Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 326 . mál.


596. Frumvarp til skaðabótalaga



(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1993.)



I. KAFLI


Bætur fyrir líkamstjón.


Líkamstjón sem veldur ekki dauða.


1. gr.


    Sá sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni skal greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur.
    Ef líkamstjón hefur varanlegar afleiðingar skal einnig greiða bætur fyrir miska og bætur fyrir örorku, þ.e. varanlegan missi eða skerðingu á getu til að afla vinnutekna.
    Verðmæti vinnu við heimilisstörf skal lagt að jöfnu við launatekjur, sbr. 2. gr., 2. mgr. 7. gr. og 8. gr.

Tímabundið atvinnutjón.


2. gr.


    Bætur fyrir atvinnutjón skal ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli getur hafið vinnu að nýju eða þar til ekki er að vænta frekari bata.
    Frá skaðabótum skal draga laun í veikinda- eða slysaforföllum, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur þegar greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær.

Þjáningar.


3. gr.


    Greiða skal þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til ekki er að vænta frekari bata, 1.300 kr. fyrir hvern dag sem tjónþoli er rúmfastur og 700 kr. fyrir hvern dag sem tjónþoli er veikur án þess að vera rúmliggjandi. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé ekki veikur. Nemi bætur meira en 200.000 kr. er heimilt að víkja frá fjárhæðum þeim sem greinir í 1. málsl.
    Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir ákvæðum 1., 3. og 4. málsl. 4. mgr. 5. gr.

Varanlegur miski

.

4. gr.


    Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er ákveðin skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Varanlegur miski skal metinn til stiga og skal miða við ástand tjónþola eins og það er þegar ekki er að vænta frekari bata. Þegar miski er metinn alger (100%) skulu bætur vera 4.000.000 kr. Við lægra miskastig lækkar fjárhæð þessi í réttu hlutfalli. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki meiri en 6.000.000 kr. Engar bætur skal greiða þegar varanlegur miski er metinn minni en 5%.
    Hafi tjónþoli verið 60 ára eða eldri þegar tjón varð lækka bætur sem ákveðnar eru eftir 1. mgr. um 5% fyrir hvert aldursár tjónþola umfram 59 ár. Bætur lækka þó ekki frekar eftir 69. aldursár tjónþola.
    Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir ákvæðum 1., 3. og 4. málsl. 4. mgr. 5. gr.

Varanleg örorka.


5. gr.


    Valdi líkamstjón, eftir að ekki er að vænta þess að tjónþoli nái frekari bata, varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna á tjónþoli rétt á bótum fyrir varanlega örorku.
    Þegar tjón vegna örorku er metið skal líta til þeirra kosta sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.
    Örorka tjónþola reiknast í hundraðshlutum (örorkustigum).
    Greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem almannatryggingum, lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu. Greiðslur frá samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega skulu þó dregnar frá skaðabótakröfu hans á hendur vinnuveitanda þeim sem slysatrygginguna keypti. Bætur frá slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum skal einnig draga frá skaðabótakröfu. Sama gildir um bætur frá sams konar slysatryggingu manns er slasast sem farþegi í eigin ökutæki.

6. gr.


    Bætur skal meta til fjárhæðar sem nemur 7,5-földum árslaunum tjónþola, sbr. 7. gr., margfölduðum með örorkustigi, sbr. 3. mgr. 5. gr.
    Bótafjárhæðin skal greidd í einu lagi.

7. gr.


    Árslaun teljast vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag er tjón varð.
    Árslaun skulu þó metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða atvinnuhögum.
    Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr.

8. gr.


    Bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skal ákvarða á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. Bætur skulu ákveðnar sem hundraðshluti af bótum fyrir varanlegan miska eftir reglum 1.–4. málsl. 1. mgr. 4. gr.
    Þegar miskastig er minna en 15% greiðast engar örorkubætur. Þegar miskastig er 15%, 18% eða 20% skulu örorkubætur vera 130%, 135% eða 140% af bótum fyrir varanlegan miska.
    Þegar miskastig er 25% eru örorkubætur 150% af bótum fyrir varanlegan miska. Þegar miskastig er 30%, 35%, 40%, 45% eða 50% skulu örorkubætur vera 160%, 170%, 180%, 190% eða 200% af bótum fyrir varanlegan miska.
    Þegar miskastig er 55% eru örorkubætur 225% af bótum fyrir varanlegan miska. Þegar miskastig er 60%, 65%, 70%, 75%, 80% eða 85% skulu örorkubætur vera 250%, 275%, 300%, 325%, 350% eða 375% af bótum fyrir varanlegan miska. Þegar miskastig er 90%, 95% eða 100% skulu örorkubætur vera 400% af bótum fyrir varanlegan miska.

9. gr.

    Ef tjónþoli var 26 ára eða eldri þegar tjón varð lækka örorkubætur skv. 6. og 8. gr. um 1% af bótafjárhæð, sem þar er ákveðin, fyrir hvert aldursár frá 26 til 45, um 2% fyrir hvert aldursár frá 46 til 55 og um 4% fyrir hvert aldursár frá 56 til 70.
    Ef ætla má að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann er orðinn fullra 70 ára að aldri má víkja frá reglu 1. mgr. að nokkru eða öllu.

Örorkunefnd.


10. gr.


    Tjónþoli eða sá sem ábyrgð ber á tjóni getur hvor um sig óskað álits um ákvörðun miskastigs og örorkustigs hjá örorkunefnd.
    Í örorkunefnd eiga sæti þrír menn sem skipaðir eru af dómsmálaráðherra til sex ára í senn. Skulu tveir nefndarmanna vera læknar, en einn lögfræðingur og er hann formaður nefndarinnar. Formaður skal fullnægja skilyrðum laga til að hljóta skipun í embætti hæstaréttardómara. Ráðherra skipar varamenn eftir sömu reglum og aðalmenn. Um hæfi nefndarmanna til að fara með mál skal fara eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara.
    Örorkunefnd skal semja töflur um miskastig.
    Ráðherra setur reglugerð um starfsháttu örorkunefndar. Í reglugerðinni skal m.a. vera heimild fyrir nefndina til þess að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar. Í reglugerð skal og kveða á um gjald fyrir matsgerðir sem nefndin gerir.

Endurupptaka.


11. gr.


    Að kröfu tjónþola er heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur. Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Ef mál er endurupptekið er heimilt að skjóta ákvörðun um miskastig eða örorkustig aftur til úrlausnar örorkunefndar, sbr. 10. gr.

Missir framfæranda o.fl.


12. gr.


    Sá sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns skal greiða hæfilegan útfararkostnað. Auk þess skal hann greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir tjón það er ætla má að af því leiði fyrir hann. Til framfærslu telst einnig verðmæti vinnu hins látna við heimilisstörf.
    Um greiðslur frá þriðja manni fer eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr.

Bætur til maka eða sambúðarmaka.


13. gr.


    Bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skulu vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5.–8. gr. Bætur skulu þó nema ekki minni fjárhæð en 3.000.000 kr. nema sérstaklega standi á.
    Hafi framfærandi verið orðinn 26 ára gamall lækka bætur eftir reglum 9. gr.

Bætur til barns.


14. gr.


    Bætur fyrir missi framfæranda til eftirlifandi barns, sem hinum látna var lögskylt að framfæra, skulu vera jafnháar heildarfjárhæð þeirra barnalífeyrisgreiðslna er barnið á rétt á eftir lögum um almannatryggingar frá því að tjón varð til 18 ára aldurs. Hafi hinn látni verið eini framfærandi barns hækka bætur um 100%.
    Reikna skal fjárhæð barnalífeyris eins og hann er við andlát framfæranda.

Verðlagsbreytingar.


15. gr.


    Fjárhæðir bóta, sem greindar eru í 3. gr., 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 7. gr. og 2. málsl. 1. mgr. 13. gr., breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Fjárhæð skal hverju sinni hækka eða lækka þannig að hún standi á heilu eða hálfu þúsundi króna. Bótafjárhæðir þær, sem greinir í 1. málsl. 3. gr., skulu þó hækka eða lækka svo að fjárhæð standi á heilum tug króna.
    Bætur skv. 1. mgr. skal ákveða á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð er ákveðin. Bætur fyrir varanlega örorku skal umreikna miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá því að tjón varð og þar til bótafjárhæð er ákveðin.

Vextir.


16. gr.


    Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda bera vexti frá því að tjón varð. Vextirnir skulu nema 2% á ári, en dómsmálaráðherra getur í samráði við Seðlabanka Íslands breytt vaxtafætinum. Ákvörðun um slíka breytingu skal gilda í a.m.k. tvö ár.
    Um dráttarvexti fer eftir reglum vaxtalaga.

Endurkrafa.


17. gr.


    Endurkrafa vegna greiðslu bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar verður ekki gerð á hendur þeim sem er skaðabótaskyldur. Sama á við um bótagreiðslur lífeyrissjóða eða vátrygginga og skiptir ekki máli hvers eðlis vátryggingin er, sbr. 2. mgr. 22. gr.
    Vinnuveitandi, sem greitt hefur slasaða eða þeim sem misst hefur framfæranda laun eða aðrar launatengdar greiðslur vegna líkamstjóns, getur krafið hinn skaðabótaskylda um endurgreiðslu að því marki sem vinnuveitandi hefur orðið fyrir fjártjóni vegna slíkra greiðslna.

Aðilaskipti að bótakröfu.


18. gr.


    Ekki er heimilt að framselja kröfu um bætur fyrir líkamstjón nema hún sé viðurkennd eða dæmd.
    Krafa um bætur fyrir þjáningar eða varanlegan miska erfist hafi hún verið viðurkennd, einkamál verið höfðað til heimtu hennar eða viðurkenningar eða hún hefur verið gerð fyrir dómi í opinberu máli.
    Bætur, sem greindar eru í 1. mgr. og telja má að ekki hafi verið eytt, koma ekki til skipta við fjárslit milli hjóna. Bæturnar teljast hjúskapareign þegar eigandi bótanna andast nema þær séu séreign samkvæmt kaupmála.
    Reglur 1. og 3. mgr. eiga ekki við um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.

II. KAFLI


Skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem vátrygging tekur til.


19. gr.


    Skaðabótaréttur stofnast ekki vegna tjóns sem munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging tekur til.
    Regla 1. mgr. á ekki við ef
    hinn skaðabótaskyldi hefur valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða
    tjóninu er valdið í opinberri starfsemi eða í einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri.
     Hafi starfsmaður valdið tjóni sem munatrygging, rekstrarstöðvunartrygging eða ábyrgðartrygging vinnuveitanda hans tekur til er starfsmaðurinn ekki skaðabótaskyldur nema tjónið verði rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis.

20. gr.


    Um skaðabótarétt ríkissjóðs, sveitarfélags eða annars opinbers aðila, sem kaupir almennt ekki vátryggingu og hefur því hagsmuni sína í eigin áhættu, fer með sama hætti og vátrygging hefði verið keypt, sbr. 19. gr.

21. gr.


    Ákvæði 19. og 20. gr. eiga ekki við um skaðabótakröfur samkvæmt
    skaðabótareglum umferðarlaga,
    lögum um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi,
    lögum um loftferðir,
    siglingalögum eða
    alþjóðasamningi um ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar, gerðum í Brussel 29. nóvember 1969.

22. gr.


    Stofnist skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem skaðatrygging tekur til öðlast vátryggingafélagið rétt tjónþola á hendur hinum skaðabótaskylda að svo miklu leyti sem það hefur greitt bætur.
    Sé um líftryggingu, slysa- eða sjúkratryggingu að ræða á félagið enga kröfu á hendur hinum skaðabótaskylda og skiptir ekki máli hvers eðlis vátryggingin er.

III. KAFLI


Ýmis ákvæði.


Bótaábyrgð starfsmanns.


23. gr.


    Bætur, sem vinnuveitandi hefur greitt vegna saknæmrar hegðunar starfsmanns, er aðeins unnt að krefja starfsmanninn um að því marki sem telja má sanngjarnt þegar litið er til sakar og stöðu starfsmannsins og atvika að öðru leyti.
    Skaðabótaábyrgð starfsmanns gagnvart tjónþola má skerða eða fella niður ef það verður talið sanngjarnt þegar litið er til atvika sem getið er í 1. mgr. og hagsmuna tjónþola. Bætur, sem starfsmaður hefur greitt, getur hann krafið úr hendi vinnuveitanda að því marki sem bótaábyrgð hvílir endanlega á vinnuveitanda eftir 1. mgr.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um kröfu vinnuveitanda á hendur starfsmanni vegna tjóns sem starfsmaðurinn veldur vinnuveitanda í starfi sínu.

Almenn lækkunarregla.


24. gr.


    Lækka má bótafjárhæð eða fella niður skaðabótaábyrgð ef ábyrgðin yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt má telja eða álíta verður að öðru leyti skerðingu eða niðurfellingu sanngjarna vegna mjög óvenjulegra aðstæðna. Þegar metið er hvort ástæða sé til að beita heimildinni skal líta til þess hve mikið tjónið er, eðlis bótaábyrgðar, aðstæðna tjónvalds, hagsmuna tjónþola, vátrygginga aðila og annarra atvika.
    Þegar skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi má að nokkru eða öllu líta fram hjá því að tjónþoli er meðvaldur að tjóni. Regla þessi á einnig við um kröfu manns er misst hefur framfæranda sem var meðvaldur að dauða sínum.

Fleiri en einn bótaábyrgir.


25. gr.


    Beri tveir eða fleiri óskipta bótaábyrgð skal ábyrgð þeirra innbyrðis skiptast eftir því sem sanngjarnt þykir þegar litið er til eðlis skaðabótaábyrgðar þeirra og atvika að öðru leyti.
    Taki ábyrgðartrygging eins eða fleiri hinna bótaábyrgu til tjónsins skal fara eftir ákvæðum 1. og 2. mgr. 19. gr. og 21. gr. Í tilvikum, sem nefnd eru í 1. eða 2. tölul. 2. mgr. 19. gr. eða 21. gr., má, þegar bótaábyrgð er deilt á hina bótaábyrgu, taka tillit til ábyrgðartrygginga sem þeir höfðu. Þetta gildir einnig þegar ákvæði 20. gr. eiga við.

Bætur fyrir miska.


26. gr.


    Sá sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns skal greiða þeim sem misgert er við miskabætur. Ákvæði 1. og 2. mgr. 18. gr. eiga einnig við um miskabætur skv. 1. málsl. þessarar greinar.

Bann gegn því að víkja frá lögunum með samningi.


27. gr.


    Eigi má, áður en tjón verður, víkja með samningi frá reglum 1.–16. gr., 2. mgr. 24. gr. eða 26. gr. laga þessara ef það er í óhag þeim sem á skaðabótarétt.
    Eigi má, áður en tjón verður, víkja með samningi frá reglum 1. mgr. 17. gr., 1. eða 3. mgr. 19. gr., 20. gr., 2. mgr. 22. gr., 23. gr., 1. mgr. 24. gr. eða 25. gr. laga þessara ef það er í óhag hinum skaðabótaskylda. Þó má víkja frá 25. gr. að því er varðar tjón sem valdið er í opinberri starfsemi eða í einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri.

IV. KAFLI


Gildistaka o.fl.


28. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993 og eiga við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem verður eftir gildistöku laganna.

Brottfall lagaákvæða.


29. gr.


    Eftirtalin lagaákvæði falla brott við gildistöku laganna:
    264. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga.
    3. og 4. mgr. 133. gr. og 136. gr. loftferðalaga, nr. 34/1964.
    59. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar.
    5. mgr. 5. gr. laga nr. 56/1972, um lögreglumenn, sbr. 1. gr. laga nr. 26/1987 og 2. gr. laga nr. 64/1989.
    16. gr. siglingalaga, nr. 34/1985.
    1. mgr. 60. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Almennar athugasemdir.



1.    Inngangur.

    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Var það lagt fram á Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991–92 en varð ekki útrætt. Frumvarpið var sent ýmsum til umsagnar. Umsagnir eða athugasemdir bárust frá Dómarafélagi Íslands, Jafnréttisráði, Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingastærðfræðingi, Læknafélagi Íslands, læknum Tryggingastofnunar ríkisins, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Tryggingaeftirlitinu, Umferðarráði, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og Öryrkjabandalagi Íslands. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á fyrri gerð frumvarpsins og er að nokkru tekið tillit til umsagna sem fram komu. Eru veigamestu breytingarnar þessar:
    1. Felldur er niður 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. fyrri gerðar frumvarpsins. Samkvæmt því ákvæði skyldi ekki greiða örorkubætur væri varanleg skerðing á getu tjónþola til að afla vinnutekna minni en 15%. Umrætt lágmark er því ekki lengur í frumvarpinu. Sjá nánar athugasemdir við 5. gr.
    2. Breytt er reglum 6. og 9. gr. um ákvörðun bótafjárhæðar. Breytingarnar fela í sér að örorkubætur fara hækkandi eftir því sem tjónþoli er yngri. Sama regla gildir skv. 2. mgr. 13. gr. um dánarbætur. Bætur til maka eða sambúðarmaka hækka eftir því sem hinn látni var yngri þegar tjón varð. Sjá nánar athugasemdir við 6., 9. og 13. gr.
    3. Í stað hugtakanna „varanlegt mein“, „orkuskerðing“ og „orkuskerðingarstig“ í fyrri gerð frumvarpsins eru hér notuð heitin „varanlegur miski“ og „miskastig“. Með breytingu þessari ætti að vera minni hætta á að ruglað sé saman varanlegum miska, sbr. 4. gr., og varanlegri örorku, sbr. 5. gr., eða örorkustigi, sbr. 5. gr., og orkuskerðingarstigi, sbr. 8. gr.
    4. Reglur 10. gr. um örorkunefnd eru gerðar skýrari. Sjá nánar athugasemdir við 10. gr.
    Auk þess hefur orðalagi í nokkrum greinum verið breytt. Enn fremur er bætt við skýringum í athugasemdum við ýmsar greinar frumvarpsins, aðallega til aukinnar skýringar í tilefni af ýmsum athugasemdum sem komu fram í umsögnum með frumvarpinu. Loks er fáeinum tölum í dæmum í fylgiskjali I breytt í samræmi við breytingar á reglum 6. og 9. gr. Helstu viðbætur og breytingar á athugasemdum með einstökum greinum eru við 4., 5., 6., 8., 9., 10. og 12.–14. gr. Aðrar breytingar frá eldri gerð frumvarpsins eru óverulegar.
    Önnur ríki Norðurlanda en Ísland hafa allt frá því um miðja þessa öld átt nána samvinnu um undirbúning löggjafar á sviði skaðabótaréttar utan samninga. Bar starf þetta mikinn árangur þótt ekki leiddi það til setningar samhljóða laga í ríkjunum fjórum. Skaðabótalög, sem fela í sér ýmsar almennar reglur, voru sett í Noregi 1969, Svíþjóð 1972, Finnlandi 1974 og Danmörku 1984. Við sum þessara laga hefur síðar verið aukið. Í lögunum eru ýmsar almennar reglur um stofnun skaðabótaábyrgðar, ákvörðun fjárhæðar skaðabóta vegna líkamstjóns o.fl. Lögin eru hins vegar ekki heildarlög í þeim skilningi að í þeim séu reglur um öll eða flest meginatriði almenns skaðabótaréttar. Þrátt fyrir það fela þau í sér mikilvægar almennar reglur er leysa úr óvissu sem ríkti um ýmis atriði.
    Íslendingar tóku hvorki þátt í þessu samstarfi um löggjöf né settu hliðstæðar skaðabótareglur. Íslenskur skaðabótaréttur er að mestu ólögfestur og flestar settar lagareglur um skaðabætur utan samninga má telja til sérákvæða. Meðal þjóða, sem Íslendingum eru skyldastar að menningu, hefur ekki verið álitið nauðsynlegt að setja ítarleg heildarlög með meginreglum um skaðabætur utan samninga. Telja verður að ekki sé heldur þörf á slíkri löggjöf hér á landi. Á sviði íslensks skaðabótaréttar er hins vegar nauðsyn vissra úrbóta sem ekki verða gerðar án þess að grípa til lagasetningar.
    Brýnast virðist að setja reglur um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón. Mál af því tagi eru einn mikilvægasti flokkur mála um skaðabætur utan samninga. Reglur um það efni eru nú að mestu ólögfestar og aðstaða dómstóla til að gera gagngerar breytingar á þeim er erfið. Við samningu nýrra reglna um ákvörðun bóta fyrir líkamsspjöll, þar á meðal um hvort eða að hve miklu leyti greiðslur frá þriðja manni eigi að draga frá skaðabótakröfu, verður naumast komist hjá að endurskoða reglur um endurkröfurétt þriðja manns á hendur hinum skaðabótaskylda.
    Auk þess sýnist brýnt að lögleiða ákvæði sem veita svigrúm til þess að taka meira tillit til hagsmuna hins bótaskylda en nú er heimilt. Núgildandi reglur um þetta eru afar takmarkaðar og þeim verður ekki komið í viðunandi horf án atbeina löggjafans. Enn fremur má telja æskilegt að setja lagareglur um nokkur önnur atriði, svo sem nánar er rakið síðar. Í 4. kafla hér á eftir er vikið að rökum fyrir helstu breytingum sem felast í frumvarpinu.
    Íslenskar réttarreglur eru reistar á norrænum grunni. Enginn vafi leikur á að heppilegustu fyrirmynda er að leita í norrænum rétti þegar semja þarf íslensk lög um skaðabótarétt utan samninga. Niðurstaða athugana á norrænu skaðabótalögunum varð sú að hin nýjustu þeirra hentuðu best, bæði að efni og formi, til þess að ná þeim markmiðum sem hér er talið nauðsynlegt að stefna að. Fyrirmynd þessa frumvarps er því dönsku skaðabótalögin frá 1984. Bótafjárhæðir frumvarpsins svara til danskra reglna. Bætur fyrir varanlegan miska eru þó miklu hærri en eftir dönsku lögunum. Reglur 9. gr. frumvarpsins um áhrif aldurs tjónþola á fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku og eftir atvikum rétt maka til dánarbóta, sbr. 2. mgr. 13. gr., eru einnig nokkuð á annan veg en reglur dönsku laganna um sama efni. Ef frumvarpið verður að lögum verða íslenskar reglur á því sviði skaðabótaréttar, sem hér um ræðir, í stórum dráttum í samræmi við danskar, finnskar, norskar og sænskar reglur, en þær eru ávöxtur nokkurra áratuga starfs margra sérfræðinga. Við samningu athugasemda með frumvarpinu var mikið stuðst við greinargerð sem fylgdi frumvarpi til dönsku laganna. Einkum á þetta við um athugasemdir við einstakar greinar. Meðal annarra rita, sem stuðst var við, má sérstaklega nefna „Erstatningsansvarsloven“ eftir Anders Vinding Kruse og Jens Møller, 2. útg. Kaupmannahöfn 1989, og „Erstatning og godtgørelse efter erstatningsansvarsloven og voldsofferloven“ eftir Bernhard Gomard og Ditlev Wad, útg. í Kaupmannahöfn 1986.
    Í fylgiskjali eru nokkur dæmi um bótafjárhæðir eftir frumvarpinu og samanburður við danskar og sænskar reglur um ákvörðun fjárhæðar skaðabóta, svo og reglur sem myndast hafa með dómafordæmum hér á landi.


2.    Meginmarkmið frumvarpsins.

    Meginmarkmið frumvarpsins eru þessi:
    1. Að endurbæta reglur um ákvörðun bóta fyrir tjón á mönnum, þar á meðal tjón vegna missis framfæranda.
    2. Að færa til nútímahorfs reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða.
    3. Að setja lagaákvæði sem gera dómstólum kleift að taka eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra sem valda tjóni eða bera af öðrum ástæðum skaðabótaábyrgð.
    Auk þess eru í frumvarpinu ákvæði um nokkur önnur atriði sem tengjast greindum breytingum, t.d. reglur um skiptingu bótaábyrgðar milli aðila sem bera ábyrgð vegna sama tjóns, aðilaskipti að bótakröfu og bætur fyrir ófjárhagslegt tjón sem ekki verður rakið til líkamstjóns.


2.1.         Endurbætur á reglum um bætur fyrir líkamstjón.

    Enda þótt dómvenja hafi myndast um mörg atriði varðandi ákvörðun bótafjárhæðar fyrir líkamstjón gætir verulegrar óvissu og ósamræmis á þessu mikilvæga sviði réttarins. M.a. ríkir bagaleg óvissa um miskabætur, áhrif skattfrelsis á bótafjárhæð, fjárhæð örorkubóta til þeirra sem vinna heimilisstörf og ákvörðun dánarbóta til eftirlifandi maka og barna. Telja má að í ýmsum tilvikum séu bætur óeðlilega lágar, en í öðrum of háar. Reynt var að gera reglur frumvarpsins þannig úr garði að tjónþoli fái almennt, auk hæfilegra miskabóta, fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sem hlýst af völdum líkamsmeiðsla. Jafnframt er með reglunum stefnt að því að menn öðlist ekki rétt til bóta fyrir fjártjón, nema slíkt tjón hafi í raun orðið eða fyrir liggi raunhæft mat um fjártjón á ókomnum árum. Ef frumvarpið verður að lögum ætti það að leiða til réttlátari niðurstöðu í bótamálum þeirra sem bíða tjón á líkama.
    Tímabært þykir að draga úr vafa og ósamræmi með því að setja lagaákvæði um aðrar aðferðir en nú tíðkast við ákvörðun bóta. Frumvarpið felur m.a. í sér gerbreytingu á reglum um örorkumat og að reglur um að bótafjárhæðir verði í ríkum mæli staðlaðar. Þá eru ákvæði um lágmark og hámark bóta í nánar greindum tilvikum.
    Í frumvarpinu eru skýrari reglur um bætur en nú tíðkast, sbr. t.d. ákvæði um stöðlun og nánar tilteknar reikningsaðferðir við ákvörðun fjárhæða. Einnig er veruleg einföldun fólgin í því að gert er ráð fyrir að tjónþoli eigi almennt kröfu á óskertum örorkubótum eða bótum fyrir missi framfæranda þótt hann hafi fengið greiðslur frá almannatryggingum, vátryggingafélagi eða lífeyrissjóði. Með frumvarpinu er enn fremur stefnt að því að bætur verði framvegis ákveðnar þannig að hverju sinni verði tilgreindur sérstaklega hver liður tjóns sem bæta skal. Reglur I. kafla frumvarpsins eru í heild einfaldari og skýrari en þær venjureglur sem nú er farið eftir. Einfaldari uppgjörsreglur ættu að leiða til sparnaðar og hagræðingar, greiða fyrir málsmeðferð og flýta fyrir því að tjónþolar fái bótafé í hendur. Reglur frumvarpsins eru einnig til þess fallnar að efla réttaröryggi, þannig að tjónþoli og hinn bótaskyldi og eftir atvikum lögmenn þeirra eða vátryggjendur eigi auðveldara með að gera sér grein fyrir hve miklar skaðabætur skuli greiða vegna líkamstjóns sem orðið hefur.


2.2.         Tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða.

    Eitt meginhlutverk skaðabótareglna er að bæta mönnum með fé tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Sú skoðun er ríkjandi að ýmis önnur bótaúrræði, einkum vátryggingar og almannatryggingar, gegni þessu hlutverki að mörgu leyti betur en hinar hefðbundnu skaðabótareglur. Á þetta ekki síst við um tjón á mönnum og munum. Þjóðfélagslegt gildi skaðabótareglna þykir þó svo mikið að almennt hefur ekki verið álitið fært að fella þær niður og taka í þeirra stað upp önnur eða annað bótakerfi.
    Í norrænum vátryggingarsamningalögum, sem sett voru fyrir mörgum áratugum, voru ákvæði er drógu úr skaðabótarétti tjónþola og endurkröfurétti vátryggingafélags á hendur þeim sem bótaskyldur er. Þessi ákvæði voru mikilvægt skref í þá átt að láta vátryggingar taka við bótahlutverki skaðabótaréttar. Skref þetta var að vísu ekki stórt því að samkvæmt ákvæðum þessum féll skaðabótaréttur á hendur tjónvaldi ekki niður, nema tjón hefði orðið á vátryggðum hagsmunum. Auk þess var brottfall bótaréttar miklum takmörkunum háð, sbr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga, sem enn gilda á Íslandi. Það haggar því ekki að með setningu norrænu laganna um vátryggingarsamninga viðurkenndi löggjafinn að ekki væru í öllum tilvikum rök til þess að viðhalda rétti til skaðabóta eða endurkröfu þegar tjón fæst bætt af vátryggingu. Önnur norræn ríki en Ísland stigu fyrir alllöngu annað skref í þessa átt með því að fella alveg niður rétt almannatrygginga til þess að endurkrefja þann sem skaðabótaábyrgð ber á tjóni er bætt hefur verið að einhverju eða öllu leyti úr kerfi almannatrygginga. Enn meira var dregið úr skaðabótarétti og endurkröfurétti vegna tjóns á vátryggðum hagsmunum þegar áðurgreind skaðabótalög voru sett í öðrum ríkjum á Norðurlöndum.
    Vátryggingar og almannatryggingar hafa eflst og náð meiri útbreiðslu á þeim tíma sem liðinn er frá setningu laga um vátryggingarsamninga og fyrstu íslensku almannatryggingalaganna. Þessi þróun hefur dregið stórlega úr mikilvægi skaðabótaréttar, sérstaklega að því er varðar tjón á mönnum. Hér á landi skiptir endurkröfuréttur vátryggingafélaga og almannatrygginga óverulegu máli um fjárhagslega afkomu þessara tryggingakerfa. Réttur til að gera skaðabótakröfu á hendur tjónvaldi skiptir tjónþola yfirleitt engu máli ef hann á greiðan aðgang að fullum bótum fyrir tjón sitt úr hendi tryggjanda. Þykir því tímabært að laga skaðabótareglur að raunveruleikanum og leggja til að skaðabótaréttur verði takmarkaður í ríkara mæli en nú er. Einnig þykir ástæða til þess að takmarka með sama hætti skaðabótarétt opinberra aðila sem dreifa áhættu sinni án vátrygginga.


2.3.         Lagaákvæði sem heimila tilhliðrun vegna hagsmuna tjónvalds.

    Á síðastliðnum áratugum hefur réttarþróun orðið sú að skaðabótareglur hafa verið hertar til þess að koma til móts við kröfur er gerðar hafa verið í þjóðfélaginu um ríka vernd þeirra sem verða fyrir tjóni, sérstaklega að því er varðar tjón á mönnum og munum. Ekki hefur dregið úr þessum kröfum þótt ný og öflug bótaúrræði hafi verið tekin upp við hlið skaðabótaréttar. Jafnframt kröfum um víðtækar skaðabótareglur hefur talsvert verið fjallað um hina hlið málsins, nefnilega þá sem snýr að réttarvernd tjónvalds eða annarra sem bótaábyrgð bera á tjóni. Bent hefur verið á að í ýmsum tilvikum geti verið ósanngjarnt að tjónvaldur beri skilyrðislaust allt tjón sem hann hefur valdið af gáleysi.
    Ljóst er að með breytingu á skaðabótareglum er ekki unnt að ná í senn andstæðum markmiðum, annars vegar að auka bótarétt en hins vegar að draga úr bótaskyldu. Á hinn bóginn geta önnur bótaúrræði veitt tjónþola fullnægjandi bætur án þess að sá sem valdið hefur tjóni verði fyrir fjárútlátum vegna skaðabótakröfu. Önnur bótaúrræði leysa þó ekki alltaf vandann því að oft verður tjón með þeim hætti að tjónþoli á ekki aðra leið til bóta en að krefja þann sem skaðabótaskyldur er að lögum. Þykir því nauðsynlegt að opna leið til þess að létta í undantekningartilvikum tjónsbyrði hins bótaskylda ef sérstakar og óvenjulegar ástæður eru fyrir hendi, t.d. þegar efnalítill maður veldur stórfelldu tjóni vegna lítils háttar yfirsjónar. Í frumvarpinu eru ákvæði þessa efnis og einnig regla um samsvarandi tilslökun þegar tjónþoli er meðvaldur að tjóni.


