Ferill 192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 192 . mál.


223. Frumvarp til laga



um eftirlit með skipum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Gildissvið og orðskýringar.


1. gr.


    Lög þessi gilda um öll íslensk skip, sem eru sex metrar á lengd eða lengri, mælt milli stafna og notuð eru á sjó. Lögin gilda þó um öll farþegaskip án tillits til stærðar.
     Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að lög þessi gildi að hluta eða öllu leyti fyrir erlend skip þegar þau eru í íslenskum höfnum eða innan íslenskrar lögsögu.
     Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að eftirlit skuli haft með öryggi annarra atvinnutækja á sjó og vötnum og hvernig því eftirliti skuli haga.

2. gr.


    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu sem hér greinir:
    Skip er sérhvert fljótandi far nema annars sé getið.
    Íslenskt skip er hvert það skip sem skráð er hér á landi og rétt hefur til að sigla undir íslenskum fána.
    Flokkað skip er hvert það skip sem er flokkað af flokkunarfélagi sem viðurkennt er af ráðherra.
    Fiskiskip er skip sem notað er til að veiða fisk, hval, sel, skelfisk eða aðrar lífverur úr sjó.
    Farþegaskip er hvert það skip sem ætlað er að flytja farþega, sbr. þó ákvæði 6. tölul. þessarar greinar.
    Kaupskip eru önnur skip sem notuð eru til flutnings á farmi gegn endurgjaldi en geta jafnframt flutt 12 farþega eða færri í samræmi við alþjóðlegar reglur.

II. KAFLI


Gerð og búnaður.


Smíði, innflutningur og breytingar.


3. gr.


    Hvert skip skal smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa á hafinu sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma.
    Skip skal fullnægja skilyrðum reglna á hverjum tíma um siglingatæki, vélbúnað, fjarskiptabúnað, björgunarbúnað, lyf og læknisáhöld og eldvarna- og slökkvibúnað til að tryggja öryggi skipverja, skips og farms.
    Vinnusvæði og vistarverur skipverja skal hanna og búa með hliðsjón af öryggi og velferð skipverja.
     Skip skulu smíðuð og búin með tilliti til varna gegn mengun.
     Ráðherra ákveður nánar í reglugerð um smíði, stöðugleika, hleðslumerki og búnað skipa.
     Ráðherra ákveður í reglum hvaða lög, stjórnvaldsfyrirmæli, skírteini og skipsbækur skuli vera um borð í skipum.

4. gr.


    Ráðherra setur reglur um aðbúnað og vinnuaðstöðu skipverja, svo sem hönnun og merkingar vinnusvæða, öryggisbúnað, notkun og viðhald vinnutækja og öryggisbúnaðar og heilbrigðis- og hollustuhætti í skipum.

5. gr.


    Ráðherra getur ákveðið að nýjar reglugerðir nái ekki til eldri skipa og skipa sem kjölur hefur verið lagður að eða eru á hliðstæðu byggingarstigi. Þó skal tekið tillit til varna gegn mengun, öryggis og aðbúnaðar um borð, enn fremur gerðar og fyrirhugaðrar notkunar skipanna.

6. gr.


    Nýsmíði skipa er háð eftirliti Siglingamálastofnunar í samræmi við reglur sem ráðherra setur. Þar sem þær ná ekki til skulu ekki gerðar vægari kröfur en gerðar eru af viðurkenndum flokkunarfélögum um smíði skipa. Eigandi skips skal tilkynna Siglingamálastofnun um smíðina. Áður en smíði hefst skal sá sem tekið hefur að sér smíði skips senda Siglingamálastofnun ríkisins smíðalýsingu, teikningar og önnur þau gögn sem siglingamálastjóri telur nauðsynleg vegna eftirlits.
     Ráðherra er heimilt að setja reglur um hæfniskröfur sem þeir sem hanna og smíða skip skulu fullnægja.
     Eiganda skips er heimilt að fela einhverju hinna viðurkenndu flokkunarfélaga eftirlit með smíði skips, enda sé skipið smíðað eftir reglum þeirra sem gilda hér á landi.

7. gr.


    Engar meiri háttar breytingar má gera á skipi, svo sem stækkun farmrýmis eða yfirbyggingar, aðalvélarskipti eða breytingar sem hafa áhrif á mælingu skips, sjóhæfni, öryggi eða aðbúnað áhafna, án þess að fyrir liggi samþykki Siglingamálastofnunar ríkisins eða annars aðila sem stofnunin hefur veitt umboð. Breytingarnar skulu gerðar undir eftirliti Siglingamálastofnunar og gilda þar um sömu reglur um eftirlit og tilkynningarskyldu og um nýsmíði.
     Sömu reglur um tilkynningarskyldu og eftirlit skulu einnig gilda um meiri háttar viðgerðir sem áhrif geta haft á sjóhæfni skips, öryggi skips og aðbúnað áhafna.

8. gr.


    Skip, sem keypt eru eða leigð frá útlöndum til skráningar hér á landi, skulu fullnægja íslenskum lögum og reglum um styrkleika, búnað og haffæri. Skal skoðun fara fram áður en það er flutt inn. Að skoðun lokinni kveður siglingamálastjóri á um hvort hann mælir með innflutningi skips eða ekki.
     Eigi má flytja inn skip sem er 15 ára eða eldra. Siglingamálastofnun ríkisins getur þó heimilað innflutning eldra skips ef um er að ræða vöruflutningaskip stærri en 500 bt., dýpkunarskip og rannsóknaskip, enda séu þau ekki eldri en 20 ára.
     Regla 2. mgr. þessarar greinar um aldur skips gildir ekki um skemmtiskip sem eingöngu eru ætluð til einkanota.

III. KAFLI


Skoðun skipa og framkvæmd eftirlits.


Haffæri skipa.


9. gr.


    Eiganda skips, útgerðarmanni, skipstjóra og yfirvélstjóra er skylt að sjá um að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram á skipi eftir því sem við á. Skipstjóra er skylt að sjá til þess að skip sé haffært þegar það leggur úr höfn og hafi gild lögboðin skírteini um borð.

10. gr.


    Skoðunargerðir á skipum eru þrenns konar: aðalskoðun, aukaskoðun og skyndiskoðun.
     Starfsmenn Siglingamálastofnunar annast alla skoðun samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim eftir nánari ákvörðun siglingamálastjóra. Siglingamálastjóra er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunar.

11. gr.


    Aðalskoðun skal fara fram við lokaúttekt nýsmíði og á hverju skipi árlega eða samkvæmt alþjóðareglum þegar það á við.
     Siglingamálastofnun getur, þegar sérstakar ástæður mæla með því, veitt heimild til frestunar aðalskoðunar í allt að þrjá mánuði. Siglingamálastjóra er heimilt að fela slíka framlengingu öðrum opinberum aðila hverju sinni.
     Við aðalskoðun skal athuga búnað skips og annað er lýtur að öryggi þess og áhafnar.
     Sé skip í viðurkenndu flokkunarfélagi og gildu flokkunarskírteini er framvísað skal sú skoðun, sem fram fór á því til viðhalds á flokkuninni, talin fullnægjandi um styrkleika bols, eimkatla, vél- og rafbúnaðar, enda fullnægi skipið jafnframt þeim ákvæðum sem sérstaklega er mælt fyrir um í íslenskum lögum eða reglum varðandi þau atriði sem flokkunin tekur til.

