær hann jafnlangt dvalarleyfi og sá sem framfærir hann.
     Til þess að fá slíkt dvalarleyfi þarf að leggja fram gild persónuskilríki eða vegabréf og staðfestingu á að viðkomandi geti framfært sig og fjölskyldu sína og staðfestingu á að viðkomandi sé tryggður fyrir ófyrirséðum áföllum.
     Sömu takmarkanir um allsherjarreglu, öryggi og heilbrigði gilda um þessa hópa og aðra.

5. Öryggisákvæði EES-samningsins.


    
Í 4. kafla VII. hluta EES-samningsins, þ.e. 112.–114. gr., eru tilgreindar þær öryggisráðstafanir sem hægt er að grípa til við sérstakar aðstæður í hverju aðildarríki sem það sjálft metur sem alvarlegar. Enn fremur eru þar tilgreindar takmarkanir á umfangi slíkra ráðstafana og gildistíma og hvernig að þeim skuli staðið. Þessi ákvæði, ef þeim er beitt, geta leitt til óskilgreindra takmarkana á því ferða-, atvinnu- og búsetufrelsi sem felst í EES-samningnum og viðaukum hans.
     Almenna öryggisákvæði EES-samningsins felur í sér að ef upp koma alvarlegir erfiðleikar í efnahagsmálum, þjóðfélagsmálum eða umhverfismálum sem tengjast sérstökum framleiðslugreinum eða svæðum og líklegt er að verði varanlegir getur samningsaðili einhliða gert viðeigandi ráðstafanir með ákveðnum skilyrðum um tilkynningar- og upplýsingaskyldu til samningsaðila og sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ekki má grípa til aðgerða fyrr en einum mánuði eftir að þær hafa verið tilkynntar aðilum, nema því aðeins að þær þoli ekki bið eða búið sé að hafa samráð áður en fresturinn er liðinn. Þau ríki, sem álíta að með öryggisráðstöfunum sé að sér vegið, geta gripið til bráðnauðsynlegra gagnaðgerða til að jafna það misvægi er þau álíta að sé fyrir hendi.
     Með samningnum fylgir sérstök yfirlýsing Íslands um beitingu öryggisákvæðisins í ljósi þess hve atvinnulífið er einhæft og landið strjálbýlt. Yfirlýsingin leggur áherslu á sérstöðu Íslands til þess að engum megi blandast hugur um að því verði beitt, ef á þarf að halda, í þeim tilvikum sem menn hafa mestar áhyggjur af. Um er að ræða ef alvarleg röskun yrði á vinnumakaði með stórfelldum flutningum vinnuafls til ákveðinna landshluta, í ákveðin störf eða ákveðnar atvinnugreinar og einnig ef alvarleg röskun verður á fasteignamarkaði.

B. HELSTU ÁKVÆÐI REGLUGERÐAR 1612/68/EBE


     Hér að ofan hafa ýmis ákvæði reglugerðar 1612/68 verið tilgreind eftir því sem tilefni hefur verið til. Í þessu yfirliti verður vikið að uppsetningu reglugerðarinnar og helstu ákvæðum hennar.

1. Inngangur reglugerðarinnar.


    
Í inngangi reglugerðarinnar er vikið að þeim markmiðum og grundvallarreglum sem
reglugerðin byggir á. Þar er m.a. víðtæk skilgreining á hugtakinu launþegi sem felur í sér alla þá sem eru í fastri vinnu eða vinna við tímabundin störf, árstíðabundin störf eða sækja vinnu yfir landamæri, svo og þá sem sinna þjónustustörfum. Þá er talað um að frelsi til flutninga teljist til grundvallarréttinda launþega og fjölskyldna þeirra að launþegar njóti jafnra réttinda í raun og að lögum hvað varðar öll málefni sem tengjast ástundun launaðrar atvinnu sem og í húsnæðismálum. Jafnframt því að öllum hindrunum gegn hreyfanleika launþega eigi að ryðja úr vegi, einkum þeim skilyrðum er varða rétt launþega til að fá fjölskyldu sína til sín.