3.    Nokkur hugtök sem notuð eru í frumvarpinu og athugasemdum með því.

     Líkamstjón. Í frumvarpinu er orðið líkamstjón notað um tjón á mönnum. Ekki er einungis átt við meiðsli eða líkamsspjöll sem verða vegna slysa, heldur einnig annað heilsutjón (sjúkdóma). Reglur frumvarpsins taka jafnt til tjóns á líkama og geðræns tjóns. Með líkamstjóni er einnig átt við meiðsli sem leiða til dauða. Hugtakið líkamstjón tekur því til líftjóns og líkamsspjalla sem ekki valda dauða.
     Lækkunarregla. Heitin lækkunarregla og lækkunarheimild eiga við bæði um lækkun bótafjárhæðar og eftir atvikum niðurfellingu skaðabótaábyrgðar. Lækkun eftir 24. gr. frumvarpsins eða sérstökum lækkunarheimildum í lögræðislögum, siglingalögum og fleiri lögum er annars eðlis en lækkun skaðabóta á grundvelli þess að tjónþoli er meðábyrgur fyrir tjóni vegna eigin sakar eða atvika sem jafngilda eigin sök.
     Miskabætur. Það orð merkir fégjald fyrir ófjárhagslegt tjón. Ákvæði frumvarpsins um slíkt tjón má greina í tvennt. Annars vegar er tjón af völdum líkamsspjalla, þ.e. þjáningar eða varanlegur miski, sbr. 3. og 4. gr., og hins vegar tjón vegna ólögmætrar meingerðar gegn frelsi, friði, æru eða persónu manns, sbr. 26. gr.
     Tjónvaldur merkir þann sem veldur tjóni. Orðið er þó stundum einnig notað um þann sem er bótaskyldur þótt hann hafi ekki sjálfur valdið tjóni.
     Tjónþoli. Orðið tjónþoli er hér notað um þann sem verður fyrir tjóni, t.d. af því að hann slasast sjálfur, missir framfæranda af slysförum eða bíður tjón vegna þess að munir í eigu hans skemmast. Hins vegar er tjónþoli ekki notað um þriðja mann sem eignast endurkröfu („afleidda kröfu“) við það að inna af hendi greiðslur til tjónþola vegna líkamstjóns.
     Örorka. Orðið örorka er hér aðeins haft um varanlega örorku, þ.e. varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna, sbr. 5. gr. Oft er talað um tímabundna örorku til aðgreiningar frá varanlegri örorku. Það er ekki gert í frumvarpinu. Í stað þess eru notuð orðin atvinnutjón eða tímabundið atvinnutjón, sbr. 2. gr.


4.    Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu.
4.1.         Örorkumat.

    Bætur fyrir fjártjón vegna varanlegra afleiðinga líkamsspjalla (líkamlegra eða geðrænna) eru almennt metnar á grundvelli örorkumats. Unnt er að meta örorku með ýmsum hætti. Í skaðabótarétti er yfirleitt greint á milli tvenns konar örorkumats. Annars vegar er svonefnt læknisfræðilegt örorkumat og hins vegar svonefnt fjárhagslegt (félagslegt) örorkumat. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatstöflur þar sem ýmsar tegundir líkamsspjalla eru metnar til örorkustigs í hundraðshlutum. Í hreinu læknisfræðilegu mati felst að sams konar áverkar (eða eftir atvikum geðrænt tjón) eru metnir til sama hundraðshluta, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til þess hver áhrif örorkan hefur á getu hans til þess að afla vinnutekna. Við fjárhagslegt örorkumat er hins vegar leitast við að meta til örorkustigs þau áhrif sem líkamsmeiðsli (eða geðrænt tjón) hafa á fjárhag eða nánar tiltekið hæfi hans til að afla tekna með vinnu.
    Í skaðabótamálum hérlendis er almennt notað læknisfræðilegt örorkumat þegar ákveðnar eru bætur fyrir fjártjón vegna varanlegra afleiðinga líkamsspjalla. Í ýmsum tilvikum er þó vikið frá örorkumatstöflum að meira eða minna leyti. Annars staðar á Norðurlöndum hefur verið horfið frá læknisfræðilegu örorkumati þegar fjártjón er metið. Eftir norrænu skaðabótalögunum, sem fyrr var getið, skal miða bætur fyrir varanlega örorku við fjárhagslegt örorkumat.
    Hér á landi hefur lengi verið rætt um að æskilegt væri að hverfa alveg frá læknisfræðilegu örorkumati í skaðabótamálum, en dómvenja hefur ekki breyst í þessu efni, enda má telja eðlilegt að svo veigamikil breyting verði gerð með lagasetningu. Rök með breytingu í þessa átt eru m.a. þau að töflur, sem notaðar eru við læknisfræðilegt örorkumat, miðist um of við áhrif líkamsspjalla á vinnugetu manna sem vinna erfiðisvinnu. Sú stöðlun, sem í því felst að meta fjártjón á grundvelli læknisfræðilegs mats, er talin valda því að tjónþolar á sama aldri og með sömu tekjur fyrir slys fái sömu eða sambærilegar bætur, ef örorkustig er hið sama, þótt áhrif örorku á getu til tekjuöflunar séu mjög mismunandi. Með breytingu á grundvelli örorkumats mælir enn fremur það að læknisfræðileg örorka hefur í fjölmörgum tilvikum ekki eins mikil áhrif á vinnutekjur tjónþola og ætla mætti eftir metnu örorkustigi. Rannsóknir á Norðurlöndum og víðar sýna að mikill meiri hluti tjónþola með litla læknisfræðilega örorku, t.d. 15% eða minni, nær fullum vinnutekjum eftir slys. Hins vegar bendir margt til þess að þeir sem búa við mikla varanlega örorku, t.d. 75% eða meiri, fái ekki fullar bætur fyrir fjártjón það sem þeir verða fyrir vegna varanlegrar skerðingar á vinnugetu. Með því að taka upp fjárhagslegt örorkumat virðist vera unnt að ráða bót á helstu annmörkum sem fylgja læknisfræðilegu mati. Megintilgangur þess að taka upp fjárhagslegt mat í stað læknisfræðilegs er sá að með því má almennt fá raunhæfari grundvöll til að miða varanlegt tekjutap við. Breyting á réttarreglum á þessa lund leysir þó að sjálfsögðu ekki allan þann vanda sem er samfara því að meta til fjár tjón af völdum skerðingar á vinnugetu á ókomnum árum eða áratugum.
    Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til grundvallar að bætur fyrir varanlegt fjártjón vegna líkamsspjalla skuli miða við fjárhagslega örorku, þ.e. varanlega „skerðingu á getu til að afla vinnutekna“. Samkvæmt því á maður, sem hlotið hefur varanleg líkamsspjöll, ekki rétt á neinum örorkubótum ef sýnt þykir að þau dragi ekki úr getu hans til að afla sér tekna með vinnu. Hins vegar yrðu honum almennt dæmdar bætur fyrir annað tjón, sbr. það sem segir hér á eftir í kaflanum um varanlegan miska. Þessi regla 5. gr. er mjög frábrugðin gildandi rétti því að þess munu vart dæmi að íslenskir dómstólar hafi ekki talið ástæðu til að dæma örorkubætur auk bóta fyrir ófjárhagslegt tjón ef tjónþola, sem á skaðabótarétt, hefur verið metin varanleg læknisfræðileg örorka, sbr. þó H 1988, 267.
    Þó að regla 5. gr. um fjárhagslegt örorkumat kunni oft að leiða til þess að bætur fyrir fjártjón af völdum varanlegrar læknisfræðilegrar örorku verði engar eða minni en bætur eftir núgildandi skaðabótareglum getur þessu verið öfugt farið. Læknisfræðileg örorka kann, eins og áður segir, að valda meiri skerðingu á getu til að afla vinnutekna en sem nemur þeim hundraðshluta sem hún er metin til. Í slíkum tilvikum mundu reglur frumvarpsins almennt veita meiri örorkubætur en reglur sem nú gilda. Dæmi: Skurðlæknir skaddast á hendi og er örorka eftir læknisfræðilegu mati 20%. Vegna meiðslanna verður hann að hætta skurðaðgerðum og á einungis kost á störfum sem fyrirsjáanlega gefa af sér 50% lægri tekur til frambúðar. Regla 5. gr. veitir í þessu tilviki rétt til bóta fyrir 50% örorku. Eftir núgildandi dómvenju mundi 20% matið væntanlega lagt til grundvallar, en litið yrði til þess til hækkunar á örorkubótum að fjártjón læknisins er í raun meira en 20%.


4.2.         Almennt um bætur fyrir varanlega örorku.

    Svo sem fyrr segir skal við ákvörðun örorkubóta samkvæmt reglum frumvarpsins miða við raunveruleg áhrif sem líkamstjón hefur á getu til að afla tekna. Þegar dæma skal um þetta ber að líta til þess hvaða tækifæri tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Örorka tjónþola reiknast í hundraðshlutum (örorkustigum). Reglur um ákvörðun bóta eru miklu einfaldari en þær sem eru notaðar nú. Eftir frumvarpinu skal eins og áður ákveða bótafjárhæð með tiltekinni fjárhæð í eitt skipti fyrir öll (eingreiðslu).
    Bætur skal meta til fjárhæðar sem reikna skal þannig að árslaun tjónþola eru margfölduð með 7,5 og síðan margfölduð með örorkustigi. Hér er með öðrum orðum lagt til að fastur margföldunarstuðull verði notaður við útreikning bóta. Rökin fyrir föstum stuðli eru tvíþætt. Annars vegar þau að einfalda ákvörðun bótafjárhæðar og hins vegar að komast hjá miklum og tíðum sveiflum á bótafjárhæðum vegna breytinga á vöxtum. Ástæða þess að lagt er til að margföldunarstuðullinn verði ekki hærri en 7,5 er m.a. sú að í frumvarpinu eru engin ákvæði um að greiðslur frá þriðja manni, t.d. bætur almannatrygginga, vátryggingarfé o.fl., séu dregnar frá skaðabótakröfu sem tjónþoli á gagnvart hinum bótaskylda, sbr. kafla 4.8. Lágur margföldunarstuðull vegur á móti því hagræði sem tjónþoli hefur af því að greiðslur frá þriðja manni dragast ekki frá skaðabótakröfu hans.
    Árslaun teljast almennt vera heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag sem tjón varð. Þegar óvenjulegar ástæður eru fyrir hendi, t.d. breytingar á tekjum eða starfi, skal fjárhæð árslauna þó metin sérstaklega. Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr. Takmörkun þessi skiptir alltaf máli þegar árslaun tjónþola eru hærri en 4.500.000 kr., þ.e. einnig þótt varanleg örorka sé ekki alger. Rökin fyrir því að takmarka bætur við tiltekið hámark eru tvíþætt. Annars vegar þau að eðlilegt þykir að menn með óvenjuháar tekjur beri sjálfir það tjón sem stafar af missi þess hluta teknanna sem fara að miklum mun fram úr því sem venjulegt er meðal tekjuhárra manna. Tekjumiklir menn geta auðveldlega keypt vátryggingar sem tryggja þeim bætur fyrir tjón er þeir kunna að verða fyrir vegna þessarar takmörkunar. Hin rökin fyrir takmörkun bótafjárhæðar eru þau að leggja verður til grundvallar að því fylgi almennt talsverður ávinningur að almannatryggingabætur og aðrar greiðslur frá þriðja manni verða ekki dregnar frá bótakröfu.
    Ýmsir tjónþolar nota vinnugetu sína þannig að þeir hafa engin eða óveruleg árslaun, t.d. þeir sem vinna við heimilisstörf án eiginlegra launatekna og unglingar sem stunda nám. Bætur til þessara tjónþola skal ákveða á grundvelli miskastigs, sbr. næsta kafla. Ef miskastig er 100% verða bætur 16.000.000 kr.
    Í frumvarpinu eru sérstakar reglur um skerðingu bóta vegna aldurs tjónþola sem eru orðnir 26 ára gamlir.
    Um áhrif greiðslna frá þriðja manni á fjárhæð skaðabótakröfu sjá kafla 4.8.


4.3.         Varanlegur miski.

    Sá sem á skaðabótarétt vegna spjalla á líkama getur samkvæmt reglum, sem nú gilda, krafist bóta fyrir ófjárhagslegt tjón (miska) auk bóta fyrir fjártjón ef því er að skipta. Í frumvarpinu er ekki horfið frá þessari meginreglu. Hins vegar gerbreytast reglur um ákvörðun bóta fyrir tjón þetta ef frumvarpið verður að lögum. Með þeim er stefnt að meiri festu og samræmi við ákvörðun þessarar tegundar bóta. Í þessum kafla verður einungis fjallað um varanlegt ófjárhagslegt tjón sem í frumvarpinu er nefnt varanlegur miski. Reglur frumvarpsins um varanlegan miska koma í stað ákvæðisins um fégjald fyrir (varanleg) óþægindi, lýti og óprýði í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940. Um tímabundið ófjárhagslegt tjón er fjallað í næsta kafla hér á eftir.
    Reglurnar um varanlegan miska eru að öllu leyti nýmæli hér á landi, en hliðstæðar reglur eru í norrænum skaðabótalögum. Bætur eru staðlaðar. Þær skal ákveða á grundvelli miskastigs samkvæmt sérstakri töflu, sbr. athugasemdir við 4. og 10. gr. frumvarpsins. Ákvæði um varanlegan miska eru í 4. gr. frumvarpsins. Þau tengjast svo mjög reglum frumvarps um fjárhagslega örorku að um þetta tvennt verður ekki fjallað óháð hvort öðru. Svo sem fram kemur í kafla 4.1. hér á undan gæti regla 5. gr. frumvarpsins um að leggja beri fjárhagslega en ekki læknisfræðilega örorku til grundvallar mati á skerðingu á vinnugetu oft leitt til þess að engar örorkubætur greiðist þótt tjónþoli hljóti læknisfræðilega örorku til frambúðar. Veruleg örkuml, svo sem missir lima eða varanlegar hreyfingarhindranir, skerða ekki nærri alltaf getu til að afla vinnutekna. Þetta á einkum við um minni háttar læknisfræðilega örorku. Hins vegar er almennt talið að skaðabótareglum beri að haga þannig að slík líkamsspjöll beri að meta til bóta. Norrænu lagaákvæðin um varanlegan miska eru m.a. sett til þess að unnt sé að veita bætur fyrir skerðingu á getu tjónþola til þess að njóta lífsins eins og heilbrigðir menn, t.d. þegar líkamsspjöll valda því að tjónþoli getur ekki stundað íþróttir, notið lista eða er ófær um að eignast börn. Bætur fyrir varanlegan miska taka því við nokkru af hlutverki bóta fyrir læknisfræðilega örorku, þ.e. að vera greiðsla fyrir ýmsar afleiðingar líkamstjóns sem ekki verða beinlínis taldar fjárhagslegar, en dómaframkvæmd hér á landi bendir til að í bótum fyrir læknisfræðilega örorku felist oft einhverjar bætur fyrir ófjárhagslegt tjón.
4.4.         Þjáningar.

    Í dómum um bætur fyrir spjöll á líkama er nú almennt ekki greint á milli bóta fyrir varanlegan miska og tímabundinn. Það er hins vegar gert í frumvarpinu. Um varanlegan miska eru, eins og fyrr segir, reglur í 4. gr. frumvarpsins, en ákvæði um tímabundinn miska, „þjáningar“, eru í 3. gr.
    Meginbreytingin á reglum um tímabundinn miska er sú að bætur verða algerlega staðlaðar. Bætur skal greiða með nánar tiltekinni fjárhæð fyrir hvern dag sem tjónþoli er rúmfastur og helmingi lægri fjárhæð á dag þegar hann er veikur án þess að vera rúmfastur. Frá þessu eru tvær undantekningar sem grein er gerð fyrir í athugasemdum við 3. gr.


4.5.         Annar miski.

    Fyrrgreind ákvæði 3. og 4. gr. frumvarpsins varða einungis miskabætur vegna spjalla á líkama. Í 26. gr. frumvarpsins er regla um bætur fyrir miska í öðrum tilvikum, þ.e. þegar brotið hefur verið með ólögmætum hætti gegn frelsi, friði, æru eða persónu manns. Greind ákvæði frumvarpsins leysa af hólmi aðalreglu íslensks réttar um bætur fyrir miska, en hún er nú í 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940. Í reglu 26. gr. frumvarpsins felst sú mikilvæga breyting að ekki er lengur skilyrði miskabóta vegna brots gegn friði, æru eða persónu að brot sé refsivert. Eftir frumvarpinu nægir að brot sé ólögmætt. Rök fyrir breytingu þessari eru þau að þörf er á að vernda þessi gæði í ríkara mæli en nú er gert.
    Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að sérstakar bætur komi í stað bóta fyrir röskun á stöðu og högum í dánarbótamálum, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 264. gr. hegningarlaga. Réttur þess sem krefst bóta fyrir missi framfæranda á almennt ekki að verða lakari og í mörgum tilvikum mun betri eftir frumvarpinu en núgildandi reglum um dánarbætur þrátt fyrir brottfall sérstakra bóta fyrir röskun á stöðu og högum.


4.6.         Bætur fyrir missi framfæranda.

    Margt er á huldu um hvernig ákveða skal fjárhæð bóta fyrir missi framfæranda og aðrar dánarbætur. Dómar um það efni eru fáir og þeir veita yfirleitt ekki nógu glögga mynd af því hvernig dómendur nota útreikninga tryggingastærðfræðinga við ákvörðun bótafjárhæðar. Ýmsum öðrum spurningum er ósvarað um vægi þeirra atriða sem áhrif hafa á mat dómara á tjóni því sem hér um ræðir. Ákvæðum 12.–14. gr. frumvarpsins er ætlað að leysa úr sem flestum óvissuþáttum varðandi bætur fyrir missi framfæranda.
    Samkvæmt ákvæðum þessum eru dánarbætur í aðalatriðum staðlaðar. Ákvæðin fela í sér mjög mikla einföldun á reglum um dánarbætur. Bætur til maka vegna missis framfæranda skulu vera 30% af bótum sem ætla má að hinn látni hefði átt rétt á fyrir algera varanlega örorku, sjá 13. gr. Bætur til barna, sem hinum látna var lögskylt að framfæra og eru yngri en 18 ára, skal að öllu leyti miða við barnalífeyri, sbr. 14. gr.
    Dánarbótareglur frumvarpsins byggjast á jafnrétti kynja. Eftir frumvarpinu er heldur enginn munur á bótarétti eftirlifandi maka eftir því hvort um hjúskap eða óvígða sambúð var að ræða. Það er þó skilyrði bótaréttar sambúðarmaka að sambúð verði jafnað til hjúskapar.
    Til þess að koma í veg fyrir að bætur til maka eða sambúðarmaka fyrir missi framfæranda verði í einstökum tilvikum úr hófi lágar er lagt til að þær skuli ekki nema minni fjárhæð en 3.000.000 kr., nema sérstakar ástæður séu til að víkja frá því. Lágmark þetta skiptir t.d. máli við fráfall manns sem hefur lítil árslaun eftir reglum 7. gr. og einnig þegar hinn látni hafði tekjur sem ekki teljast til árslauna í merkingu 7. gr., svo sem lífeyri frá almannatryggingum eða eignatekjur.
    Frumvarpið breytir ekki að neinu leyti reglum um bætur fyrir útfararkostnað.
    Um áhrif greiðslna frá þriðja manni á skaðabótakröfu sjá kafla 4.8.


4.7.         Stöðlun bótafjárhæða, verðbætur og vextir.

    Eftir frumvarpinu er meginreglan sú að ákveða skal bætur fyrir varanlega örorku eftir því sem ætla má að tjón hvers einstaks tjónþola sé. Örorkustig á að miðast við raunverulega skerðingu á getu til að afla vinnutekna. Bætur fara einnig eftir fyrri tekjum tjónþola þess sem í hlut á. Að því er tekjur varðar er haldið í þá meginreglu, sem nú gildir, að sníða skal bætur eftir tjóni hvers einstaklings.
    Hins vegar eru í frumvarpinu reglur er einfalda mjög útreikning bóta frá því sem nú er. T.d. eru reglur um áhrif aldurs tjónþola á fjárhæð örorkubóta og eftir atvikum dánarbóta mun auðveldari í framkvæmd en reglur þær sem nú er farið eftir. Einnig má nefna ákvæði um stöðlun fébóta til barna og tjónþola sem að verulegu leyti nýta starfsgetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Bætur til maka fyrir missi framfæranda eru miðaðar við sama grundvöll og örorkubætur. Framfærslutjónsbætur til barna sem hinum látna var lögskylt að framfæra og yngri eru en 18 ára eru og staðlaðar, sbr. kafla 4.6. hér á undan. Í öllu þessu felst veruleg einföldun og hagræði sem ætti ekki aðeins að auðvelda mjög meðferð mála vegna örorkubóta heldur einnig mála vegna missis framfæranda.
    Bætur fyrir atvinnutjón, sem nú er oft nefnt tímabundin örorka, eru hins vegar ekki staðlaðar eftir reglum frumvarpsins.
    Áður var vikið að stöðlun miskabóta, sjá kafla 4.3. og 4.4.
    Eins og vikið er að í athugasemdum hér að framan eru fjárhæðir ýmissa bóta fastákveðnar í frumvarpinu, svo og lágmark bóta fyrir missi framfæranda og hámarksárslaun sem miða skal örorkubætur o.fl. við. Allt eru þetta nýmæli og einnig það að fjárhæðir breytast eftir lánskjaravísitölu frá því að tjón varð og þar til bótafjárhæð er ákveðin. Bætur fyrir örorku breytast og í hlutfalli við breytingar á vísitölu, sjá nánar 15. gr. og athugasemdir við hana.
    Í frumvarpinu er lagt til grundvallar að reglur um almenna vexti af bótum séu tvenns konar. Annars vegar er sérstök regla um vexti af bótum fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda. Hins vegar eru engin ákvæði í frumvarpinu um vexti af öðrum bótum og um þá gilda því almennar reglur, sbr. einkum vaxtalög, nr. 25/1987. Samkvæmt hinni sérstöku reglu um bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda er bæði vikið frá reglum vaxtalaga um upphafstíma vaxta og vaxtafót. Í frumvarpinu eru engar sérreglur um dráttarvexti. Um þá fer því eftir reglum vaxtalaga, sjá nánar 16. gr. og athugasemdir við hana.
    Reglum frumvarpsins um verðbætur, vexti og útreikning bóta fyrir örorku og missi framfæranda o.fl. er ætlað að gera meðferð bótamála og bótaákvörðun einfaldari, en reglur um afvöxtun (til slysdags) og ávöxtun (frá slysdegi til greiðsludags), sem nú er farið eftir við ákvörðun bóta fyrir líkamstjón, eru flóknar og mörgum torskildar.


4.8.         Greiðslur sem tjónþoli fær frá öðrum en hinum bótaskylda.

    Það er meginregla í skaðabótarétti að tjónþoli skal ekki fá hærri bætur en með þarf til þess að bæta raunverulegt tjón. Ein afleiðing þeirrar reglu er sú að fjárgreiðslur, sem tjónþoli hlýtur frá þriðja manni, þ.e. öðrum en hinum bótaskylda, ber að draga frá brúttótjóni. Laun, sem tjónþoli fær í slysaforföllum, og almannatryggingabætur eru t.d. dregnar frá skaðabótakröfu hans. Frá þessu er sú undantekning að líf-, slysa- eða sjúkratryggingabætur frá vátryggingu, sem hvorki er skylt að kaupa samkvæmt lögum né kjarasamningi, dragast almennt ekki frá skaðabótakröfu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga. Yfirleitt eru bætur, sem tjónþoli fær úr lífeyrissjóði, heldur ekki dregnar frá skaðabótakröfu hans. Um hina sérstöku reglu í 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954 vísast til athugasemda við 17. og 22. gr. frumvarpsins.
    Meðal nýmæla frumvarpsins eru gagngerar breytingar á þessum reglum. Breytingarnar skipta þó mestu máli um kröfur um örorkubætur skv. 5.–9. gr. og framfærslutjónsbætur skv. 12.–14. gr.
    Eftir 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins skal draga frá skaðabótum fyrir tímabundið atvinnutjón laun í veikinda- og slysaforföllum, dagpeninga og aðrar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá opinberum tryggingum, svo og vátryggingabætur og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær. Meðal vátryggingabóta, er draga ber frá skaðabótakröfu skv. 2. mgr., eru dagpeningar frá samningsbundinni atvinnuslysatryggingu launþega. Ákvæði 2. mgr. um frádrátt eru í fullu samræmi við núgildandi reglur. Óbreytt verður einnig það að greiðslur frá þriðja manni ber að draga frá skaðabótum fyrir útlagðan kostnað. T.d. ber að draga greiðslur almannatrygginga frá skaðabótakröfu sem tjónþoli gerir vegna kostnaðar við endurhæfingu eða tannviðgerð. Sama gildir um útfararkostnað. Hafi t.d. vátryggingafélag greitt eða tekið þátt í greiðslu hans lækkar skaðabótakrafa á hendur hinum bótaskylda að sama skapi. Frumvarpið leiðir heldur ekki til neinna breytinga á því að greiðslur frá almannatryggingum, vátryggingafélagi eða öðrum þriðja manni hafa almennt engin áhrif á rétt manna til bóta fyrir ófjárhagslegt tjón (þjáningar eða varanlegan miska). Um bætur, sem tjónþoli fær fyrir ófjárhagslegt tjón frá hinni sérstöku slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum eða hliðstæðri slysatryggingu eiganda sem slasast sem farþegi í ökutæki sínu, vísast til athugasemda við 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr.
    Nú verður gerð grein fyrir nýmælum um frádrátt greiðslna sem tjónþoli fær frá þriðja manni. Veigamikill þáttur í þeirri einföldun, sem frumvarpið felur í sér, er sá að almennt skal ekki draga frá bótum fyrir varanlega örorku eða missi framfæranda greiðslur er tjónþoli fær frá öðrum vegna líkamstjóns, t.d. bætur frá almannatryggingum eða slysatryggingu sem tjónþoli eða annar hefur keypt hjá vátryggingafélagi. Hér er með öðrum orðum lagt til að tekin verði upp sama regla um almannatryggingabætur og fleiri greiðslur frá þriðja manni og nú gildir skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954 um greiðslur frá líf-, sjúkra- og slysatryggingum.
    Helstu rök fyrir nýmæli þessu eru í fyrsta lagi að þegar um er að ræða bætur fyrir varanlega örorku eða missi framfæranda er alltaf umdeilanlegt hversu mikið fé þurfi til þess að gera hlut tjónþola jafnan því sem verið hefði ef tjónsatburðurinn hefði ekki gerst. Í flestum eða öllum tilvikum er þess vegna ekki unnt að slá því föstu að tjónþoli hagnist á því að eiga óskertan skaðabótarétt þótt hann njóti jafnframt greiðslna frá þriðja manni. Í öðru lagi er talin miklu minni hætta á að menn misnoti reglur um bætur fyrir líkamstjón en reglur um bætur fyrir tjón á munum því að sjaldgæft mun vera hér á landi að menn valdi viljandi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni í auðgunarskyni. Í þriðja lagi eru reglur frumvarpsins um margföldunarstuðul, sem nota skal við útreikning bóta fyrir varanlega örorku og missi framfæranda, öðrum þræði ákveðnar með hliðsjón af því að tjónþoli heldur almennt fullum rétti til skaðabótafjár samhliða óskertum rétti til greiðslna frá þriðja manni, t.d. bóta frá almannatryggingum og vátryggingum. Í fjórða lagi einfaldar nýmæli þetta ákvörðun bótafjárhæðar og eyðir óvissu sem nú ríkir um suma frádráttarliði.
    Tvær undantekningar eru frá umræddri reglu frumvarpsins um að almennt komi greiðslur, er tjónþoli fær frá öðrum vegna líkamstjóns, ekki til frádráttar skaðabótum fyrir varanlega örorku eða missi framfæranda. Önnur er sú að bætur frá slysatryggingu ökumanns samkvæmt umferðarlögum eða slysatryggingu eiganda sem farþega í eigin ökutæki skal draga frá skaðabótum fyrir örorku eða missi framfæranda (og bótum fyrir annað tjón, ef því er að skipta, sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins). Hin er sú að greiðslur frá samnings- eða lögbundnum atvinnuslysatryggingum launþega skulu dregnar frá skaðabótakröfu fyrir tjón af varanlegri örorku eða missi framfæranda. (Um frádrátt þegar tjónþoli verður fyrir tímabundnu atvinnutjóni er áður rætt.) Ástæða fyrri undantekningarinnar er sú að bætur slysatryggingar ökumanns eða sams konar slysatryggingar, er eigandi hefur keypt gegn slysi sem hann verður fyrir þegar hann er farþegi í ökutæki sínu, eru í raun skaðabætur sem ákveðnar eru eftir almennum reglum skaðabótaréttar um ákvörðun bóta fyrir líkamsspjöll. Tjónþoli mundi því fá tvisvar greitt fyrir sama tjón eftir sömu bótareglum, ef hann gæti krafið hinn bótaskylda um fullar skaðabætur, án tillits til bóta frá slysatryggingu ökumanns eða farþega. Síðarnefnda undantekningin helgast af því að reglur um rétt launþega til bóta frá atvinnuslysatryggingu eru yfirleitt reistar á þeim forsendum að atvinnurekandi, sem annast kaup á slysatryggingunni, skuli njóta góðs af henni þegar líkamstjón verður rakið til atvika er hann ber skaðabótaábyrgð á. Þykir ekki ástæða til að skerða með lögum það frelsi sem samtök launþega og atvinnurekenda hafa til að semja um efni og gildissvið atvinnuslysatrygginga.
    Þær greiðslur, sem draga skal frá skaðabótum samkvæmt umræddum undantekningarreglum, sbr. 2.–4. málsl. 4. mgr. 5. gr., eru í flestum tilvikum inntar af hendi í einu lagi en ekki sem lífeyrir.


4.9.         Áhrif vátrygginga á skaðabótarétt. Endurkröfuréttur.

