Ferill 133. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 133 . mál.


153. Tillaga til þingsályktunar



um sölu rafmagns (afgangsorku) til skipa í höfnum landsins.

Flm.: Guðjón Guðmundsson, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa nefnd er hafi það verkefni að gera tillögu um hvernig best verði staðið að sölu rafmagns (afgangsorku eða ótryggrar orku) til skipa í höfnum landsins.
    Í nefndinni sitji m.a. fulltrúar Sambands íslenskra rafveitna, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Hafnasambands sveitarfélaga.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú flutt að nýju.

Tilgangur — helstu kostir.

     Tilgangurinn með flutningi þessarar þingsályktunartillögu er að fá hagsmunaaðila til að gera markaðsátak í því augnamiði að minnka verulega keyrslu dísilrafstöðva um borð í skipum í höfnum en nýta þess í stað innlenda orku, framleidda í vatnsorkuverum landsins. Með slíku átaki vinnst margt og má t.d. nefna:
    Nýttur er markaður fyrir innlend raforkuver, en afkastageta þeirra er langt frá því að vera fullnýtt eins og er.
    Dregið er úr notkun olíu en aukin notkun innlendrar orku og á þann hátt sparaður erlendur gjaldeyrir.
    Dregið er úr mengun andrúmslofts og hávaðamengun um borð í skipum.
    Ef vel tækist til og hægt yrði að selja þessa orku á lægra verði en sem nemur framleiðslukostnaði í dísilrafstöð mundi það spara útgerðinni kostnað. Í þessu sambandi er áríðandi að kanna möguleika á að nýta umframorkutilboð (ótrygg orka) Landsvirkjunar en óvíða er jafnauðvelt að grípa til varaafls ef umframorku þrýtur. Sparnaður gæti einnig komið fram í minni gæslu. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að ef þessi markaður á að nást er afar áríðandi að útgerðin sjái sér hag í þessum viðskiptum.
    Á það má benda að ef komið er öflugt dreifikerfi á hafnarsvæði er líka hægt að nota kerfið til að flytja rafmagn í hina áttina, þ.e. frá skipum í land. Það getur komið sér mjög vel að geta nýtt ljósavélar skipa sem varastöðvar einkum í minni byggðakjörnum þegar langvarandi bilanir koma fram í dreifikerfi rafveitna af völdum óveðurs eða annarra orsaka. Slík notkun ljósavéla verður að sjálfsögðu að fara fram á vegum viðkomandi rafveitu og er takmörkunum háð.

Núverandi staða.
    Raforkusala til skipa fer ýmist fram á vegum hafna sem kaupa rafmagn frá rafveitum eða rafveitna og oft með mismunandi hætti. Í Stykkishólmi fer þessi sala t.d. fram á vegum hafnarinnar í gegnum mæla sem eru um borð í skipum. Á Akranesi fer salan fram á vegum rafveitunnar og miðast við daggjöld og stærðir þeirra hafnartengla sem notaðir eru hverju sinni. Verð á rafmagni til skipa er talsvert mismunandi.
    Ekki er ljóst hve stór þessi markaður er en ljóst er að talsverð orka er notuð til ljósa og upphitunar. Sem dæmi má nefna að loðnuveiðiskip, sem liggur oft langtímum saman í höfn, notar að jafnaði 25–30 kW afl yfir veturinn og er stærsti hluti þess notaður til upphitunar.
    Eitt af hlutverkum nefndarinnar verður að kanna hve stór þessi markaður er.

Markaðsátak á Akranesi.
    Fyrir nokkrum árum var ákveðið að gera markaðsátak og bæta þjónustuna á þessu sviði við höfnina á Akranesi. Í þeim tilgangi var byggð sérstök spennistöð við höfnina og lagðar nýjar leiðslur fram allar bryggjur. Síðasti áfangi kerfisins var tekinn í notkun í byrjun mars 1991. Sala á undanförnum árum hefur verið þessi í krónum talið:

Árið 1987     
1.121.925

Árið 1988     
1.353.752

Árið 1989     
1.569.602

Árið 1990     
1.410.981

Árið 1991     
5.339.691


    Tölur þessar eru án söluskatts og virðisaukaskatts. Eftir breytinguna má segja að öll heimaskip og stærri bátar noti landtengingar að undanskildum tveimur togurum sem hafa góða möguleika á hagkvæmri rafmagnsframleiðslu um borð. Af verðlagsástæðum nýta þeir ekki þessa aðstöðu. Verði hægt að lækka verð á landrafmagni munu þessir tveir togarar einnig nýta það. Engu að síður sýna þessar tölur ljóslega að áhugi er hjá útvegsmönnum á þessu sviði og hægt að gera söluátak til notkunar á innlendri mengunarlausri orku.

