Ferill 102. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 102 . mál.


174. Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um heildarafla á Íslandsmiðum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1 .     Hverjar voru tillögur Hafrannsóknastofnunar um heildarafla eftirtalinna fisktegunda á árunum 1977 til og með 1992:
                   a .     þorsks,
                   b .     ýsu,
                   c .     ufsa,
                   d .     karfa,
                   e .     grálúðu,
                   f .     skarkola,
                   g .     rækju,
                   h .     síldar,
                   i .     loðnu?
     2 .     Hver var heildarveiðin á ofangreindum fisktegundum á árunum 1977–1991?
     3 .     Hver er áætluð heildarveiði á ofangreindum fisktegundum nú í ár?


    Á meðfylgjandi yfirliti koma fram upplýsingar um tillögur Hafrannsóknastofnunar um leyfileg an heildarafla þorsks, ýsu, ufsa, karfa, grálúðu, skarkola, úthafsrækju, innfjarðarrækju, síldar og loðnu frá árinu 1977 og til loka síðasta fiskveiðiárs sem hófst 1. september 1991 og lauk 31. ágúst 1992. Einnig koma fram upplýsingar um ákvörðun stjórnvalda um leyfilegan heildarafla framan greindra tegunda á þessu tímabili og raunverulegan afla. Loks er reiknaður út fyrir hverja tegund fyrir sig hlutfallslegur munur á ákvörðun stjórnvalda og tillögum Hafrannsóknastofnunar annars vegar og hlutfallslegur munur á heildarafla og tillögum Hafrannsóknastofnunar hins vegar.
    Í fjórum síðustu dálkunum koma fram samandregnar upplýsingar fyrir fjögur tímabil. Voru tímabilin valin eftir samráð við fyrirspyrjanda. Lagt er saman fyrir hvert tímabil tillögur Hafrann sóknastofnunar um leyfilegan heildarafla, ákvörðun stjórnvalda vegna sömu ára og raunverulegur heildarafli þessara ára. Ef tillögur vantar fyrir eitthvert ár á hverju tímabili fyrir sig er skilin eftir eyða.
    Frá árinu 1977 til 1990 eru upplýsingar um allar tegundir nema loðnu og innfjarðarrækju birtar fyrir hvert almanaksár um sig. Með gildistöku laga nr. 38/1990 varð sú breyting að tekið var upp sérstakt fiskveiðiár sem hefst 1. september og lýkur 31. ágúst, 12 mánuðum síðar. Þessi breyting leiddi til þess að leyfilegur heildarafli af botnfiski og úthafsrækju var í upphafi árs 1991 ákvarðaður til átta mánaða eða fyrir fiskveiðitímabilið sem hófst 1. janúar 1991 og lauk 31. ágúst 1991. Fyrsta heila fiskveiðiárið hófst því 1. september 1991 og lauk 31. ágúst 1992.
    Eins og fram kemur birtast engar upplýsingar um síld þetta átta mánaða tímabil á árinu 1991. Það stafar af því að síldveiðivertíðinni, sem hófst haustið 1990, lauk fyrir áramót 1990/1991 en næsta síldveiðivertíð hófst ekki fyrr en 1. september 1991.
    Veiðitímbil loðnu stendur frá síðari hluta sumars fram á síðari hluta vetrar. Þar sem ráðgjöf Haf rannsóknastofnunar miðast við vertíð eru allar upplýsingar um loðnu og innfjarðarrækju í töflunni miðaðar við það. Fyrsta vertíðin, sem upplýsingar eru birtar um í töflunni, er sú sem hófst sumarið 1976 og lauk síðari hluta vetrar 1977. Sama á við um innfjarðarrækju.
    Árið 1977 kom Hafrannsóknastofnun í fyrsta sinn með tillögur um leyfilegan heildarafla af þorski en árið 1981 tóku stjórnvöld í fyrsta sinn formlega ákvörðun um leyfilegan heildarafla af þorski.
    Á árunum 1977 til 1980 var þorskaflinn allt frá 22% til 47% meiri enn sem nam tillögum Haf rannsóknastofnunar. Á árunum 1981 til 1983 var þorskaflinn allt frá 14% minni upp í það að vera 17% meiri en sem nam tillögum Hafrannsóknastofnunar. Eins og margoft hefur komið fram átti stofnunin við vanda að glíma við að meta stærð þorskstofnsins á þessum árum. Grænlandsganga reyndist sterkari en reiknað hafði verið með, 1976-árgangurinn var ofmetinn og meðalþyngd eftir aldri lækkaði verulega.
    Bæði árin 1984 og 1985 var leyfilegur heildarafli af þroski aukinn eftir að Hafrannsóknastofnun hafði lagt fram nýjar upplýsingar um ástand stofnsins sem bentu til betra ástands hans. Var heildar aflinn aukinn um 10% vorið 1984 en um 5% vorið 1985.
