Ferill 164. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 164 . mál.


189. Frumvarp til laga



um breytingu á sjómannalögum, nr. 35/1985.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson.



1. gr.

    Fyrri málsgrein 9. gr. laganna orðast svo:
    Sé eigi á annan veg samið skal uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi vera einn mánuður. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Allítarleg ákvæði um réttarstöðu sjómanna voru í fyrstu almennu siglingalögunum, nr. 63/1913. Þó voru ákvæði um uppsagnarfrest á einn veg, þ.e. alfarið í höndum skipstjóra. Árið 1930 voru ákvæði um kjör skipshafnar og skipstjóra numin úr siglingalögum, þau endurskoðuð og sett í sérstök sjómannalög, nr. 41/1930. Með þeim lögum var fyrst getið um tiltekinn uppsagnarfrest sjómanna. Með lögum nr. 67/1963 er uppsagnarfresti yfirmanna á öllum íslenskum skipum og undirmanna á kaupskipum verulega breytt, en á fiskiskipum er hann aðeins sjö dagar. Með breytingum, sem átt hafa sér stað á vinnumarkaði á réttarstöðu verkafólks og uppsagnarfresti, svo og þeirri breytingu sem orðin er með tilkomu aflaheimilda á fiskiskip, er það með öllu óviðunandi fyrir eina starfsstétt hér á landi, þ.e. undirmenn á fiskiskipum, að búa við sjö daga uppsagnarfrest eins og núverandi lög kveða á um.
    Í ákvæðum siglingalaga, nr. 63 22. nóvember 1913, sagði svo í 30. gr.: „Skipstjóri ræður skipverja og segir þeim upp. Engan má hann ráða þann er hann veit að er ráðinn annars staðar.“ Í 87. gr. kemur fram að skipstjóri geti ráðið skipverja til tiltekinnar ferðar eða í tiltekinn tíma.
    Í sjómannalögum, nr. 41 19. maí 1930, er uppsagnarfrestur tiltekinn og þá mismunandi eftir því hvort um er að ræða stýrimann og vélstjóra eða aðra í áhöfn. 2. mgr. 13. gr. hljóðaði svo: „Uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi stýrimanna og vélstjóra skal vera einn mánuður, ef ekki er öðruvísi samið, en sjö dagar á öðrum skiprúmssamningum, nema á íslenskum fiskiskipum einn dagur.“
    Þessi ákvæði sjómannalaga voru í gildi þar til ný sjómannalög voru sett, nr. 67 31. desember 1963. Þá var ákvæðum 2. mgr. 13. gr. um uppsagnarfrest breytt verulega og voru þau þannig: „Ef ekki er öðruvísi samið, skal uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir á skiprúmssamningum stýrimanna, vélstjóra, bryta og loftskeytamanna, en einn mánuður á öðrum skiprúmssamningum, nema á íslenskum fiskiskipum sjö dagar.“ Með þessari lagasetningu var uppsagnarákvæðum yfirmanna á kaupskipum breytt, þ.e. úr einum mánuði í þrjá mánuði, hjá öðrum skipverjum úr sjö dögum í einn mánuð. Á fiskiskipum urðu sömu breytingar hjá yfirmönnum, þ.e. úr einum mánuði í þrjá mánuði, en hjá öðrum skipverjum úr einum degi í sjö daga.
    Við endurskoðun sjómannalaga, sem fram fór síðari hluta árs 1984 og fyrri hluta árs 1985, urðu nokkrar umræður um þann mismun á uppsagnarákvæðum íslenskra sjómanna sem fram kom í sjómannalögunum frá 1963, einkum þá um mismun skipverja (annarra en yfirmanna) á kaupskipum og fiskiskipum. Við þær aðstæður, er þá voru varðandi fiskveiðar, töldu samtök sjómanna ekki ástæðu til breytinga á uppsagnarákvæðum fiskimanna og var 1. mgr. 9. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, m.a. þess vegna ekki breytt. Eins og í upphafi greinargerðar kemur fram hafa nú allar forsendur breyst hvað varðar starfsöryggi þeirra fiskimanna sem nú þurfa lögum samkvæmt að búa við sjö daga uppsagnarfrest og er því þetta frumvarp til breytingar á sjómannalögum lagt fram.