Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 358 . mál.


638. Tillaga til þingsályktunar



um könnun á nýtingu ígulkera.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Karl Steinar Guðnason, Guðmundur Hallvarðsson.



    Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðherra að láta fara fram rannsókn á stofnum nýtanlegra ígulkera við Ísland. Markmið rannsóknanna verði í senn að kortleggja ígulkeramið við strendur landsins og jafnframt að kanna veiðiþol þeirra til að koma í veg fyrir að veiðar gangi of nærri nýtanlegum stofnum.

Greinargerð.


    Áhugi á vinnslu ígulkera hefur vaxið að undanförnu. Sú tegund, sem mestar vonir eru bundnar við, er skollakoppur (strongylocentrotus droebachiensis) þótt marígull (echinus esculentus) kunni einnig að reynast nýtanlegur síðar meir. Kynkirtlarnir eru þær afurðir sem sóst er eftir með veiðunum og eru seldar undir heitinu „hrogn“. Það er þó að vissu marki rangnefni þar sem kynkirtlar karlígulsins eru líka hirtir og seldir sem „hrogn“. Í þessum texta er þó hefðinni haldið og kynkirtlar beggja kynja felldir undir það heiti.
    Ágætan markað er að finna fyrir ígulker í Evrópu, en þó einkum í Japan. Í Evrópu er markaður fyrir lifandi ígulker; Asíubúar hafa hins vegar um langt skeið keypt hrognin fryst eða söltuð, en markaður fyrir slíkar afurðir hefur þó dregist verulega saman. Neysla á ferskum hrognum hefur samt aukist, en samhliða hefur framleiðsla Japana sjálfra á þeim staðið í stað. Í Japan er því eftirspurn umfram framboð og raunar er talið að markaðurinn þoli árlega 2 þúsund tonn af hrognum í viðbót við núverandi magn án þess að verð raskist. Verð fyrir hvert kíló af ferskum hrognum, komið til Japan, er 60–100 bandarískir dalir þótt hæsti gæðaflokkur geti selst á mun hærra verði.
    Vaxandi eftirspurn í Japan hefur leitt til þess að Japanir horfa til norðlægari þjóða um öflun ígulhrognanna, en auk Íslendinga hafa Norðmenn mikinn áhuga á að efla veiðar og vinnslu á ígulkerum með Japansmarkað í huga. Norðmenn binda reyndar svo miklar vonir við útflutning ígulhrogna til Japan að þeir hafa sett eldi skollakopps á dagskrá sem framtíðarverkefni í sjávarútvegi sínum. Japanir hafa einnig keypt mikið af ígulhrognum frá Kaliforníu og vegna þess jukust veiðar Kaliforníumanna á einum áratug úr nánast engu upp í 11 þúsund tonn.
    Ígulkerið tilheyrir skrápdýrum og meðal ættingja þess eru önnur skrápdýr sem Íslendingar þekkja vel, svo sem sæbjúgu og krossfiskar. Líkt og krossfiskarnir eru þau geislótt, þótt armar séu engir, og eins og hjá þeim eru geislar ígulkeranna fimm. Fyrir bragðið eru kynkirtlarnir, eða hrognasekkirnir, líka fimm talsins. Meðan nóg framboð er af fæðu safnar ígulkerið ljúffengri forðanæringu í kynkirtlana og það er hún en ekki kynfrumurnar sjálfar sem sóst er eftir. Uppbygging forðans í kirtlunum stendur yfir nær allt árið hér við land, en sjálfar kynfrumurnar taka ekki að þroskast að marki fyrr en dregur að hrygningunni. Hrygningin breytist hins vegar, alveg eins og fæðuframboðið, með árstíðum þannig að gæði og þungi kynkirtlanna er breytilegur eftir árstíma.
