Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 325 . mál.


618. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Maríu E. Ingvadóttur um endurskoðun bókhaldslaga.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður endurskoðun bókhaldslaga og hvenær er að vænta niðurstöðu?

    Þann 23. desember 1992 skipaði fjármálaráðherra nefnd til að endurskoða lög nr. 51/1968, um bókhald. Í nefndina voru skipaðir Guðmundur Guðbjarnason, fyrrverandi skattrannsóknarstjóri, sem er formaður nefndarinnar, Alexander G. Eðvardsson, löggiltur endurskoðandi, sem tilnefndur var af viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Bragi Gunnarsson, lögfræðingur í fjármálaráðuneyti, Jón Ögmundur Þormóðsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneyti, Lárus Ögmundsson, lögfræðingur hjá Ríkisendurskoðun, og Sigurður H. Pálsson, löggiltur endurskoðandi, sem tilnefndur var af Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur fram að löngu sé tímabært að taka gildandi lög um bókhald til endurskoðunar. Er þar vikið að nokkrum atriðum sérstaklega í því sambandi. Fyrst er þar að nefna að samningurinn um EES gerir beinlínis ráð fyrir að íslenskri löggjöf verði breytt. Þá er það nefnt að nauðsynlegt sé að endurskoða lögin til samræmis við þá þróun sem orðið hefur í viðskiptum með svokölluðum pappírslausum viðskiptum. Í þriðja lagi er nefndinni sérstaklega falið að taka til skoðunar ákvæði laganna er lúta að viðurlögum við bókhaldsbrotum.
    Nefndin hefur þegar hafið störf og hefur starfið fram að þessu fyrst og fremst falist í öflun ýmissa gagna, erlendra sem innlendra. Það er ljóst að nefndin á fyrir höndum umfangsmikið og vandasamt verk. Af hálfu ráðuneytisins hefur verið lögð áhersla á að verkinu verði hraðað eftir því sem kostur er. Til að þjóna því markmiði skal þess getið að formaður nefndarinnar, Guðmundur Guðbjarnason, mun sinna nefndarstarfinu sem aðalstarfi. Gert er ráð fyrir að nefndin skili skýrslu um starf sitt ásamt fullbúnu frumvarpi til laga um bókhald eigi síðar en í ársbyrjun 1994 þannig að unnt verði að flytja frumvarp til laga um bókhald á vorþingi 1994.