Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 529, 116. löggjafarþing 226. mál: atvinnuleysistryggingar (verkefnastyrkir til sveitarfélaga 1993).
Lög nr. 107 23. desember 1992.

Lög um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem verður IV, svohljóðandi:
     Á árinu 1993 skulu sveitarfélög greiða 500 m.kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Sveitarfélög með 300 íbúa eða fleiri greiði 1.950 kr. fyrir hvern íbúa en sveitarfélög með færri en 300 íbúa greiði 1.170 kr. á hvern íbúa. Miða skal við íbúafjölda 1. desember 1992. Um innheimtu gjaldsins skal fjármálaráðherra setja reglugerð.
     Þrátt fyrir ákvæði 47. gr. skal stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt á árinu 1993 að gera tillögur um ráðstöfun á þessu fjármagni til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífs, enda dragi samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á hverjum stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga skulu taka sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs þegar styrkumsóknir eru teknar til umfjöllunar og afgreiðslu. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingar skulu staðfestar af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1992.