    Þroskun kynkirtlanna er til hægðarauka skipt í fimm stig. Á fyrsta stigi þróast kynfrumuvísarnir en sjást ekki með berum augum. Á öðru stigi fer forðasöfnunin fram, en á þriðja stigi dregur að hrygningunni og egg og svil verða greinanleg með berum augum. Frá miðbiki annars stigs og fram undir miðbik þriðja stigs eru bragðgæði hrognanna mest og vatnsinnihald í lágmarki. Gæði þeirra í markaðslegu tilliti eru þá í hámarki. Á fjórða stigi verða hrognin þyngst, en vatnsinnihald er hins vegar hátt og svilin verða mjólkurlit. Gæðin minnka því; litur svilanna dregur verulega úr markaðshæfninni, en rauðgulur og gulur litur er eftirsóknarverðastur hjá Asíumönnum. Liturinn, ásamt heillegum hrognasekk, skiptir mestu fyrir gengi hrognanna á markaði. Á fimmta stigi fer svo sjálf hrygningin fram og á þeim tíma er ígulkerið verðlaust.
    Sjávarhiti hefur talsverð áhrif á þroskun kynkirtlanna og þar með hrygningartímann. Það er því ekki að undra að veiðitilraunir hér við land benda til þess að hrygningartími sé mismunandi eftir svæðum. Í Ísafjarðardjúpi virðist hann vera frá febrúar til apríl en í Hvalfirði nokkru síðar eða frá apríl til júní. Á því er þó áramunur sem væntanlega tengist breytingum á sjávarhita milli ára. Þetta bendir hins vegar til þess að söluáætlanir fyrir erlenda markaði þurfi að byggja á góðum upplýsingum um hvenær hrognafylling er mest og hvenær hrygning á sér stað. Þess má geta að forathuganir benda til þess að hægt sé að afla ígulkera með nægilegu hrognamagni til vinnslu flesta mánuði ársins.
    Til þessa hafa ígulker ekki verið nýtt á Íslandi að nokkru marki, enda ekki vitað fyrr en snemma á síðasta áratug að verulegt magn er að finna á grunnsævi við strendur landsins. Allt frá 1983 hafa þó verið stopular markaðsathuganir og tilraunaveiðar á ígulkerum í gangi. Þær byggðu þó fyrst og fremst á mögulegum markaði fyrir lifandi ígulker í Frakklandi. Eftir að uppskátt varð um möguleika á sölu ferskra afurða á markað í Japan hefur áhugi á vinnslu og veiðum skollakopps aukist hratt hér á landi. Nokkur fyrirtæki hafa þegar hafið tilraunaveiðar og útflutning og víða um landið er vinnsla komin á dagskrá. Þar má nefna Stykkishólm, Suðurnes og Sauðárkrók og nálæg bæjarfélög, svo sem Hofsós.
    Hvorki veiðar né vinnsla krefjast mikillar fjárfestingar og er því lítil hætta á að miklar fjárfestingar tapist ef markaðir bregðast. Vinnslan er jafnframt mjög mannfrek enda erfitt að beita vélum við hana. Í Kaliforníu er talið að 35–40 manns þurfi til að vinna 10 tonn af ígulkerum á átta stunda vinnudegi. Af þessum sökum renna mörg fyrirtæki og sveitarfélög hýru auga til þeirrar atvinnu sem vinnsla skollakopps getur skapað. Þess má geta að þegar kannanir árið 1985 leiddu í ljós að nýtanleg ígulker var að finna í talsverðu magni í lygnum innfjörðum Ísafjarðardjúps var eitt af því sem mælti gegn frekari vinnslu einmitt hversu mannfrek hún var. Á þeim tíma var skortur á vinnuafli á Vestfjörðum. Nú eru aðstæður aðrar. Um allt land er skortur á atvinnu.
    Engar skipulegar rannsóknir hafa farið fram á líffræði, útbreiðslu, stærð eða veiðiþoli stofna við Ísland. Það er hins vegar brýnt að hefja þær hið fyrsta, áður en handahófskenndar veiðar kynnu að ganga of nærri stofninum og þar með veikja möguleika atvinnugreinar sem gæti orðið drjúg búbót í sjávarútvegi og veruleg lyftistöng í atvinnulífi einstakra sveitarfélaga.