2. Um atvinnu og fjölskyldur launþega.


    
I. hluti reglugerðarinnar, sem ber heitið „Atvinna og fjölskyldur launþega“, skiptist í þrjá bálka.
     I. bálkur, sem ber heitið „Aðgangur að vinnumarkaði“, skiptist í sex greinar. Í þessum sex fyrstu greinum reglugerðar 1612/68/EBE eru grundvallarréttindi um jafnan aðgang ríkisborgara aðildarríkja að vinnumarkaði tilgreind. Jafnframt eru þar ýmis ákvæði um að þau margvíslegu ákvæði, sem gætu takmarkað þetta jafnrétti og kunna að vera í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkis, gildi ekki um ríkisborgara aðildarríkjanna. Þar er t.d. kveðið á um að ríkisborgarar aðildarríkja skuli njóta sömu aðstoðar og vinnumiðlanir veita innlendum ríkisborgurum sem eru í atvinnuleit.
     II. bálkur, sem ber heitið „Atvinna og jafnræði við málsmeðferð“, skiptist í þrjár greinar, þ.e. 7.–9. gr. Þessum greinum hafa áður verið gerð nokkur skil og fjalla þær um jafnrétti í launum, öðrum starfskjörum og vinnuskilyrðum, aðgang að stéttarfélögum og aðgang að húsnæði, þar með talið eigið húsnæði og þjónusta húsnæðismiðlunar. Eins og áður sagði breytti reglugerð ráðsins (EBE) nr. 312/76.8. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1612/68. Ákvæðið svo breytt felur í sér að ríkisborgarar annarra aðildarríkja, sem uppfylla sömu skilyrði og innlendir um aðgang að stéttarfélagi, eigi sama rétt og þeir á að gegna stjórnar- og stjórnunarstörfum fyrir stéttarfélagið. Jafnframt var felldur niður 2. tölul. 8. gr. sem kvað á um endurskoðun greinarinnar. Hins vegar er óbreytt að erlendum ríkisborgurum megi meina sæti í stjórn nefnda sem lúta ríkisrétti eða gegna stöðu sem er bundin af ríkisrétti.
     III. bálkur, sem ber heitið „Fjölskyldur launþega“, skiptist í þrjár greinar, þ.e. 10.–12. gr. Þær fjalla almennt um rétt fjölskyldu launþegans til atvinnu, búsetu, húsnæðis og náms. Um þessar greinar hefur verið fjallað áður en því má bæta við það sem áður var sagt um rétt maka, barna og foreldra viðkomandi launþega að skv. 2. tölul. 10. gr. eiga aðildarríkin að auðvelda þeim aðstandendum, sem ekki heyra undir ákvæði 1. mgr. en eru á framfæri launþegans eða hafa búið undir sama þaki og hann, að koma til ríkisins. Sú krafa er gerð til launþegans í 3. tölul. 10. gr. að hann hafi yfir að ráða húsnæði fyrir fjölskyldu sína sem talið er hæfa innlendum launþegum á því svæði sem hann hefur ráðið sig til vinnu, þó með þeim fyrirvara að það leiði ekki til að þessum launþegum sé mismunað á kostnað innlendra launþega. 11. gr. veitir maka og börnum launþegans, sem eru yngri en 21 árs eða eru á hans framfæri, rétt á að ráða sig í hvaða vinnu sem er, hvar sem er í viðkomandi aðildarríki, jafnvel þó að þau séu ekki ríkisborgarar neins aðildarríkis. En eins og áður sagði þurfa þau sérstakt atvinnuleyfi sem þau eiga sjálfkrafa rétt á. Þau þurfa þannig ekki að uppfylla sérstök skilyrði í lögum um atvinnurétt útlendinga, nr. 26/1982, eins og t.d. að fá samþykki viðkomandi verkalýðsfélags. Í 12. gr. er kveðið á um rétt barna launþegans til skólagöngu, námsvistar og starfsþjálfunar eins og áður sagði.