    Lagt er til að 25. gr. laga nr. 20/1954 verði felld úr gildi og í stað hennar komi m.a. reglur er fylgi þeirri meginstefnu að skaðabótaréttur tjónþola eða endurkröfuréttur tryggingaraðila stofnist ekki að því marki sem tjón fæst bætt af vátryggingum eða öðrum tryggingarúrræðum.
    Almennt ákvæði um að vátryggingafélag eigi endurkröfurétt er í 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins, en frá því eru ýmis mjög mikilvæg frávik. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skaðabótaréttur verði afnuminn vegna tjóns sem munatrygging, þ.e. vátrygging á hlut, eða vátrygging gegn rekstrarstöðvun tekur til. Frá því er vikið í 19. og 21. gr. Undantekningar 19. gr. helgast af því að út frá varnaðarsjónarmiðum þykir ekki heppilegt að afnema með lögum skaðabótaábyrgð eða endurkröfurétt þegar tjóni er valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða í atvinnurekstri eða opinberri starfsemi, enda þótt um einfalt gáleysi sé þar að ræða. Telja má að ef skaðabótaréttur og endurkröfuréttur yrði afnuminn að því er varðar tjón sem verður í slíkri starfsemi eða atvinnurekstri mundi vera hætt við að mjög drægi úr viðleitni til þess að koma í veg fyrir tjón á þeim vettvangi. Ýmsir álíta reyndar að þar sem margir atvinnurekendur eru ábyrgðartryggðir leiði það til hirðuleysis um ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón. Skipti því litlu hvort skaðabótaréttur á hendur þeim haldist eða verði numinn úr lögum ef tryggt er að tjónþoli fái bætur frá ábyrgðartryggingu eða annarri vátryggingu. Á þetta verður ekki fallist því að unnt er með ýmsum hætti að vinna gegn því að ábyrgðartrygging hafi skaðleg áhrif í þessu efni, t.d. með því að breyta iðgjöldum, ákvæðum um eigin áhættu vátryggðs eða vátryggingarskilmálum eftir tjónareynslu í tilteknum greinum rekstrar eða hjá einstökum vátryggingartökum. Slíkt aðhald af hálfu vátryggingafélaga er hins vegar miklum erfiðleikum bundið í ábyrgðartryggingum einstaklinga þar sem skilmálar, iðgjöld og önnur vátryggingarkjör eru stöðluð.
    Rök fyrir síðarnefndu undantekningunum, sbr. 21. gr., eru í fyrsta lagi þau að telja má notkun bifreiða, flug, siglingar o.s.frv. allhættulega starfsemi sem eðlilegt sé að beri það tjón sem af henni hlýst. Útgjöld vegna bótagreiðslna eigi því að falla á starfsemina og eftir atvikum þá sem njóta þjónustu hennar, en ekki aðra þegna þjóðfélagsins. Í öðru lagi helgast undantekningarnar af því að skaðabótareglur á flestum þessara sviða byggjast á alþjóðasamningum sem ekki er ástæða til að Ísland víki frá. Í einu tilviki er Ísland bundið af slíkum alþjóðasamningi, þ.e. um tjón af völdum olíumengunar, og getur því ekki einhliða breytt bótareglum um það efni. Í þriðja lagi má nefna að almennt er talið að endurkröfuréttur hafi meira raunhæft gildi á sviði farmtrygginga en flestra annarra vátrygginga á hlutum. Ef endurkröfurétti er almennt beitt gegn farmflytjendum sem ábyrgð bera á skemmdum eða glötun vöru færist tjónskostnaður (og kostnaður af vátryggingariðgjöldum) frá farmeigendum eða vátryggjendum þeirra á herðar farmflytjenda eða ábyrgðartryggjenda þeirra. Hér verður að gæta þess að haga íslenskri löggjöf þannig að Íslendingar búi almennt ekki við óhagstæðari bótareglur en gerist í öðrum ríkjum.
    Í 19. gr. er sérstakt ákvæði þess efnis að starfsmaður ber ekki skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem vátrygging á hlut, rekstrarstöðvunartrygging eða ábyrgðartrygging vinnuveitanda hans tekur til. Fullyrða má að skaðabótakröfur séu aðeins í undantekningartilvikum hafðar uppi á hendur starfsmanni vegna tjóns sem hann veldur í starfi. Þegar á heildina er litið skiptir bótaréttur þessi í raun litlu máli fyrir tjónþola, en vegna varnaðarsjónarmiða er í 19. gr. kveðið svo á að starfsmaður sé þó bótaskyldur ef tjón verður rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis hans. Samkvæmt almennum skilmálum íslenskra ábyrgðartrygginga fyrir atvinnurekstur eru starfsmenn vátryggingartaka vátryggðir með sama hætti og ábyrgðartryggður vinnuveitandi þeirra. Vátryggður starfsmaður glatar rétti sínum á hendur ábyrgðartryggjanda ef tjónsatvik verður rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis hans, sjá nánar athugasemdir við 19. gr. Auk ákvæða 19. gr. bæta reglur 23. gr. að mun stöðu launþega sem valda tjóni af gáleysi við störf í þágu vinnuveitanda, sbr. næsta kafla hér á eftir.
    Í 20. gr. frumvarpsins er það mikilvæga nýmæli að um skaðabótarétt ríkissjóðs, sveitarfélaga eða annars opinbers aðila, sem almennt kaupir ekki vátryggingu, fer með sama hætti og um skaðabótarétt vegna tjóns á vátryggðum hagsmunum. Meginreglan er því sú að bótaréttur stofnast ekki vegna tjóns opinbers aðila sem dreifir áhættu sinni án vátrygginga, þ.e. hefur „hagsmuni sína í eigin áhættu“. Nýmæli þetta styðst við þau rök að sanngjarnt þykir að réttarstaða tjónþola sé sú sama hvort sem tjón verður á vátryggðum hagsmunum eða óvátryggðum hagsmunum stórs aðila sem er svo fjársterkur að hagkvæmt er fyrir hann að dreifa áhættu sinni án vátrygginga.
    Í samræmi við fyrrnefnda meginstefnu, að endurkröfuréttur stofnist ekki að því marki sem tjón fæst bætt af vátryggingum eða öðrum tryggingarúrræðum, eru í frumvarpinu reglur um að almannatryggingar, lífeyrissjóðir eða vátryggingafélög eigi ekki endurkröfu vegna greiðslu bóta vegna líkamstjóns, sjá 1. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 22. gr. frumvarpsins. Ákvæði þessi eru að sumu leyti aðeins staðfesting á framkvæmd sem fylgt hefur verið hér á landi í endurkröfumálum. Ákvæðin valda ekki gerbreytingu á reglum um endurkröfur. Hins vegar eru þau þáttur í þeirri þróun að ryðja skaðabótareglum úr vegi að meira eða minna leyti á sviðum þar sem auðvelt er að koma við öðrum bótaúrræðum sem talin eru hagkvæmari en hinar hefðbundnu skaðabótareglur.


4.10.         Bótaábyrgð starfsmanns.

    Reglur frumvarpsins um bótaábyrgð starfsmanns eru gerðar á grundvelli þess sjónarmiðs að meginreglan skuli vera sú að vinnuveitandi beri endanlega bótaábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur þegar hann er við vinnu í þágu vinnuveitandans. Í reynd er þetta svo hér á landi. Venjulega beinir tjónþoli bótakröfu að vinnuveitanda en gerir enga kröfu á hendur launþega sem veldur tjóni við vinnu. Fellur tjónsbyrði því á vinnuveitanda, enda heyrir það til undantekninga að hann endurkrefji starfsmann sem olli tjóni. Eftir gildandi rétti er staða starfsmanns þó formlega önnur og lakari. Starfsmaður ber persónulega bótaábyrgð á öllu tjóni sem rekja má til gáleysis eða ásetnings hans í starfi. Er almennt ekki heimilt að lækka eða fella niður bótaskyldu starfsmanns á grundvelli velferðarsjónarmiða. Sérstakar lækkunarheimildir eru að vísu til í örfáum lögum, en þær eiga aðeins við um starfsmenn á nánar tilteknum athafnasviðum (sjómenn, lögreglumenn, flugmenn o.fl.).
    Í 23. gr. frumvarpsins er kveðið á um bótaskyldu starfsmanns. Grein þessi felur í sér nýmæli sem stefnir að sama marki og sérstakar lækkunarheimildir, en henni er ætlað að gilda um alla hópa launþega. Ákvæðið er orðað þannig að unnt verður að koma fram bótaábyrgð á hendur starfsmanni ef nauðsynlegt þykir af varnaðarástæðum.
    Vegna reglu í 3. mgr. 19. gr., sem þrengir verulega svið bótaábyrgðar starfsmanns, reynir ekki á 23. gr. ef starfsmaður veldur með einföldu gáleysi tjóni sem munatrygging, vátrygging gegn rekstrarstöðvun eða ábyrgðartrygging vinnuveitanda hans tekur til, sbr. næsta kafla hér á undan.
    Eftir 23. gr. ber starfsmaður sjálfstæða bótaábyrgð gagnvart tjónþola. Bótakröfu tjónþola má lækka eða fella niður, en þegar afstaða er tekin til þess hvort efni séu til að beita heimild þessari ber að líta til ýmissa atvika sem nánar eru talin í greininni, m.a. hagsmuna tjónþola. Af hinu síðastnefnda leiðir að starfsmaður getur, ef vinnuveitandi hans er ógjaldfær, þurft að greiða tjónþola skaðabætur þótt starfsmaður eigi endurkröfu á hendur vinnuveitanda sínum eftir reglum sem skv. 23. gr. gilda um réttarstöðu þeirra tveggja innbyrðis. Ef vinnuveitandi er ógjaldfær geta atvik ýmist verið þannig að sanngjarnt sé talið að fella bótaskyldu á starfsmann eða eðlilegt þyki að tjónþoli beri tjónið sjálfur. Úr því verða dómstólar að skera í ljósi atvika eins og þau eru hverju sinni og á grundvelli reglna 23. gr.


4.11.         Almenn lækkunarregla.

    Eins og áður greinir er í frumvarpinu fylgt þeirri meginstefnu að skaðabótaábyrgð hins bótaskylda er að verulegu leyti afnumin í þeim tilvikum sem tjónþoli fær vátryggingabætur. Sama á við þegar tjónþoli er opinber aðili sem dreifir áhættu sinni án vátrygginga. Enn fremur er dregið að miklum mun úr bótaskyldu starfsmanns sem veldur tjóni í vinnu í þágu vinnuveitanda þótt tjónþoli njóti ekki tryggingagreiðslna. Nú á tímum getur hlotist mjög mikið tjón af einum atburði þótt orsök hans sé óverulegt gáleysi. Það er ekki aðeins svo að hver sem er getur hlotið tjón af gáleysi annars manns, heldur getur hver sem er orðið fyrir því að verða bótaskyldur. Annars staðar á Norðurlöndum hefur þess vegna þótt ástæða til að ganga enn lengra í þá átt að draga úr skaðabótaábyrgð en gert er eftir framansögðu. Lögfest hefur verið almenn lækkunarheimild sem ekki er bundin við tjón sem valdið er í starfi eins og fyrrgreind regla í 23. gr. frumvarpsins kveður á um.
    Lækkunarheimild sú, sem tillaga er gerð um í 24. gr. frumvarpsins, veitir tækifæri til þess að milda áhrif skaðabótareglna, þ.e. draga úr eða fella bótaábyrgð niður, ef sérstök rök eru til þess að víkja frá þeim reglum sem annars gilda um stofnun bótaábyrgðar. Rök þessi, sem eru félagslegs eðlis, hafa stundum verið nefnd velferðarsjónarmið. Sérstakar heimildir í lögum til að milda skaðabótaábyrgð styðjast að nokkru við sömu rök og lagaheimildir til þess að víkja til hliðar ósanngjörnum samningsákvæðum, sbr. einkum 36. gr. laga nr. 7/1936 eins og henni var breytt með lögum nr. 11/1986. Hér er notað heitið lækkunarregla eða lækkunarheimild um þá hliðrunarreglu sem felst í 24. gr. frumvarpsins, sbr. 3. kafla hér að framan.
    Þótt aðalrökin fyrir lögfestingu almennrar lækkunarheimildar séu bundin aðstæðum tjónvalds verður einnig að gera hana þannig úr garði að hagsmunir tjónþola séu ekki fyrir borð bornir. Eigi tjónþoli ekki kost á vátryggingarfé eða öðrum slíkum úrræðum til þess að fá tjón sitt bætt yrði hann að sjálfsögðu að bera tjón sitt að hluta eða bótalaust ef lækkunarheimild yrði beitt. Sú niðurstaða mundi oft verða álitin ósanngjörn. Lagaheimild um lækkun eða niðurfellingu bóta af velferðarástæðum verður því að vera þannig að bæði sé unnt að líta til hagsmuna tjónvalds og tjónþola þegar metið er hvort eða að hve miklu leyti beita skuli heimildinni. Auk þess að meta hagsmuni aðila sjálfra verður dómari að hafa svigrúm til þess að líta til þess hvort varnaðaráhrifum skaðabótareglna verði stefnt í hættu ef lækkunarreglu yrði beitt. Þótt ýmsir efist um að skaðabótareglur hafi veruleg varnaðaráhrif er hugsanlegt að mjög víðtæk lækkunarheimild geti ýtt undir kæruleysi eða dregið úr áhuga manna á því að gera eðlilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir tjón. Þess vegna er 24. gr. frumvarpsins orðuð þannig að til hennar verður ekki gripið nema í sérstökum tilvikum sem heyra til undantekninga.
    Lækkunarheimildinni er bæði ætlað að gilda um skaðabótaábyrgð utan samninga og innan. Ljóst er að mikilvægt er fyrir öryggi í fjárhagslegum samskiptum manna að haga lögum þannig að menn baki sér ábyrgð ef þeir standa ekki við samninga sem þeir eru bundnir af. Lækkunarheimild yrði því almennt ekki beitt um bótaskyldu vegna vanefnda á samningi. Þó kunna að koma upp tilvik innan samninga þar sem þörf er fyrir heimildina, en að sjálfsögðu verður hún aðeins notuð að fullnægðum hinum þröngu skilyrðum sem talin eru í 24. gr.


4.12.         Fleiri en einn skaðabótaskyldir.

    Í 25. gr. frumvarpsins er almenn regla um skiptingu ábyrgðar milli þeirra er bera saman bótaábyrgð gagnvart tjónþola. Nú eru ekki almenn ákvæði um það efni í settum lögum hér á landi.
    Ef frumvarpið verður að lögum verður bótaábyrgð skipt milli hinna bótaskyldu eftir mati á atvikum sem nefnd eru í grein þessari og eftir reglum 19.–22. gr. Eitt helsta nýmæli 25. gr. er það að ef einn eða fleiri hinna bótaskyldu eru ábyrgðartryggðir skal ábyrgðartryggingin bera tjónið eftir reglum frumvarpsins um ábyrgð á tjóni sem vátrygging tekur til, sbr. það sem greinir í kafla 4.9.


4.13.         Eigin sök tjónþola.

    Í frumvarpinu felast ekki breytingar á almennum reglum um eigin sök tjónþola eða sambærileg atvik sem leitt geta til meðábyrgðar tjónþola. Í 2. mgr. 24. gr. frumvarpsins er þó lækkunarheimild í þágu tjónþola. Í henni felst að líta má alveg eða að nokkru fram hjá því að tjónþoli var meðvaldur að tjóni ef skilyrði hinnar almennu lækkunarheimildar í 1. mgr. 24. gr. eru fyrir hendi.


5.    Fjárhagsleg áhrif.

    Þótt reglur frumvarpsins leiði almennt til hækkunar á dánarbótum og bótum fyrir þá örorku sem skerðir í raun getu tjónþola til að afla vinnutekna má telja fullvíst að heildarútgjöld þjóðarinnar af skaðabótagreiðslum fyrir líkamstjón minnki verulega ef frumvarpið verður að lögum. Ástæða þess er sú að samkvæmt reglum frumvarpsins verða bætur fyrir minni háttar læknisfræðilega örorku, sem ekki veldur raunverulegu fjártjóni, mun minni en nú er. Slys, sem hafa í för með sér slíka minni háttar örorku, eru svo mörg að lækkun útgjalda vegna þeirra gerir meira en að vega upp útgjaldaaukningu af hærri dánarbótum og örorkubótum til þeirra sem í reynd bíða mikið fjárhagslegt tjón af slysi eða öðrum atvikum sem hafa líkamstjón í för með sér.
    Reglur frumvarpsins um að draga úr eða fella brott endurkröfurétt vátryggingafélaga og Tryggingastofnunar ríkisins varða einungis tilfærslu tjónskostnaðar og auka því ekki heildarútgjöld sem falla á þjóðina vegna tjónsatburða. Sama á við um brottfellingu og skerðingu endurkröfuréttar ríkis og sveitarfélaga vegna tjóns á hagsmunum sem hið opinbera vátryggir ekki og hefur því í eigin áhættu. Þar við bætist að fé, sem innheimtist með endurkröfum, er óverulegur hluti heildarkostnaðar af skaðabótakröfum.
    Kostnaður við örorkunefnd getur orðið meiri en kostnaður sem nú hlýst af greiðslum til lækna fyrir örorkumat, en það er þó engan veginn víst. Þeir sem bera bótaábyrgð á tjóni skulu bera kostnað þennan en ekki ríkissjóður. Verði frumvarpið að lögum fellur niður kostnaður við álitsgerðir og útreikninga tryggingastærðfræðinga. Einnig má gera ráð fyrir að kostnaður vegna þóknunar til lögmanna minnki.
    Útgjöld vegna skaðabótakrafna eru í fyrstu borin af þeim sem bera skaðabótaábyrgð eða ábyrgðartryggingum. Þegar hinn skaðabótaskyldi er atvinnurekandi verður hann að reikna með kostnaði sínum af bótagreiðslum eða iðgjöldum ábyrgðartryggingar er hann ákveður endurgjald sitt fyrir vöru eða þjónustu. Sama gildir um ríki og sveitarfélög. Skattar eða önnur opinber gjöld verða m.a. að standa undir útgjöldum sem hið opinbera hefur af því að greiða skaðabætur eða vátryggingariðgjöld. Í þessum tilvikum fellur því beinn og óbeinn kostnaður af bótagreiðslum á neytendur og skattgreiðendur. Einstaklingar, sem ekki reka atvinnu, verða að jafnaði sjálfir að bera útgjöld af skaðabótagreiðslum og iðgjöldum ábyrgðartryggingar. T.d. verða þeir sjálfir að bera iðgjöld af ábyrgðartryggingu einkabifreiðar og heimilis- eða fjölskyldutryggingu án þess að geta varpað iðgjaldabyrðinni á aðra. Heildarkostnaður af skaðabótagreiðslum fellur því endanlega á almenning án tillits til þess hver greiðir skaðabótakröfu í fyrstu. Leiði lögfesting frumvarpsins til lækkunar á heildarkostnaði við tjón, eins og hér er gert ráð fyrir, mun almenningur njóta góðs af því án þess að dregið verði úr eðlilegum bótarétti þeirra sem verða fyrir tjóni.


6.    Efni frumvarpsins í hnotskurn.

    Í 4. kafla hér á undan er gefið alllangt yfirlit um helstu breytingar sem felast í frumvarpinu. Til hægðarauka skulu hér á eftir rakin meginatriði frumvarpsins í styttra máli en gert er í 4. kafla. Reglur frumvarpsins um tengsl skaðabótareglna og annarra bótaúrræða, þ.e. vátrygginga, almannatrygginga o.fl., eru allflóknar og er samantektin um þær því nokkuð fyrirferðarmikil, sbr. lið 6.9.


6.1.         Örorkumat.

    Grundvelli örorkumats er gerbreytt. Horfið er frá mati sem í meginatriðum er læknisfræðilegt. Í stað þess kemur raunhæft fjárhagslegt mat á þeim áhrifum sem líkamstjón hefur á hæfi hins slasaða til að afla tekna með vinnu, sjá nánar 5. gr.
    Örorkumat, sem nú er miðað við í skaðabótamálum, hefur eingöngu verið gert af læknum. Þessari skipan er breytt og hefur einn aðili, „örorkunefnd“, með höndum mat á örorku, sjá nánar 10. gr.


6.2.         Bætur fyrir varanlegt ófjárhagslegt tjón.

    Breyting á grundvelli örorkumats veldur því að margir tjónþolar, sem hefðu eftir núgildandi reglum fengið örorkubætur, eiga ekki rétt á þeim. Í stað þess koma reglur um staðlaðar miskabætur, bætur fyrir varanlegan miska. Eru þær ákveðnar á grundvelli taflna er líkjast töflum sem nú eru hafðar til hliðsjónar við svonefnt læknisfræðilegt örorkumat. Örorkunefnd semur töflur þessar og ákveður miskastig. Réttur til bóta fyrir varanlegan miska stofnast án tillits til þess hvort tjónþoli á rétt til bóta fyrir varanlega örorku, sjá nánar 4. gr.


6.3.         Útreikningur örorkubóta.

    Reglur frumvarpsins um ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku eru miklu einfaldari en nú. Gert er ráð fyrir að örorkubætur fyrir minni háttar „læknisfræðilega“ örorku lækki almennt eða falli niður, en bætur fyrir mikla örorku hækka. Bætur skal almennt miða við árslaun, þ.e. heildarvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári fyrir þann dag sem tjón varð. Árslaun tjónþola eru margfölduð með 7,5 og síðan með örorkustigi. Þess vegna verður ekki þörf á útreikningi tryggingastærðfræðings. Ekki skal miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr.
    Sérstakar staðlaðar reglur eru um grundvöll útreiknings bóta þegar tjónþoli hafði engar eða takmarkaðar vinnutekjur fyrir slys eða annað tjónsatvik.
    Enginn frádráttur er gerður vegna skattfrelsis bóta eða „hagræðis af eingreiðslu“. Deilur um það efni verða því úr sögunni. Greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, skal almennt ekki draga frá skaðabótakröfu. Frá því eru tvær undantekningar, sbr. 2.–4. málsl. 4. mgr. 5. gr.
    Aldur tjónþola skiptir máli hvað snertir fjárhæð örorkubóta, sbr. ákvæði 9. gr. Um örorkubætur sjá að öðru leyti 5.–9. gr.


6.4.         Þjáningabætur.

    Bætur fyrir tímabundið ófjárhagslegt tjón, „þjáningar“, eru staðlaðar eftir frumvarpinu. Viss fjárhæð reiknast fyrir hvern dag sem tjónþoli er rúmfastur og lægri fjárhæð fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmfastur. Frá þessum meginreglum eru tvær undantekningar, sjá nánar 3. gr.


6.5.         Dánarbætur.

    Reglur um dánarbætur eru skýrari og einfaldari en þær ólögfestu reglur sem farið hefur verið eftir. Reglur um bætur fyrir útfararkostnað breytast þó eigi. Réttur til bóta fyrir röskun á stöðu og högum er felldur niður. Hins vegar eru bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt frumvarpinu almennt mun hærri en nú gerist eftir dómvenju. Um greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni fyrir líkamstjón, gildir sama meginregla og um örorkubótakröfur, þ.e. að tjónþoli heldur almennt óskertum rétti á hendur hinum bótaskylda þrátt fyrir greiðslur frá öðrum.
    Bætur fyrir missi framfæranda eru að mestu staðlaðar. Bætur til eftirlifandi maka eða sambúðarmaka eru 30% af bótum sem ætla má að hinn látni hefði átt rétt á fyrir algera (100%) örorku.
    Bætur til barns sem er yngra en 18 ára og hinum látna var lögskylt að framfæra skulu vera jafnháar heildarverðmæti barnalífeyris sem barnið á rétt á frá því að tjón varð til 18 ára aldurs samkvæmt lögum um almannatryggingar. Hafi hinn látni verið eini framfærandi barns hækka bætur um 100%.
    Lágmark bóta til maka eða sambúðarmaka fyrir missi framfæranda er 3.000.000 kr. Um lækkun bóta vegna aldurs gilda sömu ákvæði og um örorkubætur, sjá nánar 12.–14. gr.


6.6.         Áhrif verðlagsbreytinga á bótakröfu.

    Bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska skal ákveða á grundvelli fjárhæða sem gilda þegar bótafjárhæð er ákveðin eftir því sem nánar segir í frumvarpinu.
    Fjárhæðir þessara bóta breytast mánaðarlega í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu frá gildistöku laganna. Sama á við um aðrar fjárhæðir sem nefndar eru í frumvarpinu, þ.e. hæstu árslaun sem örorkubætur miðast við og lágmark bóta til maka fyrir missi framfæranda. Örorkubætur skal umreikna miðað við breytingar á lánskjaravísitölu frá því að tjón varð og þar til bótafjárhæð er ákveðin með samningi eða dómi, sjá nánar 15. gr.
    Aðrar bætur eru ákveðnar einstaklingsbundið og þarf því ekki sérstaka reglu um uppfærslu þeirra eftir verðlagsbreytingum.


6.7.         Vextir.

    Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda bera fastákveðna vexti frá því að tjón varð. Um vexti af öðrum bótum fer eftir almennum reglum, sbr. vaxtalög, nr. 25/1987, með síðari breytingum. Engar sérstakar reglur um dráttarvexti eru í frumvarpinu, sjá nánar 15. og 16. gr.


6.8.         Reglur um tilhliðrun vegna hagsmuna tjónvalds.

    Reglur þessa efnis eru aðallega tvenns konar. Annars vegar er lækkunarregla í 24. gr. Samkvæmt henni er heimilt að lækka bótafjárhæð eða fella niður skaðabótaábyrgð ef ábyrgð yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt má telja eða álíta verður skerðingu eða niðurfellingu sanngjarna vegna mjög óvenjulegra aðstæðna. Heimild þessi er nýmæli í íslenskum lögum. Að vísu þekkjast sérstakar lækkunarheimildir hér, en gildissvið þeirra er afar takmarkað.
    Hin reglan, sem hér um ræðir, er í 23. gr. Hún dregur mjög úr skaðabótaábyrgð starfsmanns sem veldur tjóni við starf í þágu vinnuveitanda síns. Regla þessi kemur í stað núgildandi heimilda í siglingalögum og fleiri lögum til að lækka eða fella niður skaðabætur vegna tjóns sem launþegi veldur í starfi.


6.9.         Brottfall skaðabótaréttar vegna tjóns á vátryggðum hagsmunum o.fl. Endurkröfuréttur vátryggingafélags o.fl.


6.9.1.    Tjón sem bætt er af líftryggingu, slysa- eða sjúkratryggingu, almannatryggingum eða lífeyrissjóði (1. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 22. gr.).

    Hvorki tjónþoli vátryggingafélag (Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður) getur krafið hinn bótaskylda.


6.9.2.    Tjón sem bætt er af munatryggingu eða vátryggingu gegn rekstrarstöðvun (19.–21. gr.).

    Hvorki tjónþoli vátryggingafélag getur krafið hinn bótaskylda.
    Undantekningar: Skaðabótakrafa og endurkrafa stofnast, ef (1) tjóni er valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða (2) í opinberri starfsemi eða einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri (sérregla um skaðabótaábyrgð starfsmanns er í 3. mgr. 19. gr.) eða (3) þegar bótareglur umferðarlaga, loftferðalaga, siglingalaga, laga um ábyrgð við vöruflutninga á landi eða alþjóðasamnings um olíumengun eiga við.


6.9.3.    Tjón á ótryggðum hagsmunum sem hið opinbera hefur í eigin áhættu (19.–21. gr.).

     Tjónþoli (ríkissjóður, sveitarfélag eða aðrir opinberir aðilar) getur ekki krafið hinn bótaskylda.
    Undantekningar: Skaðabótakrafa og endurkrafa stofnast ef (1) tjóni er valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða (2) í opinberri starfsemi eða einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri (sérregla um skaðabótaábyrgð starfsmanns er í 3. mgr. 19. gr.) eða (3) þegar bótareglur umferðarlaga, loftferðalaga, siglingalaga, laga um ábyrgð við vöruflutninga á landi eða alþjóðasamnings um olíumengun eiga við.


6.9.4.    Tjón sem ábyrgðartrygging tekur til (2. mgr. 25. gr. og 3. mgr. 19. gr.).

    Ef einn eða fleiri þeirra, sem bera óskipta bótaábyrgð, hafa ábyrgðartryggingu sem tekur til tjónsins fer um réttarstöðu tjónvalda innbyrðis eftir reglum 1. og 2. mgr. 19. og 21. gr. Þetta getur haft þau áhrif að ábyrgðartryggður tjónvaldur (eða vátryggjandi hans) geti ekki krafið tjónvald, sem ekki er ábyrgðartryggður, um neinn hluta tjónsins.
    Heimilt er að skerða rétt ábyrgðartryggðs tjónvalds enn frekar en að framan segir, sjá 2. og 3. málsl. 2. mgr. 25. gr.
    Hvorki tjónþoli vátryggingafélag getur krafið starfsmann er veldur tjóni sem ábyrgðartrygging vinnuveitanda hans tekur til, nema hann hafi valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.


6.9.5.    Tjón, sem önnur skaðatrygging en munatrygging, vátrygging gegn rekstrarstöðvun eða ábyrgðartrygging tekur til (1. mgr. 22. gr.).

     Tjónþoli og vátryggingafélag geta krafið hinn bótaskylda.
    Regla þessi er undantekningarlaus. Engin heimild er til að lækka eða fella niður skaðabótakröfu tjónþola eða endurkröfu vátryggingafélags.
    Þess ber að gæta að reglan á ekki við um mikilvægustu flokka skaðatrygginga, þ.e. munatryggingar, vátryggingar gegn rekstrarstöðvun eða ábyrgðartryggingar.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í þessum kafla eru reglur um skaðabætur fyrir tjón af völdum líkamstjóns.

Um 1. gr.


    Hér greinir frá þeim liðum sem bóta verður krafist fyrir vegna líkamstjóns sem veldur ekki dauða. Í framkvæmd eru bætur nú alloft ákveðnar í einu lagi fyrir tvo eða jafnvel fleiri kröfuliði. T.d. er algengt að bætur fyrir tímabundna og varanlega örorku séu dæmdar með einni fjárhæð. Eins eru bætur nokkuð oft dæmdar í einu lagi fyrir örorku og miska. Með frumvarpinu er stefnt að því að breyta þessu þannig að í dómum og við uppgjör utan réttar verði hverju sinni tilgreindur sérstaklega hver liður tjóns sem bæta skal. Liðirnir eru þessir:
    atvinnutjón,
    sjúkrakostnaður,
    annað fjártjón,
    þjáningar,
    varanlegur miski og
    örorka (varanlegur missir eða varanleg skerðing getu til að afla vinnutekna).
    Með sjúkrakostnaði er í fyrsta lagi átt við útgjöld vegna eðlilegra og nauðsynlegra ráðstafana við lækningu tjónþola. Hér kemur einkum til kostnaður við læknishjálp, dvöl á sjúkrahúsi, endurhæfingu og sjúkraflutning. Einnig má nefna t.d. hjólastól, smíði á sérstökum skóm og útgjöld vegna þess að tjónþoli þarf að breyta um starf eftir slys. Tjónþoli getur þó ekki krafist bóta vegna síðastgreindra útgjalda ef bætur fyrir varanlega örorku eru ákveðnar án tillits til þess hvort hann á kost á að skipta um starf.
    Með orðunum „annað fjártjón“ í 1. mgr. er átt við útgjöld sem falla á tjónþola strax eða fljótlega eftir að tjónsatvik bar að höndum en erfitt er að færa sönnur á, t.d. með því að leggja fram reikninga. Námsmönnum hafa verið dæmdar bætur fyrir röskun á stöðu og högum vegna tafa sem orðið hafa á námi vegna slyss, sbr. 1. mgr. 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940, sem nú er lagt til að felld verði niður, sjá athugasemdir við 26. og 29. gr. hér á eftir. (Um bætur fyrir röskun á stöðu og högum í dánarbótamálum sjá athugasemdir við 12. gr.) Hér er ekki gert ráð fyrir neinni efnisbreytingu á þessu og yrði því heimilt að bæta slíkt sem „annað fjártjón“ (en ekki undir heitinu „röskun á stöðu og högum“) ef frumvarpið verður að lögum.
    Ákvæðið um bætur fyrir „annað fjártjón“ er einnig sett til þess að veita svigrúm til þess að ákvarða bætur fyrir tjón sem ekki telst til sjúkrakostnaðar í þröngri merkingu þess orðs.
    Frá skaðabótum til tjónþola skal draga bætur almannatrygginga og aðrar bótagreiðslur frá þriðja manni vegna framangreindra útgjalda hans, t.d. bætur úr slysatryggingu ökumanns eftir umferðarlögum og bætur frá vátryggingafélagi sem selt hefur vátryggingu gegn sjúkrakostnaði.
    Ákvæði 3. mgr. um að verðmæti vinnu við heimilisstörf skuli leggja að jöfnu við launatekjur skiptir máli þegar ákveða skal bætur fyrir atvinnutjón skv. 2. gr. eða varanlega örorku skv. 2. mgr. 7. gr. Hér er einnig vísað til reglna 8. gr. um bætur vegna varanlegrar örorku tjónþola sem nýtir starfsgetu sína að verulegu leyti til annars en að afla vinnutekna.

Um 2. gr.