12. gr.


    Aukaskoðun skal fara fram á skipi sem hér segir:
    Þegar skip hefur verið til viðgerðar vegna atriða sem varða öryggi skips og/eða áhafnar.
    Þegar eigandi skips, útgerðarmaður, skipstjóri, yfirvélstjóri, meiri hluti skipverja eða stjórn stéttarfélags krefjast skoðunar. Krafa skal vera skrifleg og rökstudd. Starfsmenn Siglingamálastofnunar ríkisins eru bundnir þagnarheiti um hver borið hafi fram kröfu nema hún hafi reynst ástæðulaus. Þá skal Siglingamálastofnun gefa upp nafn þess sem bar fram kröfuna ef útgerðarmaður krefst þess.
    Þegar Siglingamálastofnun telur annars ástæðu til að rannsaka öryggi ákveðinna hluta skips eða búnaðar þess.

13. gr.


    Skyndiskoðun er fyrirvaralaus skoðun á haffæri skips, einkum þegar skip kemur til hafnar eða fer úr höfn.
     Siglingamálastofnun getur óskað aðstoðar Landhelgisgæslu Íslands við framkvæmd skyndiskoðunar á skipum samkvæmt nánara samkomulagi þessara aðila sem staðfest er af ráðherra.

14. gr.


    Synji siglingamálastjóri um skoðun þegar hennar er krafist í samræmi við 2. tölul. 12. gr. eða ef einhver þeirra aðila, sem þar um ræðir, getur ekki unað úrslitum skoðunargerðar getur sá sem telur sig vanhaldinn kært ágreininginn fyrir farbannsnefnd, sbr. 25. gr.

15. gr.


    Hafi skoðun leitt í ljós að ákvæðum laga og reglna um smíði og búnað er fullnægt skal siglingamálastjóri, starfsmaður stofnunarinnar sem til þess hefur heimild frá siglingamálastjóra eða annar viðurkenndur aðili gefa út haffærisskírteini því til handa eða önnur jafngild skírteini samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykkta eftir því sem við á.
     Á haffærisskírteini skal skráð nafn skips, skipaskrárnúmer, heimili, kallmerki, stærð skips samkvæmt gildandi reglum um mælingu skipa, smíðastaður og ár, nafn eiganda, umdæmisbókstafur fiskiskipa, að skip fullnægi þeim kröfum um öryggi skipa sem gerðar eru í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, gildissvið, gildistími og útgáfudagur.
     Haffærisskírteini skal eigi gefið út til lengri tíma en eins árs. Siglingamálastofnun er þó heimilt að miða gildistíma skírteinis við almanaksmánuð að ári liðnu frá útgáfudegi skírteinis og gildir skírteinið þá til loka þess mánaðar.
     Haffærisskírteini eða skoðunarvottorð skal fylgja skipsskjölum og sýnt við fyrstu árlegu lögskráningu eða við greiðslu slysatryggingagjalds skipverja þegar ekki er skylt að lögskrá á skipið, svo og þegar þess er krafist af starfsmönnum Siglingamálastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands eða lögreglu.
    Hafi skoðun leitt í ljós að kröfum um búnað og öryggi skipa er ekki fullnægt skal bætt úr því sem áfátt er. Ef ágallar eru þannig að eigi er unnt að bæta úr þeim þegar í stað en skipið getur þó siglt örugglega getur umdæmisstjóri veitt skipstjóra hæfilegan frest til úrbóta.

16. gr.


    Skip skal telja óhaffært:
    Hafi það ekki gilt haffærisskírteini eða önnur jafngild skírteini samkvæmt alþjóðasamþykktum.
    Liggi það dýpra en hleðslumerki þess leyfa samkvæmt alþjóðasamþykktum eða reglum.
    Sé bol þess, búnaði, vélum, tækjum eða skipshöfn svo áfátt eða skipið er af öðrum ástæðum svo á sig komið með tilliti til öryggis skipsins og þeirra manna sem skipinu fylgja að telja verður vegna sjóferðar þeirrar er skipið skal fara að hættulegra sé að vera í förum með það en venjulegt er.

17. gr.


    Hafi skip lent í árekstri, tekið grunn eða annað að borið svo ástæða sé til að ætla að skip sé óhaffært er skipstjóra skylt að láta skoða skipið á þeim stað er því verður fyrst við komið. Starfsmenn Siglingamálastofnunar eða aðrir aðilar, sem stofnunin hefur viðurkennt, skulu framkvæma þá skoðun.
     Þurfi að færa skip sem er óhaffært af slysstað eða úr höfn til viðgerðar eða nánari skoðunar skal Siglingamálastofnun ríkisins eða aðrir aðilar, sem stofnunin hefur viðurkennt, ákveða hvaða ráðstafanir skuli gerðar með tilliti til öryggis skipsins og þeirra manna sem skipinu fylgja.

18. gr.


     Siglingamálastofnun ríkisins annast eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum gildandi
laga og reglna um öryggi skipa.
     Þegar starfsmenn Siglingamálastofnunar eru að starfi hafa þeir rétt til þess að fara um borð í hvert skip, sem statt er í íslenskri höfn eða innan íslenskrar landhelgi, til þess að rannsaka það sem þeim ber samkvæmt stöðu sinni. Sama gildir um skip í smíðum.
     Komi í ljós að ásigkomulag skips eða búnaður þess er ekki í samræmi við lög þessi, reglur eða önnur fyrirmæli getur Siglingamálastofnun fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests.
     Starfsmenn Siglingamálastofnunar skulu gæta þess að valda ekki óþarfa töfum á skipi né torvelda vinnu umfram nauðsyn.
     Starfsmenn Siglingamálastofnunar skulu framvísa starfsskírteinum sé þess óskað.
     Eigendur, útgerðarmenn, skipstjórar, vélstjórar og aðrir, sem starfa í umboði þeirra, skulu veita Siglingamálastofnun alla aðstoð og upplýsingar sem óskað er vegna eftirlits og öryggis skips, svo og upplýsingar um ástand skipsins sem varðar lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim.

19. gr.


    Löggæslumenn, hafnaryfirvöld, tollgæslumenn, trúnaðarmenn skipverja, starfsmenn tryggingafélaga eða lögskráningarstjórar, sem fá vitneskju um að lög þessi eða reglur settar samkvæmt þeim eru brotin eða telja sig hafa ástæðu til að ætla að skip sé ekki haffært, skulu tafarlaust gera næsta umdæmisstjóra Siglingamálastofnunar viðvart. Sama gildir um starfsmenn skipasmíðastöðva og verkstæða er þeir eru að starfi sínu, þó þannig að þeir skulu gera yfirmanni sínum viðvart sem tilkynnir það tafarlaust til næsta umdæmisstjóra.

IV. KAFLI


Farbann.


20. gr.