3. Um atvinnuframboð og atvinnuumsóknir.


    
II. hluti reglugerðarinnar, sem ber heitið „Atvinnuframboð og atvinnuumsóknir“, skiptist í fjóra bálka.
     I. bálkur, sem ber heitið „Samvinna á milli aðildarríkja og við framkvæmdastjórnina“, skiptist í tvær greinar, þ.e. 13. og 14. gr. Þessar greinar kveða á um samvinnu ýmissa aðila í einstökum ríkjum við sambærilegar stofnanir í öðrum aðildarríkjum og við sameiginlegar stofnanir aðildarríkjanna eins og framkvæmdastjórnina, evrópsku samráðsskrifstofuna (sbr. 21.–23. gr. reglugerðar), umsjónarnefndina (sbr. 32.–37. gr. reglugerðar), ráðgjafarnefndina (sbr. 24.–31. gr. reglugerðar). Þar kemur m.a. fram að aðildarríkin skulu starfrækja sérstaka þjónustuskrifstofu sem gegni hlutverki aðalvinnumiðlunar í hverju ríki. Þessar skrifstofur skulu hafa náið samstarf sín í milli og við framkvæmdastjórnina um ráðningu í lausar stöður og meðferð atvinnuumsókna o.fl. Í þessum greinum eru einnig ákvæði um að gerðar skuli nauðsynlegar kannanir á atvinnutækifærum og atvinnuleysi. Þjónustuskrifstofur aðildarríkjanna skulu senda til þjónustuskrifstofa hinna aðildarríkjanna og til evrópsku samráðsskrifstofunnar upplýsingar um lífskjör og vinnuskilyrði og ástand vinnumarkaðar sem líklegar eru til að koma launþegum frá öðrum aðildarríkjum að gagni. Þær skulu enn fremur miðla upplýsingum til vinnumiðlunarskrifstofa í sínu landi. Í 14. gr. eru einnig ákvæði um að aðildarríkin upplýsi um vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við frjálsa flutninga fólks og atvinnumál launþega og að gerð séu nákvæm yfirlit yfir stöðu og þróun atvinnulífs á tilteknum svæðum og í tilteknum greinum. Framkvæmdastjórnin ákveður í samráði við umsjónarnefndina hvernig með þessi gögn verður farið. Ástandið á vinnumarkaði er metið samkvæmt samræmdum viðmiðunum að fengnu áliti ráðgjafarnefndarinnar. Það er ljóst að vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytisins verður að gegna hlutverki þjónustuskrifstofu samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar a.m.k. fyrst um sinn meðan skipulögð er starfsemi slíkrar þjónustuskrifstofu.
     II. bálkur, sem ber heitið „Ráðstöfun lausra starfa“, skiptist í fjórar greinar, þ.e. 15.–18. gr. Þessar greinar kveða nánar á um starfsemi þjónustuskrifstofunnar og vinnumiðlana í aðildarríkjunum, einkum er varða störf sem ekki hefur verið ráðið í eða ólíklegt er að ráðið verði í með mannafla af innlendum vinnumarkaði og starfsumsóknir fólks sem hefur lýst sig reiðubúið og hæft til að þiggja launaða vinnu í öðru landi. Þá er farið nánar í samstarf þessara aðila við framkvæmdastjórnina og sams konar stofnanir annarra aðildarríkja. Þessi ákvæði og fleiri munu skerpa kröfur til starfsemi vinnumiðlana í landinu, sem og starfsemi vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins, einkum er varðar upplýsingastarfsemi og samskipti við önnur lönd en erlend samskipti hafa hingað til að mestu takmarkast við sameiginlegan norrænan vinnumarkað.
     III. bálkur, sem ber heitið „Leiðir til að hafa eftirlit með jafnvægi á vinnumarkaðinum“, skiptist í tvær greinar, þ.e. 19. og 20. gr. Í 19. gr. er fyrst og fremst kveðið á um það hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að vinna skýrslu sem unnin er upp úr upplýsingum aðildarríkjanna um vinnumarkaðinn. Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin eiga síðan sameiginlega tvisvar á ári að kanna á grundvelli þessarar skýrslu framvindu í atvinnuráðningum milli aðildarríkjanna ekki síst skiptingu þeirra milli ríkisborgara aðildarríkjanna og ríkisborgara annarra ríkja utan EB (og nú einnig utan EES). Einnig á að kanna fyrirsjáanlega þróun á vinnumarkaðinum varðandi flutning á mannafla innan EB (EES). Í 20. gr. er kveðið á um viðbrögð vegna ríkjandi eða yfirvofandi ókyrrðar á vinnumarkaði aðildarríkis sem getur leitt af sér verulega röskun á lífskjörum og atvinnutækifærum á tilteknu svæði eða í tiltekinni atvinnugrein. Viðbrögðin fela einkum í sér að óska eftir því við framkvæmdastjórnina að hún láti gera þá starfsemi ráðningarkerfisins óvirka að hluta eða öllu leyti sem kveðið er á um í 15., 16. og 17. gr., þannig að vinnumiðlanir annarra aðildarríkja hætti að manna laus störf sem tilkynning hefur borist beint um frá vinnuveitendum í þessari atvinnugrein eða á þessu svæði. Hér er því um sérstakt öryggisákvæði að ræða varðandi ójafnvægi á vinnumarkaðinum. Hins vegar hrekkur þetta ákvæði skammt í að stöðva fólk sem stendur til boða að fara í þessa atvinnugrein eða á þetta atvinnusvæði.
     IV. bálkur, sem ber heitið „Evrópska samráðsskrifstofan“, skiptist í þrjár greinar, þ.e. 21.–23. gr. Hlutverk evrópsku samráðsskrifstofunnar er að samræma ráðstafanir vegna atvinnutækifæra og atvinnuumsókna og á almennt að miðla upplýsingum um atvinnutækifæri innan EB (EES). Hún ber ábyrgð á öllum formsatriðum er varða þennan málaflokk og samkvæmt reglugerðinni falla undir framkvæmdastjórnina. Hún á að aðstoða innlendar vinnumiðlanir. Henni ber að taka saman þær upplýsingar sem um getur í 14. og 15. gr. ásamt niðurstöðum kannana og rannsókna skv. 13. gr. í því skyni að varpa ljósi á gagnlegar staðreyndir um fyrirsjánlega þróun á vinnumarkaði EB (EES). Þessi verkefni og fleiri eru nánar tilgreind í 22. og 23. gr.

