Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 352 . mál.


631. Tillaga til þingsályktunar



um ríkisábyrgð á bótagreiðslum vegna kynferðisbrota.

Flm.: Sólveig Pétursdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Jón Helgason,


Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til þess að athuga hvort taka eigi upp það fyrirkomulag að ríkissjóður ábyrgist greiðslur dæmdra bóta vegna kynferðisbrota eða annarra grófra ofbeldisbrota.

Greinargerð.


    Talsverð umræða hefur átt sér stað í þjóðfélaginu að undanförnu um þolendur kynferðisbrota sem fengið hafa dæmdar bætur en ekki getað innheimt þær. Því hefur sú spurning vaknað hvort ríkið ætti að tryggja greiðslur slíkra bóta í málum vegna kynferðisbrota eða annarra grófra ofbeldisbrota við ákveðin skilyrði, t.d. þar sem hinn bótaskyldi er eignalaus. Sérstaklega hefur verið rætt um nauðgunarmál í þessu sambandi og dæmdar miskabætur í slíkum málum. Slíkar bætur eru m.a. hugsaðar sem bætur fyrir andlegt tjón, þjáningar og óþægindi sem viðkomandi hefur orðið fyrir. Segja má að þær séu á vissan hátt hluti af viðurlögum fyrir dæmt afbrot. Kynferðisbrot eins og nauðgun eru í eðli sínu miklu viðkvæmari afbrot en mörg önnur, en þar eru konur langoftast fórnarlömbin. Það er vafalaust ákveðin auðmýking fyrir konu að þurfa að leita réttar síns með innheimtu bóta, rétt eins og um venjulegt skuldamál sé að ræða. Það hlýtur að vera nógu erfitt að takast á við afleiðingar nauðgunar þótt svona eftirmál komi ekki til.
    Í skýrslu svonefndar nauðgunarmálanefndar, sem út kom árið 1989, er m.a. sett fram sú tillaga að ríkið tryggi bótagreiðslur í nauðgunarmálum. Orðrétt segir á bls. 50 í skýrslunni:
    „Nauðsynlegt er að mati nefndarinnar að tryggja það með einhverjum hætti að brotaþoli/kona fái þær bætur sem dómstólar dæma henni. Sársaukaminnsta aðferðin fyrir brotaþola er sú að ríkið taki á sig að greiða slíkar bætur og endurkrefja síðan dómþola. Sanngjarnt hlýtur að teljast að ríkið taki á sig þetta aukaómak og jafnframt áhættuna ef svo skyldi fara að dómþoli reyndist ekki borgunarmaður fyrir bótum. Í stað þess að gera brotaþola/konu þá auðmýkingu að þurfa að rekast í innheimtu bóta sýnir samfélagið með umræddri tilhögun ákveðna viðurkenningu á því að brotið hafi verið alvarlega gegn henni og að það vilji stuðla að því í verki að hún haldi reisn sinni.“
    Annars staðar á Norðurlöndum eru ýmis lagaákvæði sem kveða á um skyldu ríkisins til þess að tryggja greiðslu dæmdra skaðabóta við ákveðin skilyrði. Þessar reglur virðast vera svipaðar og í Evrópusamningnum frá 24. nóvember 1983 um bætur til fórnarlamba ofbeldisbrota en Ísland er ekki aðili að honum. Almennt virðast þessar reglur fjalla um kynferðisbrot og önnur gróf ofbeldisbrot og því hlýtur að teljast eðlilegt að athugun slíkra mála verði meginverksvið þeirrar nefndar sem hér er gerð tillaga um að skipuð verði. Athuga þarf umfang og tíðni slíkra afbrota hér á landi og dæmdar bætur og hvaða kostnað breytt fyrirkomulag hefði í för með sér fyrir íslenska ríkið. Í þessari tillögu er aðeins gert ráð fyrir að nefndin athugi hvort taka eigi upp ríkisábyrgð á bótagreiðslum því að e.t.v. geta önnur úrræði komið til greina. Hér þarf einnig að hafa í huga eðli refsiréttar og þau varnaðaráhrif sem honum er ætlað að hafa. Þetta mál þarf að íhuga vel og breytingar mættu ekki hafa þau áhrif að dregið yrði úr ábyrgð einstaklingsins/afbrotamannsins á gjörðum sínum.
    Því verður ekki á móti mælt að fórnarlömb kynferðisbrota og annarra grófra ofbeldisbrota eiga oft um sárt að binda og svo virðist sem einnig séu því miklir erfiðleikar samfara að innheimta bætur er þeim hafa réttilega verið dæmdar. Því er hér gerð tillaga um það að leitað verði leiða til þess að bæta réttarstöðu þessa fólks.