Ferill 428. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 428 . mál.


728. Frumvarp til laga



um réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu.

Flm.: Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds, Ólafur Ragnar Grímsson,


Steingrímur J. Sigfússon, Guðrún Helgadóttir, Hjörleifur Guttormsson,


Jóhann Ársælsson, Kristinn H. Gunnarsson, Margrét Frímannsdóttir.



I. KAFLI


Breyting á lögum nr. 96/1990, um atvinnuleysistryggingar,


með síðari breytingum.


1. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Þeir sem stundað hafa sjósókn á eigin fari, námsmenn, einyrkjar og aðrir sem ekki hafa verið á almennum vinnumarkaði en hafa verið atvinnulausir í fjórar vikur eiga rétt á atvinnuleysisbótum þótt þeir uppfylli ekki vinnuskilyrði laga þessara og þótt þeir séu ekki félagsmenn í stéttarfélagi.
    Til að meta hvort viðkomandi á rétt til bóta samkvæmt þessari grein skal stjórn Atvinnuleysis­tryggingasjóðs setja reglur er tryggi réttindi hins atvinnulausa og hagsmuni bótagreiðanda í senn. Getur stjórnin sett slíkar almennar reglur og falið forstjóra að tryggja að unnið verði eftir þeim að fengnu samþykki félagsmálaráðherra. Reglurnar byggjast á lögum nr. 96/1990, um atvinnuleysis­tryggingar, og lögum þessum.

2. gr.


    Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Stjórn sjóðsins ræður forstjóra Atvinnuleysistryggingasjóðs til fjögurra ára í senn en forstjórinn ræður síðan aðra starfsmenn sjóðsins. Forstjóri ber ábyrgð á sjóðsvörslu, reikningshaldi og daglegri afgreiðslu í umboði sjóðsstjórnar.
    Handbært fé skal ávaxtað á þeim kjörum sem best teljast að mati forstjóra og sjóðsstjórnar á hverjum tíma.

3. gr.


    Við 15. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Auk framlags skv. 1. mgr. greiðir ríkissjóður sérstakt framlag til þeirra atvinnuleysisbóta og rétt­inda sem kveðið er á um í þessum lögum.

4. gr.


    Við 16. gr. laganna bætist nýr töluliður er orðast svo:
     6 .     Sanna með fullnægjandi hætti að mati stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að viðkomandi uppfylli ákvæði 4. gr. og hafi verið atvinnulaus í fjórar vikur.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a .     Í stað orðanna „sex vikur“ í 1. mgr. kemur: sex mánuði.
     b .     2. mgr. orðast svo:
                  Ef sá sem hefur unnið sér rétt til bóta veikist skal hann gera grein fyrir veikindum sínum með læknisvottorði. Hann heldur þá bótum uns veikindagreiðslur taka við samkvæmt ákvæð­um annarra laga eða kjarasamninga.
     c .     3. mgr. orðast svo:
                  Nú hefur einstaklingur fengið atvinnuleysisbætur samkvæmt þessari grein, en námi lýkur ekki innan þeirra sex mánaða sem kveðið er á um í 1. mgr. og skal þá stjórn Atvinnuleysis­tryggingasjóðs heimilt að veita stuðning áfram á sömu kjörum og samkvæmt sömu reglum og gilda samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Veiti Lánasjóðurinn ekki lán út á þá starfsþjálfun eða nám sem viðkomandi stundar getur sjóðsstjórnin samþykkt að veita sama stuðning áfram til viðkomandi einstaklings í formi láns til 25 ára sem ber ekki vexti. Reglur um lánveitingar setur stjórn sjóðsins á grundvelli fjárveitinga hverju sinni sem ákveðnar skulu vera í fjárlögum fyrir hvert ár og bætast við þau framlög sem kveðið er á um í 15. gr.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a .     2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b .     Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs setur skráningarreglur samkvæmt þessari grein. Nú veikist umsækjandi og heldur hann þá bótarétti sínum enda séu veikindin sönnuð með læknis­vottorði þótt hann komist ekki til skráningarstaðar.