    Eigi að leggja skipi úr höfn án þess að það hafi gilt haffærisskírteini eða skip er annars óhaffært á ferð skal leggja farbann á það.
     Enn fremur skal leggja farbann á skip ef starfsmenn Siglingamálastofnunar eru hindraðir í störfum við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum.

21. gr.


    Siglingamálastjóri getur lagt farbann á skip. Einnig geta þeir starfsmenn Siglingamálastofnunar lagt farbann á skip sem siglingamálastjóri hefur sérstaklega veitt til þess umboð. Skulu þeir tilkynna siglingamálastjóra þegar um farbann sem þeir leggja á.

22. gr.


    Ákvörðun um farbann skal þegar í stað tilkynna skipstjóra og útgerðarmanni skriflega. Ástæður fyrir farbanni skulu tilgreindar, svo og skilyrði fyrir því að banni verði aflétt. Starfsmenn Siglingamálastofnunar geta óskað eftir því ef nauðsyn krefur að lögreglustjórar, hafnar- og tollyfirvöld á hverjum stað, svo og starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, veiti þeim fulltingi við framkvæmd farbanns og ber þeim að verða við þeirri ósk.

23. gr.


    Ef ástæður farbanns eru ekki lengur fyrir hendi skal farbanni aflétt þegar í stað.
     Telji siglingamálastjóri að farbann, sem starfsmenn hans hafa lagt á, sé ekki á rökum reist skal hann þegar í stað fella það úr gildi.

24. gr.


     Útgerðarmaður skips og skipstjóri geta kært farbann til farbannsnefndar.
     Samgönguráðherra skipar farbannsnefnd til þriggja ára í senn. Farbannsnefnd skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Formaður skal fullnægja almennum dómaraskilyrðum. Hinir fjórir nefndarmennirnir skulu búa yfir sérþekkingu á sviði siglinga eða skipatækni í samræmi við verksvið nefndarinnar. Ráðherra setur nefndinni starfsreglur.
     Úrskurði nefndarinnar verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

25. gr.


    Verkefni farbannsnefndar eru:
    Að skera úr um hvort farbann skuli lagt á skip og úrskurða um gildi farbanns.
    Að skera úr um hvort skoðun á skipi skuli fara fram, annast yfirskoðunargerðir og kveðja til yfirskoðunarmenn eins og nánar greinir í 21. gr. laganna.
     Málshöfðun til ógildingar á úrskurði farbannsnefndar frestar ekki réttaráhrifum hans.


V. KAFLI


Málsmeðferð fyrir dómi.


26. gr.


    Um refsimál, sem höfðað er út af brotum á lögum þessum, fer að hætti opinberra mála. Sé þörf sérkunnáttu við úrlausn máls skulu tveir sérfróðir meðdómendur skipa dóm, auk eins héraðsdómara.
     Áður en ákærandi höfðar opinbert mál út af brotum á lögunum skal hann jafnan leita umsagnar siglingamálastjóra liggi hún ekki þegar fyrir. Ber siglingamálastjóra að láta í té rökstudda umsögn svo fljótt sem verða má.
     Ákærandi skal útvega samgönguráðuneyti og Siglingamálastofnun eftirrit dóma í málum út af brotum á lögum þessum.

27. gr.


    Málum, sem höfðuð eru til ógildingar á úrskurðum farbannsnefndar skv. 14. eða 20. gr., skal hraða svo sem kostur er. Um mál þessi fer eftir almennri meðferð einkamála.

VI. KAFLI


Gjöld.


28. gr.


    Fyrir skoðun á skipum og búnaði þeirra, mælingu á skipum, útgáfu skírteina, samþykkt smíðalýsinga og teikninga og aðra skoðun, sem starfsmenn Siglingamálastofnunar ríkisins framkvæma, skal eigandi greiða gjöld til ríkissjóðs samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Eigandi skips skal greiða árlega skipagjald sem taki mið af því hvort skip er flokkað hjá Siglingamálastofnun ríkisins eða viðurkenndu flokkunarfélagi.
     Gjöldum skv. 1. mgr. fylgir lögveð í skipi, jafnsett lögveði fyrir lestagjaldi í eitt ár frá því er gjald var kræft.

     Siglingamálastofnun er heimilt að halda eftir haffærisskírteini eða öðrum jafngildum skírteinum samkvæmt alþjóðasamþykktum að lokinni skoðun ef gjöld skv. 1. mgr. eru ekki greidd.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um gjald fyrir skoðun og þjónustu sem aðrir þar til bærir aðilar framkvæma og veita.

VII. KAFLI


Um refsingar, sviptingu réttinda o.fl.


29. gr.


    Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum, varðhaldi eða fangelsi ef miklar sakir eru.

30. gr.


    Um brot skv. 29. gr. skal beitt reglum almennra hegningarlaga um hlutdeild.
     Nú er brot framið með verknaði sem refsiverður er samkvæmt almennum hegningarlögum og skal þá einnig beita viðeigandi ákvæðum þeirra.

31. gr.


    Þegar um brot er að ræða og sérstaklega miklar sakir eru má svipta sökunaut rétti til skipstjórnar, stýrimennsku, vélstjórnar eða fjarskiptastarfa um ákveðinn tíma er eigi sé skemmri en þrír mánuðir.
     Nú er brot að öðru leyti sérstaklega stórfellt eða ítrekað og skal þá beita réttindasviptingu eigi skemur en sex mánuði og allt að fimm árum eða ævilangt.

32. gr.


    Svipting réttinda skv. 31. gr. skal gerð með dómi. Þó má ljúka máli um sviptingu réttinda með ákvörðun dómara hafi ákærði játað sekt sína og fallist skriflega á slík málalok enda mótmæli ákærandi þeim ekki.
     Ákærandi skal tilkynna öllum lögreglustjórum í landinu um réttindasviptingu og senda samgönguráðuneyti réttindaskírteini.
     Þegar tvö ár hið fæsta eru liðin frá því réttindasvipting var dæmd getur samgönguráðherra veitt réttindin á nýjan leik mæli sérstakar ástæður með því, enda þótt sviptingartími sé ekki liðinn.

33. gr.


    Sektir fyrir brot gegn lögum þessum renna í ríkissjóð. Dómara er heimilt að ákveða að þeim fylgi lögveð í skipi og búnaði þess, jafnsett lögveði fyrir lestagjaldi.

34. gr.


    Lög þessi raska í engu ákvæðum áfengislaga að því er snertir viðurlög ef menn eru undir áhrifum áfengis við störf sín.

VIII. KAFLI


Um gildistöku laganna o.fl.


35. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 51 30. mars 1987 og 9. gr. laga nr. 20 30. apríl 1986.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um eftirlit með skipum var lagt fram á 113. löggjafarþingi 1990 og 115. löggjafarþingi 1991, en varð eigi útrætt. Frumvarpið var samið af nefnd sem samgönguráðherra skipaði til að endurskoða lög nr. 51/1987, um eftirlit með skipum. Í nefndinni áttu sæti Ragnhildur Hjaltadóttir skrifstofustjóri, formaður, Einar Hermannsson, fulltrúi Sambands íslenskra kaupskipaútgerða, Helgi Laxdal, varaforseti FFSÍ, Jónas Haraldsson, skrifstofustjóri LÍÚ, og Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri.
     Nefndin fór enn fremur yfir umsagnir sem samgöngunefnd neðri deildar Alþingis bárust um frumvarpið. Frumvarpið hefur því tekið nokkrum breytingum. Helsta breytingin er sú að hér er lagt til að siglingadómur verði lagður niður. Er það í samræmi við tillögur réttarfarsnefndar, laganefndar Lögmannafélags Íslands og meiri hluta siglingadóms. Vísast til V. kafla um málsmeðferð.
     Með gildandi lögum um eftirlit með skipum var leitast við að færa lagaákvæði um þetta efni til samræmis við nútímaaðstæður um leið og þau voru einfölduð. Ýmis ákvæði laganna hafa sætt gagnrýni og töldu ýmsir hagsmunaaðilar að fleiri breytinga væri þörf en þeirra sem gerðar voru með gildandi lögum. Samgönguráðherra tók því ákvörðun um endurskoðun laganna.
    Við samningu þessa frumvarps hefur nefndin haft til athugunar og hliðsjónar löggjöf Danmerkur og Noregs um öryggi skipa og hefur ýmislegt úr þeirri löggjöf verið haft til hliðsjónar. Nefndin hefur kallað til sín og leitað álits annarra aðila, t.d. formann siglingadóms og formanns réttarfarsnefndar vegna siglingadóms og ríkissaksóknara vegna refsiákvæða. Auk þess er, eins og áður segir, tekið mið af umsögnum fjölmargra annarra aðila sem veittu samgöngunefnd 113. löggjafarþings umsögn.
     Veigamiklar breytingar eru gerðar á nokkrum aðalþáttum laganna, ákvæðum um haffæri skipa, hámarksaldur innfluttra skipa og farbann, auk þess sem aukin áhersla er lögð á mengunarvarnir í skipum og aðbúnað og hollustuhætti. Helsta breytingin er væntanlega sú að hér er lagt til að siglingadómur verði lagður niður. Um rök fyrir breytingunum vísast til athugasemda við einstakar greinar. Uppsetning laganna er frábrugðin gildandi lögum. Leitast er við að raða saman efnislega skyldum ákvæðum og fylgja réttri tímaröð allt frá því smíði skips hefst.
     Samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis dags. 28. október 1991 mun þetta frumvarp ekki hafa teljandi breytingar á kostnaði í för með sér.
     Vísast nánar til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Stærðarmörk skipa eru óbreytt frá gildandi lögum og í samræmi við lög um skráningu skipa. Gildissviðið er hins vegar takmarkað við skip sem notuð eru á sjó. Er það gert til að undanskilja vatnabáta sem ekki eru notaðir í atvinnuskyni. Hins vegar er reiknað með að bátar á vötnum sem notaðir eru í atvinnuskyni, svo sem farþegaskip, vinnu- og dýpkunarskip á vötnum, verði eftirlitsskyldir og að ráðherra setji reglur þar að lútandi. Það er einnig nýmæli að lögin gilda um öll farþegaskip án tillits til stærðar.
     Hér er lagt til að felld verði niður 2. mgr. gildandi laga um að lögin gildi um erlend skip sem íslenskir ríkisborgarar hafa á leigu ef þau eru gerð út hér eða í förum hingað eða héðan með íslenskri áhöfn. Ákvæðið kom inn í lögin um eftirlit með skipum nr. 68 frá 1947. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga segir að ákvæðið takmarkist að sjálfsögðu af samningum sem gerðir hafi verið við önnur ríki og alþjóðasamningum, en ljóst sé að ákvæðið geti orðið erfitt í framkvæmd. Síðan segir: „Tilgangurinn er sá að sporna við því að skip, sem ekki fullnægja settum reglum, séu leigð í því skyni að fara í kringum lögin“.
     Það er álit nefndarinnar sem þetta frumvarp samdi að útilokað sé að gera efnislegar kröfur um haffæri erlendra skipa vegna þess eins að áhöfn þeirra sé íslensk, til þess hafi íslensk stjórnvöld ekki lögsögu. Hins vegar sé eðlilegt að ráðherra geti ákveðið að erlend skip sem leiti hafnar eða komi í íslenska lögsögu lúti sömu reglum og íslensk skip eftir því sem ástæða er talin til. Rétt er að benda á að samkvæmt öllum alþjóðasáttmálum um siglingar, sem Ísland hefur fullgilt, t.d. MARPOL og SOLAS, eru „hafnarríkjum“ veittar umfangsmiklar heimildir til eftirlits með erlendum skipum sem taka höfn hjá viðkomandi „hafnarríki“.

Um 2. gr.


    Hér eru skýrð nokkur orð sem máli skipta í lögunum þó eflaust væri ástæða til að skýra fleiri orð og hugtök.
     Orðskýringarnar eru að mestu leyti í samræmi við ákvæði 2. gr. gildandi laga en hér er bætt inn skýringu á kaupskipi.

Um II. kafla.


     Í þessum kafla er skipað ákvæðum um gerð og búnað, smíði, innflutning, breytingar og hleðslu skipa sem eru í V. og VI. kafla gildandi laga. Kaflinn er þó í nokkrum verulegum atriðum frábrugðinn gildandi lögum og vísast þar um til athugasemda við einstakar greinar hans.

Um 3. gr.


    1. mgr. er nýmæli, en sambærilegt ákvæði er að finna í dönsku lögunum um öryggi skipa. Þetta er almenn efnisregla, yfirlýsing um að sérhvert skip skuli smíðað og búið á öruggan hátt með tilliti til þeirra verkefna sem því eru ætluð á hverjum tíma.
     2. mgr. kemur að nokkru í stað 17. gr. gildandi laga, en þar er talið nákvæmlega upp hvaða skilyrðum skip þurfa að fullnægja varðandi smíði og búnað. Hér er lagt til að einungis verði lögfest almenn skylda til að hafa þann búnað sem nauðsynlegur er til að tryggja öryggi skips og skipverja, en ráðherra setur frekari reglur um einstakar kröfur þar að lútandi. Gildir það jafnt um smíði og búnað skipa sem og um stöðugleika þeirra, sbr. 5. mgr. Framfarir í skipasmíðum og útbúnaði skipa eru mjög örar, einnig breytast sífellt kröfur sem gerðar eru til skipanna og útbúnaðarins. Því er talið rétt að auka hér svigrúm ráðherra til þess að setja reglur og lögbinda þannig ýmis atriði, jafnframt því sem breytingar verða í þessum efnum á Íslandi. Gildir þetta sjónarmið einnig um aðbúnað og vinnuaðstöðu, sbr. 4. gr.
     3. mgr. fjallar um kröfur til vinnusvæða og vistarvera. Með velferð er átt við allt sem lýtur að heilsu manna og vellíðan, þar með taldar ráðstafanir til að draga úr hávaða um borð í skipum.
     4. mgr., sem kveður á um að skip skuli smíðuð og búin með tilliti til varna gegn umhverfismengun, er nýmæli, en er í samræmi við aukna áherslu á mengunarvarnir um borð í skipum. Mengunarvarnir á sjó eru svo nátengdar öðrum öryggismálum skipa og sæfarenda að rétt þykir að skipa ákvæðinu í þessi lög. Með mengun umhverfis er hér fyrst og fremst átt við sjávarmengun og loftmengun.

