Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 331 . mál.


603. Tillaga til þingsályktunar



um umhverfisskatta.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Árni R. Árnason,


Sturla Böðvarsson, Sigríður A. Þórðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra og fjármálaráðherra að athuga hvort og þá á hvaða hátt umhverfisskattar geti komið í stað núverandi skatta, svo sem tekjuskatta, eignarskatta, útsvars og aðstöðugjalds. Þessi athugun verði gerð samfara því að undirbúnar verði breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga vegna afnáms aðstöðugjalds. Lagt verði til grundvallar við þessa athugun að umhverfisskattar komi í stað annarra jafngildra skatta en verði ekki viðbótarskattheimta.

Greinargerð.


    Umhverfisskattar teljast til svokallaðra hagrænna stjórntækja sem beitt er í æ ríkari mæli til þess að ná markmiðum í umhverfismálum. Hagrænum stjórntækjum er beitt til þess að við efnahagslega og viðskiptalega ákvörðunartöku sé tekið tillit til þess kostnaðar sem við höfum af því að skaða umhverfið og ella væri ekki tekinn með í reikninginn. Þetta er m.a. leið til þess að beita hinum frjálsa markaði til þess að aðlaga neyslu, viðskipti og framleiðslu að markmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar. Með þessu móti verður það fjárhagslega hagkvæmt að framleiða, bjóða til sölu og neyta umhverfisvænnar vöru. Í þessum efnum eru margar leiðir en hér er gert ráð fyrir að athugað sé hvort og þá á hvaða hátt umhverfisskattar geti orðið hluti af skattkerfi hins opinbera og komið í stað annarra skatta sem við nú búum við. Flutningsmenn leggja áherslu á að umhverfisskattar verði ekki notaðir til þess að afla hinu opinbera aukinna tekna heldur til þess að breyta og beita skattkerfinu á jákvæðan hátt.