Ferill 284. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 284 . mál.


502. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Um þrjátíu ára skeið hefur aðstöðugjald verið einn gildasti tekjustofn sveitarfélaga. Allt fram til ársins 1990 var lögbundið mismunandi hámark gjaldsins eftir atvinnugreinum. Þrátt fyrir lagabreytinguna hefur flokkun aðstöðugjaldsins haldist í meginatriðum. Ókostir aðstöðugjaldsins hafa verið mismunandi skattlagning milli atvinnugreina, mismunun milli sveitarfélaga og uppsöfnuð áhrif gjaldsins í verðlagi.
    Minni hluti nefndarinnar er samþykkur því að fella niður aðstöðugjöld á öllum atvinnugreinum, enda muni nýr tekjustofn sveitarfélaga ekki fela í sér áðurgreinda ókosti.
    Ekki liggur fyrir hvaða tekjustofna sveitarfélögin fá í stað aðstöðugjaldsins og er málið því ekki fullunnið. Tekið er fram að með stuðningi við afnám aðstöðugjaldsins er minni hluti nefndarinnar ekki að fallast á þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið til bráðabirgða.
    Að fengnum upplýsingum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir minni hlutinn ekki athugasemd við það hlutfall af álögðu aðstöðugjaldi sem sveitarfélögin skulu fá greitt með sérstöku framlagi úr ríkissjóði, en tekur fram að ekki liggja fyrir upplýsingar um innheimtu aðstöðugjalds á undanförnum árum sundurliðað eftir sveitarfélögum.
    Hvað varðar landsútsvar bendir minni hlutinn á að vafi leikur á að það standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að viðhalda því eftir að aðstöðugjald hefur verið fellt niður.
    Ekki gafst tími til að afla lögfræðilegra álitsgerða um þetta efni og telur minni hlutinn óráðlegt að viðhalda landsútsvari í ljósi þess vafa. Þá tekur minni hlutinn undir gagnrýni Sambands íslenskra sveitarfélaga á ríkisstjórnina fyrir skerðingu á framlagi ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sbr. bráðabirgðaákvæði IV í frumvarpinu, og telur það ámælisvert af stjórnvöldum að rjúfa þannig nýgert samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga. Slíkt framferði eykur ekki traust sveitarfélaga á núverandi ríkisstjórn og var þó ekki á bætandi.
    Niðurstaða minni hlutans er að hann mun styðja ákvæði til bráðabirgða I og II, sitja hjá við ákvæði III og leggjast gegn ákvæði IV í frumvarpinu.
    Birt eru sem fylgiskjöl með áliti þessu umsögn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, ályktun Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 7. desember 1992 og bréf Vinnuveitendasambands Íslands frá 3. desember 1992.

Alþingi, 17. des. 1992.



Kristinn H. Gunnarsson,

Jón Kristjánsson.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


frsm.



Sigurður Þórólfsson.






Fylgiskjal I.