Um 4. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði almenn heimild fyrir ráðherra til að setja reglur um aðbúnað og vinnuaðstöðu skipverja. Greinin er að nokkru leyti í samræmi við 1. tölul. E, 17. gr. gildandi laga en mun rýmri.
     Almennu lögin um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gilda ekki um skip og skipverja. Þar af leiðandi er nauðsynlegt að hafa ákvæði í lögum um eftirlit með skipum um vinnuumhverfi skipverja. Markmiðið er að vernda heilsufar og tryggja viðunandi vinnuaðstöðu skipverja og einnig að settar verði reglur um framkvæmd þessa markmiðs.

Um 5. gr.


    Þetta ákvæði er nýmæli í lögum. Það er þó í samræmi við framkvæmd þessara mála, enda er oft illframkvæmanlegt að láta nýjar kröfur gilda um skip sem búið er að smíða. Þessi heimild gildir þó því aðeins að öryggi skips og áhafnar sé tryggt.
     Þess má geta að í lögum nr. 78/1938 var atvinnumálaráðherra heimilað að „gera vægari kröfur en reglur þær, sem nú gilda, gera almennt um skip, sem eru íslenzk eign eða voru í smíðum fyrir íslenzkan reikning fyrir 1. júlí 1922, þó ekki um haffæri skipsins, ferðabúnað þess né lífsöryggi manna“. Þarna er lögfest sama meginregla, þ.e. að heimilt sé að gera aðrar kröfur til eldri skipa en nýrra. Þessi meginregla er enn fremur í samræmi við hliðstæð ákvæði í nágrannalöndunum og víðar hjá siglingaþjóðum.

Um 6. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að smíðalýsingar og önnur gögn skuli senda Siglingamálastofnun áður en smíði hefst. Það er afar mikilvægt að öll gögn, sem nauðsynleg eru vegna öryggis skips og mengunarvarna, berist áður en smíði hefst, bæði til að tryggja eftir föngum markmið laganna og hugsanlega koma í veg fyrir óþarfa kostnaðarauka síðar.
     Um nýsmíði skipa fjallar 19. gr. gildandi laga og er hér lagt til að hún verði áfram að mestu efnislega óbreytt, þ.e. nýsmíði er háð eftirliti Siglingamálastofnunar og stofnuninni skal tilkynnt um smíði. Hins vegar er nokkrum form- og ábyrgðarreglum breytt:
    Eigandi skips er gerður ábyrgur fyrir tilkynningu til Siglingamálastofnunar um nýsmíði hvort sem skip er smíðað hér á landi eða erlendis. Sá sem tekið hefur að sér smíði skips, þar með taldar erlendar skipasmíðastöðvar, er hins vegar áfram ábyrgur fyrir að senda stofnuninni teikningar og önnur nauðsynleg gögn.
    Krafa um að uppdrættir skuli vera í þríriti er felld niður, en siglingamálastjóra falið að setja skilyrði um framlögð gögn.
    Samkvæmt 2. mgr. er einungis eiganda heimilt að fela viðurkenndu flokkunarfélagi eftirlit með smíði skips, en samkvæmt gildandi lögum hafa skipasmiðir og Siglingamálastofnun einnig þessa heimild. Það er eðlilegt að eigandi skipsins einn ákveði hvar skip er flokkað.
     Vísun til tréskipa í gildandi lögum er felld niður þar sem settar hafa verið samnorrænar reglur um smíði tréskipa.

Um 7. gr.


    Greinin er í samræmi við 20. gr. gildandi laga með mikilvægri undantekningu. Meiri háttar breytingar eru nú tengdar sjóhæfni og öryggi skipsins, þ.e. samþykki Siglingamálastofnunar er krafist þegar breytingar á skipi hafa áhrif á mælingu, sjóhæfni og öryggi en ekki eingöngu breytingum á stærð skipsins eins og áður. Auk meiri háttar breytinga, svo sem stækkunar, lengingar, yfirbyggingar og nýrrar brúar falla undir ákvæðið breytingar sem hafa áhrif á stöðugleika skips, svo sem veiðarfærabúnaður, toggálgar, togspil o.s.frv. Enn fremur er sams konar ákvæði um viðgerðir sem geta haft áhrif á sjóhæfni og öryggi skips og aðbúnað skipverja.
     Greinin heimilar enn fremur Siglingamálastofnun að veita umboð til hæfs aðila til að annast samþykki og eftirlit með breytingum skipa. Slíkir aðilar eru t.d. flokkunarfélög sem viðurkennd eru hérlendis.
     2. mgr. er nýmæli. Þó viðgerðir á skipum séu oftast í sinni einföldustu mynd, ekki þess eðlis að þær hafi áhrif á öryggi eða aðbúnað skipverja, þá eru allt of mörg dæmi þess á undanförnum árum að fram hafa farið viðgerðir á skipum og búnaði skipa sem hafa verið ófullnægjandi og jafnvel leitt af sér slys. Helstu hættur hvað þetta varðar tengjast veiðibúnaði á fiskiskipum, t.d. spilum, vindum, toggálgum og blökkum. Því er mikilvægt að staðið sé eins vel að þess konar viðgerðum og kostur er á.

Um 8. gr.