4. Um nefndaskipan.


    
III. hluti reglugerðarinnar, sem ber heitið „Nefndir sem eiga að tryggja nána samvinnu milli aðildarríkjanna í málefnum er varða frjálsa flutninga launþega og atvinnumál þeirra“, skiptist í tvo bálka.
     I. bálkur, sem ber heitið „Ráðgjafarnefndin“, skiptist í átta greinar, þ.e. 24.–31. gr. Samkvæmt 24. gr. ber ráðgjafarnefndin ábyrgð á að aðstoða framkvæmdastjórnina við að athuga hvers konar vafamál sem kunna að koma upp við framkvæmd samningsins og varða frelsi launafólks til flutninga og störf þeirra. Í 25. gr. er tilgreint nánar hvað það er sem nefndin ber einkum ábyrgð á. Í 26. gr. er kveðið á um skipan nefndarinnar, en hvert aðildarríki á sex fulltrúa. Tveir þeirra eru fulltrúar ríkisstjórnar, tveir frá samtökum launafólks og tveir frá samtökum vinnuveitenda. Einn varamaður er tilnefndur fyrir hvern þessara aðila. Starfstími fulltrúanna og varamanna þeirra er tvö ár en heimilt er að endurskipa þá. Aðrar greinar þessa bálks kveða nánar á um skipan og meðferð mála hjá nefndinni.
     II. bálkur, sem ber heitið „Umsjónarnefndin“, skiptist í sex greinar, þ.e. 32.–37. gr. Samkvæmt 32. gr. ber umsjónarnefndin ábyrgð á að aðstoða framkvæmdastjórnina við að undirbúa og fylgja eftir öllum formsatriðum og ráðstöfunum sem miða að því að koma þessari reglugerð og viðbótarráðstöfunum í framkvæmd. Í 33. gr. er kveðið nánar á um hvað nefndin eigi einkum að bera ábyrgð á. Í 34. gr. er kveðið á um skipan nefndarinnar, en hver ríkisstjórn aðildarríkjanna á að tilnefna einn af fulltrúum sínum í ráðgjafarnefndinni í umsjónarnefndina og einn varamann úr hópi annarra fulltrúa — aðal- eða varamanna — í ráðgjafarnefndinni. Aðrar greinar þessa bálks kveða nánar á um skipan og meðferð mála hjá nefndinni.

