Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 347 . mál.


626. Tillaga til þingsályktunar



um atvinnumál farmanna.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Guðmundur Hallvarðsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita allra leiða til þess að tryggja störf íslenskra farmanna á íslenskum kaupskipum. Í því sambandi verði athugað hvaða opinberar ráðstafanir þurfi að gera til að bæta samkeppnisstöðu íslenskrar kaupskipaútgerðar.

Greinargerð.


    Það er álit flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu að ríkisstjórn á hverjum tíma beri að stuðla að stöðugleika og auka fjölbreytni í atvinnu landsmanna. Eflaust eru til margar leiðir að þessu marki, en nærtækast virðist að atvinnugreinum séu sköpuð eðlileg rekstrar- og samkeppnisskilyrði. Nágrannaþjóðir, t.d. aðrar Norðurlandaþjóðir, hafa brugðið á það ráð að gefa eftir skatta farmanna til að tryggja skráningu kaupskipa heima fyrir og um leið treysta mönnun skipanna með eigin fólki. Jafnhliða þessum ráðstöfunum hafa þessar þjóðir sett á laggirnar alþjóðlegt skráningarkerfi fyrir kaupskip. Ef Ísland færi svipaða leið og önnur ríki á Norðurlöndum í þessum efnum yrði það að vera tryggt að íslenskir farmenn hefðu forgang að störfum á skipum í eigu íslenskra útgerða í siglingum til og frá Íslandi.
    Á síðasta áratug og því sem af er þessum hefur skipum, sem gerð eru út af útgerðum innan Sambands íslenskra kaupskipaútgerða, fækkað úr 51 skipi í 30 skip (janúar 1993). Árið 1980 voru 48 þessara skipa skráð á Íslandi. Nú eru skipin, sem sigla undir íslenskum fána, einungis 11 en útgerðirnar gera nú út 19 skip sem sigla undir erlendum þægindafánum eða samtals 30 skip.
    Á síðustu þremur árum hefur stöðum, sem Íslendingar hafa gegnt á skipum, fækkað úr 375 (janúar 1990) í 253 (janúar 1993) og hlutdeild Íslendinga í mönnuninni fallið úr 81,5% í 74,2%. Þetta þýðir að ársstörfum íslenskra farmanna hefur fækkað á síðustu þremur árum um 183 sé gert ráð fyrir að hver staða jafngildi 1,5 ársstörfum.
    Ein af ástæðunum, og sú alvarlegasta, fyrir þessari fækkun atvinnutækifæra farmanna má rekja til svokallaðrar útflöggunar kaupskipa sem gerir útgerðunum kleift að manna skipin með erlendu ódýru vinnuafli. Aðra ástæðu má nefna, þann mikla kostnað í formi stimpil- og skráningargjalda sem fylgir skráningu kaupskipa á íslenska skipaskrá og rennur í ríkissjóð. Reyndar hefur verið starfandi nefnd á vegum samgönguráðuneytisins sem hefur það verkefni að kanna hagkvæmni þess að koma á fót alþjóðlegri skipaskrá hér á landi. Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum.
    Norðurlandaþjóðirnar, að Íslendingum undanskildum, hafa gert ýmsar ráðstafanir til bjargar þessari atvinnugrein. Þessar aðgerðir hafa verið af ýmsum toga og misjafnlega árangursríkar. Í þessu samhengi þykir flutningsmönnum ástæða til að benda á ráðstafanir danskra stjórnvalda til bjargar danskri „skibsfart“.
    Aðgerðir danskra stjórnvalda fólu m.a. í sér að þau komu á alþjóðlegri skipaskrá fyrir kaupskip og gerðu aðrar þær ráðstafanir sem voru nauðsynlegar í því sambandi. Samfara þessu ákváðu stjórnvöld í Danmörku að styrkja atvinnugreinina með þeim skattpeningum og launatengdum gjöldum sem danska ríkið hafði fengið af atvinnutekjum danskra farmanna sem störfuðu á skipum í utanlandssiglingum. Síðan gerðu útgerðirnar og stéttarfélögin kjarasamninga sem fólu í sér svokölluð „nettólaun“ sem eru laun eins og þau voru í gamla kerfinu að frádregnum sköttum.
    Um mitt ár 1988 voru nær öll kaupskip í eigu Dana, sem voru í utanlandssiglingum, skráð undir þægindafánum og næstum eingöngu mönnuð útlendingum frá láglaunalöndum. Þær aðgerðir Dana, sem að framan er lýst, sneru dæminu algjörlega við. Nú sigla næstum öll kaupskip í danskri eigu undir dönskum fána og með dönskum áhöfnum að 90–95% sem færa þjóðarbúinu stórfelldar gjaldeyristekjur í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur.
    Það er orðið meira en tímabært að íslensk stjórnvöld og Alþingi leggist á eitt við að standa vörð um íslensk atvinnutækifæri. Auðvitað komumst við ekki hjá því að veita erlendu fólki atvinnu hérlendis ef Íslendingar fást ekki í störfin en hingað til hefur verið nægt framboð af íslenskum farmönnum. Aðrar þjóðir hafa staðið frammi fyrir því að útflöggunarstefna þeirra á kaupskipum og erlend mönnun þeirra hefur leitt til þess að engir nýliðar af eigin þjóð hafa hlotið starfsþjálfun á kaupskipum. Þetta þýðir einfaldlega að á skömmum tíma hefur þróunin orðið sú að engir vilja fara til náms sem veitir réttindi til að gegna störfum yfirmanna. Skólar skipstjórnar- og vélstjórnarfræðslu líða hægt undir lok og þar með er einni atvinnustétt færra í landinu.