Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 139 . mál.


160. Tillaga til þingsályktunar



um íbúðaverð á landsbyggðinni.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Halldór Ásgrímsson,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er leiti leiða til þess að efla almennan íbúðamarkað á landsbyggðinni. Nefndinni verði sérstaklega gert að skoða hver áhrif lög og reglur um félagslegt íbúðarhúsnæði hafi á stöðu íbúðamarkaðarins.

Greinargerð.


     Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 115. löggjafarþingi en var ekki tekin fyrir og er því endurflutt.
    Þróun íbúðaverðs á landsbyggðinni er víðast hvar mikið áhyggjuefni. Fyrir margt löngu er orðið ljóst að markaðsverð íbúðarhúsnæðis er langt undir framreiknuðum stofnkostnaði þess. Verðmæti þessa húsnæðis hefur þannig brunnið upp og skert eignir fólks á landsbyggðinni svo að nemur gríðarlegum fjárhæðum.
    Sú var tíðin að eini sparnaðarkostur fólks var fjárfesting í íbúðarhúsnæði. Margir lögðu afrakstur lífsstarfs síns í íbúðarhúsnæði. Öruggt húsaskjól og eigið húsnæði var trygging þessa fólks fyrir bærilegri afkomu á efri árum.
     Þó svo að fleiri sparnaðarmöguleikar séu nú fyrir hendi en áður er ljóst að hjá venjulegu fólki er öflun eigin íbúðarhúsnæðis helsta fjárfestingin sem það tekst á hendur á lífsleiðinni. Íbúðarhúsnæðið er yfirgnæfandi hluti eignamyndunarinnar í lífi fólks.
     Það eru því býsna kaldranalegar aðstæður sem blasa við fólki á landsbyggðinni þegar afrakstur lífsstarfsins verður að engu. Sums staðar er líka svo komið að erfitt er fyrir fólk að selja húsnæði sitt. Til viðbótar við hið almenna fjárhagstjón, sem fólk verður fyrir vegna hruns íbúðaverðs, er ljóst að þetta ástand skapar öryggisleysi hjá íbúum dreifbýlisins og hefur orðið til þess að girða fyrir allar íbúðarbyggingar á almennum fasteignamarkaði á landsbyggðinni.
     Á sama tíma og auknar þrengingar hafa orðið á almenna íbúðamarkaðnum á landsbyggðinni hefur hlutur félagslegs íbúðarhúsnæðis aukist. Það gefur augaleið að sú þróun hlýtur að hafa sitt að segja um stöðu hins almenna íbúðamarkaðar á landsbyggðinni. Víða um land háttar nefnilega svo til að íbúum fjölgar ekki, jafnvel fækkar, á sama tíma og íbúðum innan hins félagslega íbúðakerfis fjölgar. Því er augljóst að þar þrengir mjög að hinum almenna íbúðamarkaði.
    Þar sem fólk á einhverja völ í því efni kýs það frekar að kaupa íbúðir í félagslega íbúðakerfinu á landsbyggðinni. Ástæðan er einföld. Á sveitarfélögunum hvílir sú kvöð að leysa til sín slíkar íbúðir á verðbættu stofnverði. Fólk, sem á þann kost að eignast þannig húsnæði, býr því við öryggi sem eigendur almenns íbúðarhúsnæðis geta ekki einu sinni látið sig dreyma um. Við þær aðstæður, sem nú ríkja á landsbyggðinni, er það því ofur skiljanlegt að fólk kjósi fremur öryggi hins félagslega íbúðakerfis en hið fullkomna öryggisleysi almenna íbúðamarkaðarins.
         Í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um íbúðaverð kom fram að úti á landi er fermetraverð félagslegs íbúðarhúsnæðis hærra en húsnæðis á almenna markaðnum. Getur þar munað mjög verulegum upphæðum.
    Taka má einfalt dæmi frá Vestfjörðum til þess að varpa ljósi á stöðu málsins. Samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins skulu félagslegar íbúðir „aldrei vera stærri en 130 fermetrar brúttó“ eins og segir í lagatextanum. Meðalverð á fermetra í félagslegu íbúðakerfi var 63.100 kr. árið 1990. Samkvæmt þessum forsendum var heildarverð 130 fermetra íbúðar í félagslega íbúðakerfinu á Vestfjörðum árið 1990 um 8,2 millj. kr. Söluverð hvers fermetra notaðs húsnæðis á almennum markaði á Vestfjörðum var hins vegar 37.010 kr. Með hliðsjón af þeim forsendum var heildarverð 130 fermetra íbúðar á almennum markaði árið 1990 um 4,8 millj. kr. Mismunur á þessum tveimur íbúðum var því 3,4 millj. kr.
     Þessar upplýsingar sýna okkur að skekkja á íbúðamarkaðnum er, sums staðar að minnsta kosti, orðin mjög alvarleg. Hún endurspeglar það almenna verðhrun sem er staðreynd á landsbyggðinni og sýnir svart á hvítu hið alvarlega ástand sem nú ríkir og er fullkomlega óviðunandi.