    Ákvæði 1. mgr. 2. gr. er í samræmi við það sem nú er almennt talið gilda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Hér skal þó vakin athygli á því að nýmælið í 3. mgr. 1. gr. um verðmæti vinnu við heimilisstörf getur haft veruleg áhrif þegar bætur eru ákvarðaðar fyrir atvinnutjón. Um bætur fyrir útgjöld vegna sérstakrar aðstoðar á heimili, þegar heimavinnandi maki eða sambúðarmaki slasast, fer eftir reglunum um atvinnutjón. Tjónþoli getur þó aðeins krafist greiðslu á útlögðum kostnaði.
    Með orðunum „getur hafið vinnu að nýju“ er átt við að tjónþoli geti byrjað aftur starf að verulegu leyti í sama mæli og áður.
    Venjulega er ekki að vænta frekari bata þegar svo er komið að áliti lækna að ólíklegt er að tjónþoli læknist frekar af afleiðingum líkamstjóns.
    Með 2. mgr. eru ekki gerðar breytingar frá gildandi rétti. Föst dómvenja er um að draga hvers kyns laun og dagpeninga, sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna slyss, frá skaðabótakröfu hans á hendur hinum bótaskylda. Sama regla er talin gilda um vátryggingabætur ef þær teljast „raunveruleg skaðabót“, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga. Dagpeningar, sem vátryggingafélag skal greiða af samnings- eða lögbundinni atvinnuslysatryggingu launþega, nema venjulega fjárhæðum sem nánar eru tilteknar í vátryggingarsamningi án tillits til þess hve mikil daglaun tjónþola eru á því tímabili sem hann er óvinnufær. Þótt vera kunni að slíkir dagpeningar verði strangt tekið ekki taldir „raunveruleg skaðabót“ í merkingu greinds ákvæðis laga um vátryggingarsamninga er ekki stefnt að því með frumvarpinu að breyta þeirri almennu reglu að dagpeninga þessa skuli draga frá skaðabótakröfu á hendur þeim sem ber ábyrgð á slysi. Telja verður að dagpeningar samnings- og lögbundinna atvinnuslysatrygginga launþega séu „sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær“. Samkvæmt þessu á reglan um frádrátt vátryggingabóta, sem eru raunveruleg skaðabót, nánast eingöngu við um greiðslur úr slysatryggingu ökumanns skv. 92. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, og hliðstæðri slysatryggingu farþega í ökutæki.
    Rétt er að taka sérstaklega fram að með frumvarpinu er ekki stefnt að neinum breytingum á réttarreglum sem dómstólar hafa myndað um hvernig haga beri frádrætti slysatryggingarfjár o.fl. greiðslna frá þriðja manni þegar sök er skipt í skaðabótamáli.
    Um aðrar slysatryggingar og sjúkratryggingar gildir nú regla 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga. Samkvæmt henni hefur greiðsla, sem tjónþoli fær frá slysa- eða sjúkratryggingu, engin áhrif á rétt hans gegn hinum skaðabótaskylda. Tjónþoli getur með öðrum orðum krafist fullra og óskertra skaðabóta fyrir líkamstjón þótt slysatryggjandi hafi greitt honum vátryggingarfé vegna tjónsins. Þetta á þó ekki við ef greiðsla vátryggingafélags er raunveruleg skaðabót, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, en hér á landi er helsta dæmi þess áðurnefnd slysatrygging ökumanns og sams konar slysatrygging farþega í ökutæki. Eftir 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins verða engar efnislegar breytingar á greindum reglum.
    Ákvæði 2. mgr. um laun í veikinda- eða slysaforföllum tengist 2. mgr. 17. gr., en þar er kveðið á um að vinnuveitandi eigi endurkröfurétt á hendur hinum skaðabótaskylda vegna launa eða annarra greiðslna á forfallatímabili.

Um 3. gr.


    Ákvæði um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón eru nú í 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940. Samkvæmt henni má m.a. dæma bætur fyrir þjáningar og óþægindi þegar maður á að lögum að svara bótum fyrir spjöll á líkama. Ákvörðun um bætur fer eftir mati dómara.
    Í frumvarpinu er orðið „fégjald“ ekki notað um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Orðið fégjald er að vísu notað í þeirri merkingu í 264. gr. hegningarlaga, en hefur ekki náð festu í íslensku lagamáli. Í frumvarpinu er orðið bætur því notað hvort sem um er að ræða fjártjón eða ófjárhagslegt tjón.
    Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir sérstökum bótum fyrir óþægindi, enda virðast dómstólar nánast líta á þjáningar og óþægindi sem samnefni, a.m.k. munu ekki vera skýr dæmi um óþægindi sem sérstakt tilefni bóta fyrir tímabundið ófjárhagslegt tjón. Eftir frumvarpinu koma þjáningabætur því í stað þess sem nú er nefnt bætur fyrir þjáningar og óþægindi.
    Reglur þessarar greinar eru nýmæli. Hér er lagt til að bætur fyrir tímabundið ófjárhagslegt tjón, þ.e. þjáningar, verði staðlaðar, þannig að nánar tiltekin fjárhæð verði greidd fyrir hvern dag sem tjónþoli er rúmfastur, en lægri fjárhæð fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmliggjandi. Fyrir tjónþola skiptir miklu að einföld og skýr regla sé til um ákvörðun bóta fyrir ófjárhagslegt tjón. Í þessu felst einnig veruleg hagræðing fyrir dómara, lögmenn og aðra sem vinna að málum um ákvörðun fébóta fyrir líkamstjón.
    Þjáningabætur eru fégjald fyrir þjáningar í kjölfar líkamstjóns. Bætur greiðast aðeins fyrir tiltekið tímabil, þ.e. þar til ekki er að vænta þess að tjónþoli hljóti frekari bata. Samkvæmt frumvarpinu er almennt ekki heimilt að dæma þjáningabætur, nema tjónþoli sé veikur. Eftir það getur tjónþoli eftir atvikum átt rétt á bótum fyrir varanlegt ófjárhagslegt tjón, þ.e. varanlegan miska, sbr. 4. gr.
    Ákvæði frumvarpsins breyta í engu þeirri reglu sem nú gildir að réttur til þjáningabóta stofnast án tillits til þess hvort tjónþoli hefur orðið fyrir fjártjóni.
    Í greininni eru tvær undantekningar frá meginreglunni um staðlaðar bætur. Önnur er sú að þegar sérstaklega stendur á er heimilt að greiða þjáningabætur þótt tjónþoli sé ekki veikur. Dæmi um slík tilvik er það að líkamstjón valdi tímabundnum líkamlegum óþægindum eða trufli eðlilega líkamsstarfsemi án þess að sagt verði að tjónþoli sé veikur. Hin er þess efnis að ef bætur nema meira en 200.000 kr. má víkja frá ákvæðum um fastan taxta fyrir veikindadag. Undantekningarregla þessi veitir svigrúm til að ákveða að álitum lægri þjáningabætur til tjónþola ef veikindatímabil eftir líkamstjón er langt. Rök fyrir þessum undantekningum eru þau að ekki þykir rétt að binda hendur dómara um of í þessu efni vegna þess að sérstök tilvik kunna að koma upp þar sem staðlaða reglan leiðir til óeðlilegrar niðurstöðu.
    Ákvæði 2. mgr. eru sett til þess að taka af öll tvímæli um að greiðsla, sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, lífeyrissjóði, vátryggingafélagi eða öðrum þriðja manni vegna líkamstjóns, hefur engin áhrif á þjáningabótakröfu hans á hendur hinum bótaskylda. Sú undantekning felst þó í 2. mgr. að draga skal frá skaðabótakröfu þjáningabætur sem slysatrygging ökumanns eftir umferðarlögum eða sambærileg slysatrygging farþega greiðir, sbr. 3. og 4. málsl. 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Ástæðan fyrir þessari undantekningu er sú að greindum slysatryggingum ökumanns og farþega er ætlað að greiða að fullu bætur fyrir ófjárhagslegt tjón eftir þeim almennu reglum sem á hverjum tíma gilda um ákvörðun bótafjárhæðar fyrir líkamstjón. Undantekningarreglan, sem hér um ræðir, á því að koma í veg fyrir að tjónþoli fái hærri bætur fyrir þjáningar en kveðið er á um í 1. mgr. þessarar greinar. Í 3. mgr. 4. gr. er ákvæði sem er samhljóða þessari 2. mgr. 3. gr.

Um 4. gr.


    Bætur fyrir varanlegan miska er fjárgreiðsla er inna skal af hendi vegna ófjárhagslegs tjóns sem tjónþoli verður fyrir til frambúðar af völdum líkamsspjalla. Réttur til bóta fyrir varanlegan miska stofnast án tillits til þess hvort tjónþoli á rétt á bótum fyrir fjártjón.
    Meginreglan um ákvörðun bóta fyrir varanlegan miska er í 1. mgr. þessarar greinar. Samkvæmt henni skal við ákvörðunina líta til þess hvert eðli og umfang líkamstjónsins er frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og erfiðleika sem afleiðingar tjónsatviks valda í lífi tjónþola.
    Ákvörðun bótafjárhæðar fer fram á grundvelli miskastigs. Örorkunefnd, sbr. 10. gr., skal semja töflur þar sem algengustu tegundir varanlegs miska eru látnar jafngilda tilteknum hundraðshlutum hliðstætt því sem gerist í örorkutöflum sem nú eru notaðar við örorkumat í skaðabótamálum og slysatryggingum. Við gerð taflnanna skal lagt til grundvallar að tiltekinn varanlegur miski bitni jafnþungt á hverjum þeim sem fyrir henni verður þannig að sami áverki eða sams konar líkamsspjöll leiði að jafnaði til sama miskastigs. Töflurnar eiga því að sýna „læknisfræðilega“ orkuskerðingu eða miska, en ekki skerðingu á getu til að afla tekna. Eftir 10. gr. frumvarpsins er tjónþola eða hinum bótaskylda veitt heimild til að bera ágreiningsefni undir örorkunefnd. Til ágreinings kann einkum að koma ef ekki er unnt að heimfæra tiltekin líkamsspjöll undir ákveðinn lið í miskatöflu.
    Samkvæmt 1. mgr. skulu bætur nema 4.000.000 kr. þegar varanlegur miski er metinn 100% og hlutfallslega lægri fjárhæð þegar skerðing er minni. T.d. verða bætur vegna 40% skerðingar 1.600.000 kr. Bætur skal þó aldrei greiða ef varanlegur miski er minni en 5%.
    Í undantekningartilvikum kann fjárhæð bóta eftir 4.000.000 kr. markinu að þykja ófullnægjandi, einkum þegar tjónþoli hefur orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, t.d. bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Heimildin í næstsíðasta málslið 1. mgr. til að ákvæða hærri bætur, þegar sérstaklega stendur á, er sett í því skyni að unnt verði að veita hærri bætur í slíkum tilvikum.
    Hér á eftir fara örfá dæmi um stigamat á varanlegum miska úr töflu sem lögð er til grundvallar í skaðabótamálum í Danmörku, sbr. Anders Vinding Kruse og Jens Møller: Erstatningsansvarsloven. 2. útg. Khöfn 1989, bls. 87 og áfram:

    Fingur og hönd.
    Missir þumalfingurs 25%.
    Missir fremstu kjúku þumalfingurs 12%.
    Missir hálfrar fremstu kjúku þumalfingurs 8%.
    Missir vísifingurs 10%.
    Missir tveggja fremstu kjúkna vísifingurs 10%.
    Missir fremstu kjúku vísifingurs 5%.
    Missir handar 60% (hægri), 55% (vinstri).
    Staurliður í úlnlið 10%.

    Útlimir.
    Missir handleggs 70% (hægri), 65% (vinstri).
    Aflimun á upphandlegg 65% (hægri), 60% (vinstri).
    Alger lömun ölnartaugar 30% (hægri), 25% (vinstri).
    Missir fótar 30–40%.
    Missir fótleggs 65%.
    Aflimun við hné eða á læri 50–65%.
    Alger lömun dálkstaugar (nervus fibularis) 10–15%.
    Alger lömun lærtaugar 20%.
    Staurliður í hné (hentug staða) 25%.
    Staurliður í mjöðm (hentug staða) 30%.

    Höfuð.
    Missir lyktarskyns 10%.
    Einkenni eftir heilahristing (postcommot. syndrom) 8–10%.
    Missir annars auga eða sjónar á öðru auga 20%.
    Missir beggja augna eða sjónar á báðum augum 100%.
    Missir heyrnar á öðru eyra 10%.
    Alger missir heyrnar 75%.

    Háls og hryggur.
    Afleiðingar hryggþófahlaups (dicus prolaps) 12–40%.
    Hreyfingarhindranir og/eða sársauki í hálsi 8%.
    Hreyfingarhindranir og/eða sársauki í hálsi þó að hálskragi sé notaður,
         allt að 15%.
    Taugaleiðniverkir vegna rótarertingar 12–15%.
    Sársauki í hrygg 5–25%.

    Kviðarhol.
    Missir milta 5%.
    Missir annars nýra 10%.

    Samkvæmt 6. málsl. 1. mgr. skal engar bætur greiða fyrir varanlegt mein þegar miskastig er minna en 5%. Samhljóða regla er í dönsku skaðabótalögunum.
    Með reglunni í 6. málsl. er stefnt að því að koma í veg fyrir að fjalla þurfi sérstaklega um mjög óverulegar afleiðingar slyss, þ.e. afleiðingar sem eru vart mælanlegar. Telja verður marklaust að meta varanlegan miska allt niður í 1% eða 1,5% eins og dæmi munu vera um í læknisfræðilegum örorkumatsgerðum. Hér eiga að nokkru við sömu sjónarmið og um lágmark örorkubóta sem vikið er að í athugasemdum við 5. gr. Ef varanlegur miski skiptir einhverju máli yrði hann metinn til a.m.k. fimm miskastiga. Sem dæmi um varanlegan miska, sem ekki yrði talinn ná 5% lágmarkinu, má nefna minni háttar lýti, svo sem lítið andlitsör sem ekki er áberandi.
    Yfirleitt munu fimm miskastig eftir frumvarpinu svara til 5% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku, en svo þarf ekki alltaf að vera. T.d. kunna fingurmeiðsli, sem nú eru metin til minni en 5% læknisfræðilegrar örorku, í undantekningartilvikum að verða metin til fimm eða fleiri miskastiga. Dæmi: Minni háttar tilfinningatruflanir í fingrum hljómlistarmanns geta ekki aðeins skert tekjur hans til frambúðar heldur einnig valdið honum varanlegum missi lífsánægju.
    Eftir norskum og sænskum skaðabótarétti eru einnig takmörk fyrir því hve lítill varanlegur miski fæst bættur með fé. Norsku skaðabótalögin gera það t.d. að skilyrði fyrir rétti til bóta vegna varanlegs miska að hann sé verulegur. Ákvæði þetta er skýrt svo að almennt verði slíkar bætur ekki greiddar nema varanlegur miski sé a.m.k. 15%.
    Í 2. mgr. er kveðið á um lægri bætur til þeirra sem orðnir eru 60 ára gamlir þegar þeir verða fyrir líkamstjóni. Ákvæði 2. mgr. þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. mgr. er regla sem er samhljóða ákvæði 2. mgr. 3. gr. um áhrif greiðslna frá þriðja manni. Samkvæmt því er meginreglan sú að greiðslur, sem tjónþoli kann að fá frá þriðja manni, hafa ekki áhrif á rétt tjónþola til bóta fyrir varanlegan miska. Sá sem skaðabótaábyrgð ber verður því að greiða bætur óskertar, enda þótt tjónþoli hafi t.d. fengið örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins, lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi sem selt hefur frjálsa, samnings- eða lögbundna slysatryggingu er tekur til slyss tjónþola, en nefndir aðilar greiða ekki bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Slysatrygging ökumanns eftir umferðarlögum og sams konar slysatrygging farþega í ökutæki hafa þó þá sérstöðu að þær greiða bætur fyrir ófjárhagslegt tjón. Eiga þær það sammerkt með ábyrgðartryggingu. Þykir því rétt að bætur, sem tjónþoli fær fyrir varanlegan miska frá þessum slysatryggingum, dragist að fullu frá skaðabótakröfu hans á hendur hinum bótaskylda. Að öðru leyti vísast til athugasemda með 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Sá grundvallarmunur er á 4. og 5. gr. að hin síðarnefnda varðar bætur fyrir fjártjón, en sú fyrrnefnda bætur vegna ófjárhagslegra afleiðinga líkamstjóns.
    Bætur eftir 5. gr. greiðast ekki nema eigi sé lengur að vænta frekari bata eftir tjónsatvik og að fyrir liggi að geta tjónþola til þess að afla sér tekna með vinnu sé varanlega skert. Mat á því fer eftir fjárhagslegum mælikvarða. Samkvæmt þessu hefur það ekki sjálfstæð áhrif á rétt tjónþola til bóta hve miklar afleiðingar líkamstjóns hans eru metnar eftir hreinum læknisfræðilegum mælikvarða, sbr. þó sérreglu um börn o.fl. í 8. gr. Hins vegar skal fara eftir læknisfræðilegum sjónarmiðum þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska er ákveðin.
    Það sem ræður úrslitum við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku samkvæmt þessari grein er hvort tjónþoli tapar tekjum til frambúðar.
    Í 2. mgr. segir í almennum orðum við hvað eigi að miða þegar tjón vegna varanlegrar örorku er metið. Annars vegar verður að meta hvaða atvinnutækifæri tjónþoli hefði átt ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og hins vegar atvinnutækifæri eftir líkamstjón. Í því skyni verður hverju sinni að afla upplýsinga um atvinnu hans og tekjur fyrir og eftir tjónsatvik. Að því er varðar atvinnutækifæri eftir það skal vakin athygli á því að í 2. mgr. er berum orðum vikið að því að líta skuli til þess hvort ætla megi að tjónþoli eigi kost á vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við. Við slíkt sanngirnismat koma einkum til álita andlegir og líkamlegir hæfileikar tjónþola, verkkunnátta hans, menntun og aldur.
    Mat á getu tjónþola til að afla tekna til frambúðar tekur oftast nær til margra ára. Slíkt mat er venjulega því auðveldara þeim mun lengra sem liðið er frá slysi eða öðru tjónsatviki. Í ýmsum tilvikum er ekki unnt að gera mjög nákvæmt mat á tjóni vegna missis eða skerðingar getu til tekjuöflunar fyrr en mörgum árum eftir að tjónsatvik bar að höndum. Til þess að endanleg ákvörðun bótafjárhæðar dragist ekki von úr viti af þessum sökum er lagt til í 1. mgr. að krafa um bætur fyrir örorku stofnist þegar tjónþoli getur ekki náð frekari bata. Af því leiðir að tjónþoli eða hinn bótaskyldi geta þá krafist örorkumats. Við örorkumat verður fyrst og fremst að leggja til grundvallar upplýsingar sem eru fyrir hendi þegar ljóst þykir að tjónþoli geti ekki náð frekari bata. Einnig er unnt að líta til upplýsinga sem síðar koma fram en áður en málinu er endanlega lokið. Hins vegar mundi ekki unnt að fresta máli til þess að bíða eftir árangri endurhæfingar eða því hvernig tjónþola gangi að afla sér tekna þegar hann hefur hafið störf að nýju eftir slys. Þegar örorka er metin ber því almennt ekki að líta til þess hvort unnt sé að koma við endurmenntun eða endurþjálfun er komi tjónþola að gagni. Hins vegar skal líta til endurhæfingar (endurmenntunar og endurþjálfunar) sem þegar hefur farið fram og enn fremur til þess ef telja má víst að fyrirhuguð endurhæfing beri árangur.
    Hér skal vakin athygli á 10. gr. frumvarpsins, en samkvæmt henni getur tjónþoli eða hinn bótaskyldi krafist álits örorkunefndar um ákvörðun miskastigs og örorkustigs. Samkvæmt 3. mgr. reiknast örorka í hundraðshlutum (örorkustigum).
    Hér er fellt niður ákvæði sem var í 2. málsl. 3. mgr. 5. gr. fyrri gerðar frumvarpsins þess efnis að örorkubætur skyldi ekki greiða væri varanleg skerðing á getu tjónþola til að afla vinnutekna minni en 15%. Ákvæðið var tekið óbreytt úr dönsku lögunum sem eru fyrirmynd frumvarpsins. Í greinargerð með þeim segir að tilgangur ákvæðisins sé eingöngu sá að koma í veg fyrir að fjalla þurfi um tilvik sem yfirleitt eru smávægileg og þar sem erfitt er að færa sönnur á að tjón hafi orðið. Í dönskum lögskýringargögnum kemur fram að reynslan sýnir að varanlegur tekjumissir af völdum örorku er sjaldnast minni en 15–20% ef fjártjón hefur orðið á annað borð. Auk þess kemur fram að með 15% lágmarkinu er ekki stefnt að því að girða fyrir bótarétt tjónþola þótt fyrir liggi að varanlegur tekjumissir sé minni en 15%. Í samræmi við þetta er samsvarandi regla í dönsku skaðabótalögunum skilin og framkvæmd þannig að ef leitt er í ljós að tjónþoli hefur í raun beðið varanlegt tekjutjón er örorka hans metin a.m.k. 15% þótt tekjutjónið nái ekki 15%.
    Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ljóst að neðri mörk bætanlegs tjóns vegna varanlegrar örorku voru samkvæmt fyrri gerð frumvarpsins ekki eins ósveigjanleg og ætla mátti af orðalagi ákvæðis þess sem hér um ræðir. Lengi má deila um hve mikið varanlegt vinnutekjutap þurfi að vera til þess að geta talist mælanlegt í hundraðshlutum. Í fyrri gerð frumvarpsins er á því byggt að ekki sé ástæða til að nota nákvæmari mælikvarða en umrædd regla gerir ráð fyrir. Í þessu frumvarpi er hins vegar talið rétt að fella neðri mörkin alveg niður í samræmi við ábendingar sem fram komu í nokkrum umsögnum um frumvarpið.
    Oft er miklum erfiðleikum bundið að meta vinnutekjutjón vissra hópa tjónþola, þ.e. barna, ungs fólks í skóla og þeirra sem vinna heimilisstörf. Er því lagt til í 8. gr. frumvarpsins að örorkubætur til tjónþola, sem nýta starfsgetu sína að verulegu leyti til annars en að afla vinnutekna, skuli ákveðnar eftir miskastigi skv. 4. gr. Þess vegna skal ekki meta örorku þessara tjónþola á grundvelli örorkustigs skv. 5. gr.
    Í 4. mgr. er kveðið á um áhrif þess að tjónþoli fær greiðslur frá þriðja manni vegna líkamstjóns. Aðalreglan er sú að frá skaðabótakröfu skal ekki draga greiðslur er tjónþoli fær frá öðrum, t.d. bætur frá almannatryggingum eða slysatryggingu sem tjónþoli eða annar hefur keypt hjá vátryggingafélagi. Frá þessari aðalreglu eru þó undantekningar, sbr. 2.–4. málsl. 4. mgr. Um þetta sjá nánar kafla 4.8. í almennum athugasemdum hér að framan.
    Hér skal áréttað að 4. málsl. 4. mgr. á aðeins við um slysatryggingu er tryggir ökutækiseiganda eða aðstandendum hans bætur sem ákveðnar eru eftir skaðabótareglum, þ.e. með sama hætti og bætur slysatryggingar ökumanns eftir umferðarlögum, sbr. 3. málsl. 4. mgr. Bætur annarra vátrygginga, er taka til slyss sem maður verður fyrir sem farþegi í eigin ökutæki, t.d. líftrygginga eða almennra slysatrygginga, hafa samkvæmt frumvarpinu engin áhrif á skaðabótakröfu, sjá 1. málsl. 4. mgr. þessarar greinar, sbr. 2. mgr. 12. gr. Um rök fyrir ákvæðum 3. og 4. málsl. 4. gr. um sérstöðu bóta frá slysatryggingu ökumanns og eiganda ökutækis vísast til kafla 4.8. í almennum athugasemdum.
    Í athugasemdum við 2. gr. kemur fram að með frumvarpinu er ekki stefnt að breytingum á réttarreglum um hvernig haga beri frádrætti slysatryggingarfjár eða annarra greiðslna frá þriðja manni þegar sök er skipt í skaðabótamáli. Sama á við um frádrátt greiðslna þriðja manns í þeim undantekningartilvikum þegar þær koma samkvæmt 3. og 4. málsl. 4. mgr. til frádráttar skaðabótakröfu, sbr. og 2. mgr. 12. gr.

Um 6. gr.


    Í þessari grein er almenn regla um útreikning bóta fyrir varanlega örorku. Gildir reglan um alla hópa tjónþola, nema þá sem greinir í 8. gr.
    Aðferð við útreikning er einföld. Hún er sú að árslaun tjónþola, sbr. 7. gr., eru margfölduð með 7,5 og sú fjárhæð síðan margfölduð með örorkustigi.
    Ein breyting er gerð á þessari grein frá fyrri gerð frumvarpsins. Hún er sú að margföldunarstuðull verður 7,5 í stað 6. Breyting þessi þykir óhjákvæmileg vegna þeirrar grundvallarbreytingar sem leiðir af 1. mgr. 9. gr. þess efnis að bætur hækka samkvæmt ákveðinni þrepaskiptingu eftir því sem tjónþoli er yngri, sbr. athugasemdir við 9. gr.
    Um rök fyrir því að hér er lagt til að miða bætur við 7,5-föld árslaun vísast til kafla 4.2. í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 7. gr.


    Í þessu ákvæði eru reglur um ákvörðun árslauna sem eru skv. 6. gr. grundvöllur útreiknings bóta fyrir varanlega örorku.
    Meginreglan um árslaun er í 1. mgr., en eftir henni teljast þau vera heildarvinnutekjur sem tjónþoli hafði á næstliðnu ári fyrir þann dag sem tjón bar að höndum. Hér skal því ekki leggja til grundvallar almanaksár, heldur tekjur á síðustu 12 mánuðum fyrir þann dag sem tjón varð. Með árslaunum er átt við brúttóárstekjur, þ.e. tekjur eins og þær eru áður en skattur er dreginn frá þeim. Með tekjum skal bæði telja venjulegt framlag vinnuveitanda og launþega til lífeyrissjóðs. Til tekna teljast einnig hlunnindi, t.d. endurgjaldslaus bifreiðarafnot sem fylgdu starfi tjónþola áður en hann varð fyrir líkamstjóni.
    Regla 1. mgr. á fyrst og fremst við um launþega. Þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi hjá tjónþola að því er varðar tekjur eða starf eða annars stendur sérstaklega á skal ákveða árslaun eftir mati, sjá 2. mgr. Ákvæði 2. mgr. mundi t.d. beitt um sjálfstæða atvinnurekendur er hafa tekjur sem undirorpnar eru tíðum breytingum. Árslaun manna í þessum hópi er almennt ekki unnt að ákveða á grundvelli tekna á næstliðnu 12 mánuðum fyrir tjónsdag. Tekjur þeirra eru venjulega ekki bundnar ákveðnum tímabilum eins og gerist um launþega sem fá mánaðar- eða vikulaun. Árslaun sjálfstæðra atvinnurekenda eða annarra manna með sveiflukenndar tekjur er rétt að ákveða á grundvelli meðaltekna sem tjónþoli hefur haft á síðustu árum fyrir tjón. Varðandi sjálfstæða atvinnurekendur skal þess einnig getið að í ýmsum tilvikum nægir ekki að meta sjálfar tekjurnar. Ef tjónþoli rekur t.d. stórt fyrirtæki með mörgum starfsmönnum er oft unnt að reka fyrirtækið án skerðingar á tekjum þótt tjónþoli sé óvinnufær, en í mörgum tilvikum þyrfti fyrirtækið þó á einhverjum hjálparmanni eða mönnum að halda í stað tjónþola. Þegar þannig stendur á getur verið réttara að leggja til grundvallar kostnað við aðkeypta hjálp fremur en árlegan hagnað tjónþola.
    Hafi tjónþoli verið í hlutastarfi mundi fjárhæð árslauna einnig verða ákveðin með mati. Ef kona eða karl hefur t.d. unnið hálfan daginn utan heimilis, en að öðru leyti notað starfsorku sína til þess að sinna börnum sínum og öðrum heimilisstörfum, skal ákveða árslaun eins og þau mundu hafa orðið ef tjónþoli hefði verið í fullu launuðu starfi utan heimilis, sbr. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Í öðrum tilvikum verður við matið m.a. að líta til þess hvort líklegt er að tjónþoli hefði farið í fullt starf.
    Bætur fara enn fremur eftir mati þegar tjónþoli var atvinnulaus er hann varð fyrir líkamstjóni. Hafi tjónþoli þá notið bóta frá atvinnuleysistryggingum skal ætíð lagt til grundvallar að tjónþoli hefði síðar fengið vinnu. Árslaun skulu þá vera talin jöfn venjulegum árslaunum sem greidd voru í starfsgrein tjónþola á síðustu 12 mánuðum fyrir tjón. Í öðrum tilvikum getur verið erfitt að meta hvort tjónþoli hefði fengið vinnu ef hann hefði ekki slasast. Hér verður t.d. að líta til aldurs tjónþola og þess hvort horfur voru á að tjónþoli hefði, ef tjónsatvik hefði ekki komið til, nýtt sér endurmenntun eða endurþjálfun í því skyni að fá vinnu í annarri starfsgrein.
    Ef tjónþoli hefur fyrir tjón ekki eða aðeins að hluta notað getu sína til þess að afla sér tekna með vinnu ber einnig að ákveða árslaun eftir mati. Hér er m.a. átt við menn sem eru í rannsóknarleyfi eða hafa tekið sér leyfi án launa til að auka þekkingu sína eða verklega starfsfærni. Oft mundi rétt að miða árslaun við venjulegar tekjur manna sem gegna starfi sambærilegu fyrra starfi tjónþola. Stundi tjónþoli nám þegar líkamstjón ber að höndum og þiggi laun í tengslum við það, t.d. iðnnám, verður venjulega að miða árslaun við tekjur sem tjónþoli mundi hafa haft ef hann hefði verið nýbúinn að ljúka námi.
    Um tjónþola, sem ekki fá laun í tengslum við nám, fer eftir ákvæðum 8. gr. frumvarpsins. Þar eru sérstakar reglur um útreikning bóta til barna, unglinga í skóla og þeirra sem vinna heimilisstörf. Þörf er á þeim vegna þess að ekki er unnt að miða við árslaun þegar þessir tjónþolar eiga hlut að máli.
    Samkvæmt 3. mgr. skal ekki miða við hærri árslaun en 4.500.000 kr. þegar fjárhæð bóta er ákveðin. Þetta hámark á við hvort sem árslaun eru ákveðin eftir reglu 1. mgr. eða eftir mati skv. 2. mgr.

Um 8. gr.


     Í þessari grein eru reglur um ákvörðun bóta til tjónþola sem nýta starfsgetu sína þannig að í mörgum tilvikum er ekki um neinar atvinnutekjur að ræða og þess vegna er ekki unnt að nota árslaun til þess að ákveða bætur skv. 6. og 7. gr.
    Þeir sem 8. gr. tekur til eru börn og tjónþolar sem að verulegu leyti nýta starfsgetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Bætur til þeirra skulu ákveðnar á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. Auk barna á 8. gr. við um maka eða sambúðarmaka sem vinna heimilisstörf, sbr. 3. mgr. 1. gr., og ungt fólk sem stundar nám. Maki eða sambúðarmaki, sem hefur með höndum hlutastarf auk vinnu á heimili, getur fallið undir 2. mgr. 7. gr., sbr. athugasemdir við hana. Síðastgreint ákvæði tekur þó ekki til hverra hlutastarfa sem er. Þegar draga skal mörkin milli 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. verður almennt að telja að 2. mgr. 7. gr. verði beitt um þann sem vinnur hálft launað starf eða meira utan heimilis en 8. gr. um þann sem vinnur minna en hálft starf utan heimilis. Reglum 8. gr. skal beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundar í reynd nám með eðlilegum hætti. Bætur til námsmanna sem þiggja laun í tengslum við nám, svo sem iðnnema eða læknastúdenta, skal ákveða eftir 2. mgr. 7. gr. eins og vikið er að í athugasemdum við 7. gr. Reglum 2. mgr. 7. gr., en ekki 8. gr., verður beitt um þá sem eru atvinnulausir þegar tjón verður.
    Börn eru nefnd berum orðum í 8. gr. til þess að taka af öll tvímæli um að ákvæðið eigi við um þau. Bætur til barna ber að ákveða eftir 8. gr. hvort sem þau hafa vinnutekjur eða ekki.
    Í 2.–4. mgr. eru tæmandi reglur um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku þeirra tjónþola sem 8. gr. tekur til. Fjárhæð örorkubóta fer eftir miskastigi og reiknast eftir nánar tilteknum hlutfallstölum af því (frá 130% til 400%).
    Reglur 8. gr. taka, eins og áður segir, einkum til barna, námsmanna og þeirra sem vinna við heimilisstörf. Núgildandi réttarreglur um mat á varanlegu fjártjóni tjónþola úr þessum hópum eru um margt óljósar. Skoðanir manna eru einnig mjög skiptar um hvernig eðlilegt eða sanngjarnt sé að haga reglum um mat á tjóni þeirra. Hér er valin sú leið að taka upp staðlaðar bætur til þeirra tjónþola sem 8. gr. tekur til. Er það gert að fyrirmynd nýjustu lagareglna er settar hafa verið um þetta efni annars staðar á Norðurlöndum.
    Ákvæði 8. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins, munu í einhverjum tilvikum geta leitt til þess að tjónþolar, sem vinna heimilisstörf, fái hærri skaðabætur fyrir sama örorkustig en tjónþolar er afla launatekna utan heimilis. Reynsla undanfarinna ára og áratuga er hins vegar sú að dæmdar örorkubætur til heimavinnandi húsmæðra hafa verið lágar. Tilraunir til þess að bæta hlut þeirra hafa ekki borið mikinn árangur. Reglum frumvarpsins um þetta efni er ætlað að tryggja, eftir því sem frekast er unnt, að réttur þeirra sem vinna heimilisstörf án verulegra tekna af vinnu utan heimilis verði almennt ekki lakari en tjónþola sem hafa launatekjur. Telja má hagræðið af stöðlun bótareglna svo mikið að ekki sé til vinnandi að lögfesta flóknari reglur í því skyni að koma í veg fyrir að húsmæður og aðrir, sem vinna heimilisstörf án eiginlegra launatekna, fái í einhverjum tilvikum bætur sem álíta má hagstæðari en örorkubætur til tjónþola sem starfað hafa í atvinnulífinu.
    Hér er einnig á það að líta að þeir sem stunda heimilisstörf að aðalstarfi njóta almennt miklu sjaldnar en aðrir bóta frá slysatryggingu eða öðrum bótakerfum utan skaðabótaréttar og verða því í ríkara mæli en aðrir tjónþolar háðir bótum frá hinum skaðabótaskylda eða ábyrgðartryggingu hans. T.d. standa húsmæður utan lífeyrissjóða og geta því ekki vænst örorkulífeyris vegna slyss frá öðrum en Tryggingastofnun ríkisins. Ef frumvarpið gerði ekki ráð fyrir allríflegum skaðabótum til þeirra er stunda heimilisstörf að aðalstarfi mundi bilið milli þeirra og tjónþola, sem vinna fyrir beinum launatekjum, enn breikka vegna þeirrar grundvallarbreytingar að eftir frumvarpinu heldur tjónþoli óskertum rétti til bóta frá almannatryggingum, lífeyrissjóði, frjálsum slysatryggingum o.fl. jafnframt fullum skaðabótarétti á hendur hinum skaðabótaskylda. Þetta hefur m.a. þau áhrif að launþegi, sem samkvæmt frumvarpinu á rétt á lægri örorkubótum en heimavinnandi húsmóðir eða annar er 8. gr. tekur til, kann í ýmsum tilvikum að hljóta hærri heildarbætur en hinn síðarnefndi ef launþeginn á samhliða skaðabótakröfu rétt á bótum frá þriðja manni, t.d. eingreiðslu örorkubóta eftir lögum um almannatryggingar.