    1. mgr. er efnislega samhljóða 1., 2. og 1. málsl. 3. mgr. 20. gr. gildandi laga, en nokkuð einfölduð.
     Greinin gildir um skip sem flutt eru til landsins fullsmíðuð. Láti íslenskur aðili smíða skip erlendis eða kaupi slíkt skip í smíðum gilda ákvæði 6. gr. frumvarpsins.
     Lagaákvæði um hámarksaldur innfluttra skipa var upphaflega sett að gefnu tilefni í lok kreppunnar. Í greinargerð með þessu ákvæði laga nr. 78/1938 segir svo:
     „Að undanförnu hefir verið keypt nokkuð af gömlum skipum til landsins, og hefir það í flestum tilfellum orðið til efnalegs tjóns. Ekki þótti þó fært að fella niður þær undanþágur, sem fólust í eldri lögum, en hins vegar bætt inn í greinina ákvæði um það, að banna að kaupa til landsins eldri skip en 12 ára. Sams konar ákvæði hafa aðrar þjóðir í sinni löggjöf.“
     Mikið hefur breyst síðan þetta lagaákvæði var fyrst lögfest. Á þessum tíma voru skrokkar skipa almennt „hnoðaðir“ en eru nú rafsoðnir, skipastál var ákaflega lélegt í samanburði við skipastál síðustu áratuga og því endingarlítið. Hjúpun og endingargildi skipshluta hefur tekið stórfelldum framförum, enn fremur vélar og búnaður skipa. Samkvæmt upplýsingum frá Lloyds Register of Shipping er núverandi meðalaldur kaupskipaflota heimsins u.þ.b. 16 ár og er talið fyrirsjáanlegt að hann muni hækka nokkuð enn á næstu árum. Almennar viðmiðanir um líftíma kaupskipa hafa hækkað á sama tíma úr 20 í 25 til 30 ár. Sambærilegar tölur fyrir fiskiskip sýna svipaða þróun.
     Í Noregi er hámarksaldur innfluttra skipa 20 ár, en engar reglur gilda um þetta í Danmörku og Svíþjóð. Í fyrirliggjandi tillögum Efnahagsbandalags Evrópu um sameiginlega skráningu kaupskipa allra bandalagsríkjanna er miðað við 20 ára hámarksaldur við innflutning skipa.
     Í ljósi ofanritaðs leggur nefndin til að aldurshámark allra skipa verði hækkað úr 12 árum í 15 ár í samræmi við þróun í smíði, búnaði og endurbyggingu skipa. Ástæðan fyrir þessari breytingu er m.a. sú að 12 ára skip eru almennt í mun betra ástandi nú en slík skip voru þegar þetta ákvæði var upphaflega sett.
     Þessu til viðbótar er heimildarákvæði fyrir Siglingamálastofnun um innflutning kaupskipa ákveðinnar stærðar, dýpkunarskipa og rannsóknaskipa allt að 21 árs. Kaupskip eru undantekningarlaust flokkuð hjá alþjóðlegum flokkunarfélögum sem gera kröfur um viðhald og skoðun þeirra samkvæmt alþjóðlega samræmdum stöðlum. Einnig eru reglur um búnað og öryggi kaupskipa samræmdar alþjóðlega og í meginatriðum þær sömu hérlendis og erlendis. Ekki eru til slíkar alþjóðlega samræmdar reglur um búnað og öryggi fiskiskipa.
     Að lokum er lagt til að reglan um hámarksaldur innfluttra skipa gildi ekki um skemmtiskip sem eingöngu eru ætluð til einkanota. Þessi skip verða þó að fullnægja reglum um smíði og búnað skemmtibáta.

Um III. kafla.


     Um efni þessa kafla er nú fjallað í II., III. og IV. kafla gildandi laga. Ákvæðum er þó
skipað á annan hátt hér og leitast við að gera ákvæðin skýrari og raða þeim upp í eðlilega tímaröð.

Um 9. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 3. gr. gildandi laga, en hér er lagt til að yfirvélstjórum verði bætt í hóp þeirra sem ábyrgð bera á að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram. Er það m.a. gert til samræmis við 53. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, þar sem segir að yfirvélstjóri beri ábyrgð á fyrirskipuðum skoðunum og eftirliti á vélbúnaði skipsins.

Um 10. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 8. og 9. gr. gildandi laga. Hér er þó bætt inn heimild siglingamálastjóra til að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunar að fengnu samþykki ráðherra. Hér er m.a. átt við skoðun á einstaka búnaði skips, t.d. gúmmíbjörgunarbátum, sleppibúnaði björgunarbáta, slökkvitækjum o.s.frv. Heimildin nær einnig til skoðunar alþjóðlegra flokkunarfélaga samkvæmt alþjóðasamþykktum.

Um 11. gr.


    Greinin kveður á um hvenær aðalskoðun á að fara fram.
     2. mgr. um heimild til frestunar aðalskoðunar á t.d. við þegar skoðun verður ekki við komið af tæknilegum ástæðum og ekki er ástæða til að ætla að skip sé ekki haffært. Siglingamálastjóra er einnig heimilað að fela slíka framlengingu öðrum opinberum aðila hverju sinni. Hér er fyrst og fremst átt við sýslumenn og bæjarfógeta, sendiráð og ræðismenn.
     3. mgr. er samhljóða 1. mgr. 11. gr. gildandi laga en bætt er inn „og áhafnar“.
     4. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 11. gr. gildandi laga en leiðrétt rangmæli þar sem segir að skoðun fari fram til endurnýjunar á flokkun. Flokkun er ótímabundin, en með skilyrðum um ákveðnar skoðanir til að halda þeim í gildi. Skoðunin fer því fram til viðhalds flokkuninni.

Um 12. gr.


    Um aukaskoðun er fjallað í 14. gr. gildandi laga, en þessi grein er nokkuð frábrugðin.
     Samkvæmt 1. tölul. skal aukaskoðun fara fram á skipi þegar það hefur verið til viðgerðar vegna atriða sem varða öryggi skips og/eða áhafnar, en í gildandi lögum er einungis rætt um viðgerð. Hér er t.d. átt við viðgerð á veiðarfærabúnaði og togbúnaði, en hér mun mat skipstjóra ráða mestu um hvenær þörf er á aukaskoðun samkvæmt þessum tölulið.
     2. tölul. Aðilar, sem krafist geta aukaskoðunar, eru þeir sömu og í gildandi lögum, með tveimur frávikum, vélstjóri verður yfirvélstjóri og einstakir skipverjar eða stjórn stéttarfélags þeirra verður meiri hluti skipverja eða stjórn stéttarfélags.
     Sú breyting er gerð á 3. tölul. að mat á því hvort annars sé ástæða til aukaskoðunar er lagt í hendur Siglingamálastofnunar ríkisins.

Um 13. gr.


    1. mgr. er nýmæli. Hér er í fyrsta sinn gerð tilraun til skilgreiningar á skyndiskoðun og er hún í samræmi við framkvæmd Siglingamálastofnunar á skyndiskoðunum.
     2. mgr. er í samræmi við 2. mgr. 9. gr. gildandi laga um Siglingamálastofnun ríkisins og getur Siglingamálastofnun ríkisins óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslu Íslands við framkvæmd skyndiskoðunar eins og gert hefur verið.

Um 14. gr.


    Hér er um verulega breytingu að ræða frá 16. gr. gildandi laga sem fjallar um sama efni. Samkvæmt þeirri grein má skjóta ágreiningi um skoðun til farbannsnefndar.
     Hér er lagt til að skipuð verði sérstök farbannsnefnd sem úrskurðar í slíkum málum. Úrskurð hennar má síðan kæra til dómstóla. Nánar verður fjallað um farbannsnefnd í athugasemdum með 26. og 27. gr.

Um 15. gr.