Umsögn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Efnahags- og viðskiptanefnd hefur fengið til umsagnar frá félagsmálanefnd frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga sem fjallar um niðurfellingu aðstöðugjalds. Undirritaðir fulltrúar minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru samþykkir því að aðstöðugjaldið verði fellt niður. Almenn samstaða hefur náðst um það í þjóðfélaginu að þessi tekjustofn sé ranglátur og niðurfelling gjaldsins muni örva atvinnulífið og stuðla að lækkuðu vöruverði. Með niðurfellingu aðstöðugjaldsins eru jöfnuð samkeppnisskilyrði íslenskra atvinnuvega við erlenda samkeppnisaðila. Aðstöðugjaldið hefur auk þess komið misjafnlega við einstakar atvinnugreinar og valdið mismunun.
    Uppruna aðstöðugjalds sveitarfélaga má rekja til veltuútsvars. Veltuútsvarið var mismunandi hátt og þess vegna var ákveðið að setja lögbundið hámark með lögum nr. 43 1960. Með lögunum var ákveðið að hámarksálagning veltuútsvars væri 3% fyrir Reykjavík, en utan Reykjavíkur var 3% hámark fyrir t.d. olíuverslun, kvikmyndahús og sælgætisgerðir og 2% hámark fyrir t.d. annan iðnað og verslun. Aðstöðugjald var fyrst lagt á með lögum nr. 69 frá 1962, um tekjustofna sveitarfélaga. Þau lög komu í stað laga um tekjuútsvar frá 1960.
    Grundvallaratriði þessara laga var að koma á tekjustofni fyrir sveitarfélögin í stað veltuútsvarsins en það þótti sanngjarnt að fyrirtækin greiddu fyrir þá aðstöðu sem þau fengju hjá sveitarfélögunum. Hámark aðstöðugjaldsins hefur verið mismunandi frá því að lögin tóku fyrst gildi 1962. Mismunandi aðstöðugjald á rætur sínar að rekja til þess að efnahagslífið var með allt öðrum hætti þegar gjaldið var fyrst lagt á. Sjávarútvegurinn skapaði nær allar gjaldeyristekjur og flestar aðrar atvinnugreinar voru verndaðar með háum tollum og aðflutningsgjöldum. Við breyttar aðstæður var ákveðið að jafna aðstöðugjaldið meira með tilliti til vaxandi alþjóðlegrar samkeppni og opnara hagkerfis.
    Miðað við forsögu málsins og þess vilja löggjafans að jafna samkeppnisskilyrði atvinnuveganna við erlenda keppinauta telur minni hluti nefndarinnar nauðsynlegt að fella niður aðstöðugjöld á öllum atvinnugreinum. Tekið skal fram að þar með er ekki verið að fallast á þá leið sem ríkisstjórnin hefur valið til að afla fjár til að mæta niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Um afstöðu minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar vísast í því sambandi í nefndarálit um „skattorm“ ríkisstjórnarinnar.
    Meiri hluti nefndarinnar hefur ekki fallist á að fella niður landsútsvar með samsvarandi hætti og aðstöðugjald. Landsútsvarið er sami skatturinn sem leggst á tiltekin fyrirtæki. Að mati minni hlutans ríkir mikill vafi um það hvort slík mismunun samrýmist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
    Verði samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði að veruleika mun hagkerfið opnast mun meira en áður og því eru engin rök sem mæla með því að viðhalda landsútsvarinu. Með því tekur ríkisstjórnin mikla áhættu en fyrirtækin hafa ákveðið að sækja rétt sinn með málaferlum.
    Varðandi frekari rökstuðning vill minni hluti nefndarinnar vitna til meðfylgjandi bréfs Vinnuveitendasambands Íslands dags. 3. desember 1992. Þeir aðilar, sem komu til viðtals við nefndina, tóku allir undir þau rök sem þar koma fram. Jafnframt er rétt að benda á bréf Íslenska járnblendifélagsins til fjármálaráðuneytisins, en þar kemur fram að það er samningsbrot að viðhalda aðstöðugjaldinu á fyrirtækið.
    Þrátt fyrir öll þessi rök sýndi ríkisstjórnin engan vilja til að leiðrétta þau mistök sem virðast hafa átt sér stað. Það er lýsandi dæmi fyrir vinnubrögð undanfarinna vikna að fljótræði og skyndiákvarðanir ráða ferðinni. Skattar eru rökstuddir sem sálfræðileg aðgerð, en skynsemin og tekjuöflunarþörfin ræður minna. Vel má vera að hin sálfræðilegu áhrif þeirrar mismununar, sem kemur hér fram, verði einhver, en verulegar líkur eru á að ríkisstjórnin tapi þeim ímyndaða ávinningi í kostnaðarsömum málaferlum. Það er ekki hægt að styðja slík vinnubrögð og því leggur minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að landsútsvarið verði jafnframt fellt niður.

Alþingi, 17. des. 1992.



Halldór Ásgrímsson.


Steingrímur J. Sigfússon.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


Kristín Ástgeirsdóttir.




Fylgiskjal II.



Sameiginleg ályktun stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga og stjórnar Sambands


íslenskra sveitarfélaga um áform ríkisstjórnarinnar um skerðingu


á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.


(7. desember 1992).