5. Um bráðabirgðaákvæði og lokaákvæði.


    
IV. og síðasti hluti reglugerðarinnar, sem ber heitið „Bráðabirgða- og lokaákvæði“, skiptist í tvo bálka.
     I. bálkur, sem ber heitið „Bráðabirgðaákvæði“, skiptist í fjórar greinar, þ.e. 38.–41. gr. Bæði 40. og 41. gr. gilda ekki fyrir EES samkvæmt viðauka V í EES-samningnum og 38. og 39. gr. fjalla um að áframhald málsmeðferðar annars vegar af hálfu samráðsskrifstofunnar og hins vegar af hálfu ráðgjafar- og umsjónarnefndarinnar gildi áfram, m.a. þar til framkvæmdastjórnin hefur komið á samræmdu heildarkerfi sem greint er frá í 2. mgr. 15. gr.
     II. bálkur, sem ber heitið „Lokaákvæði“, skiptist í sjö greinar, þ.e. 42.–48. gr. Síðasta greinin gildir ekki fyrir EES samkvæmt viðauka V í EES-samningnum. Að öðru leyti er hér um sundurleit ákvæði að ræða sem flest hafa takmarkað gildi fyrir Ísland. Þó er lokaákvæði 42. gr. ef til vill mikilvægt þar sem kveðið er á um að reglugerðin gildi ekki um launþega frá löndum utan Evrópu sem starfa í aðildarríkjunum samkvæmt sérstökum samningum í einstökum ríkjum.

C. LÖGFESTING REGLUGERÐARINNAR


     Eins og áður sagði er frumvarp þetta lagt fyrir Alþingi vegna fullgildingar samnings
um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði.
     Drög að frumvarpinu er samið af nefnd sem félagsmálaráðherra skipaði til að undirbúa aðild Íslands að frjálsum atvinnu- og búseturétti á Evrópsku efnahagssvæði. Nefndinni var falið að fjalla um þann þátt félagsmála sem snertir samtök aðila vinnumarkaðarins. Í nefndina voru skipuð:
    Frá félagsmálaráðuneyti: Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri, formaður, Gylfi Kristinsson deildarstjóri og Þórhildur Líndal deildarstjóri.
     Frá Alþýðusambandi Íslands: Ari Skúlason hagfræðingur og Lára V. Júlíusdóttir fram    kvæmdastjóri.
     Frá Vinnuveitendasambandi Íslands: Hrafnhildur Stefánsdóttir lögfræðingur og Krist    ján Jóhannsson hagfræðingur.
     Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk nefndarinnar að koma með tillögur um það hvernig tryggt verði í framkvæmd að Ísland uppfylli þær reglur sem gilda munu á sviði félags- og vinnumála á Evrópska efnahagssvæðinu á sama tíma og tryggt verði að aðilar vinnumarkaðarins geti fylgst með atvinnuþátttöku útlendinga hér á landi og að íslenskum kjarasamningum og íslenskum lögum sé framfylgt.
     Innan nefndarinnar áttu sér stað skoðanaskipti um það hvar og hvernig því efni sem hér er til umfjöllunar væri best skipað.
     Nefndin var sammála um að eðlilegast væri að ákvæði um eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar hér á landi yrðu hluti af lögfestingarfrumvarpinu sjálfu, þ.e. sem 2. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessari grein er reglugerðum nr. 1612/68 og 312/76 gefið lagagildi eins og þær eru aðlagaðar í V. viðauka. Ákvæði 1612/68 skulu aðlöguð sem hér segir:
    Í 2. mgr. 15. gr. eiga orðin „innan átján mánaða frá gildistöku þessarar reglugerðar“ ekki við.
    Ákvæði 40. gr. gilda ekki.
    Ákvæði 41. gr. gilda ekki.
    Ákvæði 1. mgr. 42. gr. gilda ekki.
    Í stað tilvísunar í 51. gr. sáttmálans í 2. mgr. 42. gr. komi tilvísun í 29. gr. þessa samnings.
    Ákvæði 48. gr. gilda ekki.

Um 2. gr.


    Með þessu ákvæði er komið á fót nefnd sem skal vera innlendur eftirlitsaðili með því að ákvæði reglugerðar 1612/68 séu virt. Ákvæði reglugerðarinnar lúta fyrst og fremst að almenna vinnumarkaðnum. Því er lagt til að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands eigi hvort sinn fulltrúa í þriggja manna nefnd, en formaður verði skipaður af félagsmálaráðherra. Þegar nefndin tekur hins vegar til umfjöllunar erindi sem varða sérstaklega opinbera starfsmenn er gert ráð fyrir að fulltrúi hlutaðeigandi heildarsamtaka stéttarfélaga opinberra starfsmanna og annaðhvort fulltrúi fjármálaráðherra eða Sambands íslenskra sveitarfélaga, eftir því hvort umfjöllun beinist að ríki eða sveitarfélagi sem atvinnurekanda, taki einnig sæti í nefndinni. Nánari reglur um starfshætti nefndarinnar verða væntanlega sett síðar í reglugerð.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.