Ferill 219. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 219 . mál.


316. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur um verkmenntun í framhaldsskólum.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
    Hyggst menntamálaráðherra efla þátt verkmenntunar í framhaldsskólakerfinu og auka jafnframt tengsl verkmenntakennslu og atvinnulífsins?

    Óhætt er að svara þessari spurningu játandi. Bent er á að í erindisbréfi nefndar um mótun menntastefnu og endurskoðun á lögum um grunn- og framhaldsskóla er nefndinni falið að hafa eftirfarandi til hliðsjónar:
    „Hvers konar fyrirkomulag hentar best á verknámi. Sérstaklega skal athugað hvort rétt sé að einstakir skólar verði móðurskólar á mismunandi sviðum. Einnig skal kannað hvernig samstarfi við atvinnulífið verði best háttað og hvort atvinnulífið og einstakar atvinnugreinar geti tekið við einstökum verklegum þáttum kennslu á meðan bóklegt nám verði áfram innan skólanna.“
    Á undanförnum árum hefur verklegt nám átt undir högg að sækja í skólakerfinu. Mikilvægt er að ráða á því bót. Nefnd um mótun menntastefnu er m.a. að athuga hvernig efla megi þátt verkmenntunar í framhaldsskólakerfinu og gera verklegt nám og starfsnám að raunhæfum kosti fyrir breiðari hóp nemenda en nú er. Í þessu efni þarf að mörgu að huga áður en ákveðin stefnumörkun liggur fyrir.
    Í þessu sambandi má benda á nauðsyn þess að atvinnulífið verði mun virkara við skipulagningu verklegs náms á framhaldsskólastigi og taki jafnvel á sig hluta kennslu þar sem við á.
    Þetta ásamt ýmsu öðru er nú í umfjöllun hjá nefndinni en hún hefur enn ekki lokið störfum og mun að líkindum ekki skila endanlegri skýrslu um tilhögun náms á grunn- og framhaldsskólastigi fyrr en í vor.