7. gr.


    Á eftir orðunum „starfskjör öll“ í fyrri málsgrein 6. tölul. 21. gr. laganna kemur: þar á meðal vinnutími.

8. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a .     2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
     b .     3. mgr. fellur brott.

9. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a .     Í stað orðanna „4%“ í 2. mgr. kemur: 12%.
     b .     Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
                  Þeir sem fá rétt til atvinnuleysisbóta skv. 4. gr. þessara laga og uppfylla því ekki skilyrði laganna um vinnutíma eða aðild að stéttarfélögum geta þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar fengið hámarksbætur sem hér segir:
                   1 .     Fyrstu fjórar vikur bótatímans fjórðung bóta en þó fullar bætur fyrir hvert barn.
                   2 .     Næstu fjórar vikur hálfar bætur en þó óskertar bætur fyrir hvert barn.
                   3 .     Eftir átta vikur skv. 1. og 2. tölul. fullar bætur og óskertar bætur fyrir hvert barn.
                  Nú getur stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sannað að umsækjandi hafi aðeins unnið hluta vinnu næstliðin fimm ár eða lengur og skal þá meta réttindahlutfall umsækjandans út frá þeim vinnutíma.

10. gr.


    Á eftir 31. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði VI. kafla er stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að taka ákvörðun um einföldun þessa úthlutunarkerfis enda sé réttur umsækjenda aldrei fyrir borð borinn. Þannig getur stjórn sjóðsins ákveðið að fela tilteknum aðila, verkalýðsfélagi eða samtökum verkalýðsfélaga, sveitarfélagi eða samtökum þeirra, alla framkvæmd skráningar atvinnuleysis og úthlutunar og út­borgunar atvinnuleysisbóta á sama svæðinu enda verði ákvörðun um það tekin samhljóða í stjórn sjóðsins.

II. KAFLI


Breyting á lögum nr. 18/1985, um vinnumiðlun.


11. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Sveitarfélög starfrækja vinnumiðlun hvert hjá sér eða í sameiningu eftir nánara samkomulagi samkvæmt lögum þessum. Sveitarfélögin reka í sameiningu Landsskrifstofu vinnumiðlana sem nær yfir landið allt og safnar saman upplýsingum um atvinnuástand af landinu öllu. Landsskrifstofan er starfrækt í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og vinnumálaskrifstofu þess og ráðgjafarnefnd skv. 3. gr. laga nr. 18/1985. Landsskrifstofan skal
     a .     hafa sem best samstarf við vinnumiðlunarskrifstofur um land allt,
     b .     hafa á reiðum höndum upplýsingar um atvinnutækifæri og atvinnutilboð,
     c .     hafa frumkvæði að könnun á því hvaða atvinnutilboð kunna að vera væntanleg,
     d .     fylgjast með starfsemi vinnumálaskrifstofa og vinnumiðlana og gera ráðstafanir til að tryggja að fylgt sé lagaákvæðum um vinnumiðlun á hverju svæði,
     e .     hafa forustu um að fram fari reglulega rannsóknir á félagslegum og sálrænum afleiðingum atvinnuleysis fyrir einstaklinga, fjölskyldur og hópa.

12. gr.


    Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er orðast svo:
    Ráðgjafarnefnd vinnumiðlunarinnar getur einnig að eigin frumkvæði gert tillögur til aðila vinnumarkaðarins, t.d. í tengslum við kjarasamninga, með það að markmiði að fjölga atvinnutæki­færum, hvort sem það felst í því að stofna til nýrra atvinnutækifæra eða í því að jafna betur en gert er þeirri vinnu sem unnin er í landinu á hverjum tíma.
    Ráðgjafarnefnd vinnumiðlunar ræður framkvæmdastjóra Landsskrifstofu vinnumiðlana en framkvæmdastjórinn annað starfslið. Framkvæmdastjóri Landsskrifstofunnar er ráðinn til fjögurra ára í senn.

