Ferill 239. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 239 . mál.


308. Frumvarp til laga



um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Samgönguráðherra skal heimilt að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma, þó eldri sé en 12 ára, skv. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 51/1987, um eftirlit með skipum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 21. gr. laga um eftirlit með skipum, nr. 51/1987, er óheimilt að flytja inn skip sem eru eldri en 12 ára. Engin undanþáguheimild er í lögunum frá þessu ákvæði og þarfnast innflutningur skipa eldri en 12 ára og skráning þeirra hér á landi því sérstakrar lagaheimildar. Réttlætanlegt getur verið að víkja frá þessu aldurshámarki í sérstökum tilvikum, t.d. vegna skipa sérstakrar gerðar eða skipa sem nota á í ákveðin afmörkuð verkefni. Fordæmi eru fyrir slíku, t.d. lög nr. 27/1989, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum.
     Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um eftirlit með skipum þar sem aldurshámarkið er almennt hækkað í 15 ár, en „Siglingamálastofnun ríkisins getur þó heimilað innflutning eldri skipa, ef um er að ræða vöruflutningaskip, stærri en 500 bt., dýpkunarskip og rannsóknaskip, enda séu þau ekki eldri en 20 ára“. Vísast til frumvarps um rökstuðning fyrir þessari breytingu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gröfupramminn, sem hér er óskað eftir heimild til að flytja inn, er smíðaður árið 1970 og því 22 ára. Pramminn er kominn til landsins og hefur verið skoðaður af Siglingamálastofnun ríkisins sem hefur gengið úr skugga um að hann fullnægi íslenskum reglum um gerð og búnað að undangengnum smávægilegum viðgerðum. Pramminn verður notaður vegna framkvæmda við holræsaútrásir fyrir Reykjavíkurborg.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga


um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa


Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma.



    Í lögum nr. 51/1987, um eftirlit með skipum, er kveðið á um að ekki megi flytja inn
skip sem er 12 ára eða eldra. Með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Ekki verður séð að það verði kostnaðarauki fyrir ríkissjóð.