Um 9. gr.


    Hér eru ákvæði um áhrif aldurs tjónþola á bótafjárhæð. Hafi hann náð 26 ára aldri þegar tjón verður lækka örorkubætur um 1% af grunnfjárhæð, sem ákveðin er eftir reglum 6. eða 8. gr., fyrir hvert ár umfram 25 ár til 45 ára, en 2% fyrir hvert ár umfram 45 ár til 55 ára og síðan um 4% fyrir hvert ár umfram 55 ár til 70 ára.
    Í fyrri gerð frumvarpsins var ekki gerður greinarmunur á bótum til manna fyrir varanlega örorku eftir aldri nema tjónþoli væri 56 ára eða eldri þegar tjón varð. Var þar gengið langt í að einfalda reglur um ákvörðun bóta. Ljóst er að sú einföldun eða stöðlun bóta, sem lögð var til grundvallar í fyrri gerð frumvarpsins, hefði almennt leitt til þess að ungur maður hefði að öðru jöfnu fengið sama höfuðstól bóta og eldri maður sem ekki hafði náð 56 ára markinu. Alltaf er álitamál hve langt skuli ganga í að staðla bætur. Hér vegast á tvö andstæð sjónarmið, annars vegar hagræðing og einföldun og hins vegar sú meginregla skaðabótaréttar að bætur skuli sníða eftir tjóni hvers einstaklings fyrir sig.
    Breyting sú, sem hér er lögð til á reglum 1. mgr. um ákvörðun bóta eftir aldri tjónþola, er komin til vegna ábendinga í umsögnum um eldri gerð frumvarpsins. Hin nýju ákvæði 1. mgr. draga mjög úr stöðlun bóta og leiða til þess að örorkubætur hækka eftir ákveðinni þrepaskiptingu eftir því sem tjónþoli er yngri.
    Eftir 2. mgr. má víkja frá reglum 1. mgr. ef ætla má að tjónþoli hefði verið vinnufær og stundað vinnu eftir að hann náði 70 ára aldri.
    Efni þessarar greinar er í samræmi við hina almennu reglu um að aðeins skuli greiða örorkubætur fyrir þann tíma sem talið er að tjónþoli hefði stundað vinnu á ef líkamstjón hefði ekki komið til. Rétt þykir að miða við að örorkubætur reiknist almennt eingöngu til 70 ára aldurs tjónþola. Hér á landi halda þó ýmsir störfum sínum áfram eftir það. Þegar allar líkur benda til þess að svo verði mundi skv. 2. mgr. vera heimilt að víkja frá meginreglunni í 1. mgr. Dæmi: Sjálfstæður atvinnurekandi slasast þegar hann er 69 ára gamall. Ef ekkert bendir til að hann hafi ætlað sér að setjast í helgan stein í nánustu framtíð gæti hann krafist bóta fyrir lengri tíma en eitt ár. Sama á t.d. við um starfsmann sem ekki er skylt samkvæmt lögum eða vinnusamningi að láta af starfi þegar hann verður sjötugur. Hér ræður úrslitum hvort telja megi sennilegt að tjónþoli haldi áfram að vinna eftir að hann nær 70 ára aldri.
    Þegar ungir eða miðaldra menn slasast verður almennt að leggja til grundvallar að tjónþoli hefði látið af starfi fyrir aldurs sakir 70 ára gamall og þess vegna mundu sjaldan vera rök til að beita 2. mgr. um þá.
    Ákvæði þessarar greinar hafa einnig áhrif á fjárhæð dánarbóta sem ákveðnar eru eftir 13. gr., sbr. 2. mgr. 13. gr.

Um 10. gr.


    Eftir gildandi rétti er örorkumat gert af læknum. Venja er að einn læknir meti örorku tjónþola hverju sinni. Mörg örorkumöt, sem stuðst er við í skaðabótamálum, eru gerð af læknum Tryggingastofnunar ríkisins, m.a. tryggingayfirlækni, en hann er aðallæknir stofnunarinnar. Fáeinir læknar aðrir gera örorkumöt sem notuð eru í skaðabótamálum innan réttar eða utan. Sé örorkumat læknis vefengt er unnt að bera það undir dómkvadda matsmenn (lækna) eða læknaráð, sbr. lög nr. 14/1942.
    Ef frumvarpið verður að lögum verður gerbreyting á forsendum og grunni örorkumats. Horfið verður frá mati sem í aðalatriðum er talið læknisfræðilegt. Í stað þess kemur svonefnt fjárhagslegt örorkumat sem felur í sér álit á því hvort og að hve miklu leyti geta tjónþola til að afla vinnutekna hefur skerst varanlega. Vegna þess er nauðsynlegt að örorkumat verði ekki einungis í höndum lækna. Einnig þykir sjálfsagt að hér á landi sé aðeins einn aðili sem hefur með höndum mat á varanlegri örorku. Hér er því lagt til að þriggja manna nefnd, „örorkunefnd“, verði falið að meta örorku þeirra sem hafa uppi skaðabótakröfur fyrir varanlegt fjártjón vegna líkamsspjalla. Sú skipan, sem hér er gerð tillaga um, er í grundvallaratriðum í samræmi við það sem gerist í nágrannaríkjunum.
    Þessi grein frumvarpsins veitir aðilum bótamáls vegna líkamstjóns rétt til að leita álits örorkunefndar um miskastig eða örorkustig. Hvor aðila um sig á slíkan rétt og getur hinn aðilinn því ekki komið í veg fyrir að nefndin fjalli um málið. Búast má við að framkvæmdin verði sú að mjög mörgum málum verði skotið til örorkunefndar.
    Niðurstaða örorkunefndar er ekki bindandi, en gera má ráð fyrir að málsaðilar sætti sig yfirleitt við hana. Uni aðili eða aðilar ekki niðurstöðunni verður sá sem vill fá henni breytt eða hrundið að leita til dómstóla.
    Með ákvæði 2. mgr. um sex ára skipunartíma manna í örorkunefnd er stefnt að því að ekki verði of örar breytingar á skipun nefndarmanna. Þykir það nauðsynlegt vegna þess að verkefni nefndarinnar er mjög sérhæft og tryggja verður festu og samræmi í ákvörðunum hennar.
    Í 2. mgr. er sérstaklega tekið fram að um hæfi nefndarmanna til að fara með mál fari eftir reglum laga um sérstakt hæfi dómara. Ákvæði um það eru nú í lögum um meðferð einkamála.
    Örorkunefnd er ætlað mikilvægt hlutverk í málum um skaðabætur fyrir líkamstjón. Er því þörf á að settar verði nánari reglur um starfsháttu nefndarinnar, sbr. 4. mgr.
    Torvelt er að áætla hve mörg mál komi árlega til kasta nefndarinnar ef frumvarpið verður að lögum. Er því erfitt að fullyrða um umfang nefndarstarfa. Þess vegna þykir rétt að taka fram í þessari grein frumvarpsins að í reglugerð skuli vera heimild fyrir nefndina til þess að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar. Rök fyrir heimild þessari eru ekki síður þau að í ýmsum tilvikum getur nefndinni verið nauðsynlegt að leita til manna með þekkingu á ýmsum sérsviðum læknisfræði eða aðra sérfræðiþekkingu, t.d. á sviði hagfræði eða tryggingastærðfræði.
    Auk ákvæða væntanlegrar reglugerðar mundu almennar reglur stjórnarfarsréttar að sjálfsögðu eiga við um málsmeðferð fyrir nefndinni.

Um 11. gr.


    Eftir frumvarpinu má að kröfu tjónþola taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska eða örorkubætur ef ófyrirsjáanlegar breytingar verða á heilsu tjónþola, þannig að ætla má að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Þessi skilyrði fyrir endurupptöku eru í samræmi við almennar reglur fjármunaréttar. Við endurupptöku má aftur leita álits örorkunefndar, sbr. 10. gr. Ákvæði 11. gr. verður aðeins beitt um mál sem lokið er með endanlegum dómi eða samningi málsaðila. Ákvæðinu er ekki ætlað að takmarka úrræði sem beita má samkvæmt réttarfarsreglum til endurupptöku dæmdra mála þegar sérstaklega stendur á.
    Þessi grein veitir aðeins heimild til endurupptöku ef tjónþoli krefst þess. Hinn bótaskyldi á ekki rétt á að krefjast þess að mál sé tekið upp til nýrrar ákvörðunar. Þess vegna er ekki heimilt að taka mál upp aftur að kröfu tjónvalds þótt síðar komi í ljós að heilsa tjónþola reynist betri en gert var ráð fyrir þegar máli var endanlega lokið.
    Svo sem fyrr segir er skilyrði endurupptöku eftir frumvarpinu að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola. Ekki er því heimilt að beita ákvæði þessu þótt örorkustig reynist hærra en áður var gert ráð fyrir ef ástæða þess er ekki breytingar á heilsu tjónþola.

Um 12. gr.


    Í þessari grein eru meginreglur um dánarbætur, þ.e. bætur fyrir missi framfæranda og kostnað við útför. Ekki verður heimilt að dæma sérstakar bætur fyrir röskun á stöðu og högum vegna andláts ef frumvarpið verður að lögum. Hins vegar verður áfram á valdi dómstóla að dæma bætur fyrir annað fjártjón en missi framfæranda og útfararkostnað ef efnisleg rök eru til þess.
    Í 13. og 14. gr. eru nánari reglur um ákvörðun bóta fyrir missi framfæranda. Eftir þeim greinum eru bætur að nokkru staðlaðar, en samkvæmt þessari grein skal sníða bætur eftir mati á tjóni hvers einstaks tjónþola.
    Dómstólar hafa lengi dæmt bætur fyrir kostnað við útför þótt ekki hafi verið til þess sérstök heimild í settum lögum. Hér er lagt til að lögfestur verði réttur til þess að krefja þann sem ábyrgð ber á dauða annars manns um útfararkostnað. Ekki er þó ætlast til að af því hljótist breyting á núgildandi reglum um ákvörðun bóta vegna kostnaðar af útför. Réttur til slíkra bóta stofnast án tillits til þess hvort einhver missir framfæranda við fráfall hins látna.
    Kröfuhafar í langflestum dánarbótamálum eru maki (sambúðarmaki) eða börn eða hvor tveggja. Mestu máli þykir skipta að koma á stöðluðum reglum um þá flokka tjónþola sem fjölmennastir eru. Reglur 13. og 14. gr. taka því einungis til framfærslutjónsbóta til maka eða sambúðarmaka, svo og barna sem hinum látna var lögskylt að framfæra. Auk þess er í 14. gr. aðeins gert ráð fyrir bótum þar til barn nær 18 ára að aldri. Frá 13. og 14. gr. ber ekki að gagnálykta þannig að aðrir en þeir sem þar eru nefndir teljist ekki geta átt bótakröfu fyrir missi framfæranda. Verði frumvarpið að lögum yrði það áfram á valdi dómstóla að dæma slíkar bætur til annarra á grundvelli 12. gr. ef nægilega rökstuddar kröfur koma fram. T.d. mundi, eins og nú, vera unnt í sérstökum tilvikum að dæma bætur til foreldra sem notið hafa fjárhagslegs stuðnings frá barni. Einnig mundi vera heimilt sem fyrr að dæma bætur fyrir missi framfæranda til barna er hinum látna var ekki skylt að framfæra. Það mundi eiga við ef leitt er í ljós að hinn látni hafi í raun framfært barn að öllu eða nokkru leyti og skiptir aldur þess þá ekki máli. Enn fremur mundi eftir atvikum koma til greina að dæma bætur til fyrrverandi maka hins látna ef sýnt er fram á að hann hafi beðið fjártjón vegna andlátsins.
    Í 3. málsl. 1. mgr. er berum orðum tekið fram að framfærsla taki einnig til verðmætis vinnu hins látna við heimilisstörf. Er ákvæðið í samræmi við meginstefnu laganna um að meta heimilisstörf til jafns við önnur störf, sbr. 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. segir að um greiðslur frá þriðja manni fari eftir ákvæðum 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Ákvæði 2. mgr. eiga við um allar tegundir dánarbóta, þar á meðal útfararkostnað. Ekki skiptir máli um frádrátt hvort bætur fyrir missi framfæranda eru staðlaðar, t.d. bætur til maka, eða ekki, t.d. bætur til foreldra. Skv. 2. mgr. skal almennt ekki draga frá skaðabótum greiðslur sem tjónþoli fær frá öðrum vegna tjónsins. Greiðsla frá líf- eða slysatryggingu, barnalífeyrir o.s.frv. hefur því ekki nein áhrif á fjárhæð skaðabóta. Sama á við um arf. Tilteknar greiðslur þriðja manns ber þó að draga frá skaðabótakröfu, sbr. 2.–4. málsl. 4. mgr. 5. gr. Um frádrátt greiðslna þriðja manns vísast að öðru leyti til athugasemda með 5. gr. og kafla 4.8. í almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 13. gr.


    Ákvæði þessarar greinar um ákvörðun bóta til maka eða sambúðarmaka gera ekki mun á því hvort hinn látni er karl eða kona. Ekkjur og ekklar eru því jafnrétthá.
    Í 3. málsl. 1. mgr. 12. gr. segir berum orðum, að til framfærslu teljist verðmæti vinnu hins látna við heimilisstörf. Á það einnig við þegar hinn látni hefur bæði unnið heimilisstörf og haft með höndum hlutastarf utan heimilis, sbr. athugasemdir við 8. gr.
    Þeir er bjuggu í óvígðri sambúð með þeim sem krafist er bóta eftir njóta samkvæmt frumvarpinu réttarstöðu eins og um hjúskap væri að ræða. Eigi er það skilyrði bótaréttar sambúðarmaka að sambúð hafi staðið tiltekinn lágmarkstíma eða sambúðarmaki hafi átt barn með hinum látna, sbr. hins vegar 52. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar. Að því leyti er ekki um að ræða breytingu á gildandi rétti. Dómstólar meta sjálfstætt hvort um framfæranda hafi verið að ræða. Ljóst er t.d. að um framfærslu getur verið að ræða eftir núgildandi bótareglum og frumvarpinu þótt skilyrði almannatryggingalaga um óvígða sambúð séu ekki fyrir hendi. Ekki þykir gerlegt að móta skýra lagareglu sem leysir þann vanda er fylgir því að dæma um hvort sambúðarmaki hafi í reynd misst framfæranda. Virðist því ekki komist hjá því að þetta atriði verði, eins og áður, háð mati í hverju tilviki fyrir sig. Það sem skiptir sköpum í þessu efni er hins vegar hvort sambúð hins látna og bótakrefjanda á þeim tíma, er tjón bar að höndum, var þess eðlis að rök séu til að jafna henni til hjúskapar.
    Það er skilyrði réttar til bóta að hinn látni hafi verið framfærandi bótakrefjanda. Hér ræður almennt úrslitum hvort sá sem krefst bóta hafi raunverulega verið á framfæri hins látna. Hér skiptir minna máli hvort hinn látni var að lögum framfærsluskyldur. Þess verður ekki fortakslaust krafist að um framfærslu hafi verið að ræða á tjónsdegi. Ef verulegar líkur eru á að bótakrefjandi hefði síðar notið fjár til framfærslu úr hendi hins látna mundi hann geta átt kröfu til bóta fyrir missi framfæranda. Að þessu leyti er ekki um að ræða breytingu frá gildandi rétti.
    Samkvæmt þessari grein og 14. gr. skiptir ekki máli hversu mikil framfærsla er. Í greinum þessum eru staðlaðar reglur um bótafjárhæð þannig að ekki þarf að taka afstöðu til þess hve mikið framfærandi hefur stutt bótakrefjanda.
    Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. skulu bætur til maka eða sambúðarmaka nema 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni hefði fengið ef hann hefði verið 100% varanlegur öryrki. Almennt skal þó lágmark bóta vera 3.000.000 kr., sbr. 2. málsl. 1. mgr. Greiðsla á lágmarksbótum eftir þessu ákvæði kemur þó að sjálfsögðu ekki til álita, nema fjártjón sé sannað samkvæmt framansögðu. Þegar reikna skal út bætur fyrir missi framfæranda verður samkvæmt þessu að kanna hve miklar bætur hinn látni hefði fengið ef hann hefði lifað en verið metinn alger öryrki til frambúðar. Dæmi: Ef hinn látni var 25 ára eða yngri og hafði 2.000.000 kr. í árslaun fyrir slys hefðu bætur til hans fyrir 100% varanlega örorku átt að vera 7,5 x 2.000.000 eða 15.000.000 kr., sbr. 6. gr. Bætur fyrir missi framfæranda verða 30% af 15.000.000 kr. eða 4.500.000 kr. Hafi árslaun hins látna hins vegar verið 1.000.000 kr. ættu bætur fyrir missi framfæranda að vera 30% af 7.500.000 kr. eða 2.250.000 kr., sbr. 1. málsl. 1. mgr. Í síðara dæminu leiðir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. um lágmark bóta þó til þess að bætur verða 3.000.000 kr., nema sérstakar ástæður séu til að víkja frá lágmarkinu. Síðastgreint ákvæði skiptir máli þegar hinn látni hefur haft árslaun undir 1.666.667 kr. Með ákvæðinu er ætlað að tryggja tjónþola sanngjarnar bætur fyrir missi framfæranda sem innti af hendi framfærslu en hafði þó litlar eða jafnvel engar vinnutekjur (árslaun, sbr. 7. gr.), t.d. af því að framfærslan var látin í té með tekjum af öðru en vinnu. Ætlast er til að þegar fjártjón verður skuli bætur jafnan vera a.m.k. 3.000.000 kr., nema ekki hafi verið um neina framfærslu að ræða eða aðeins óverulega framfærslu. Sé svo er heimilt skv. 2. málsl. 1. mgr. að ákveða lægri bætur en 3.000.000 kr. Um lækkun vegna aldurs samkvæmt 9. gr. sjá hér á eftir.
    Fjárhæð bóta mundi miðast við dánardægur framfæranda, sbr. 3. mgr. 15. gr. og athugasemdir við 28. gr.
    Um greiðslur, sem tjónþoli fær frá þriðja manni, sjá athugasemdir við 12. gr.
    Í 2. mgr. er kveðið svo á að lækka skuli bætur eftir reglum 9. gr. ef framfærandi var orðinn 26 ára. Regla þessi tekur einnig til bóta sem ákveðnar eru 3.000.000 kr. eftir 2. málsl. 1. mgr. Ákvæði 9. gr. hafa því áhrif á fjárhæð dánarbóta sem ákveðnar eru eftir 13. gr. Um það vísast nánar til athugasemda með 9. gr.

Um 14. gr.


    Hér er mælt fyrir um rétt eftirlifandi barna til bóta fyrir missi framfæranda.
    Greinin tekur til allra barna sem hinum látna var lögskylt að framfæra. Samkvæmt orðanna hljóðan verður ákvæðinu ekki beitt um börn sem hinum látna bar ekki samkvæmt lögum að framfæra en voru í raun á framfæri hans. Þau geta átt bótarétt eftir 12. gr. að sama marki og nú tíðkast eftir dómvenju, sbr. athugasemdir við 12. gr.
    Ekki þykir ástæða til að víkja frá núgildandi reglu um að meta skuli einstaklingsbundið bætur til barna sem hinum látna var eigi skylt að lögum að framfæra. Aðstæður slíkra barna, t.d. fósturbarna, geta verið afar misjafnar. M.a. verður að taka tillit til þess hvort barn hefur auk framfærslu frá hinum látna notið eða á í vændum framfærslu frá þeim sem lögskylt er að framfæra það. Hins vegar er ekkert í frumvarpinu sem girðir fyrir að bætur verði ákveðnar með sama hætti og í 14. gr. þegar sannað þykir að barn hafi í raun verið að öllu leyti á framfæri hins látna þótt á honum hafi ekki hvílt framfærsluskylda að lögum. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið geta bætur samkvæmt 12. gr. til barns, sem ekki átti lögvarða kröfu til framfærslu úr hendi hins látna, ýmist orðið hærri, lægri eða jafnháar þeim bótum sem ákveða skal þegar skilyrði 14. gr. eru fyrir hendi.
    Samkvæmt 14. gr. eru bætur til eftirlifandi barna staðlaðar og skiptir því ekki máli hve mikil framfærsla var. Hér þykir rétt að miða við að bætur verði jafnháar heildarfjárhæð barnalífeyris sem tjónþoli á rétt á eftir almannatryggingalögum. Bótafjárhæð eftir þessari reglu er fundin með einfaldri samlagningu, en ekki með því að reikna höfuðstólsverðmæti greiðslna.
    Reglur þessarar greinar mæla fyrir um staðlaðar bætur þar til barn nær 18 ára aldri. Þegar talið er að barn verði fyrir framfærslutjóni eftir að það er orðið 18 ára er heimilt eftir frumvarpinu að ákveða barninu bætur samkvæmt 12. gr. Verður bótafjárhæð því metin einstaklingsbundið eins og verið hefur. Ákvæðum 14. gr. er því ekki ætlað að skerða að neinu leyti þann rétt sem eldri börn en 17 ára geta átt til bóta fyrir missi framfæranda eftir núgildandi reglum.
    Ef frumvarpið verður að lögum nýtur barn óskerts barnalífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins og auk þess skaðabóta eftir þessari grein. Munurinn á þessum bótum er sá að tryggingabæturnar greiðast mánaðarlega þar til barn nær 18 ára aldri, en bætur fyrir missi framfæranda eftir þessari grein eru greiddar í einu lagi (með eingreiðslu sem svo er kölluð). Auk greindra bóta getur barn átt rétt á bótum úr lífeyrissjóði og koma þær ekki til frádráttar skaðabóta eftir þessari grein. Samkvæmt þessu verða bætur til barns vegna missis framfæranda eftir 14. gr. almennt mun hærri en nú er.
    Í greininni segir að reikna skuli bætur frá þeim degi er tjón varð. Hér er átt við dánardægur, en ekki slysdag. Sjaldnast mundi þetta þó skipta máli. Deyi hinn látni framfærandi hins vegar löngu eftir að atvik það, sem olli dauða hans, bar að höndum getur það breytt miklu um bótafjárhæð við hvort tímamarkið er miðað. Fjárhæð bóta miðast samkvæmt þessu við andlát framfæranda, sbr. 2. mgr. 15. gr. og athugasemdir við 28. gr.
    Um greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni, sjá athugasemdir við 12. gr.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. er kveðið svo á að bætur skuli tvöfalda ef hinn látni var eini framfærandi barns þess sem hlut á að máli. Ákvæðið er í samræmi við eðli máls og þarfnast vart sérstaks rökstuðnings.

Um 15. gr.


    Hér er kveðið á um áhrif verðlagsbreytinga á bætur. Í 1. mgr. er fjallað um breytingar á fjárhæðum sem sérstaklega eru greindar í frumvarpinu. Fjárhæðir þessar varða bætur fyrir þjáningar (3. gr.) og varanlegan miska (1. mgr. 4. gr.), hæstu árslaun (3. mgr. 7. gr.) og minnstu bætur fyrir missi framfæranda (2. málsl. 1. mgr. 13. gr.). Breytingar á fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska, sbr. 1. mgr. 4. gr., valda skv. 8. gr. hliðstæðum breytingum á örorkubótum á grundvelli miskastigs og bótum fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka vegna látins manns sem 8. gr. tekur til, sbr. 13. gr.
    Bætur fyrir varanlega örorku eftir reglum 5.–6. gr. og 1. og 2. mgr. 7. gr. eru ákveðnar einstaklingsbundið á grundvelli árslauna tjónþola og taka ákvæði 1. mgr. ekki til þeirra. Það er hins vegar sameiginlegt þessum bótum fyrir varanlega örorku og bótum sem greindar eru í 1. mgr. að þær breytast í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu. Hér þykir eðlilegt að miða við lánskjaravísitölu sem er nú almennur mælikvarði sem farið er eftir þegar verðtryggja skal fjárskuldbindingar.
    Ákvæði 15. gr. um breytingar eftir verðlagi gilda ekki um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað tjón, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 2. gr. Bætur til barna vegna missis framfæranda reiknast skv. 14. gr. á grundvelli barnalífeyris almannatrygginga og á 15. gr. því ekki við um þær.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er sú regla að bætur skal ákveða á grundvelli fjárhæða sem gilda skv. 1. mgr. þegar bótafjárhæð er ákveðin. Hliðstæð regla er í 2. málsl. 2. mgr. um bætur fyrir varanlega örorku eftir reglum 5.–6. gr. og 1. og 2. mgr. 7. gr. Ákvæðum 2. mgr. er ætlað að tryggja að bætur rýrni ekki að verðgildi frá því að tjón varð þar til bótafjárhæð er ákveðin með samningi eða dómi. Hér skal vakin athygli á 16. gr., en samkvæmt henni á tjónþoli kröfu til vaxta af bótum frá því að tjón varð.

Um 16. gr.


    Þessi grein tekur aðeins til vaxta af bótum fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda. Þær bætur bera vexti frá því að tjón varð. Þetta á við þótt ekki sé unnt að gera bótakröfu að fullu upp fyrr en síðar, t.d. vegna þess að tjónþoli er enn undir læknishendi og óvíst er hve langan tíma meðferð tekur. Í slíkum tilvikum er fyrst unnt að ákveða endanlega bótafjárhæð þegar ekki er lengur að vænta breytinga á heilsu tjónþola, sbr. 2.–5. gr. frumvarpsins. Með reglu 16. gr. er annars vegar stefnt að því að tjónvaldur hagnist ekki á því að mál dregst á langinn og hins vegar að vextir bæti tjónþola það upp að einhverju eða öllu leyti að hann fær ekki höfuðstól skaðabótanna fyrr en nokkur tími er liðinn frá því að tjón varð. Ljóst er samkvæmt framansögðu að samkvæmt þessari grein skiptir ekki máli um upphafstíma vaxta hvenær bótakrafa telst falla í gjalddaga.
    Vextir skv. 1. mgr. þessarar greinar reiknast frá því að „tjón varð“. Oftast hlýst tjón af einstökum skyndilegum atburði. Ef svo er eiga hin auðkenndu orð við sjálft slysið eða annað það atvik sem orsakar tjón, en ekki tímamarkið þegar allar afleiðingar slyssins eru komnar fram. Sé hins vegar um að ræða atvinnusjúkdóm eða annað tjón sem rakið verður til orsaka er valda skaða smám saman, t.d. mengunar, verður að telja að tjón í merkingu 16. gr. hafi ekki orðið fyrr en hinar skaðlegu afleiðingar koma í ljós, sbr. athugasemdir við 28. gr. Ef slys veldur því að slasaði deyr nokkru síðar ber krafa um bætur fyrir missi framfæranda vexti frá því að andlát bar að höndum, en ekki frá slysdegi.
    Ákvæði 16. gr. frumvarpsins um upphafstíma vaxta er ekki sama efnis og regla 1. málsl. 7. gr. vaxtalaga, nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989, en þar segir að skaðabótakröfur skuli bera vexti „frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað“. Yfirleitt mundi upphafstími vaxta þó vera hinn sami eftir 16. gr. og greindu ákvæði vaxtalaga, t.d. þegar maður verður örkumla af einstökum skyndilegum atburði.
    Bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda eru verðtryggðar eftir því sem nánar segir í 15. gr. frumvarpsins. Regla 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. leiðir til þess að vextir leggjast á verðbættan höfuðstól þessara bóta frá þeim tíma að tjón varð. Rétt þykir að miða vexti af verðtryggðum bótum við 2% ársvexti. Eru það heldur lægri vextir en núverandi meðalvextir af 6 mánaða verðtryggðum reikningum í innlánsstofnunum. Eftir vaxtalögum, nr. 25/1987, bera skaðabætur vexti sem miðast við óbundna óverðtryggða innlánsreikninga. Samkvæmt frumvarpinu eru bætur þær, sem 16. gr. tekur til, verðtryggðar og er greindur vaxtafótur valinn með hliðsjón af því. Gert er ráð fyrir að tjónþoli eigi rétt á vaxtavöxtum þegar vextir eru reiknaðir eftir þessari grein.
    Eins og fyrr segir á tjónþoli rétt á vöxtum skv. 1. mgr. án tillits til þess hvenær bótakrafa fellur í gjalddaga. Ekki er lagt til að gerðar verði breytingar á reglum um upphafstíma dráttarvaxta eða öðrum ákvæðum vaxtalaga um dráttarvexti, sbr. 2. mgr. Ákvæði 15. gr. vaxtalaga um að skaðabótakröfur beri dráttarvexti að liðnum mánuði frá gjalddaga, þ.e. þeim degi er kröfuhafi lagði fram upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, gildir því fullum fetum um bætur fyrir þjáningar, varanlegan miska, örorku og missi framfæranda þó að frumvarpið verði að lögum. Af því leiðir að krafa um slíkar bætur ber vexti eftir reglum 1. mgr. 16. gr. frumvarpsins til gjalddaga, en frá þeim degi getur tjónþoli krafist dráttarvaxta eftir vaxtalögum. Eftir 2. málsl. 15. gr. vaxtalaga geta dómstólar þó ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta. Þá má og minna á 13. gr. vaxtalaga um tímabundið brottfall skyldu til að greiða dráttarvexti ef atvik, sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt, valda því að greiðsla fer ekki fram.
    Ekki þykir ástæða til að hafa í skaðabótalögum sérstakar reglur um upphafstíma vaxta af öðrum bótum en hér greinir, t.d. bótum fyrir atvinnutjón skv. 2. gr. eða læknishjálp og annan kostnað, sbr. 1. mgr. 1. gr., enda ber að ákveða fjárhæð bóta fyrir slíkt tjón á grundvelli verðlags eins og það var á hverjum tíma eftir tjónsatvikið. Regla 16. gr. tekur ekki heldur til bóta fyrir miska skv. 26. gr., en fjárhæð þeirra fer eftir mati dómstóla. Um upphafstíma vaxta af bótum þeim, sem 16. gr. tekur ekki til, fer eftir almennum reglum um vexti, sbr. eftir atvikum 2. málsl. 7. gr. vaxtalaga. Dráttarvaxtareglur vaxtalaga eiga að sjálfsögðu einnig við um bótakröfur sem 16. gr. frumvarpsins tekur ekki til.
    Í frumvarpinu eru ekki heldur sérstök ákvæði um önnur atriði varðandi vexti af öðrum bótakröfum en þeim sem 1. mgr. tekur til. Um þær fer því eftir almennum reglum um vexti.