Leiðir til notkunar á landrafmagni.
    Til að lækka verð á landrafmagni og auðvelda sölu þess má fara ýmsar leiðir og skal hér bent á nokkur atriði:
    Gera þarf átak til að bæta aðstöðu til sölu á landrafmagni víðs vegar í höfnum landsins. Í þessum tilgangi gæti þurft framlög á fjárlögum til hafna í þetta sérstaka verkefni.
    Leita þarf samninga við Landsvirkjun um að hún lækki rafmagn verulega sé það notað í þessum tilgangi og kæmi til greina að semja um að þetta væri afgangsorka (ótrygg orka), enda óvíða jafngóðir möguleikar á að stöðva raforkusölu tímabundið því ljósavélar eru að sjálfsögðu til staðar í skipum. Sá afsláttur, sem Landsvirkjun veitti í þessum tilgangi, væri greiddur beint til söluaðila að því tilskildu að verðlag til skipa væri innan ákveðinna marka og söluaðili væri reiðubúinn til að leggja fram fullnægjandi reikningsyfirlit.
    Samræma þarf búnað í höfnum svo skip geti notað sama landtengingarbúnað í hvaða höfn sem er.
    Nokkrir tæknilegir vankantar eru á sölu rafmagns til skipa. Um borð í hverju skipi þurfa að vera sérstakir spennar. Þann kostnað væri hægt að lækka með sameiginlegum innkaupum margra aðila.

Markaðssókn raforkugeirans.
    Ljóst er að talsvert umframafl er til í vatnsorkuverum Landsvirkjunar og á vegum þess fyrirtækis fer fram athugun á nýjum markaði fyrir raforku. Í greinargerð tækniþróunardeildar Landsvirkjunar frá 20. janúar 1992 segir m.a.: Þegar gjaldskrá Landsvirkjunar var breytt um áramótin 1990–1991 var m.a. með nýjum skilmálum um ótrygga orku reynt að höfða til þess hluta af orkumarkaðinum innan lands sem enn notar innflutta orkugjafa. Segja má að forgangsorkumarkaðurinn sé mettaður hjá núverandi einstökum notendum en aukning í þeim hluta markaðarins er nær eingöngu vegna nýrra notenda sem tengjast kerfinu. Með því að lækka það aflmark, sem ótrygga orkan miðast við, úr 1 MW í 100 kW eða 500 MWh, var leitast við að vinna hluta af þeim markaði sem nú er fullnægt með olíu. Einkum var beint sjónum að húshitun, ýmiss konar iðnaði og stærri opinberum byggingum, skólum, sundlaugum og slíku.
    Ljóst er af framanskráðu að áhugi Landsvirkjunar á aukinni sölu er mikill og þótt landtengingar skipa séu ekki taldar upp í þessari greinargerð Landsvirkjunar má gera ráð fyrir að öllum tillögum um aukin raforkuviðskipti verði vel tekið.
    Í minnisblaði iðnaðarráðuneytisins frá fundi með fulltrúum raforkufyrirtækja og umhverfisráðuneytisins 23. janúar 1992 er gerð grein fyrir leiðum til að auka nýtingu raforkukerfisins. Í því sambandi er rætt um húshitun, sundlaugar, garðyrkju, fiskimjölsverksmiðjur, rafmagn til skipa í höfnum, m.a. viðgerðir, samgöngur, fiskeldi o.fl. Um rafmagn til skipa í höfnum segir: „Í Reykjavík og víðast á landinu eiga skip kost á að fá rafmagn frá viðkomandi dreifiveitum. Nokkuð mismunandi útfærsla er á því hvernig salan fer fram, ýmist hafnarsjóðir eða rafveitur selja til skipanna. Almennt er landrafmagn lítið notað og kjósa flestir útgerðarmenn að keyra ljósavélar. Í því sambandi má nefna að millilandaskip geta keypt mjög ódýra olíu sem gerir það að verkum að landrafmagn er ekki samkeppnishæft. Bent er á að í sumum skipum væru tæknilegir erfiðleikar við að tengjast landrafmagni. Nefnt var að hugsanlega mætti sporna við notkun ljósavéla í landlegu með því að takmarka heimildir til notkunar þeirra vegna mengunar.“
    Á þessu minnisblaði kemur ekki fram mikil bjartsýni á að hægt sé að ná árangri á þessum vettvangi. Það er álit flutningsmanna að með samstarfi hagsmunaaðila sé hægt að ná góðum árangri, sbr. árangur af því markaðsátaki sem gert var á Akranesi.