    Stjórnir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga mótmæla harðlega áformum ríkisstjórnarinnar sem koma fram í frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga, en þar er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skerðist á næsta ári um 110 millj. kr. sem felur í sér að framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga fellur niður á árinu 1993.
    Í því felst afdrifarík breyting á fjármálalegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem ákveðin er einhliða af ríkisstjórninni og án alls samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga þrátt fyrir nýundirritað samkomulag um að allar slíkar tillögur skuli teknar til umfjöllunar af aðilum sameiginlega.
    Stjórnirnar geta ekki fallist á að lögbundið framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sé skert með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Minnt er á að nýverið hafa sveitarfélögin gert samkomulag við ríkisvaldið um 500 millj. kr. greiðslu í Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári og átt þátt í því að móta reglur um hvernig niðurfelling aðstöðugjalds yrði bætt sveitarfélögunum á árinu 1993. Í þeim viðræðum kom fram að á næsta fjárlagaári yrði ekki gert ráð fyrir öðrum breytingum á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.
    Stjórnir Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga vara ríkisstjórnina alvarlega við því að breyta einhliða reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga án formlegs samráðs við Samband íslenskra sveitarfélaga og óska nú þegar eftir viðræðum við fulltrúa ríkisstjórnarinnar um þetta mál.

F.h. stjórnar Lánasjóðs sveitarfélaga og


Sambands íslenskra sveitarfélaga.



Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.


Fylgiskjal III.


Bréf Vinnuveitendasambands Íslands til fjármálaráðherra.


(3. desember 1992.)



    Vinnuveitendasamband Íslands vill fyrir reglu sakir minna á að við afnám aðstöðugjalds frá 1. janúar nk. er einnig nauðsynlegt að fella úr lögum ákvæði um álagningu sams konar veltuskatts, sem innheimtur hefur verið undir nafninu landsútsvar, af rekstri nokkurra tiltekinna atvinnufyrirtækja. Hér er í reynd um nákvæmlega sama skattinn að ræða, en sökum þess að starfsemi umræddra fyrirtækja þykir ekki jafnbundin einu sveitarfélagi og almennt gerist um fyrirtæki ákvað löggjafinn að ráðstafa aðstöðugjaldi af starfsemi þeirra í þágu sveitarfélaganna almennt, en ekki þess sveitarfélags eins sem nyti þess að hafa höfuðstöðvar viðkomandi fyrirtækis.
    Í samræmi við ráðstöfun þessa aðstöðugjalds í þágu allra sveitarfélaga í landinu var því gefið annað heiti, landsútsvar, en að efni og eðli til er hér um sama gjald að ræða og aðstöðugjald sem önnur fyrirtæki greiða.
    Á árinu 1991 greiddu umrædd fyrirtæki landsútsvar sem hér segir (í millj. kr.):

    ÁTVR     
303,5

    Áburðarverksmiðja ríkisins     
15,1

    Sementsverksmiðja ríkisins     
10,0

    Sala varnarliðseigna     
1,3

    Íslenska járnblendifélagið     
13,1

    Olíufélögin     
127,5

    Bankar og sparisjóðir     
111,1

    Samtals     
581,6


    Af framangreindri upptalningu sést að landsútsvar skilar opinberum aðilum um 580 millj. kr. Vafasamt er að telja að lækkun landsútsvars á rekstur ÁTVR feli í sér einhverja breytingu á tekjuöflun hins opinbera og leiðir niðurfelling landsútsvars því til tekjutaps sem svarar um 280 millj. kr.
    Vinnuveitendasambandið hefur talið ótvírætt að niðurfelling veltuskattsins, aðstöðugjalds eða landsútsvars hlyti að gilda um öll fyrirtæki og telur fráleitt að til álita geti komið að halda uppi slíkri sértækri skattheimtu á rekstur fáeinna tiltekinna fyrirtækja. Álagning aðstöðugjalds/landsútsvars á þessi örfáu fyrirtæki bryti svo gróflega í bága við viðurkenndar jafnræðisreglur að það fengi með engu móti staðist. Það hefði sömu óheppilegu áhrifin á atvinnustarfsemina, skerti samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á umræddum sviðum og ylli hærri kostnaði við þá þjónustu og framleiðslu sem umrædd fyrirtæki stunda. Er í þessu sambandi sérstaklega minnt á brýna þörf á að styrkja samkeppnishæfni íslenska bankakerfisins með lækkun rekstrarkostnaðar og þar af leiðandi lækkun vaxtamunar. Afnám aðstöðugjalds/landsútsvars af starfsemi banka og sparisjóða er þannig ein af forsendum fyrir lækkun vaxta og styrkari stoðum innlendra fjármálafyrirtækja á opnum markaði EES.
    Vinnuveitendasambandið væntir þess því fastlega að landsútsvar verði fellt niður frá næstu áramótum að telja eins og aðstöðugjaldið að öðru leyti.

Virðingarfyllst,



Þórarinn V. Þórarinsson.