    Samkvæmt þeim lögum, sem giltu um stjórn fiskveiða á árunum 1984 til 1987, voru engin ákvæði þess efnis að við ákvörðun á leyfilegum heildarafla skyldi áætla vegna umframafla þeirra skipa sem völdu sóknarmark. Slíkt ákvæði var hins vegar í lögum nr. 3/1988, um stjórn botnfisk veiða 1988–1990. Þetta ákvæði varð til þess að á árunum 1988 til 1990 var reynt að áætla vegna umframafla sóknarmarksskipa og varð það því til þess að minna misræmi varð milli ákvarðana stjórn valda um leyfilegan heildarafla og raunverulegs heildarafla en verið hafði.
    Hvað varðar aðrar botnfisktegundir, sem fram kom í töflunni, koma tillögur frá Hafrannsókna stofnun um leyfilegan heildarafla þeirra fyrst fram á árunum 1977 og 1978. Það er hins vegar ekki fyrr en árið 1984 sem stjórnvöld tóku ákvörðun um leyfilegan heildarafla annarra botnfisktegunda en þorsks.
    Á árinu 1987 er settur viðmiðunarafli fyrir úthafsrækju en aflaheimildum í úthafsrækju var í fyrsta sinn skipt upp á milli skipa á árinu 1988. Veiðum á innfjarðarrækju hefur hins vegar um langt árabil verið stjórnað með því að takmarka leyfilegan heildarafla.
    Allt frá upphafi sjöunda áratugarins hefur Hafrannsóknastofnun komið með tillögur um leyfileg an heildarafla af síld. Allt frá árinu 1976 hefur leyfilegum afla verið skipt upp á milli einstakra báta.
     Eftir samninga við Norðmenn um skiptingu heildarloðnukvótans milli Íslands og Jan Mayen árið 1980 sköpuðust forsendur til að ákvarða leyfilegan heildarafla loðnu. Fyrstu tillögur Hafrann sóknastofnunar um leyfilegan loðnuafla komu fram fyrir vertíðina sem hófst sumarið 1980 og lauk síðari hluta vetrar árið 1981. Var leyfilegum heildarafla af loðnu skipt á milli einstakra skipa. Sam kvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar voru engar loðnuveiðar stundaðar á vertíðinni sem hófst sumarið 1982.
    Á árunum 1977 til 1980 var þorskaflinn að meðaltali 34% meiri en sem nam tillögum Hafrann sóknastofnunar en að meðaltali 4% minni á árunum 1981 til 1983. Á árunum 1984 til 1987 var þorskaflinn að meðaltali 37% meiri en sem nam tillögum Hafrannsóknastofnunar. Eins og áður var bent á var þorskaflinn aukinn um 10% árið 1984 og um 5% árið 1985 eftir að vísbendingar komu fram frá Hafrannsóknastofnun um að ástand stofnsins væri betra en þegar upphaflegar tillögur stofnunarinnar komu fram fyrir þessi ár. Sé tekið tillit til þess var þorskaflinn 34% meiri en sem nam tillögum Hafrannsóknastofnunar. Á árunum 1988 til loka síðasta fiskveiðiárs var þessi munur nokkru minni eða um 19%. Munurinn var þó mun minni síðustu tvö tímabilin. Það skýrist af tvennu. Í fyrsta lagi voru ákvarðanir stjórnvalda nær tillögum stofnunarinnar þessi tvö tímabil. Í öðru lagi var gerð mikil breyting á fiskveiðistjórnuninni með lögum nr. 38/1990. Samkvæmt gildandi lögum er mun minni sveigjanleiki til að auka aflann frá því sem áður var. Sveigjanleikinn er í raun bundinn við svokallaða krókaleyfisbáta en sá munur, sem varð á ákvörðun stjórnvalda og heildarþorskafla síðasta fiskveiðiárs, skýrist að öllu leyti með því að þessir bátar veiddu rúmlega 15 þúsund lestum meira en sem nam samanlögðum aflamarkskosti þessara báta.
    Á öllum tímabilunum er grálúðuaflinn umtalsvert meiri en sem nam tillögum Hafrannsókna stofnunar. Mestur er munurinn á síðasta tímabilinu, þ.e. á árunum 1988 til 1992. Mestur var þessi munur á árunum 1988 og 1989 en þá var grálúðuaflinn 63% og 97% meiri en Hafrannsóknastofnun hafði lagt til fyrir þessi tvö ár. Aflinn þessi tvö ár var jafnframt langt umfram það sem stjórnvöld höfðu stefnt að. Þennan mikla afla umfram ákvarðanir stjórnvalda má rekja til þeirra reglna sem giltu um stjórn fiskveiða á þessum árum. Annars vegar voru það reglur um sóknarmark og hins veg ar ákvæði sem voru í eldri lögum um stjórn fiskveiða um heimild til að breyta aflamarki þorsks yfir í aðrar tegundir án takmarkana.


Samanburður á tillögum Hafrannsóknastofnunar um leyfilegan heildarafla


nokkurra mikilvægra nytjastofna, ákvörðun stjórnvalda um leyfilegan heildarafla


og raunverulegum heildarafla á tímabilinu 1977 til 31. ágúst 1992.



(Tafla mynduð.)