    1. mgr. er í samræmi við 12. gr. gildandi laga, en þar er talað um að skoðun hafi leitt í ljós að skip sé haffært. Í haffæri skipa felst ýmislegt annað en skoðað er, t.d. hvort skipshöfn sé áfátt. Því hljóðar greinin á þá leið að skoðun hafi leitt í ljós að ákvæðum laga og reglna um smíði og búnað sé fullnægt. Í greininni er nýmæli um önnur jafngild skírteini samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykkta eftir því sem við á. Jafngild skírteini íslensks haffærisskírteinis á kaupskipum eru samkvæmt alþjóðasáttmálum öryggisbúnaðarskírteini, smíðaöryggisskírteini, öryggisfjarskiptaskírteini, hleðslumerkjaskírteini, mengunarvarnaskírteini o.s.frv.
    2. mgr., sem fjallar um haffærisskírteini, er að mestu samhljóða 1. mgr. 13. gr. gildandi laga, en lagt er til að skipaskrárnúmers og gildissviðs verði einnig getið á skírteininu.
     3. mgr. kveður á um gildistíma haffærisskírteinis. Meginreglan er sú að haffærisskírteini gildi í eitt ár. Heimilt er að gefa skírteini út til skemmri tíma en 1 árs, t.d. ef eigandi skips fær frest til að lagfæra ágalla. Gildistími getur einnig farið í 13 mánuði þegar sérstakar ástæður mæla með því. Ef haffærisskírteini rennur út þegar skip er á ferð skal því heimilt að ljúka ferðinni áður en skip er fært til skoðunar til endurnýjunar haffærisskírteinis. Þó mega ekki líða meira en 10 dagar frá því að skírteini rennur út og þar til skip tekur höfn.
     Í 4. mgr. er fækkað þeim tilvikum sem sýna ber haffærisskírteini sem kemur að sjálfsögðu ekki í veg fyrir að önnur lög kveði á um framvísun haffærisskírteinis. Hér er átt við tollafgreiðslur skips og greiðslu tryggingaiðgjalds skips. Enn fremur er einungis skylt að sýna haffærisskírteini við fyrstu árlegu skráningu á skip og er það í samræmi við ákvæði laga um lögskráningu. Bætt er inn heimild til handa Landhelgisgæslu Íslands til að krefjast haffærisskírteinis eða skoðunarvottorðs.
     5. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 15. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.


    Í grein þessari er að finna heildarákvæði um það hvenær skip telst óhaffært.
     Í fyrsta lagi telst skip óhaffært ef það hefur eigi gild skírteini þau sem greinin telur. Gildir þetta hvort sem skip er óhaffært (eigi öruggt til siglingar) í raun eða ekki.
     Í öðru lagi telst skip óhaffært ef það liggur dýpra en hleðslumerki þess leyfa samkvæmt alþjóðasamþykktum.
     Í þriðja lagi telst skip óhaffært ef svo er ástatt sem í 3. tölul. greinarinnar segir. Hér er tekinn af allur vafi um það að til þess að skip teljist óhaffært í merkingu 3. tölul. þarf skip að vera raunverulega óhaffært, þ.e. óhaffært í efnislegri merkingu. Hér yrði að athuga hvert tilvik fyrir sig hvort skipi eða skipshöfn stafi hætta af því að fara í ferð þá sem það skal fara eða er í.
     Sjóferð samkvæmt greininni er allur sá tími sem skipið er ekki bundið við bryggju eða legufæri.

Um 17. gr.


    1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 5. gr. gildandi laga, en orðalagsbreytingar eru nokkrar. Sama er að segja um 2. mgr., en hún er efnislega samhljóða 4. mgr. 5. gr.
     Rétt þótti að hafa þessi ákvæði í sömu grein, enda svipuð efnislega.

Um 18. gr.


    Þessi grein fjallar um hverjir annast eftirlitið og réttindi og skyldur starfsmanna Siglingamálastofnunar ríkisins við framkvæmd þessa eftirlits. Um skipulag Siglingamálastofnunar, hlutverk hennar, skipun starfsmanna og önnur atriði, sem að henni lúta, vísast til laga um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986. 1. mgr. greinarinnar er í samræmi við 2. tölul. 2. gr. laganna og 2., 3. og 6. mgr. greinarinnar eru samhljóða ákvæðum 9. gr. þeirra laga.
     Hér er lagt til að hluta af 6. gr. gildandi laga um eftirlit með skipum, sem fjallar um framkvæmd eftirlitsins, verði skipað annars staðar í frumvarpinu (heimild til skyndiskoðunar og bráðabirgðasviptingar haffærisskírteinis).
     Um efni síðustu málsgreinar er nú fjallað í 9. gr. laganna um Siglingamálastofnun, en hér er bætt inn almennri upplýsingaskyldu þargreindra aðila um ástand skipsins. Hér er fyrst og fremst átt við ef þessum aðilum er kunnugt um einhverja ágalla sem máli skipta, enda varði þeir atriði sem skoðun og eftirlit Siglingamálastofnunar beinist að.

Um 19. gr.


    Upplýsingaskylda sú, sem hér er um rætt, er lögfest í 7. gr. gildandi laga. Þó eru hér gerðar auknar kröfur til áreiðanleika upplýsinganna því þargreindir aðilar þurfa að hafa rökstuddan grun um brot gegn lögunum eða reglum, en samkvæmt gildandi lögum nægir að þeir verði varir við það eða telji sig hafa ástæðu til. Verður að telja þetta réttmæta og eðlilega breytingu þar sem afleiðingar slíkrar umkvörtunar, sem hér um ræðir, getur haft ýmislegt óhagræði í för með sér fyrir eigendur skips.

Um IV. kafla.


     Þessi kafli fjallar um hvenær farbann verður lagt á skip, hverjir hafa heimild til þess
og réttarúrræði þeirra sem telja farbann ekki á rökum reist. Ákvæði um farbann eru hér gerð skýrari og ótvíræðari en í gildandi lögum. Enn fremur er gerð sú veigamikla breyting að heimilt verður að kæra farbann til farbannsnefndar sem skipuð verður af ráðherra.
     Kaflinn er efnislega í samræmi við ákvæði dönsku laganna um öryggi skipa þó ýmsu sé breytt til samræmis við íslenska staðhætti og framkvæmd.

Um 20. gr.


    Í greininni er það nýmæli að heimilt er að leggja farbann á skip ef starfsmenn Siglingamálastofnunar eru hindraðir í störfum við framkvæmd eftirlits. Er það í samræmi við ákvæði dönsku laganna um öryggi skipa.

Um 21. gr.


    Samkvæmt greininni geta einungis siglingamálastjóri og þar til bærir starfmenn Siglingamálastofnunar lagt farbann á skip. Ákvörðun um farbann hefur ávallt alvarlegar afleiðingar fyrir rekstur skips og því er nauðsynlegt að hafa skýr ákvæði um hver hefur heimild til að leggja farbann á skip.

Um 22. gr.


    Greinin er efnislega samhljóða 3. mgr. 26. gr. gildandi laga. Nefndin taldi rétt að hafa áfram í lögum ákvæði um að tilkynna skuli skipstjóra og útgerðarmanni skriflega og rökstutt um farbann.

Um 23. gr.


    1. mgr. er nýmæli sem skýrir sig sjálft.
     2. mgr. mælir svo fyrir að farbann, sem þar til bærir starfsmenn Siglingamálastofnunar hafa lagt á, verður að bera undir siglingamálastjóra svo fljótt sem auðið er eins og fyrir er mælt í 21. gr. Kveður hann endanlega á um það af hálfu stofnunarinnar.

Um 24. gr.