Um 17. gr.


    Í 17. gr. eru reglur um endurkröfurétt á hendur hinum skaðabótaskylda ef tjónþoli fær greiðslur frá þriðja manni vegna líkamstjóns.
    Í 1. mgr. segir að endurkrafa verði ekki gerð vegna bóta frá almannatryggingum, hverju nafni sem þær nefnast. Skv. 59. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, á Tryggingastofnun ríkisins nú allvíðtækan endurkröfurétt á hendur þeim sem skaðabótaábyrgð ber vegna atviks sem leitt hefur til greiðslu bóta frá almannatryggingum. Í reynd er þessum endurkröfurétti þó aðeins beitt þegar almannatryggingar greiða bætur fyrir umferðarslys sem skylt er að bæta af lögmæltri ábyrgðartryggingu bifreiðar. Telja má að endurkröfuréttur þessi skipti litlu máli og þess vegna er hér lagt til að hann verði afnuminn. Í samræmi við þetta segir í 29. gr. frumvarpsins að 59. gr. laga nr. 67/1971 falli niður.
    Í 1. mgr. er einnig kveðið svo á að lífeyrissjóðir eða vátryggingafélög eigi ekki endurkröfurétt gagnvart hinum bótaskylda vegna greiðslu bóta fyrir líkamstjón. Er það ákvæði í samræmi við almennar reglur sem farið hefur verið eftir hér á landi. Að einu leyti er þó um breytingu að ræða frá gildandi réttarreglum. Tekið er fram í 1. mgr. að endurkrafa verði ekki gerð vegna vátryggingabóta og skipti ekki máli hvers eðlis vátryggingin sé. Hér er átt við að eftir gildistöku laganna skuli sama regla gilda um allar slysa- og sjúkratryggingar hvort sem greiðsla félagsins er „raunveruleg skaðabót“ í merkingu 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga, eða ekki. Nú gildir sú undantekningarregla eftir síðastgreindu lagaákvæði að vátryggingafélag á endurkröfurétt á hendur hinum skaðabótaskylda vegna greiðslna úr slysa- eða sjúkratryggingu á beinum kostnaði o.fl. vegna vátryggingaratburðar. Undantekning þessi skiptir litlu sem engu máli í reynd og er því lagt til að hún verði afnumin. Um greiðslur vátryggingabóta sjá nánar athugasemdir við 22. gr.
    Samkvæmt 2. mgr. getur vinnuveitandi endurkrafið hinn skaðabótaskylda um laun eða aðrar launatengdar greiðslur sem sá fyrrnefndi hefur innt af hendi vegna líkamstjóns. Endurkröfurétturinn nær samkvæmt orðanna hljóðan bæði til beinna launa og annarra gjalda sem vinnuveitanda ber að greiða í tengslum við forföll vegna líkamstjóns, t.d. orlofsfjár, framlags í lífeyrissjóð og skatts af launum (tryggingagjalds). Endurkrafa stofnast aðeins að því leyti sem vinnuveitandi hefur beðið tjón vegna slíkra greiðslna. Krafa vinnuveitanda getur heldur ekki orðið hærri en krafa sú sem tjónþoli (launþegi) átti á hendur hinum skaðabótaskylda. Hinn síðarnefndi getur borið fyrir sig sömu mótbárur gegn endurkröfunni og hann átti gagnvart tjónþola sjálfum, t.d. vegna eigin sakar tjónþola. Ákvæði 2. mgr. eru í samræmi við reglur þær sem nú gilda. Endurkröfuréttur samkvæmt þessari málsgrein getur skipt verulegu máli fyrir atvinnurekendur, ekki síst þá sem reka lítil fyrirtæki og hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til að dreifa þessari áhættu. Ákvæði 2. mgr. um endurkröfurétt taka ekki til þess er tjónþoli fær bætur úr lífeyrissjóði vegna líkamstjóns, t.d. örorkulífeyri, sjá 2. málsl. 1. mgr.

Um 18. gr.


    Ákvæði þessarar greinar fjalla um að hve miklu leyti aðrir en tjónþoli sjálfur geti eignast skaðabótakröfu fyrir líkamstjón með samningi eða að arfi. Einnig fjallar greinin um stöðu þessara krafna hjóna á milli.
     Um 1. mgr.
    Í 1. mgr. segir að óheimilt sé að framselja kröfu um bætur vegna líkamstjóns, nema hún sé viðurkennd eða dæmd. Ákvæði þetta tekur bæði til fjártjóns og ófjárhagslegs tjóns og er því víðtækara en núgildandi regla í 2. málsl. 3. mgr. 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940, sem aðeins tekur til ófjárhagslegs tjóns.
    Í frumvarpinu eru ekki bein ákvæði um heimild skuldheimtumanna til að leita fullnustu í bótakröfum eða bótafé. Um það efni eru reglur í réttarfarslögum sem nú verða raktar í örstuttu máli. Um aðför í skaðabótakröfum til fullnustu peningakröfu eiga við ákvæði laga um aðför, nr. 90/1989, en þau öðlast gildi 1. júlí 1992. Skv. 46. gr. þeirra verður fjárnám ekki gert í bótakröfu vegna örorku eða missis framfæranda eða kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón sem slíkum kröfum tengist ef bótakrafan tilheyrir tjónþola sjálfum. Skýra verður ákvæði 46. gr. svo að það taki bæði til kröfu um bætur fyrir tímabundna og varanlega örorku. Ef frumvarpið verður að lögum mun ákvæði þetta því taka til bótakröfu fyrir atvinnutjón og varanlega örorku, svo og kröfu um bætur fyrir varanlegan miska skv. 4. gr. og þjáningabóta skv. 3. gr.
    Hafi tjónþola verið greidd skaðabótakrafa er almenna reglan sú, sbr. upphafsákvæði 41. gr. laga nr. 90/1989, að taka má féð fjárnámi, nema um sé að ræða eingreiðslu bóta fyrir varanlega örorku gerðarþola eða fyrir missi hans á framfæranda ef féð er sérgreint í vörslum hans og sá tími ókominn sem bótafénu er ætlað að bæta tjón hans fyrir, sbr. 2. tölul. 41. gr. Skv. 3. tölul. 41. gr. er peningaeign undanþegin fjárnámi ef hún er „nauðsynleg til að standa straum af kostnaði um skamman tíma af framfærslu gerðarþola og þeirra, sem hann er framfærsluskyldur við“. Ákvæði þetta getur eftir atvikum átt við um greiddar bætur fyrir atvinnutjón.
     Um 2. mgr.
    Ákvæði 2. mgr. er sama efnis og núgildandi regla 3. mgr. 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940. Ákvæðið tekur aðeins til skilyrða þess að krafa um þjáningabætur eða bætur fyrir varanlegan miska gangi í arf. Ákvæðið varðar því ekki skilyrði þess að bótakrafa fyrir fjártjón vegna líkamsspjalla erfist. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingu á gildandi reglum um það. Samkvæmt dómum, sem gengið hafa, erfist slík krafa a.m.k. ef hún hefur verið gerð fyrir dómi áður en slasaði lést, sbr. t.d. H 1961, 432, og H 1989, 131.
     Um 3. mgr.
    Í 3. mgr. eru sérreglur sem ekki eru til nú í settum íslenskum lögum. Almennt má telja óeðlilegt að skaðabótafé vegna líkamstjóns, fjárhagslegs og ófjárhagslegs, skiptist við fjárslit milli hjóna, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna. Á þetta sérstaklega við um örorkubætur sem ætlað er að bæta tjónþola tekjumissi eða skerðingu tekna til frambúðar. Sama gildir um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, en þær eru mjög persónulegs eðlis. Í samræmi við þetta er kveðið svo á í 3. mgr. að bætur vegna líkamstjóns komi ekki til skipta við fjárslit milli hjóna. Hér er eingöngu átt við bæturnar sjálfar, en ekki síðari tíma vexti eða annan arð af fénu eða verðaukningu þess. Hafi tjónþoli t.d. keypt fasteign fyrir bæturnar og verðmæti fasteignarinnar eykst síðar skal skipta verðaukningunni eftir almennum reglum um fjárskipti milli hjóna. Skilyrði þess að 3. mgr. eigi við er að bótum hafi ekki verið eytt. Ef féð hefur runnið til almennrar neyslu hjónanna getur tjónþoli ekki krafist þess við skipti að fá af óskiptu fé sem svarar til skaðabótanna. Til þess að tryggja að í þessu efni komi ekki upp deilur um sönnun getur tjónþoli t.d. lagt bæturnar inn á sérstakan reikning í innlánsstofnun. Verji hann skaðabótum til kaupa á verðbréfum eða fasteign má geta þess með áritun á bréf eða afsal að eignin sé keypt fyrir bæturnar.
    Umrædd regla í 1. málsl. 3. mgr. varðar einungis hvernig fara skuli með bætur við skipti vegna fjárslita. Ef eftirlifandi maki, sem fengið hefur bætur vegna missis framfæranda, stofnar að nýju til hjúskapar öðlast síðari maki heldur ekki rétt til bótafjárins. Sama á við um börn sem fengið hafa bætur og eru í hjúskap eða stofna til hjúskapar. Orðin „við fjárslit“ taka til skipta á óskiptu búi þótt skiptin fari ekki fram fyrr eftir að langlífari maki hefur um tíma setið í óskiptu búi eftir andlát skammlífari maka.
    Deyi eigandi bótanna (þ.e. slasaði sjálfur eða maki eða börn sem fengið hafa bætur fyrir missi framfæranda) koma bætur til skipta eftir almennum reglum eins og hjúskapareign dánarbús hans, sbr. 2. málsl. 3. mgr. Ástæða þess er sú að ekki eru lengur rök fyrir því að halda bótum sérgreindum þegar tjónþoli, sem bæturnar fékk, er látinn. Hér koma einnig til hagsmunir eftirlifandi maka tjónþola af því að makinn fær samkvæmt ákvæði þessu tækifæri til þess að sitja í óskiptu búi sem skaðabótafé rennur þá til eftir almennum reglum. Umrætt ákvæði í 2. málsl. 3. mgr. á þó ekki við ef bætur hafa verið gerðar að séreign með kaupmála.
    Fyrsti kafli frumvarpsins fjallar eingöngu um bætur sem greiða skal þegar skaðabótaábyrgð er fyrir hendi. Ekki þykir ástæða til að fara út fyrir gildissvið kaflans og leggja til að ákvæði 3. mgr. verði víðtækara en nú hefur verið rakið, t.d. þannig að ákvæðið taki til annarra greiðslna en skaðabóta, svo sem vátryggingarfjár. Hins vegar verður ekki gagnályktað frá 3. mgr. um slíkar greiðslur frá þriðja manni.

Um II. kafla.


    Þessi kafli fjallar um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem vátrygging tekur til, þar á meðal endurkröfu vátryggingafélags gegn þeim sem er skaðabótaskyldur.

Um 19. gr.


    Um rök fyrir reglum þessarar greinar vísast til almennra athugasemda í köflum 2.2. og 4.9. hér að framan.
     Um 1. mgr.
    Samkvæmt 1. mgr. fellur skaðabótaábyrgð niður ef munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging tekur til tjónsins. Með munatryggingu er átt við vátryggingu á hlut, sbr. 54. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga. Munatrygging er skaðatrygging þar sem fjárhæð vátryggingabóta ákvarðast af verðmæti hlutarins sjálfs. Rekstrarstöðvunartrygging er skaðatrygging sem greiðir bætur fyrir tjón er hlýst af því að hlutur eða hlutir verða ekki notaðir á þeim tíma eða með þeim hætti sem til var ætlast, t.d. vegna missis leigu af hlut sem skemmist í eldsvoða.
    Beri tveir eða fleiri skaðabótaábyrgð á sama tjóni og sé einn eða fleiri hinna bótaskyldu ábyrgðartryggður skal fara eftir ákvæðum 1. og 2. mgr. 19. gr., sbr. 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins, sjá nánar athugasemdir við síðarnefnda grein.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við ef vátryggingafélag greiðir bætur fyrir tjón þótt því sé ekki skylt að gera það eftir reglum vátryggingarsamningsins. Beri vátryggður einhvern hluta tjóns sjálfur samkvæmt skilmálum um eigin áhættu vátryggðs stofnast skaðabótaréttur fyrir þeirri fjárhæð sem eigin áhættu nemur. Ef vátryggt er undir verði ber hinn bótaskyldi skaðabótaábyrgð vegna þess hluta tjónsins sem ekki fæst bætt vegna undirtryggingar. Eigi vátryggingartaki rétt á iðgjaldsafslætti (bónus) vegna þess að vátryggingafélag hefur ekki þurft að greiða tjónsbætur vegna vátryggingar hans um tiltekinn tíma tekur vátryggingin til tjónsins. Í slíku tilviki stofnast því ekki skaðabótaréttur þó að missir iðgjaldsafsláttarins kunni að vera meiri en fjárhæð tjónsins. Hér er þess að geta að reglur um iðgjaldsafslátt eru þannig að réttur vátryggingartaka til hans miðast við tjónareynslu á öllu vátryggingartímabilinu, sem venjulega er eitt ár, þannig að þó að í gildi væri regla andstæð þeirri sem hér er byggt á gætu síðari tjónstilvik á sama vátryggingartímabili firrt vátryggingartaka rétti til iðgjaldsafsláttar. Skiptir hér ekki máli hvort hin síðari tjónstilvik verða rakin til saknæmrar háttsemi eða atvika sem enginn verður gerður bótaskyldur fyrir eftir skaðabótareglum.
    Ákvæði 1. mgr. á bæði við um skaðabótaábyrgð innan samninga og utan, en vegna reglunnar í 2. tölul. 2. mgr. mundi oftar reyna á 1. mgr. um bætur utan samninga.
    Ekki skiptir máli um gildi ákvæðisins hvort bótaábyrgð er reist á sakarreglunni eða víðtækari bótareglu. Reglur 2. tölul. 2. mgr. 19. gr. og 21. gr. leiða þó til þess að 1. mgr. 19. gr. mundi í reynd ekki verða beitt um ýmis tjónstilvik sem víðtækar bótareglur eiga við um.
    Af 1. mgr. leiðir að ef munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging tekur til tjóns stofnast hvorki skaðabótaréttur til handa tjónþola né endurkröfuréttur vátryggingafélags. Tjónþoli verður því að beina kröfu sinni að vátryggingafélagi, en getur ekki valið þann kost að krefja hinn bótaskylda.
    Þegar skaðabótamál varðar hagsmuni, sem tengdir eru fleiri en einu ríki, fer um réttarsamband aðila málsins eftir lögum þess ríkis er dæma skal eftir um skaðabótaábyrgð, þótt lög annars ríkis eigi við um réttarstöðu aðila vátryggingarsamnings. Ákvæðinu ber því að beita í öllum tilvikum þar sem um sjálfa skaðabótaábyrgðina skal dæma eftir íslenskum rétti, jafnvel þótt um réttarsamband tjónþola og vátryggingafélags hans fari eftir erlendum rétti. Beri tjónsatvik að höndum á Íslandi er almenna reglan sú að skaðabótaábyrgð ræðst af íslenskum rétti hvort sem vátrygging sú, sem greiðir bætur vegna tjónsins, er keypt hjá íslensku eða erlendu félagi. Þær takmarkanir á skaðabótaábyrgð og þar með endurkröfurétti vátryggingafélaga, sem hér er gerð tillaga um, munu því eiga jafnt við um innlenda og erlenda vátryggjendur. Reglur þessar veita því erlendum félögum ekki betri rétt en íslenskum.
    Vátryggingafélag getur ekki með því að semja við vátryggingartaka öðlast betri rétt en leiðir af reglum 19. gr., sbr. 2. mgr. 27. gr. og athugasemdir við þá grein. Samningur vátryggingartaka og vátryggingafélags þess efnis að vátrygging á hlut eða rekstrarstöðvunartrygging taki ekki til tjóns ef hinn bótaskyldi hefur fjárhagslegt bolmagn til að bæta það, er því ógildur. Hugsanlegt er að undanþáguákvæði í vátryggingarsamningi væri orðað svo að vátryggingin „taki ekki til“ tjóns sem hér um ræðir, þannig að undanþáguákvæðið væri formlega ekki andstætt 1. mgr. 19. gr. Þannig orðað samningsákvæði teldist ógilt eftir ákvæðum 2. mgr. 27. gr.
     Um 2. mgr.
    Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 19. gr. á regla 1. mgr. ekki við ef hinn skaðabótaskyldi hefur valdið tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Dómstólar skera úr um hvort gáleysi teljist stórfellt. Gáleysi getur verið stórfellt þótt það sé ekki vísvitandi. Ekki er gert ráð fyrir að hugtakið stórfellt gáleysi í ákvæði þessu verði skýrt á annan hátt en samsvarandi hugtak í núgildandi endurkröfuákvæði 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga.
    Eftir 2. tölul. 2. mgr. á 1. mgr. 19. gr. ekki við ef tjóni er valdið í opinberri starfsemi eða einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri. Þessi takmörkun veldur því að gildissvið 1. mgr. er einskorðað við tjón sem valdið er í einkalífi.
    Ákvæði 2. tölul. 2. mgr. nær til alls kyns starfsemi í opinberri sýslu eða einkaatvinnurekstri, án tillits til þess hvort starfsemin er rekin af ríki, sveitarfélögum, einkaaðilum eða öðrum. Tilgangur ákvæðisins er sá að binda gildissvið 1. mgr. við skaðaverk í einkalífi. Til að taka af öll tvímæli um það þykir heppilegt að nefna einnig berum orðum rekstur sem er sambærilegur við opinbera starfsemi eða einkaatvinnurekstur. Ætlast er til að ákvæðið nái til athafna manna sem vinnuveitandi ber ábyrgð á eftir hinni almennu reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Ákvæðið tekur þó ekki til starfa sem unnin eru utan eiginlegs atvinnurekstrar. Þess vegna mundi ákvæðinu t.d. ekki verða beitt um ábyrgð foreldra sem eru bótaskyldir vegna þess að stúlka, sem fengin er til þess að gæta barns þeirra, veldur þriðja manni tjóni við það starf. Bótaábyrgð vinnuveitanda er eftir íslenskum rétti takmörkuð við tjón sem starfsmaður veldur við framkvæmd þess starfs sem hann gegnir í þágu vinnuveitandans eða í nánum tengslum við það. Ábyrgð utan samninga fellur því ekki á vinnuveitanda vegna tjóns sem starfsmaður veldur með svo óvenjulegum eða afbrigðilegum hætti að almennt verði ekki gert ráð fyrir að menn hegði sér þannig við vinnu sína. Í slíkum undantekningartilfellum getur tjónvaldur notið góðs af 1. mgr. 19. gr., nema skaðaverkið verði metið honum til ásetnings eða stórfellds gáleysis, sbr. 1. tölul. 2. mgr.
     Um 3. mgr.
    Regla 3. mgr. um að starfsmaður beri ekki ábyrgð á tjóni ef vátrygging tekur til tjónsins varðar menn sem vinnuveitandi ber ábyrgð á eftir reglunni um vinnuveitandaábyrgð. Ef starfsmaður veldur tjóni með svo óvenjulegum eða afbrigðilegum hætti að almennt verði ekki gert ráð fyrir að menn hegði sér þannig við vinnu sína verður 3. mgr. ekki beitt. Þess í stað verður að dæma um atvikið eftir 1. og 2. mgr.
    Til þess að 3. mgr. eigi við verður munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging tjónþola að taka til tjónsins. Skilyrðið um munatryggingu eða rekstrarstöðvunartryggingu er samhljóða því sem greinir í 1. mgr. Bótaábyrgð gagnvart tjónþola fellur einnig niður skv. 3. mgr. ef vinnuveitandi tjónvalds er bótaskyldur og ábyrgðartrygging vinnuveitandans tekur til tjónsins. Starfsmaður er þá hvorki bótaskyldur gagnvart tjónþola né vinnuveitanda nema tjón verði rakið til ásetnings eða stórfellds gáleysis starfsmannsins. Valdi starfsmaður tjóni af einföldu gáleysi felur regla 3. mgr., sbr. 2. tölul. 2. mgr., í sér að hann ber ekki bótaábyrgð ef munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging tekur til tjónsins. Þá skiptir ekki máli hvort vinnuveitandinn er ábyrgðartryggður. Starfsmaður er ekki heldur bótaskyldur þótt tjónþoli sé ekki vátryggður ef vinnuveitandi hefur ábyrgðartryggingu er tekur til tjónsins, sbr. það sem áður segir. Loks er launþegi ekki skaðabótaskyldur þótt hann valdi í starfi vinnuveitanda sínum tjóni í öðrum tilvikum ef munatrygging eða rekstrarstöðvunartrygging hins síðarnefnda tekur til tjónsins. Ef vátrygging er ekki fyrir hendi á ákvæði þetta ekki við. Um ábyrgð launþega fer þá eftir 23. gr.
    Eins og vikið er að í kafla 4.9. hér að framan er kveðið svo á í almennum skilmálum ábyrgðartryggingar fyrir atvinnurekstur að starfsmenn vátryggingartaka séu ábyrgðartryggðir með sama hætti og vátryggður vinnuveitandi þeirra. Ábyrgðartryggður launþegi glatar þó rétti sínum á hendur vátryggingafélagi þegar vátryggingaratburður verður rakinn til ásetnings, stórfellds gáleysis, ölvunar hans eða neyslu hans á ávana- eða fíkniefnum. Umrætt ákvæði 3. mgr. samrýmist vel þessum skilmálum ábyrgðartryggingar að öðru leyti en því að í ýmsum tilvikum verður vátryggingaratburður ekki metinn manni til stórfellds gáleysis þótt hann hafi verið ölvaður er hann olli tjóninu. Einnig er hugsanlegt að skaðaverk, sem maður veldur undir áhrifum ávana- eða fíkniefna, teljist í einhverjum tilvikum ekki vera af völdum stórfellds gáleysis hans.
    Það leiðir af 3. mgr. 19. gr. og 20. gr. að launþegi í þjónustu opinbers aðila, sem ekki hefur keypt vátryggingu og ber því sjálfur alla áhættu af hinum óvátryggðu hagsmunum sínum, er því aðeins skaðabótaskyldur að hann hafi valdið tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

Um 20. gr.


    Reglur 19. gr. eiga því aðeins við að vátrygging hafi í raun verið keypt. Ef starfsemi er svo umfangsmikil að unnt er, þegar til lengdar lætur, að dreifa áhættu af tjóni á hliðstæðan hátt og gerist í vátryggingum kann að vera hagkvæmt fyrir þann sem starfsemina rekur að vátryggja ekki hagsmuni sína. Í slíkum tilvikum eru rök til þess að láta sömu reglu gilda um tjón sem verður á óvátryggðum hagsmunum.
    Ákvæði 20. gr. varða tilvik þar sem vátrygging tekur ekki til tjóns, en staða tjónþola verður sú sama og vátrygging hefði verið keypt. Samkvæmt grein þessari er réttarstaða ríkissjóðs, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila gagnvart tjónvaldi sú sama og eftir 19. gr. ef tjónþoli kaupir almennt ekki vátryggingu og hefur því hagsmuni sína í eigin áhættu. Þegar skilyrði þessarar greinar eru fyrir hendi öðlast hið opinbera því engan skaðabótarétt á hendur tjónvaldi.
    Núgildandi lækkunarregla í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga, hefur verið skýrð svo að henni verði einungis beitt ef vátrygging tekur til tjóns. Þessu ákvæði 25. gr. laga um vátryggingarsamninga verður því t.d. ekki beitt um tjón sem ríkissjóður verður fyrir, en ríkið kaupir almennt ekki vátryggingar á hagsmunum sínum, sbr. reglur nr. 74/1974. Á þessu verður breyting ef frumvarpið verður að lögum. Breytingin mun væntanlega fyrst og fremst snerta ríkissjóð og ríkisstofnanir því að sveitarfélög, a.m.k. ekki hin stærri, fylgja yfirleitt ekki þeirri stefnu ríkissjóðs að hafa hagsmuni sína í eigin áhættu.
    Hér er farin sú leið að takmarka gildissvið hinnar nýju reglu við opinbera aðila. Tiltölulega fáir einkaaðilar reka svo mikla starfsemi að þeir geti dreift áhættu nægilega þannig að þeir hafi hag af því að vera sínir eigin vátryggjendur. Mun því vera sjaldgæft að einkafyrirtæki fylgi í þessu efni sömu stefnu og ríkissjóður.
    Til þess að 20. gr. verði beitt verður að sýna fram á að tjónþoli kaupi „almennt“ ekki vátryggingu. Hér ræður úrslitum hvort sá opinberi aðili, sem hlut á að máli, fylgir í reynd þeirri stefnu að dreifa tjónsáhættu sinni án vátrygginga. Hitt skiptir ekki máli hvort formleg ákvörðun hefur verið tekin um þetta. Ákvæðið tekur ekki til tjónþola sem aðeins hefur hluta af hagsmunum sínum í eigin „vátryggingu“, t.d. þannig að hann kaupir vátryggingar á munum en ekki rekstrarstöðvunartryggingu. Ákvæðið nær heldur ekki til tjónþola sem kaupir vátryggingu með þeim skilmálum að hann beri mjög mikla áhættu sjálfur. Það leiðir enn fremur af orðinu „almennt“ að ákvæðinu verður beitt þótt tjónþoli, sem dreifir áhættu sinni án vátrygginga, kaupi vátryggingu í einstakt skipti ef um er að ræða sérstakt undantekningartilvik.
    Reglu 20. gr. verður ekki beitt nema að uppfylltu því skilyrði 19. gr. að tjón hafi orðið á hlut eða vegna rekstrarstöðvunar eða hinn opinberi aðili hafi greitt skaðabætur vegna tjóns sem starfsmaður hans olli með saknæmri og ólögmætri hegðun.

Um 21. gr.


    Í grein þessari eru veigamiklar undantekningar frá reglum 19. og 20. gr. um að skaðabótaréttur stofnist ekki vegna tjóns sem nánar tilteknar vátryggingar taka til. Undantekningarnar varða hinar sérstöku skaðabótareglur sem gilda á sviði umferðar, loftferða og siglinga. Um rök fyrir undantekningum þessum vísast til almennra athugasemda í kafla 4.9. hér að framan.
    Að bótareglum umferðarlaganna undanskildum eru lagaákvæði þau, sem hér um ræðir, reist á alþjóðasamningum að meira eða minna leyti. Verður að telja óæskilegt að Ísland lögfesti sérreglur sem víkja í grundvallaratriðum frá samræmdum alþjóðlegum bótareglum á sviði flutningaréttar.
    Skaðabótareglur umferðarlaga, nr. 50/1987, er að finna í 88.–90. gr. þeirra. Hér er ekki eingöngu um að ræða þær reglur umferðarlaga sem eru frábrugðnar almennum bótareglum. Ákvæði 21. gr. tekur einnig til tjóns sem ber að greiða bætur fyrir eftir almennum skaðabótareglum, sbr. 3. mgr. 90. gr. umferðarlaga.
    Bótareglur laga um loftferðir, nr. 34/1964, eru tvíþættar. Í fyrsta lagi eru reglur í IX. kafla laganna um bótaskyldu flytjanda farþega, farangurs og farms. Í öðru lagi eru reglur X. kafla um bótaskyldu utan samninga, en þær taka til tjóns á mönnum eða munum sem eru utan loftfars.
    Reglur siglingalaga um skaðabætur varða sumar bótaskyldu utan samninga en aðrar skaðabótaskyldu sem stofnast á grundvelli samnings. Helstu bótareglur siglingalaga eru í 68.–73. gr. þeirra, sbr. 118. gr. (um ábyrgð farmflytjanda), 137.–150. gr. (um ábyrgð farsala á farþegum og farangri), 158.–162. gr. (um ábyrgð vegna tjóns af árekstri skipa) og 171.–183. gr. (um ábyrgð útgerðarmanns).
    Alþjóðasamningur um ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar, sem gerður var í Brussel 29. nóvember 1969, hefur lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 14/1979 og auglýsingu nr. 10/1980 sem birt er í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 3. gr., sbr. 1. gr. samningsins, er meginreglan sú að eigandi skips, er flytur umbúðalausa olíu sem farm, ber hlutlæga ábyrgð á mengunartjóni af völdum olíu er hefur lekið eða verið losuð úr skipi.
    Með ákvæðum 21. gr. frumvarpsins er stefnt að því að breyta ekki skaðabótareglum þeim sem nú gilda á sviði samgangna og flutninga. Endurkröfuréttur helst því alltaf án tillits til þess hvort um er að ræða ábyrgð á sakargrundvelli eða víðtæka bótaábyrgð. Getur tjónþoli því gert bótakröfu og vátryggingafélag endurkröfu vegna alls tjóns sem skaðabótareglur greindra laga taka til.

Um 22. gr.


    Í þessari grein er almennt ákvæði um endurkröfur vátryggingafélags á hendur þriðja manni sem skaðabótaskyldur er við vátryggðan tjónþola. Greininni er ætlað að koma í stað 1. málsl. 1. mgr. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga. Endurkröfuregla 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins takmarkast þó verulega af reglum 19. og 20. gr. Ef frumvarpið verður að lögum stofnast endurkröfuréttur þess vegna í miklu færri tilvikum en nú. Endurkröfuréttur verður þó áfram fyrir hendi á nokkrum mikilvægum sviðum, sbr. 21. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir fullum endurkröfurétti á hendur þeim sem bera bótaábyrgð eftir reglum umferðarlaga, siglingalaga o.fl.
    Ákvæði 1. mgr. tekur almennt til skaðatrygginga. Að því er varðar vátryggingar á hlut eða rekstrarstöðvunartryggingar kemur 22. gr. þó aðeins til álita þegar skaðabótaábyrgð fellur ekki niður vegna ákvæða 1. mgr. 19. gr., sbr. 20. gr. Í 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. frumvarpsins er hliðstæð regla um ábyrgðartryggingar. Falli bótaábyrgð ekki niður eftir reglum II. kafla frumvarpsins öðlast vátryggingafélag endurkröfurétt á hendur hinum bótaskylda skv. 1. mgr. 22. gr. Langflestar skaðatryggingar eru munatryggingar, ábyrgðartryggingar eða rekstrarstöðvunartryggingar, þannig að endurkröfuréttur skv. 1. mgr. verður í raun mjög takmarkaður. Skaðatryggingar, sem 1. mgr. tekur til, eru t.d. málskostnaðartrygging, vanskilatrygging og vátrygging gegn fjárdrætti.
    Í 2. mgr. 22. gr. er undantekning frá almennu reglunni í 1. mgr. um endurkröfurétt. Undantekningin kemur einnig fram í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. frumvarpsins, en samkvæmt síðarnefndu ákvæði verður sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni ekki endurkrafinn um vátryggingabætur sem greiddar hafa verið vegna þess. Má því segja að 2. mgr. 22. gr. sé ofaukið. Rétt þykir þó að taka umrædda reglu einnig upp hér til þess að hún sé með öðrum ákvæðum sem varða endurkröfu í II. kafla frumvarpsins. Kemur þá skýrt og greinilega fram að 1. mgr. 22. gr. á ekki við um líftryggingu, slysa- eða sjúkratryggingu.
    Í 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. og 2. mgr. 22. gr. segir að ekki skipti máli „hvers eðlis vátryggingin er“. Hér er átt við að eftir ákvæðum þessum skiptir engu hvort bætur vátryggingafélagsins eru ákveðnar eftir reglum um skaðatryggingar eða svonefndar summutryggingar. Endurkröfuréttur félags, er greitt hefur slysatryggingabætur sem teljast „raunveruleg skaðabót“, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, verður því ekki lengur fyrir hendi ef frumvarpið nær fram að ganga. Helstu dæmi um slysatryggingar, er nú greiða bætur sem eru „raunveruleg skaðabót“, eru slysatrygging ökumanns samkvæmt umferðarlögum og sams konar slysatrygging farþega í ökutæki. Vátryggingafélög, sem annast slysatryggingar þessar, hafa til þessa ekki beitt endurkröfurétti þeim sem þau eiga eftir núgildandi lögum.
    Skilja ber 1. og 2. mgr. 22. gr. þannig að þær eigi eingöngu við um vátryggingar í skilningi laga nr. 20/1954.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla eru reglur um ábyrgð starfsmanna, almenn heimild til að lækka skaðabætur eftir sanngirnis- og velferðarsjónarmiðum, svo og regla um heimild til þess að líta í sérstökum tilvikum fram hjá því að tjónþoli er sjálfur meðvaldur að tjóni. Enn fremur eru í kaflanum reglur um hvernig skipta ber ábyrgð innbyrðis milli tveggja eða fleiri aðila sem bótaskyldir eru vegna sama tjóns. Loks er í kafla þessum regla um bætur fyrir miska og ákvæði um að hve miklu leyti semja megi um að víkja frá reglum laganna.

