Ferill 336. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 336 . mál.


609. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 13/1973, um Happdrætti Háskóla Íslands, með síðari breytingum.

Flm.: Ólafur Þ. Þórðarson.



1. gr.


    Síðasti málsliður e-liðar 1. gr. laganna orðast svo: Leyfishafi skal greiða 20% af nettóársarði til annarra skóla á háskólastigi í hlutfalli við fjölda nemenda í fullu námi á næstliðnu kennsluári og skal fénu varið til uppbyggingar skólanna.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Jafnframt fellur niður 2. tölul. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 48/1987.

Greinargerð.


    Samkvæmt lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13/1973, með síðari breytingum, hefur dómsmálaráðherra heimild til að veita Háskóla Íslands einkaleyfi til rekstrar happdrættis með þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 1. gr. laganna. Samkvæmt e-lið 1. gr. skal ágóða af happdrættinu varið til að reisa byggingar á vegum Háskóla Íslands. Auk þess er heimilt að verja honum til viðhalds háskólabygginga, til fegrunar á háskólalóðinni, til stofnunar og eflingar rannsóknastofa og til kaupa á rannsóknar- og kennslutækjum. Samkvæmt greininni skal leyfishafi greiða ríkissjóði 20% af nettóársarði í einkaleyfisgjald. Gjald þetta hefur verið greitt úr ríkissjóði til Byggingarsjóðs rannsóknastarfsemi í þágu atvinnuveganna, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 19. gr. 1aga nr. 48/1987. Hefur sjóðurinn veitt styrki til meiri háttar tækjakaupa og byggingarframkvæmda, sbr. 2. mgr. 19. gr. sömu laga. Með frumvarpi þessu er lagt til að gjaldi þessu verði skipt milli annarra skóla á háskólastigi í stað þess að það renni í ríkissjóð og síðan í fyrrnefndan byggingarsjóð. Ekki er það ætlun flutningsmanns að skerða ráðstöfunarfé byggingarsjóðsins, enda mundi fjárveiting í fjárlögum til hans, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 19. gr., væntanlega hækka sem næmi missi einkaleyfisgjaldsins. Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að skipting fjárins til annarra skóla á háskólastigi verði í hlutfalli við nemendafjölda næstliðins kennsluárs.
    Háskóli Íslands hefur um langan aldur haft einkaleyfi til reksturs happdrættis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hefur ágóði þess komið sér vel við uppbyggingu mannvirkja á háskólasvæðinu, svo og við kaup á tækjum og búnaði ýmiss konar. Á síðustu árum hefur skólum á háskólastigi fjölgað ört hér á landi. Má þar fyrst nefna Kennaraháskóla Íslands. Sá skóli, sem nú er í örustum vexti, er Háskólinn á Akureyri. Með frumvarpi þessu er leitast við að koma að nokkru til móts við þörf annarra skóla á háskólastigi og lagt til að þeim 20% af nettóársarði, sem Happdrætti Háskóla Íslands hefur hingað til greitt í ríkissjóð, verði skipt milli þeirra. Eðlilegt væri að stjórn happdrættisins sæi um þá hlið mála. Á síðasta ári greiddi Happdrætti Háskóla Íslands rúmlega 70 millj. kr. einkaleyfisgjald til ríkissjóðs. Lagabreytingu þessari er ekki stefnt gegn Háskóla Íslands, enda mundi hún í engu skerða það fé sem Háskólinn hefur af happdrættinu en gæti orðið til þess að fjölga velunnurum happdrættisins. Lagabreytingin gæti orðið til þess að fleiri sæju sér hag í að spila í happdrættinu þar sem hluti arðsins rynni til þess skóla sem þeim væri hugleikinn. Má því vænta þess að nemendur, sem hafa stundað eða munu stunda nám í skólum á háskólastigi, spiluðu frekar í happdrættinu. Mundi þá skapast breiðari stuðningur við Happdrætti Háskólans sem er afar mikilvægt. Horfur eru því á að jafnt Háskóli Íslands sem aðrir skólar á háskólastigi nytu góðs af breytingunni. Bættur búnaður og húsakostur þeirra hlýtur að vera allra hagur.