    1. mgr. er nýmæli sem segir að útgerðarmaður og skipstjóri geti kært farbann til farbannsnefndar. Samkvæmt gildandi lögum er eingöngu heimilt að kæra farbann til siglingadóms og er dómur hans hér að lútandi endanlegur.
     Skipun farbannsnefndar er nýmæli en samkvæmt dönskum lögum er heimilt að kæra ákvörðun Siglingamálastofnunar til „tilbageholdelsesnævn“. Ákvæði frumvarpsins um skipan nefndarinnar og verkefni eru í samræmi við hliðstæð ákvæði í dönsku lögunum.
     Ákvörðun um farbann er ráðstöfun sem getur haft miklar fjárhagslegar afleiðingar og því er nauðsynlegt að skorið verði úr um gildi farbanns svo fljótt sem auðið er. Um þessar mundir er ákvörðun Siglingamálastofnunar kæranleg til siglingadóms eins og áður segir. Það leiðir af eðli dómstóla og lagaákvæðum sem um þá gilda að meðferð mála er ítarlegri og seinlegri en hjá stjórnskipuðum nefndum. Samsetning nefndarinnar ætti að tryggja bæði hlutlægni og fagleg vinnubrögð, en nánari reglur um starfsemi nefndarinnar verða settar af ráðherra.
     Úrskurði nefndarinnar verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

Um 25. gr.


    Hér eru talin upp verkefni farbannsnefndar.
     Í 2. mgr. er tekið fram að kæra til æðri dómstóls fresti ekki réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar.

Um V. kafla.


     Hér er lagt til að siglingadómur verði niður lagður. Lagt er til að mál, sem áður heyrðu
undir siglingadóm, verði þess í stað rekin fyrir almennum dómstólum.
     Frá gildistöku laga nr. 52/1970 hafa fá mál borist til siglingadóms og mjög dregið úr hlutverki hans. Flest málin eru opinber mál sem ríkissaksóknari hefur höfðað fyrir dóminum. Árið 1973 hafði aðeins eitt mál varðandi skoðun á skipum komið til kasta dómstólsins frá upphafi hans árið 1947 og ekkert um farbann. Nú munu fáein mál varðandi skoðun hafa borist dómstólnum til viðbótar og eitt eða tvö mál um farbann hafa verið þar til meðferðar.
    Sú stefna hefur verið mörkuð í dómskerfinu að færa málarekstur frá sérdómstólum til almennra dómstóla, enda er það í samræmi við þær breytingar sem verið er að gera á réttarfarslöggjöfinni og taka munu gildi um mitt árið 1992. Það hefur lengi verið skoðun íslenskra og erlendra réttarfarsfræðinga að fella eigi niður sem flest lagaákvæði um sérstaka dómsmeðferð ákveðinna málaflokka. Almennu dómstólarnir eru að mati sérfræðinganna vel færir um að gegna ofangreindum hlutverkum. Byggist það á því að þeir eru frjálsir að því hvaða sérfróða meðdómendur þeir velja og geta því valið meðdómendur sem hafa til að bera þá sérkunnáttu sem nauðsynleg er í hverju einstöku tilfelli. Aukin sérhæfing gerir það að verkum að fastir meðdómendur hafa á tíðum ekki til að bera þá sérfræði sem nauðsynleg er til lausnar ákveðnu máli.

Um 26. og 27. gr.


    Hér er lagt til að um refsimál fari að hætti opinberra mála og um farbannsmál að hætti einkamála, sbr. skýringar við V. kafla hér að framan.

Um 28. gr.


    Um gjöld er fjallað í 34. gr. en grein þessi er talsvert frábrugðin.
     Í fyrsta lagi er hér lagt til að lögfest verði ákvæði um árlegt skipagjald. Þetta er gjald, nokkurs konar skattur, og er lagt á öll skip sem skráð eru hér á landi án tillits til notkunar. Í gjaldinu er falin árleg skoðun, enda hefur gjald þetta áður verið nefnt skoðunargjald. Það hefur aftur á móti gefið tilefni til misskilnings og hafa þeir sem eiga skip sem ekki er í notkun ekki talið sér skylt að greiða gjaldið. Hér eru tekin af öll tvímæli um þetta atriði.
     Í öðru lagi er ráðherra heimilað að setja reglugerð um gjald fyrir skoðun og þjónustu sem aðrir þar til bærir aðilar framkvæma.
     Ákvæði 35. gr. gildandi laga fjallar um að gjaldandi geti kært til siglingamálastjóra telji hann gjald ranglega krafið. Nefndin telur að reikningur, sem stofnunin gefur út, sé með samþykki siglingamálastjóra og því sé kæruréttur til hans óeðlilegur. Gjaldandi getur hins vegar kært til ráðuneytisins og að sjálfsögðu til almennra dómstóla.
     Um greiðslu lestagjalds er fjallað í hafnalögum, nr. 69/1984, og í gjaldskrá fyrir hafnir.

Um 29. gr.


    Refsiákvæðin eru rúm og því mikið mat á hæð refsingar lagt á vald dómstólanna. Er slíkt óhjákvæmilegt þar sem um svo margvísleg og misjöfn brot er að ræða.
     Lagt er til að felld verði niður upptalning á þeim sem taldir eru brjóta gegn lögunum, enda erfitt að hafa slíka upptalningu tæmandi.

Um 30. gr.


    Samhljóða 37. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringar.

Um 31. gr.


    Efnislega samhljóða 38. gr. gildandi laga.

Um 32. gr.


    Hér eru þær breytingar helstar frá gildandi lögum að skýrt er kveðið á um að dómari skuli tilkynna öllum lögreglustjórum á landinu um réttindasviptingu og réttindaskírteini skal afhent samgönguráðuneytinu. Samkvæmt siglingalögum skal hlutaðeigandi dómstóll senda samgönguráðuneytinu skírteini og er þessi breyting til samræmis við það.
     3. mgr. um endurveitingu réttinda í samræmi við 1. mgr. 40. gr. gildandi laga. Lagt er til að felld verði niður 2. mgr. 40. gr. sem kveður á um að endurveiting réttinda sé því aðeins heimil að siglingamálastjóri og siglingadómur mæli með því. Þetta skilyrði er ekki að finna í siglingalögum og er talið rétt að samræmi sé milli laganna um þetta atriði.

Um 33. gr.


    Um þetta efni er fjallað í 41. gr. gildandi laga.
     Hér er lagt til að dómari hafi um það vald til að ákveða hvort sektum fyrir brot gegn lögunum fylgi lögveð í skipi, en í gildandi lögum er fortakslaust ákvæði um að svo skuli vera. Upphaflega hugsunin bak við ákvæðið var sú að brot sé venjulega drýgt eigendum skips til hagnaðar og oft með vitund þeirra án þess að sannað sé. Því þótti eðlilegt að tjón félli á þá. Nefndin telur slíka fortakslausa reglu ekki sanngjarna því brotamaður þarf ekki að vera eigandi né þarf eigandi að hagnast nokkuð af broti, t.d. þegar skipasmíðastöð brýtur gegn lögunum.
    Lagt er til að 3. mgr. gildandi laga um að við ákvörðun sekta skuli hafa hliðsjón af efnahag skuldunautar verði fellt niður.

Um 34. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 35. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um eftirlit með skipum.


    Með frumvarpi þessu eru lög nr. 20/1986, um eftirlit með skipum, og 9. gr. laga nr. 20/1986, um Siglingamálastofnun, numin úr gildi og ný heildarlöggjöf sett um þennan málaflokk.
     Ekki verður séð að frumvarpið feli í sér teljandi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.