Um 23. gr.


    Greinin varðar skaðabótaábyrgð starfsmanns, annars vegar gagnvart þriðja manni og hins vegar gagnvart vinnuveitanda.
    Yfirleitt mun aðeins reyna á grein þessa þegar munatrygging, rekstrarstöðvunartrygging eða ábyrgðartrygging vinnuveitanda tekur ekki til tjóns þess sem starfsmaður hans veldur. Greiði hins vegar einhver þessara vátrygginga bætur gildir regla 3. mgr. 19. gr., sbr. 21. gr., þannig að starfsmaður ber almennt ekki bótaábyrgð, nema hann hafi valdið tjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Um þetta vísast til athugasemda við 3. mgr. 19. gr.
    Ákvæði 1. mgr. varðar þá stöðu sem oftast reynir á hér, þ.e. þegar tjónþoli tekur þann kost að krefja vinnuveitanda tjónvalds. Samkvæmt ákvæðinu á vinnuveitandi einungis endurkröfu á hendur launþega ef telja má þá niðurstöðu sanngjarna þegar litið er til sakar og stöðu starfsmannsins og atvika að öðru leyti.
    Í 2. mgr. er regla um þau fremur fátíðu tilvik er tjónþoli fer þá leið að krefjast bóta úr hendi starfsmannsins. Skv. 1. málsl. 2. mgr. má skerða eða fella niður ábyrgð launþega gagnvart tjónþola. Þegar ákvörðun er tekin um hvort svo skuli gert skal ekki aðeins líta til aðstæðna tjónvalds heldur einnig til hagsmuna tjónþola. Þessi regla í 1. málsl. 2. mgr. gæti orðið til þess að starfsmaður verði að greiða tjónþola hærri fjárhæð en hann hefði átt að greiða ef vinnuveitandi hefði greitt tjónþola og síðan endurkrafið starfsmanninn eftir 1. mgr. Reglunni í 2. málsl. 2. mgr. er ætlað að koma í veg fyrir að starfsmaður skaðist með þessum hætti. Samkvæmt henni getur starfsmaður krafið vinnuveitanda um bætur, er hann hefur greitt, að því marki sem bótaábyrgð hvílir endanlega á vinnuveitanda eftir reglu 1. mgr.
    Í 3. mgr. er almenn regla um bótaábyrgð starfsmanns gagnvart vinnuveitanda þegar sá síðarnefndi hefur orðið fyrir tjóni án þess að bótaábyrgð hafi stofnast gagnvart þriðja manni. Ábyrgð starfsmanns er hér takmörkuð í sama mæli og endurkröfuréttur eftir 1. mgr.
    Lækkunarreglur 23. gr. gilda, eins og fram hefur komið, um ábyrgð starfsmanns. Þeim og reglu 3. mgr. 19. gr. verður beitt um menn sem vinnuveitandi ber ábyrgð á eftir hinni almennu reglu um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna. Hugtakið starfsmaður er því notað í víðtækri merkingu í frumvarpinu. Lækkunarreglurnar eiga m.a. við um opinbera starfsmenn.
    Eins og getið er í almennu athugasemdunum hér að framan getur ákvæði 2. mgr. valdið því að starfsmaður geti, ef vinnuveitandi er ógjaldfær, þurft að greiða þriðja manni bætur án þess að reglur 23. gr. um endurkröfurétt starfsmanns á hendur atvinnurekanda komi starfsmanni að haldi. Um það er fjallað nánar í kafla 4.10. hér að framan.
    Ákvæði 3. mgr. varðar tjón sem starfsmaður veldur í starfi sínu á hagsmunum vinnuveitanda. Hér er fyrst og fremst haft í huga að starfsmaður skemmi eða eyðileggi hluti í eigu vinnuveitanda, t.d. verkfæri eða vörur. Orðalag ákvæðisins er hins vegar almennt og tekur einnig til ábyrgðar sem stofnast ef starfsmaður vanefnir vinnusamning, t.d. með því að hverfa á brott án þess að gæta ákvæða um uppsagnarfrest. Hér er um að ræða vægari bótareglu en nú gildir um ábyrgð starfsmanna eftir almennum bótareglum. Ekki er þó líklegt að ákvæðið leiði til verulegra breytinga því að í reynd skiptir skaðabótaréttur vinnuveitenda á hendur starfsmönnum litlu máli.
    Hér er ekki gerð tillaga um að breyta lækkunarheimildum í 2. mgr. 132. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, eða 96. gr. laga nr. 22/1991, um samvinnufélög. Haldast þær því óbreyttar.

Um 24. gr.


    Í þessari grein er almenn lækkunarheimild, þ.e. heimild til að skerða eða fella niður skaðabótarétt ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Greinin á við um alls konar tjón: tjón á mönnum (þar á meðal ófjárhagslegt tjón), munum og almennt fjártjón. Ekki skiptir máli hvort bótaskylda hvílir á almennum reglum eða sérreglum í lögum eða hvort hún er reist á sakarreglunni eða víðtækari bótareglum, t.d. reglunni um óðs manns víg í 8. kap. Mannhelgisbálks Jónsbókar. Reglan gildir jafnt um skaðabótaskyldu utan samninga og bótaábyrgð sem styðst við samning.
    Gildissvið þessa ákvæðis er samkvæmt framansögðu svo víðtækt að það verður með réttu nefnt „almenn“ lækkunarheimild. Jafnframt verður að leggja áherslu á að heimildin er „sérstök“ í þeim skilningi að ætlast er til að henni verði eingöngu beitt þegar skaðabótareglur mundu annars leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu. Ákvæðið er með öðrum orðum eins konar öryggisregla sem notuð verður í sérstökum undantekningartilvikum.
    Fyrsta málsgrein er tvíþætt. Í fyrsta lagi felst í henni regla þess efnis að úr ábyrgð má draga eða fella hana niður ef bótaábyrgð yrði hinum bótaskylda svo þungbær að ósanngjarnt má telja að hann greiddi fullar bætur. Þessari reglu yrði beitt þegar talið yrði óviðunandi, í ljósi félagslegra viðhorfa og mannúðarsjónarmiða, að leggja þá byrði á tjónvald að gera honum að greiða fullar bætur. Eftir þessu er það fyrst og fremst fjárhagur tjónvalds sem skiptir máli þegar meta skal hvort beita eigi heimildinni. Önnur atriði, sem talin eru í greininni: stærð (fjárhæð) tjóns, eðli bótaábyrgðar, hagsmunir tjónþola og vátryggingar sem fyrir hendi voru, hafa einnig áhrif þegar meta skal hvort ósanngjarnt sé að leggja tjónsbyrðina á tjónvald. Þar sem reglu þessari er ætlað að vera öryggisúrræði ef félagsleg viðhorf og mannúðarsjónarmið gera nauðsynlegt að víkja frá almennum reglum á þó ekki að vera alveg girt fyrir að bætur verði lækkaðar þótt tjón verði rakið til stórfellds gáleysis tjónvalds eða jafnvel ásetnings hans. Þegar efni þykja til að beita heimildinni mundi yfirleitt vera álitið rétt að fella ekki alveg niður bætur, heldur lækka þær og dæma greiðslu sem ekki telst svo þungbær að ósanngjarnt yrði talið.
    Í öðru lagi felur 1. mgr. í sér reglu um að skerða megi eða fella niður bótaskyldu ef það þykir sanngjarnt vegna mjög óvenjulegra aðstæðna. Þessari reglu verður því beitt þótt ekki sé fyrir hendi umrætt skilyrði um bótaábyrgð sem yrði tjónvaldi óeðlilega þungbær ef það telst af öðrum ástæðum ósanngjarnt að hann greiði nokkrar eða fullar bætur. Með orðalaginu „vegna mjög óvenjulegra aðstæðna“ er áhersla lögð á að reglan kemur aðeins til álita í sjaldgæfum undantekningartilvikum.
    Sem dæmi um tilvik, þar sem beita mætti lækkunar- og niðurfellingarheimildinni, má nefna að slasaður maður eða þeir sem misst hafa framfæranda séu jafn vel settir fjárhagslega og þeir voru áður en tjónsatvik bar að höndum, t.d. vegna arfs eða greiðslu vátryggingarfjár. Sé tjónvaldur ábyrgðartryggður mundi bótaskylda ekki vera þungbær og væri þá ekki unnt að beita heimildinni.
    Svo sem fram kemur í kafla 4.11. í almennu athugasemdunum hér að framan er gert ráð fyrir að lækkunarheimildinni yrði fyrst og fremst beitt um skaðabætur utan samninga. Í 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 11/1986, felst hliðrunarregla sem heimilar að efni samnings eða samningsákvæðis sé breytt í þá átt að samningurinn verði í heild ekki ósanngjarn. Heimild frumvarpsins til að lækka eða fella niður bótaábyrgð kemur ekki í stað hliðrunarreglu samningalaga. Ekki er ætlast til að heimildin verði notuð til að víkja ákvæðum samnings til hliðar. Þetta á ekki síst við um skaðabótaábyrgð sem stofnast af því að aðili samnings vænrækir að inna af hendi umsamda greiðslu. Á hinn bóginn er ekki fyrir það girt að bætur verði lækkaðar þegar svo stendur á, t.d. ef tjónsbyrði er óvenjumikil og þungbær þegar litið er til bótagrundvallar sem ábyrgð vegna vanefnda hvílir á.
    Samkvæmt 24. gr. skal líta til vátrygginga sem aðilar höfðu. Það að tjónþoli var ekki vátryggður, þótt hann hefði átt kost á að vátryggja hagsmuni sína, hefur ekki áhrif á réttarstöðu aðila samkvæmt þessari grein.
    Eftir 2. mgr. má, að fullnægðum skilyrðum 1. mgr., líta alveg eða að nokkru fram hjá því að tjónþoli var meðvaldur að tjóni. Sama á við í dánarbótamálum þegar hinn látni átti sjálfur sök.
    Ákvæði þetta veldur því að reglum 1. mgr. um skerðingu eða brottfall bótaréttar má einnig beita um eigin sök tjónþola. Dómari getur því ákveðið að lækka ekki bætur eftir þeim reglum sem ella gilda um eigin sök tjónþola. Tjónþoli getur þannig annaðhvort fengið fullar bætur eða stærri hlut bóta en hann hefði fengið eftir almennum reglum um eigin sök. Skilyrði þess er, sbr. 1. mgr., að það mundi annaðhvort vera tjónþola of þungbært að beita reglum um eigin sök eða það þætti að öðru leyti sanngjarnt vegna mjög óvenjulegra aðstæðna að veita tjónþola hærri bætur þrátt fyrir eigin sök. Heimild 2. mgr. verður eins og reglu 1. mgr. aðeins beitt í undantekningartilvikum.
    Orðið „meðvaldur“ í 2. mgr. tekur ekki aðeins til eigin sakar í þrengstu merkingu heldur einnig til tilvika þar sem maður fyrirgerir skaðabótarétti með áhættutöku, þ.e. því að taka þátt í háttsemi sem hefur mjög mikla hættu í för með sér.
    Þegar tveir valda hvor öðrum tjóni við sama atvik og ábyrgðartrygging tekur til tjóns getur þurft að beita svonefndri tveggja kröfu (brúttó) aðferð til þess að heimildarákvæði 1. og 2. mgr. gagnist tjónvaldi. Uppgjör eftir tveggja kröfu aðferðinni fer þannig fram að kröfurnar eru greiddar óháð hvor annarri. Í slíku tilviki getur vátryggingafélag því ekki notað einnar kröfu (nettó) aðferðina og borið fyrir sig skuldajöfnuð gagnvart kröfu tjónþola með þeim rökum að vátryggður (tjónvaldur) eigi kröfu á tjónþola.

Um 25. gr.


    Grein þessi fjallar um hvernig skipta skal tjónsbyrði endanlega milli hinna skaðabótaskyldu þegar fleiri en einn bera óskipta ábyrgð vegna sama tjóns. Hins vegar leysir greinin ekki það álitamál hvort hinir skaðabótaskyldu beri óskipta ábyrgð eða á hvaða grundvelli. Ákvæði þetta varðar því ekki réttarstöðu tjónþola gagnvart hinum bótaskyldu. Reglur greinarinnar eiga bæði við um skaðabótaskyldu innan samninga og utan.
    Í 1. mgr. er sú meginregla að ábyrgð skal endanlega skipta á hina bótaskyldu eftir því sem sanngjarnt þykir. Með 1. mgr. er ætlað að slá því föstu berum orðum í settum lögum að líta skuli til fleiri atriða en sakarstigs þegar tjóni er jafnað niður á fleiri en einn bótaskyldan aðila. Þegar annar (einn) hinna bótaskyldu ber ábyrgð eftir sakarreglunni en hinn (hinir) eftir reglu um ábyrgð án sakar er ekki alltaf eðlilegt að hinn (hinir) síðarnefndi eigi fortakslaust (fulla) endurkröfu á þann sem bótaábyrgð ber eftir sakarreglunni. Í slíkum tilvikum getur verið ástæða til að líta til „eðlis skaðabótaábyrgðar“. Orðin „atvika að öðru leyti“ veita m.a. svigrúm til að líta til áhættusjónarmiða og félagslegra viðhorfa þegar skipting bótaábyrgðar er ákveðin.
    Ákvæði 1. mgr. eiga við þegar annaðhvort enginn (annar) eða allir (báðir) hinna bótaskyldu eru ábyrgðartryggðir. Á opinbera aðila, sem dreifa áhættu sinni án vátrygginga, ber hér að líta eins og ábyrgðartryggðir væru, sbr. 20. gr. Um skiptingu ábyrgðar milli hinna skaðabótaskyldu þegar einn eða fleiri, en ekki allir þeirra, eru ábyrgðartryggðir eða opinberir aðilar er dreifa áhættu sinni án vátrygginga, fer eftir tveimur reglum sem eru í 2. mgr.
    Í 2. mgr. felst að við skiptingu tjónsbyrðar skal taka tillit til þess hvort einn eða fleiri hinna bótaskyldu voru ábyrgðartryggðir. Skv. 1. málsl. 2. mgr. eiga ákvæði 1. og 2. mgr. 19. gr. og 21. gr. beint við ef annar eða einn tjónvalda er ábyrgðartryggður. Regla þessi felur í sér mun víðtækara brottfall skaðabótaskyldu en nú er gert ráð fyrir í 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1954, um vátryggingarsamninga. Ef tveir bera bótaábyrgð vegna sama tjóns og aðeins annar þeirra hefur ábyrgðartryggingu sem greiðir tjónþola bótakröfuna tekur 1. mgr. 19. gr. til endurkröfu ábyrgðartryggingafélagsins. Leiðir það til þess að bótaábyrgð hins tjónvaldsins fellur niður nema hann sé ábyrgur eftir einhverri bótareglu sem getið er í 21. gr. eða eitthvert skilyrða 2. mgr. 19. gr. sé fyrir hendi, þ.e. að tjóni sé valdið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða í opinberri starfsemi, einkarekstri eða þess háttar. Hafi sá tjónvaldur, sem ekki er ábyrgðartryggður, greitt tjónþola bætur á hinn fyrrnefndi almennt fullan endurkröfurétt á hendur ábyrgðartryggjanda þess tjónvalds sem ábyrgðartryggður er. Séu báðir (allir) tjónvaldar ábyrgðartryggðir skal ekki beita 1. mgr. 19. gr.
    Ef 1. mgr. 19. gr. á ekki við vegna reglna í 2. mgr. 19. gr. eða 21. gr. er heimilt að taka tillit til ábyrgðartrygginga þegar tjónsbyrði er skipt milli hinna bótaskyldu, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. Í þessu felst að þó að ábyrgð tjónvalds, sem ekki er ábyrgðartryggður, falli ekki niður, sbr. ákvæði 2. mgr. 19. gr. og 21. gr., er samt sem áður heimilt að líta til ábyrgðartrygginga(r) sem taka (tekur) til tjónsins. Skv. 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. mundi t.d. mega fella tjónsbyrði endanlega á ábyrgðartryggðan atvinnurekanda í einkarekstri eða á opinberan aðila nema rétt þyki vegna varnaðarsjónarmiða að dæma tjónvald þann, sem ekki hefur ábyrgðartryggingu, bótaskyldan. Þessi regla í 2. málsl. getur því í mörgum tilvikum orðið til þess að skaðabótakrafan greiðist endanlega af ábyrgðartryggingunni.
    Í 3. málsl. 2. mgr. kemur fram að reglur 2. mgr. (bæði 1. og 2. málsl.) eiga einnig við ef svo stendur á sem lýst er í 20. gr., þ.e. þegar tjónvaldur (opinber aðili) er ekki ábyrgðartryggður en dreifir áhættu sinni án vátrygginga.
    Þegar vinnuveitandi og starfsmaður bera óskipta ábyrgð skal fara eftir reglum 3. mgr. 19. gr. og 23. gr. Þau ákvæði eiga hins vegar ekki einungis við um réttarstöðu tjónþola gagnvart hinum bótaskyldu heldur einnig réttarstöðu tjónvalda innbyrðis.
    Til eru í einstökum lögum sérstakar reglur um hvernig skipta beri skaðabótum milli þeirra sem bera óskipta ábyrgð, sjá einkum 3. mgr. 158. gr. siglingalaga, nr. 34/1985. Frumvarp þetta haggar ekki slíkum sérákvæðum.

Um 26. gr.


    Aðalregla íslensks réttar um bætur fyrir (1) spjöll á líkama eða frelsi manna, (2) refsiverða meingerð gegn persónu, friði eða æru og (3) aðra meingerð, sem telja má drýgða af illfýsi, er í 1. mgr. 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940. Í sömu grein er einnig meginregla um dánarbætur, sbr. 2. mgr. Ákvæðum 1., 2., 5.–9. og 12.–14. gr. frumvarpsins er ætlað að koma í stað þeirra réttarreglna sem nú gilda um fjártjón vegna líkamsspjalla, þar á meðal dauða, en 3. og 4. gr. frumvarpsins í stað ákvæða 264. gr. um ófjárhagslegt tjón vegna líkamsspjalla.
    Með 26. gr. er stefnt að því leysa af hólmi reglur 264. gr. hegningarlaga um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón vegna meingerðar gegn frelsi, persónu, friði eða æru. Auk bóta fyrir ófjárhagslegt tjón eftir 26. gr. yrði áfram unnt samkvæmt almennum skaðabótareglum að dæma bætur fyrir fjártjón af slíkum réttarbrotum.
    Í greininni er ekki ákvæði er svarar til núverandi heimildar til að dæma bætur fyrir „aðra meingerð sem telja má drýgða af illfýsi“. Hálfrar aldar reynsla af heimildinni bendir ekki til að mikil þörf sé á sérstakri reglu í skaðabótalögum um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón af slíkum atvikum. Nægilegt þykir að setja ákvæði um skyldu til að greiða miskabætur fyrir meingerð sem telst ólögmæt. Um aukna réttarvernd sem leiðir af 26. gr. frumvarpsins sjá hér á eftir. Brottfall heimildar til að dæma miskabætur fyrir meingerð, sem álíta má drýgða af illfýsi, mundi að sjálfsögðu ekki girða fyrir rétt til bóta eftir almennum skaðabótareglum vegna fjártjóns sem rekja mætti til slíkrar meingerðar.
    1. og 2. mgr. 264. gr. hegningarlaga eru heimildarákvæði, en eftir 26. gr. er skylt að dæma bætur ef bótaskilyrði eru að öðru leyti fyrir hendi.
    Samkvæmt 264. gr. skal meingerð vera refsiverð til þess að réttur stofnist til bóta fyrir ófjárhagslegt tjón vegna meingerðar gegn persónu, friði eða æru. Sú mikilvæga breyting felst í 26. gr. að fallið er frá því skilyrði. Nægilegt er að meingerðin sé ólögmæt. Ef frumvarpið verður að lögum veitir breyting þessi stóraukna réttarvernd gegn brotum af þessu tagi, t.d. brotum gegn friðhelgi einkalífs.
    Á hinn bóginn er bótaréttur að formi til þrengdur að því er varðar bætur fyrir ófjárhagslegt tjón vegna skerðingar á frelsi. Eftir 264. gr. nægir að spjöll á frelsi verði rakin til atviks sem hefur skaðabótaskyldu í för með sér eftir einhverri skaðabótareglu, þar á meðal reglum um bótaskyldu án sakar. Samkvæmt 264. gr. er það því ekki skilyrði ákvörðunar miskabóta fyrir frelsisskerðingu að tjónsatvik sé ólögmætt. Ætla verður að þessi þrenging á bótaskilyrðum skipti þó ekki máli í raun því að vandfundin munu tilvik frelsiskerðingar sem bóta verður krafist fyrir eftir 264. gr. hegningarlaga en ekki eftir reglum frumvarpsins. Hér verður og að hafa í huga að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir breytingu á sérstökum ákvæðum í réttarfarslögum um heimild til greiðslu miskabóta, sbr. það sem greinir í lok athugasemda með þessari grein.
    Þeim sem valdið hefur líkamsmeiðingum, framið kynferðisbrot eða önnur álíka afbrot getur eftir atvikum verið skylt að greiða þeim sem misgert er við miskabætur eftir 26. gr. frumvarpsins auk bóta fyrir líkamstjón.
    Í skilyrði 26. gr. um ólögmæta meingerð felst að um saknæma hegðun sé að ræða. Gáleysi mundi þó þurfa að vera verulegt til þess tjónsatvik yrði talið ólögmæt meingerð. Hugtak þetta mundi t.d. ekki taka til smávægilegra hrekkja eða stríðni.
    Eftir ákvæði þessu fellur skylda til greiðslu miskabóta á þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð. Ekki er nauðsynlegt að viðkomandi sé sjálfur sekur um meingerðina. T.d. mundi unnt að sækja bætur fyrir ófjárhagslegt tjón úr hendi vinnuveitanda starfsmanns sem gerist sekur um ólögmæta meingerð þótt vinnuveitandinn eigi sjálfur enga sök, enda séu fyrir hendi öll skilyrði reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Hins vegar mundi bóta eftir 26. gr. ekki verða krafist á grundvelli reglna um bótaskyldu án sakar (hreina hlutlæga ábyrgð).
    Ekki er stefnt að því að greinin leiði til breytinga á reglum um ákvörðun fjárhæðar bóta.
    Ákvæði 2. málsl. er sett til þess að skýrt komi fram að reglur 1. og 2. mgr. 18. gr. um aðilaskipti að kröfum um bætur fyrir líkamstjón eigi einnig við um bótakröfur vegna meingerða þeirra sem hér um ræðir.
    Í nokkrum lögum eru sérákvæði um bætur fyrir miska, sbr. t.d. 38. gr. laga nr. 47/1968, um vörumerki, 2. mgr. 56. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, 58. gr. laga nr. 17/1991, um einkaleyfi, 22. gr. laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og ýmis ákvæði í lögum á sviði réttarfars. Ákvæði þessi breytast ekki þótt frumvarpið verði að lögum.

Um 27. gr.


    Greinin felur í sér reglur um að hve miklu leyti víkja megi með samningi frá ákvæðum laganna. Ákvæði greinarinnar takmarka að verulegu leyti rétt manna til semja sig frá reglum laganna áður en tjón verður. Tekur 1. mgr. til samninga sem eru í óhag tjónþola en 2. mgr. samninga sem eru í óhag hinum bótaskylda.
    Þörf þykir vera á slíkri takmörkun vegna þess að án hennar verður tilgangi margra af reglum laganna naumast náð. Hætt er við að sá sem kann að verða fyrir tjóni og sá sem hugsanlega getur orðið bótaskyldur geti oft ekki gert sér grein fyrir afleiðingum samnings sem gerður er fyrir fram, jafnvel löngu áður en tjón ber að höndum. Yfirleitt gegnir allt öðru máli um samning sem gerður er eftir að tjón er orðið. Þá eiga menn þess almennt kost að kanna allrækilega fjárhagslegar afleiðingar sem samningsákvæði um skaðabætur hafa fyrir báða aðila. Ef slíkur samningur telst ósanngjarn er þó heimilt að víkja honum til hliðar í heild eða að hluta eða breyta honum skv. 36. gr. laga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986.
    Samkvæmt 1. mgr. er ekki heimilt, áður en tjón verður, að víkja í óhag tjónþola frá reglum 1.–16. gr. (um bætur fyrir tjón á mönnum), 2. mgr. 24. gr. (um tilhliðrun þegar tjónþoli er meðvaldur) og 26. gr. (um bætur fyrir miska). Samningur um lakari réttarstöðu tjónþola um efni, sem þessi ákvæði taka til, er því ógildur. Óþarft er að nefna hér 18. gr. af því að 18. gr. er samkvæmt efni sínu ófrávíkjanleg, hvort heldur er áður en eða eftir að tjón ber að höndum.
    Ákvæði 1. mgr. 27. gr. breyta engu um gildi sérstakra ákvæða í lögum um takmarkaða ábyrgð, t.d. reglna siglingalaga og laga um loftferðir.
    Fyrsta málsgrein 27. gr. tekur ekki til undanþáguákvæða í samningi ef þau snerta ábyrgðargrundvöllinn. Um samningsskilmála þess efnis fer eftir reglum þeim sem nú gilda. Hér má nefna að nú ríkir almennt sú skoðun að mönnum sé óheimilt að undanþiggja sig bótaábyrgð á tjóni sem rakið verður til stórfellds gáleysis. Sá sem veldur líkamstjóni með þeim hætti mundi því ekki geta borið fyrir sig slíkt undanþáguákvæði.
    Ákvæði 2. mgr. eru, svo sem áður er vikið að, gerð til þess að tryggja hagsmuni hins bótaskylda. Það að 1. og 3. mgr. 19. gr. og 20. gr. eru ekki frávíkjanlegar hefur t.d. í för með sér að áður en tjón verður má eigi semja svo um að skaðabótaskylda stofnist ef vátrygging er fyrir hendi og að sá sem dreifir áhættu sinni án vátrygginga geti ekki með samningi áskilið sér betri rétt en tjónþoli sem keypt hefur vátryggingu. Sé samningur af þessu tagi gerður eftir að tjón er orðið hefur hann að sjálfsögðu aðeins áhrif gagnvart hinum skaðabótaskylda að hann sé aðili að samningnum.
    Engar skorður eru settar við því að vikið sé með samningi frá reglum 1. mgr. 22. gr., enda þurfa hagsmunir tjónvalds eða tjónþola ekki neinnar sérstakrar verndar þegar sú grein á við.
    Hin almenna lækkunarregla er í 1. mgr. 24. gr. Ástæða þess að ekki má víkja frá henni með samningi er sú að hlutverk hennar er að vernda hinn bótaskylda fyrir kröfum sem leiða til ósanngjarnrar niðurstöðu.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 27. gr. segir að víkja megi frá 25. gr. að því er varðar tjón sem valdið er í opinberri starfsemi eða í einkaatvinnurekstri eða sambærilegum rekstri. Ástæða þessarar undanþágu frá reglu 1. málsl. er m.a. sú að 25. gr. á einnig við um bótaskyldu innan samninga, en þar kann að vera sanngjarnt og hagnýtt að ákveða fyrir fram með samningi hvernig bótaskylda skuli skiptast milli aðila sem bera óskipta ábyrgð á tjóni.

Um IV. kafla.


    Í kaflanum segir hvenær lögin taki gildi. Þar er og kveðið á um brottfall nokkurra lagaákvæða sem frumvarpið leysir af hólmi.

Um 28. gr.


    Hér er lagt til að lögin öðlist gildi 1. júlí 1992 og að hinar nýju reglur taki til skaðabótaábyrgðar vegna tjóns sem verður eftir gildistöku laganna.
    Frumvarpið hefur ekki áhrif á skaðabótarétt vegna tjóns sem verður áður en lögin öðlast gildi. Um tjón, sem ber að höndum fyrir 1. júlí 1992, fer því eftir núgildandi reglum. Skipt getur verulegu máli hvenær tjón er talið hafa orðið. Ekki verður deilt um hvenær tjón varð þegar tjónsatvik er skýrt afmarkaður skyndilegur atburður og skaðvænar afleiðingar hans koma strax í ljós.
    Hins vegar getur það orkað tvímælis ef orsök tjóns er langvarandi áhrif eða ástand sem stendur nokkra hríð. Sama á t.d. við ef afleiðingar tjónsatviks koma ekki strax fram og nokkurn tíma tekur að staðreyna eftirköst þess. Í slíkum tilvikum ber að skilja ákvæði þessarar greinar svo að reglur frumvarpsins um ákvörðun bóta fyrir líkamstjón eigi við þegar skaðlegar afleiðingar ber að höndum 1. júlí 1992 eða síðar, án tillits til þess hvenær hin skaðvæna hegðun hefst eða gerist eða hve lengi hún hefur staðið. Hafi t.d. ólögmætt ástand varað langa hríð og smám saman valdið heilsutjóni skal hinn bótaskyldi greiða bætur eftir reglum frumvarpsins ef líkamlegar afleiðingar koma ekki fram fyrr en 1. júlí 1992 eða síðar. Sama á við þótt hinu ólögmæta ástandi sé lokið fyrir 1. júlí 1992 og áhrifa þess gæti þá ekki lengur. Tjón, sem gerist hægt eða smám saman, verður almennt talið hafa orðið þegar skaðlegar afleiðingar verða greinilega sannreyndar. Ekki verður talið að tjón, sem rakið verður til vanrækslu á að gera lögmæltar öryggisráðstafanir eða þess háttar, hafi orðið strax og vanrækslan hófst, heldur þegar skaðlegar afleiðingar vanrækslunnar koma í ljós.
    Í sumum tilvikum verður að telja að tjónþoli hafi orðið fyrir tjóni sínu við ákveðinn skyndilegan atburð þótt skaðlegar afleiðingar hans verði eða komi í ljós að einhverju eða öllu leyti síðar. Til dæmis kann að vera að aðeins sjáist minni háttar áverkar á farþega strax eftir árekstur bifreiða, en síðar kemur fram að hann hefur orðið fyrir miklu varanlegu líkamstjóni. Hér mundi tjónið verða talið hafa orðið við áreksturinn.
    Þegar hins vegar er um að ræða kröfu um bætur fyrir missi framfæranda vegna andláts sem ber ekki að höndum fyrr en nokkru eftir slys má telja að tjónið hafi orðið við andlátið, sbr. athugasemdir við 13. og 14. gr.
    Lækkunarreglu 24. gr. verður beitt um tjón sem verður eftir gildistöku laganna þótt það sé afleiðing skaðaverks sem unnið er áður en þau öðluðust gildi.

Um 29. gr.


