Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 150 . mál.


381. Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um lyfjakistur um borð í skipum.

    Hvernig er reglum um lyfjakistur um borð í skipum háttað með tilliti til deyfilyfja?
    Reglugerð um lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum er frá 29. mars 1989.
    Í skipum 130 brl. og stærri eru róandi lyf og verkjastillandi lyf eftirlitsskyld, bæði sem stungulyf og í föstu formi sem ætluð eru til notkunar í samráði við lækni ef slys verður.
    Í skipum minni en 130 brl. eru ekki róandi lyf. Nýlega hefur verið ákveðið í samráði við landlækni og Lyfjaeftirlit ríkisins að leyfa skipstjórum á skipum undir 130 brl. sem þess óska að hafa róandi og verkjastillandi lyf, petidín-stungulyf, í skipum sínum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Er það gert í samræmi við 10. gr. reglna frá 29. mars 1989. Þessi lyf eru ekki geymd í björgunarbátum.

    Hyggst samgönguráðherra láta fara fram endurskoðun á reglugerð um lyfjakistur um borð í skipum?
    Ég tel að með þeirri ráðstöfun sem greint er frá í svari við fyrri spurningu sé bætt úr framkvæmd reglugerðar um lyf og að ekki sé frekari aðgerða þörf. Lyfjakistur íslenskra skipa uppfylla kröfur á grundvelli EES-samningsins.
    Aðeins er um að ræða örfá tilvik þar sem til greina hefði komið að nota róandi lyf vegna slysa í minni skipum, innan við eitt tilvik á ári, enda eru þessi skip almennt nærri landi og stutt til hafnar.
    Fram til 1984 voru róandi lyf í gúmmíbátum skipa. Þess voru þó engin dæmi að þau væru notuð vegna slysa. Á sama tíma voru þess fjölmörg dæmi á hverju ári að brotist væri inn í skipin og gúmmíbátar skornir í sundur og fleiri spjöll unnin við leit að lyfjum. Í nokkrum tilvikum varð áhöfn skips ekki vör við skemmdarverk á björgunartækjum fyrr en komið var á haf út.