Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 156 . mál.


178. Tillaga til þingsályktunar



um friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Svavar Gestsson, Árni R. Árnason,


Sigríður A. Þórðardóttir, Karl Steinar Guðnason, Valgerður Sverrisdóttir,


Kristín Ástgeirsdóttir, Lára Margrét Ragnarsdóttir,


Össur Skarphéðinsson, Björn Bjarnason.



    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra að vinna áætlun í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög sem miði að því að koma í veg fyrir lausagöngu búfjár í Landnámi Ingólfs.
    Áætlunin verði lögð fyrir Alþingi í upphafi næsta þings.

Greinargerð.


    Tillaga sú, sem hér er lögð fram til þingsályktunar, er endurflutt. Hún var lögð fram á 115. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Í greinargerð með þeirri tillögu var greint frá þeim mikla áhuga sem áhugafólk um verndun og eflingu gróðurs í landinu hefur sýnt því að þetta svæði verði friðað fyrir lausagöngu búfjár. Þar var jafnframt greint frá ýmsum samþykktum og ályktunum sem settar hafa verið fram um málið.
    Landnám Ingólfs er Gullbringu- og Kjósarsýsla, Þingvallahreppur vestan þjóðgarðs, Grafningshreppur, Ölfushreppur, Hveragerðishreppur og Selvogshreppur og brot af Selfosshreppi. Landsvæði þetta takmarkast af línu sem dregin er úr Hvalfjarðarbotni í þjóðgarðinn á Þingvöllum og þaðan suður Þingvallavatn, Úlfljótsvatn, Sog og Ölfusá til sjávar.
    Sérstaða þessa svæðis er mjög mikil hvað varðar búsetuþróun því mikill meiri hluti landsmanna eða um 2 / 3 hlutar býr á þessu svæði. Í Landnámi Ingólfs eru 20 sveitarfélög og yfirgnæfandi meiri hluti íbúa býr í þéttbýli.
    Í Landnámi Ingólfs eru 17 friðlýst svæði sem skiptast þannig eftir gerð friðlýsingar: einn þjóðgarður, fjögur friðlönd, átta náttúruvætti og fjórir fólkvangar. Þingvallaþjóðgarður er ekki friðlýstur samkvæmt náttúruverndarlögum og er því ekki undir stjórn Náttúruverndarráðs. Með framkvæmd friðlýsingar í þjóðgarðslandinu fer sérstök þingskipuð nefnd.
    Þrátt fyrir friðun landsvæða og aðrar aðgerðir ríkis og sveitarfélaga til gróðurverndar er gróðureyðing víða allt of mikil í Landnámi Ingólfs. Lausaganga búfjár stangast á við önnur landnýtingarsjónarmið í þessum fjölmennasta landshluta. Það er hagur allra, bæði bænda og annarra íbúa í Landnámi Ingólfs, að búskapur sé lagaður að öðrum landnýtingarþörfum. Þetta þýðir ekki að búfé eigi að hverfa af svæðinu heldur að það verði eingöngu á afgirtu landi. Þannig háttar nú þegar um nautgripi og hross, en sauðfé gengur laust og takmarkar möguleika til gróðurverndar og landgræðslu. Auk þess skapar lausaganga búfjár mikla hættu fyrir umferð.
    Samkvæmt 5. gr. laga um búfjárhald, sem samþykkt voru í mars 1991, er sveitarfélögum heimilt að koma í veg fyrir ágang búfjár og að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að hafa það í vörslu allt árið eða tiltekinn hluta ársins. Fjölmörg sveitarfélög hafa á liðnum árum bannað lausagöngu hrossa og nokkur sveitarfélög hafa nú þegar bannað lausagöngu búfjár. Því er mjög mikilvægt að áætlun varðandi búfjárhald sé unnin í samvinnu við sveitarfélögin.