    Samkvæmt þessari grein falla úr gildi nokkur lagaákvæði sem frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi.
    Ýmis ákvæði I. kafla og reglur 26. gr. frumvarpsins koma í stað 264. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Reglur 19. og 22. gr. frumvarpsins, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 17. gr., koma í stað 25. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954.
    Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. kemur í stað 59. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar.
    Í 3. og 4. mgr. 133. gr. loftferðalaga, nr. 34/1964, eru ákvæði um bætur fyrir þjáningar og lýti, varanlega örorku, missi framfæranda og útfararkostnað. Eru ákvæði þessi í samræmi við 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940, og almennar ólögfestar reglur skaðabótaréttar og hafa því lítið sem ekkert sjálfstætt gildi. Er því lagt til að þessi ákvæði loftferðalaga verði felld niður.
    Ákvæði 23. gr. frumvarpsins um bótaábyrgð starfsmanna koma í stað lækkunarheimilda í lögum um loftferðir, siglingalögum, sjómannalögum og lögum um lögreglumenn.
    Lækkunarheimildir í 2. mgr. 24. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984, 2. mgr. 132. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, og 96. gr. laga nr. 22/1991, um samvinnufélög, fela í sér reglur sem lækkunarheimildir frumvarpsins koma ekki í staðinn fyrir. Eru því ekki efni til að hagga við þeim þótt frumvarpið verði að lögum.
    Í 2. og 3. mgr. 95. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er kveðið á um sérstakan endurkröfurétt vátryggingafélags á hendur hverjum þeim sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur tjóni er lögboðin ábyrgðartrygging ökutækis greiðir bætur fyrir. Heimilt er að lækka endurkröfu með hliðsjón af sök tjónvalds, efnahag hans, fjárhæð tjóns eða öðrum atvikum. Skv. 96. gr. sömu laga kveður sérstök nefnd á um hvort beita skuli endurkröfurétti þessum. Greind ákvæði eru meðal lagaúrræða sem ætlað er að hafa varnaðaráhrif á vettvangi umferðarslysa. Þykir ekki rétt að leggja til að þeim verði breytt.



Fylgiskjal I.


I. SAMANBURÐUR VIÐ DANSKAR OG SÆNSKAR REGLUR


    Í þessum kafla eru skaðabætur í Svíþjóð og Danmörku bornar saman við bætur sem ætla má að greiddar hefðu verið fyrir líkamstjón eftir núgildandi íslenskum reglum, svo og bætur sem frumvarpið gerir ráð fyrir að greiddar verði. Dæmi eru valin úr norrænni skýrslu frá apríl 1989, en þar var slíkur samanburður gerður í því skyni að lýsa muninum á bótaákvörðunum annars staðar á Norðurlöndunum (Bergsåker, von Eyben, Roos og Wilhelmsson: Udviklingen af reglerne om erstatning for personskade. Rapport afgivet til den nordiske embedsmandskomité for lovgivningsspørgsmål). Fjárhæðum staðlaðra bóta í Svíþjóð og Danmörku hefur verið breytt til samræmis við bótafjárhæðir sem nú gilda þar, en þær bætur, sem miðast við kauplag, eru óbreyttar. Þessar fjárhæðir eru umreiknaðar í íslenskar krónur miðað við gengi í byrjun nóvember 1991. Þegar vísað er til krónutölu er átt við íslenskar krónur, nema annað sé tekið fram.

     1. dæmi.
    Í fyrsta dæminu er um að ræða 52 ára gamlan fulltrúa sem slasaðist mjög alvarlega í umferðarslysi. Hann skaddaðist á heila, en það leiddi til lömunar ganglima, auk þess sem hann er verulega skertur andlega. Hann lá á sjúkrahúsi í þrjá mánuði og síðan var hann í meðferð og endurþjálfun í rúma níu mánuði. Örorka hans var metin 100% til frambúðar. Vinnutekjur á slysdegi námu 2.102.000 kr. en gert var ráð fyrir að þær mundu hækka í 2.285.000 kr. á næsta ári. Hann fékk greiddar um 1.005.000 kr. á fyrsta ári eftir slysið og síðan nam heildarlífeyrir hans 868.000 kr. á ári í Danmörku og Svíþjóð, en hér á landi er miðað við að tjónþoli fengi greiddan örorkulífeyri með fullri tekjutryggingu.
    Bætur í Danmörku mundu nema eftirfarandi fjárhæðum:

Þjáningabætur     
260.000

Varanlegur miski     
2.459.000

Tímabundið atvinnutjón     
1.280.000

Varanleg örorka     
12.612.000

Samtals     
16.611.000


    Þjáningabæturnar eru reiknaðar eftir dagstaxta en síðan lækkaðar um 7,5% þar sem þær eru nokkru hærri en hámarkið samkvæmt dönsku skaðabótalögunum (sem nemur um 183.000 kr.) og því yrði heimildarlækkun væntanlega beitt.
    Þegar varanlegur miski er metinn er hámarksfjárhæðin 269.000 DKK eða 2.459.000 kr.
    Tímabundið atvinnutjón er ákveðið sem mismunurinn á þeim tekjum sem hann hefði haft og þeim tekjum sem hann hafði eða 2.285.000 kr. að frádregnum 1.005.000 kr.
    Tjón vegna varanlegrar örorku ákvarðast sem sexföld árslaun hans fyrir slysið, þ.e. 6 x 2.102.000 kr. eða 12.612.000 kr.
    Í Svíþjóð yrðu bæturnar sem hér segir:

Þjáningabætur og bætur fyrir varanl. miska     
2.580.000

Tímabundið atvinnutjón     
1.280.000

Varanleg örorka, lífeyrir á ári     
1.417.000

Annað          
585.000


    Hér eru bætur fyrir þjáningar og varanlegan miska staðlaðar og reiknast hjá Svíum í einu lagi. Tímabundið atvinnutjón reiknast á sama hátt og hjá Dönum en bætur fyrir varanlega örorku eru greiddar með lífeyri þannig að tjónþoli fær á hverju ári greitt það tekjutap sem ætla má að hann hafi orðið fyrir (lífeyririnn getur breyst ef aðstæður breytast hjá tjónþola). Þá eru hér greiddar bætur fyrir annað óhagræði (olägenheter iövrigt) og nema þær tæpum 5.000 SEK á ári. Með núvirðingu nema bæturnar 585.000 kr.
    Á Íslandi má ætla að bætur mundu við þessar aðstæður verða sem hér segir:

Miskabætur     
1.400.000

Tímabundið atvinnutjón og varanleg örorka     
11.950.000

Samtals     
13.350.000


    Verðmæti varanlegs atvinnutjóns er þá reiknað 23.124.000 kr. og síðan eru dregin frá því 31% vegna skattfrelsis og vegna hagræðis við eingreiðslu. Loks eru dregnar um það bil 4 millj. kr. frá þeirri fjárhæð sem þá fæst, en það er verðmæti örorkulífeyris almannatrygginga með fullri tekjutryggingu. Miskabætur eru áætlaðar með hliðsjón af nýlegum dómum og bótum sem samið hefur verið um utan réttar.
    Hins vegar mundu bætur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verða sem hér segir:

Þjáningabætur     
283.000

Varanlegur miski     
4.000.000

Tímabundið atvinnutjón     
1.280.000

Varanleg örorka     
10.405.000

Samtals     
15.968.000


    Þjáningabætur eru miðaðar við 90 daga á sjúkrahúsi og 270 daga veikindi heima og heimildarlækkun frá hámarkinu 200.000 kr., sbr. 3. gr. frumvarpsins.
    Bætur vegna varanlegs miska eru hámarksbætur skv. 4. gr. frumvarpsins. Tímabundið atvinnutjón er metið á sama hátt og hjá Dönum og sama gildir um bætur fyrir varanlega örorku en það eru 7,5-föld árslaun fyrir slysið, lækkuð um 34% vegna aldurs.

     2. dæmi.
    Í þessu dæmi er um að ræða 25 ára gamlan sjómann sem varð fyrir því að missa annað augað í ryskingum. Hann var háseti þegar slysið varð, en fyrir lá að hann mundi hafa átt kost á stýrimannsstöðu ef hann hefði ekki slasast. Hann starfaði áfram sem háseti og námu laun hans 1.305.000 kr. á ári. Stýrimannslaun hefðu hins vegar verið 20% hærri eða 1.566.000 kr. á ári.
    Bætur í Danmörku mundu nema eftirfarandi fjárhæðum:

Varanlegur miski     
492.000

Varanleg örorka     
1.566.000

Samtals     
2.058.000


    Þjáningabæturnar eru ekki greiddar, enda var sjómaðurinn ekki veikur eftir slysið.
    Varanlegur miski er 20% af hámarksfjárhæðinni, 53.800 DKK eða 492.000 kr. Danir meta varanlegan miska (varigt mén) vegna missis auga 20% og er það hið sama og við missi sjónar á öðru auga. Í þessu dæmi reikna Danir ekki bætur vegna tímabundins atvinnutjóns þar sem talið er að ástand tjónþola hafi strax eftir slysið orðið varanlegt.
    Sjómaðurinn er talinn hafa orðið fyrir varanlegri 20% örorku þar sem hann getur ekki vænst þess tekjuauka sem stýrimannsstaða hefði leitt til. Bætur fyrir varanlega örorku ákvarðast því sem 20% af 1.305.000 kr. margfölduð með 6 eða 1.566.000 kr.
    Í Svíþjóð yrðu bæturnar sem hér segir:

Varanlegur miski     
630.000

Tímabundið atvinnutjón     
108.000

Varanleg örorka, lífeyrir á ári     
320.000

Annað          
514.000


    Bætur vegna varanlegs miska eru staðlaðar. Svíar mundu bæta tímabundið atvinnutjón sem mismuninn á launum sjómannsins sem stýrimanns og bóta og launa sem hann fékk eftir slys. Ekki er alveg ljóst hversu langt tímabil er um að ræða hér. Varanleg örorka er bætt með lífeyri þannig að tjónþoli fær á hverju ári greitt það tekjutap sem ætla má að hann hafi orðið fyrir (lífeyririnn getur breyst ef aðstæður breytast hjá tjónþola).
    Á Íslandi má ætla að bætur mundu við þessar aðstæður verða sem hér segir:

Miskabætur     
200.000

Tímabundið atvinnutjón og varanleg örorka     
2.900.000

Samtals     
3.100.000


    Hér yrði varanleg örorka metin 25% og tekjutap yrði áætlað sem 25% af tekjum fyrir slysdag. Höfuðstólsverðmæti slíks áætlaðs tjóns yrði um 5.025.000 kr. en síðan má búast við að um 42% yrðu dregin frá þeirri fjárhæð vegna skattfrelsis og vegna hagræðis við eingreiðslu. Miskabætur eru áætlaðar með hliðsjón af nýlegum dómum og bótum sem samið hefur verið um utan réttar.
    Hins vegar mundu bætur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verða sem hér segir:

Varanlegur miski     
800.000

Tímabundið atvinnutjón (áætlað)     
108.000

Varanleg örorka     
1.958.000

Samtals     
2.866.000


    Varanlegur miski yrði væntanlega metinn 25% samkvæmt venju hér og bætur vegna hans mundu því nema 25% af hámarksfjárhæðinni skv. 4. gr. frumvarpsins. Varanleg örorka sjómannsins yrði að líkindum metin hin sama og í Danmörku eða 20%. Bætur vegna varanlegrar örorku mundu því verða ákveðnar sem 20% af árslaunum fyrir slysið margfölduð með 7,5.
     3. dæmi.
    Um er að ræða laganema sem er um það bil hálfnaður í námi þegar hann missir annan fót rétt fyrir ofan hné í umferðarslysi. Hann notar gervifót með góðum árangri. Vegna slyssins tefst hann um eitt ár í námi en að því loknu hefur hann störf sem fulltrúi á lögmannsstofu en hugur hans stóð til þess. Laun hans á fyrsta starfsári nema 2.056.000 kr. Varanlegur miski yrði væntanlega metinn 55% í Danmörku og á Íslandi en aðeins 25% í Svíþjóð.
    Bætur í Danmörku mundu verða sem hér segir:

Varanlegur miski     
1.352.000

Varanleg örorka     
3.042.000

Annað fjártjón     
300.000

Samtals     
4.694.000


    Auk þess greiðast þjáningabætur, en ekki liggja fyrir nægar upplýsingar til þess að reikna þær. Bætur vegna varanlegs miska nema 55% af hámarksfjárhæðinni 269.000 DKK, þ.e. 147.950 DKK eða 1.352.000 kr.
    Bætur fyrir varanlega örorku ákvarðast hér í samræmi við hliðstæða reglu við þá sem er að finna í 8. gr. frumvarpsins, en þar er regla um ákvörðun bóta þegar tjónþoli aflaði ekki tekna eða hafði óverulegar tekjur fyrir slysið. Í slíkum tilvikum skal greiða bætur fyrir varanlega örorku með ákveðnu hlutfalli af þeim bótum sem greiðast vegna varanlegs miska. Ef varanlegur miski er 55% nema bætur vegna varanlegs tekjutaps 225% af bótum vegna varanlegs miska eða 3.042.000 kr.
    Bætur fyrir „annað fjártjón“ eru fyrir útgjöld og óhagræði vegna tafa í námi.
    Í Svíþjóð yrðu bæturnar sem hér segir:

Þjáningabætur og varanlegur miski     
698.000

Tímabundið atvinnutjón     
2.056.000

Varanleg örorka     
0

Annað          
617.000

Samtals     
3.371.000


    Hér eru þjáningabætur og bætur fyrir varanlegan miska staðlaðar og reiknast hjá Svíum í einu lagi. Þeir meta varanlegan miska 25% sem þeir bæta með 72.000 SEK. Tímabundið atvinnutjón bætist með eins árs launum vegna þess að tjónþoli kemur einu ári síðar til starfa. Svíar mundu hins vegar ekki greiða neinar bætur vegna varanlegrar örorku þar sem þeir leggja til grundvallar að hér sé ekki um að ræða tekjutap til frambúðar. Hins vegar eru bætur vegna útgjalda og óhagræðis að öðru leyti (kostnader og olägenheter iövrigt) miðaðar við 3.600 SEK á ári sem er núvirt með margföldunarstuðli 17,7.
    Á Íslandi má ætla að bætur mundu við þessar aðstæður verða sem hér segir:

Miskabætur     
400.000

Tímabundið atvinnutjón     
1.780.000

Varanleg örorka     
8.400.000

Samtals     
10.580.000


    Hér er tímabundið atvinnutjón metið miðað við tekjumissi í eitt ár og núvirt til slysdags. Bætur fyrir varanlega örorku miðast við að árlegt vinnutekjutap verði 55% af launum lögmannsfulltrúa, núvirt til slysdags, að frádregnum um 42% vegna skattfrelsis og hagræðis við eingreiðslu. Miskabætur eru áætlaðar með hliðsjón af nýlegum dómum og umsömdum miskabótum.
    Hins vegar mundu bætur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins verða sem hér segir auk bóta fyrir þjáningar:

Varanlegur miski     
2.200.000

Varanleg örorka     
4.950.000

Annað fjártjón     
300.000

Samtals     
7.450.000


    Bætur vegna varanlegs miska nema 55% af hámarksfjárhæð skv. 4. gr. eða 2.200.000 kr.
    Bætur fyrir varanlega örorku ákvarðast hér í samræmi ákvæði 8. gr. frumvarpsins, en þar er fjallað um ákvörðun bóta þegar tjónþoli aflaði ekki tekna eða hafði óverulegar tekjur fyrir slysið. Í slíkum tilvikum skal bæta varanlega örorku með ákveðnu hlutfalli af þeim bótum sem greiðast vegna varanlegs miska. Ef miskastig er 55% nema bætur vegna varanlegrar örorku 225% af bótum vegna varanlegs miska eða 4.950.000 kr.
    Bætur fyrir „annað fjártjón“ eru fyrir útgjöld og óhagræði vegna tafa í námi.

Niðurstöður dregnar saman.


    Til glöggvunar eru ofangreind dæmi sýnd hér á eftir í töfluformi.

1. dæmi.         Fulltrúi, 52 ára, alger (100%) öryrki eftir höfuðmeiðsli í umferðarslysi.

DKK

ISK



Laun á slysdegi     
230.000
2.102.000
Framtíðarlaun     
250.000
2.285.000

Varanlegur miski: 100%.
Varanleg örorka: 100%.



DK SV IS Frv.

Þjáningabætur
260.000 2.580.000 1.400.000 283.000
Varanlegur miski
2.459.000 4.000.000
Tímabundið atvinnutjón
1.280.000 1.280.000 11.950.000 1.280.000
Varanleg örorka
12.612.000 1.417.000 1
10.405.000
Annað
585.000
Samtals
16.611.000 13.350.000 15.968.000

1 Árlegur lífeyrir.

2. dæmi.         Sjómaður, 25 ára, missti annað augað og þess vegna átti hann ekki kost á stýrimannsstöðu.

DKK

ISK



Laun á slysdegi     
142.800
1.305.000
Framtíðarlaun     
171.360
1.566.000

Varanlegur miski: DK og SV 20%, ÍS 25%.
Varanleg örorka: DK 20%, SV 0%, ÍS 25%, frv. 20%.


DK SV IS Frv.

Varanlegur miski
492.000 630.000 200.000 800.000
Tímabundið atvinnutjón
108.000 108.000
2.900.000
Varanleg örorka
1.566.000 320.000 1
1.958.000

Annað
514.000
Samtals
2.058.000 3.100.000 2.866.000

1 Árlegur lífeyrir.

3. dæmi.         Laganemi, um það bil hálfnaður í námi, missti annan fót rétt fyrir ofan hné. Hann tafðist í námi um eitt ár en hóf að því loknu störf sem fulltrúi lögmanns.

DKK

ISK



Laun á slysdegi     
0
0
Framtíðarlaun     
225.000
2.056.000

Varanlegur miski: DK 55%, SV 25%, ÍS 55%.
Varanleg örorka: DK og SV 0%, ÍS 55%, frv. 0% (bætur í DK og frv. þó skv. 8. gr.).


DK SV IS Frv.

Varanlegur miski
1.352.000 698.000 400.000 2.200.000
Tímabundið atvinnutjón
2.056.000 1.780.000
Varanleg örorka
3.042.000 8.400.000 4.950.000
Annað
300.000 617.000 300.000
Samtals
4.694.000 3.371.000 10.580.000 7.450.000




II. SAMANBURÐUR Á BÓTUM EFTIR FRUMVARPINU


OG GILDANDI REGLUM


    Hér á eftir verða sýnd nokkur dæmi um bætur sem ákveðnar hafa verið hér á landi fyrir líkamstjón annaðhvort með samningi eða dómi og til samanburðar dæmi um bætur sem ætla má að tjónþoli hefði fengið greiddar ef frumvarpið hefði verið í gildi. Bótafjárhæðir eru þó umreiknaðar til þess tíma sem bætur voru ákveðnar.

     1. dæmi.
    Fimmtán ára unglingur slasaðist á hendi í júlí 1988. Örorka hans var metin í janúar 1991, 100% í tvo mánuði og síðan varanleg 5%. Samkvæmt læknisvottorði var hann óvinnufær í 106 daga. Hann fékk greidd laun fyrir þann tíma. Samið var um bætur í júní 1991. Hér er gert ráð fyrir að varanlegur miski hefði verið ákveðinn 5%, en samkvæmt ákvæðum frumvarpsins yrðu engar bætur greiddar fyrir varanlega örorku. (Hér hefði komið til álita að beita ákvæði 8. gr. frumvarpsins en þar sem örorka er minni en 15% greiðast engar örorkubætur.) Í töflunni eru sýndar annars vegar bætur þær sem ákveðnar voru með samningi og hins vegar bætur eftir ákvæðum frumvarpsins:

Umsamið

Frumvarp



Þjáningabætur     
72.000
Miskabætur     
50.000

Varanlegur miski     
193.000
Varanleg örorka     
545.000
0
Samtals     
595.000
265.000

Vextir          
112.000
16.000
Samtals með vöxtum     
707.000
281.000


     2. dæmi.
    Skrifstofumaður, 55 ára að aldri, slasaðist í umferðarslysi í mars 1990. Örorka hans var metin í mars 1991, 100% í þrjár vikur, 50% í sex vikur og varanleg örorka 10%. Hér er gert ráð fyrir að við ákvörðun bóta samkvæmt frumvarpinu hefði miskastig verið 10% en örorka engin. Laun voru greidd meðan tjónþoli var óvinnufær og því ekki um bætur að ræða vegna tímabundins atvinnutjóns. Samið var um bótafjárhæð í apríl 1991. Hér á eftir eru sýndar þær bætur sem ákveðnar voru, svo og bætur samkvæmt frumvarpinu:

Umsamið

Frumvarp



Þjáningabætur     
14.000
Miskabætur     
100.000

Varanlegur miski     
378.000
Varanleg örorka     
1.209.000
0
Samtals     
1.309.000
392.000

Vextir          
112.000
8.000
Samtals með vöxtum     
1.421.000
400.000


     3. dæmi.
    21 árs gamall maður hlaut mjög slæmt fótbrot í umferðarslysi í júní 1988. Í gögnum kemur ekkert fram um hvaða starfi hann gegndi fyrir og eftir slys, en örorka hans var metin 100% í fjóra og hálfan mánuð, 50% í tvo mánuði og síðan 20% varanleg örorka. Um bætur var samið í apríl 1991. Tjónþoli fékk ekki greidd laun allan þann tíma sem hann var óvinnufær og því voru honum greiddar bætur vegna tímabundins atvinnutjóns. Sama fjárhæð mundi verða greidd skv. 2. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að varanlegur miski sé metinn 20% en örorka sé hins vegar ekki metin. Þessar bætur eru sýndar hér á eftir:

Umsamið

Frumvarp



Þjáningabætur     
101.000
Miskabætur     
200.000

Varanlegur miski     
759.000
Tímabundið atvinnutjón     
128.000
128.000
Varanleg örorka     
2.013.000
0
Samtals     
2.341.000
988.000

Vextir          
536.000
57.000
Samtals með vöxtum     
2.877.000
1.045.000


     4. dæmi.
    Fertugur iðnaðarmaður stórslasaðist í umferðarslysi í nóvember 1987. Hlaut hann mikil örkuml og var örorka hans metin 100% í rúm tvö ár og síðan 75% til frambúðar. Þegar litið er til þess sem segir í örorkumatinu sýnist ljóst að á grundvelli frumvarpsins mundi varanlegur miski verða metinn 75% en örorka 100% þar sem læknirinn telur engin líkindi til þess að tjónþoli stundi vinnu í framtíðinni. Um bætur var samið í febrúar 1991. Þjáningabætur reiknaðar samkvæmt ákvæðum 3. gr. frumvarpsins eru verulega hærri en hámarkið sem þar er greint og því eru bætur lækkaðar um 12%. Hér er gert ráð fyrir greiðslu sömu fjárhæðar samkvæmt frumvarpinu og uppgjöri vegna tímabundins atvinnutjóns örorku. Bætur eru sýndar í töflunni hér á eftir:

Umsamið

Frumvarp



Þjáningabætur     
691.000
Miskabætur     
1.500.000

Varanlegur miski     
2.817.000
Tímabundið atvinnutjón     
1.423.000
1.423.000
Varanleg örorka     
6.143.000
10.275.000
Samtals     
9.066.000
15.206.000

Vextir          
4.158.000
1.023.000
Samtals með vöxtum     
13.224.000
16.229.000


     5. dæmi.
    Þann 4. desember 1991 var kveðinn upp í Hæstarétti dómur um skaðabætur til manns sem slasaðist á árinu 1984, þá 27 ára að aldri, og hlaut mikil örkuml. Tryggingayfirlæknir mat örorku hans 100% í átta mánuði og síðan varanlega 75%. Miðað við upplýsingar, sem fram koma í dóminum, má ætla að miskastig yrði 75% og örorka 100% eftir ákvæðum frumvarpsins.
    Þegar svo langt er um liðið frá slysdegi og þar til samið er um bætur eða dómur kveðinn upp um þær vega vextir mjög þungt í heildarfjárhæð bóta. Stafar það af því að bætur eru miðaðar við slysdag og vextir reiknast frá þeim degi til ákvörðunardags. Í þessu tilviki féll héraðsdómur í nóvember 1988 og nokkru áður (29. ágúst 1988) var gerður útreikningur á fjártjóni hins slasaða. Ekki kemur fram hvort sá útreikningur var lagður til grundvallar í dómi Hæstaréttar, en nýr útreikningur lá fyrir eins og greint er frá hér á eftir.
    Í útreikningnum frá ágúst 1988 var fjártjón á slysdegi metið 5.507.000 kr. en á móti var verðmæti örorkulífeyris almannatrygginga metið 1.120.000 kr. og verðmæti tekjutryggingar 1.975.000 kr. Í öllum tilvikum eru vaxtaforsendur þær að miðað er við 6% vexti eftir útreikningsdag en einfalda almenna innlánsvexti frá slysdegi til útreikningsdags.
    Útreikningur, sem lagður var fyrir Hæstarétt og er dagsettur 27. nóvember 1991, er mun ítarlegri og samkvæmt honum nemur verðmæti höfuðstóls örorkutjóns 7.605.000 kr. á slysdegi. Verðmæti örorkulífeyris er metið 1.416.000 kr. og tekjutryggingar 2.588.000 kr. Í þessum útreikningi er einnig greint frá því að tjónþoli njóti örorkulífeyris úr lífeyrissjóði og er verðmæti þess lífeyris til 70 ára aldurs reiknað 3.576.000 kr. Hins vegar er tekið fram að sá lífeyrir muni skerða tekjutrygginguna að einhverju marki en hins vegar liggur ekki fyrir útreikningur á skerðingunni.
    Niðurstaða Hæstaréttar er sú að tjón tjónþola þyki hæfilega metið 2.500.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til verðmætis bóta sem hann nýtur frá Tryggingastofnun ríkisins og höfð hliðsjón af skattfrelsi örorkubóta og hagræði af greiðslu þeirra í einu lagi, svo og litið til verðmætis lífeyris úr lífeyrissjóði. Þá er dregið frá verðmæti greiðslna sem ábyrgðartryggingafélag hins bótaskylda hafði áður innt af hendi (501.000 kr.), svo og laun og sjúkradagpeningar (43.000 kr.).
    Þá dæmir Hæstiréttur tjónþola 800.000 kr. í miskabætur og tekur fram að tillit sé tekið til þess að bæturnar bera vexti í rúm sjö ár, svo og til verðbótaþáttar vaxta. Í dómsorði er kveðið á um einfalda vexti til 29. ágúst 1988 en um dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags. Þegar vextir eru reiknaðir á bæturnar verður heildarniðurstaða samkvæmt hæstaréttardóminum eftirfarandi:

Bætur vegna örorku        2.500.000
Áður greitt frá hinum bótaskylda          501.000
3.001.000
Miskabætur     
800.000
Vextir og dráttarvextir     
9.200.000
Samtals     
13.001.000

     Bætur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins yrðu væntanlega sem hér segir:

Þjáningabætur     
240.000

Bætur vegna varanlegs miska     
3.000.000

Örorkubætur (7,5 x 0,98 x 315.584 x 3.198 : 929)     
7.985.000

Samtals     
11.225.000


Vextir          
1.700.000

Bætur alls með vöxtum     
12.925.000


    Þjáningabætur eru reiknaðar í 140 daga miðað við rúmlegu og 100 daga miðað við fótavist. Þannig reiknaðar nema bæturnar 252.000 kr. og þar sem þær eru 26% umfram viðmiðunarmarkið í 3. gr. frumvarpsins eru þær lækkaðar lítillega. Bætur vegna varanlegs miska nema 75% af 4.000.000 kr. Bætur vegna varanlegrar örorku eru 7,5-föld launin næstu tólf mánuði fyrir slys, lækkaðar um 2% vegna aldurs og framreiknaðar miðað við breytingu á lánskjaravísitölu (vísitala var 929 stig á slysdegi en 3.198 stig þegar dómur var kveðinn upp).
    Bætur eftir frumvarpinu eru ívið lægri en samkvæmt dóminum og veldur þar mestu hve mikil áhrif dráttarvaxta eru í þessu sambandi. Ef bætur vegna slyss, eins og hér hefur verið fjallað um, væru ákveðnar með samningi mjög fljótlega eftir slys má ætla að niðurstaðan yrði á þessa lund og er þá gert ráð fyrir að árslaun væru 1.086.400 kr.

Bætur eftir núgildandi reglum:
Vegna örorku     
12.395.000

Frá dregst:
Verðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar     
6.190.000

Greiðslur úr lífeyrissjóði koma ekki til frádráttar enda skerða
þær tekjutryggingu.
Vegna skattfrelsis og hagræðis af eingreiðslu, 20% af mismun     
1.241.000


Bætur vegna örorku     
4.964.000
Miskabætur     
2.000.000
Bætur alls     
6.964.000

Bætur samkvæmt frumvarpi:
Þjáningabætur     
240.000
Bætur vegna varanlegs miska     
3.000.000
Bætur vegna örorku (1.086.400 x 7,5 x 0,98)     
7.985.000
Bætur alls     
11.225.000


     6. dæmi.
    Tæplega fertugur maður lést í umferðarslysi í ágúst 1988. Hann lét eftir sig ekkju og fjögurra ára dóttur. Um bætur var samið í júní 1989 og voru þá ákveðnar í einu lagi bætur vegna missis framfæranda og bætur vegna röskunar á stöðu og högum. Í ágúst 1988 nam barnalífeyrir almannatrygginga 5.865 kr. á mánuði. Umreiknaðar meðaltekjur ekkjunnar námu um 70% af tekjum mannsins. Bætur til ekkjunnar, reiknaðar samkvæmt ákvæðum í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins, nema 1.225.000 kr. Þess vegna gilda ákvæði 2. málsl. 1. mgr. um 3.000.000 kr. lágmark bóta. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. lækkar bótafjárhæð þessi um 14% vegna þess að hinn látni var 39 ára gamall. Bætur eru sýndar hér á eftir:

Umsamið

Frumvarp



Framfærslutjón maka     
500.000
2.580.000
Framfærslutjón barns     
500.000
1.093.000
Samtals     
1.000.000
3.673.000

Vextir          
86.000
63.000
Samtals með vöxtum     
1.086.000
3.736.000


     7. dæmi.
    Rúmlega fimmtugur maður lést af slysförum í ágúst 1990 og lét eftir sig ekkju sem var ári eldri. Umreiknaðar meðaltekjur ekkjunnar voru tæpur helmingur tekna hans. Um bætur var samið í nóvember 1990 og eru þær sýndar hér á eftir ásamt bótum samkvæmt frumvarpinu. Framfærslutjón maka er þá lækkað um 32% vegna aldurs hins látna:

Umsamið

Frumvarp



Framfærslutjón maka     
2.948.000
2.809.000
Bætur fyrir röskun á stöðu og högum     
300.000

Samtals     
3.248.000
2.809.000

Vextir          
26.000
15.000
Samtals með vöxtum     
3.274.000
2.824.000




Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til skaðabótalaga.


    Frumvarpið fjallar aðallega um greiðslur skaðabóta vegna líkamstjóna almennt og miðar að því að setja skýrari, heilsteyptari og réttlátari reglur um það efni en núverandi lög gera.
    Verði frumvarpið að lögum munu áhrif á ríkissjóð aðallega felast í því að endurkröfuréttur hins opinbera á tjónvald falla úr gildi vegna tjóns á hagsmunum sem hið opinbera vátryggir ekki (sjá 19. og 20. gr.). Fram til þessa hefur ríkissjóður sjálfur aðeins gert slíkar endurkröfur í undantekningartilvikum. Hins vegar mun endurkröfuréttur Tryggingastofnunar ríkisins þar með falla úr gildi, en á árinu 1991 innheimti slysatryggingadeild 64 millj. kr. í endurkröfum. Á árinu 1992 er áætlað að endurkröfur slysatrygginga stofnunarinnar verði nokkuð lægri og lækki enn frekar á næsta ári. Hér er verið að innheimta kröfur frá fyrri árum sem samþykkt frumvarpsins hefur ekki áhrif á.
    Það hefur einnig mikilvæga en óbeina þýðingu fyrir kostnað ríkissjóðs að reikna má með að heildarútgjöld þjóðarinnar af skaðabótagreiðslum fyrir líkamstjón lækki verulega samkvæmt frumvarpinu. Stafar það af því að megináhersla er lögð á getu tjónþola til að afla vinnutekna í stað læknisfræðilegs mats á örorku. Slys sem hafa í för með sér minni háttar örorku samkvæmt læknisfræðilegu mati eru svo mörg að lækkun skaðabóta vegna þeirra hefur verulega útgjaldalækkun í för með sér. Heildarútgjöld munu því samkvæmt frumvarpinu lækka þrátt fyrir hærri dánarbætur og örorkubætur til þeirra sem bíða raunverulegt fjárhagslegt tjón. Verði frumvarpið að lögum má því reikna með að iðgjöld vegna bifreiðatrygginga og heimilis- og fjölskyldutrygginga lækki með tímanum.