Ferill 167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 167 . mál.


192. Tillaga til þingsályktunar



um aðild Alþingis að 50 ára afmæli lýðveldisins.

Flm.: Svavar Gestsson, Jón Helgason, Kristín Einarsdóttir.



    Alþingi ályktar að kjósa hlutfallskosningu sjö manna nefnd er hafi það verkefni að undirbúa af hálfu Alþingis 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins 1994. Nefndin kýs sér sjálf formann og kostnaður af störfum hennar skal greiddur af Alþingi.
    Nefndin skal skila heildartillögum fyrir vorið 1993 þannig að tillögur hennar megi koma til umfjöllunar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1994.
    Jafnframt samþykkir Alþingi að fela stjórnarskrárnefnd að skila í tæka tíð tillögum um nýja stjórnarskrá svo að unnt verði fyrir 50 ára afmælið að samþykkja nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Greinargerð.


     Aðeins tæp tvö ár eru þar til lýðveldið Ísland á 50 ára afmæli. Nauðsynlegt er að hefjast þegar handa við að undirbúa afmælið með viðeigandi hætti. Alþingi hefur jafnan skipað öndvegi við undirbúning stærri hátíðahalda þjóðarinnar. Því er eðlilegt að Alþingi hafi forustu um hátíðahöld á 50 ára afmæli lýðveldisins.
    Hér verður ekki gerð tilraun til þess að birta neins konar yfirlit yfir það sem gera mætti í tilefni hátíðarinnar. Benda má þó á átak í menningarmálum, bæði almennt og á einstökum sviðum menningar, átak í umhverfismálum o.fl.

    Í tillögunni sjálfri er hins vegar kveðið á um það að flýtt verði af þessu tilefni endurskoðun stjórnarskrárinnar. Sá dráttur, sem orðið hefur á því verki, hlýtur að vera Alþingi áhyggjuefni. Því er lagt til að þannig verði á málum haldið að Alþingi nái að samþykkja nýja stjórnarskrá fyrir 50 ára afmælið. Hér er átt við almenn ákvæði stjórnarskrárinnar en ekki þau sem lúta að kosningalögunum. Um þau gilda allt önnur lögmál og reynslan sýnir að það er ekki affarasælt að blanda þessum málum saman.
    Í framsögu verður greint frá ýmsum hugmyndum sem til greina koma við það að minnast 50 ára afmælis lýðveldisins. Í umræðum um tillöguna geta líka komið fram tillögur sem vafalaust geta orðið nefndinni, sem tillagan fjallar um, styrkur í starfi á komandi mánuðum.
    Samhljóða tillaga var flutt á síðasta þingi en komst þá ekki til umræðu.