13. gr.


    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
    Nú ákveður einstaklingur eða félag að setja á stofn ráðningarstofu eða ráðningarfyrirtæki og skal þá viðkomandi hafa til þess leyfi frá félagsmálaráðherra. Leyfið er háð skilyrðum um samstarf við vinnumiðlanir landsins alls eftir því sem kostur er. Ráðgjafarnefnd skv. 3. gr. laga nr. 18/1985, um vinnumiðlun, setur reglur um leyfisveitingar og skilyrði fyrir leyfisveitingunum.

III. KAFLI


Breyting á IX. kafla laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.


14. gr.


    Á eftir 53. gr. laganna kemur ný grein er orðast svo:
    Vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytis skal í störfum sínum leggja áherslu á eftirfarandi þætti:
     1 .     yfirlit yfir vinnumarkaðinn eins og hann er og líklega þróun hans,
     2 .     eftirlit með því að lögum um atvinnuleysistryggingar sé fylgt,
     3 .     umsjón með því að lögum um vinnumiðlun sé framfylgt.
    Félagsmálaráðherra ræður framkvæmdastjóra vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis. Fram­kvæmdastjóri vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins kallar reglulega saman samstarfsfundi með framkvæmdastjóra Landsskrifstofu vinnumiðlunar og Atvinnuleysistryggingasjóðs. Þá skulu stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og ráðgjafarnefnd vinnumiðlunar hittast a.m.k. tvisvar á ári til að fara yfir þá málaflokka sem lög þessi fjalla um.

15. gr.


    Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Vinnumálaskrifstofan getur falið Landsskrifstofu vinnumiðlunar samkvæmt lögum þessum að sinna þeim verkefnum sem vinnumálaskrifstofunni eru ætluð.

16. gr.


    Í stað 55. gr. laganna, sbr. 1ög nr. 95/1992, kemur ný grein er orðast svo:
    Atvinnurekanda er skylt, nema sérstakar aðstæður hamli, að gera vinnumiðlun umdæmis grein fyrir því hvort ætlunin er að bæta við störfum á næstu tveimur mánuðum. Öll fyrirtæki ríkis og sveit­arfélaga skulu kynna starfstækifæri á sínum vegum til Landsskrifstofu og til vinnumiðlunar sveitar­félaganna.
    Ráðgjafarnefndin, sem starfar skv. 3. gr. laga um vinnumiðlun, skal setja reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

IV. KAFLI


Gildistaka o.fl.


17. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. september 1993. Skulu þá lög nr. 96/1990, nr. 18/1985 og nr. 13/1979 gefin út að nýju með þeim breytingum sem á þeim verða samkvæmt þessum lögum svo og sam­kvæmt eldri lögum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ríkistjórnin skal frá og með gildistöku laga þessara láta hefja samræmda heildarendurskoðun þeirra laga sem breytt er með lögum þessum. Skal endurskoðuninni lokið fyrir 1. janúar 1995 og frumvarp síðan lagt fyrir Alþingi innan átta vikna.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er byggt á gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar, en gert er ráð fyrir við­bótarákvæðum í lögin án þess að hrófla við þeim í grundvallaratriðum. Þá eru gerðar tillögur um breytingar á lögunum um vinnumiðlun og um breytingu á lögum um stjórn efnahagsmála o.fl., um vinnumarkaðsmál.
    Lögin um atvinnuleysistryggingar eru barn þess tíma er hér var full atvinna. Nú hefur þjóðin fengið að kynnast öðru. Lögin gera í núverandi mynd sinni ekki ráð fyrir að hér sé um að ræða langvarandi atvinnuleysi. Þess vegna er þar miðað við svokallaðan biðtíma í 16 vikur án bóta. Þá er í lögunum miðað við stéttarfélög og aðild að þeim, en ekki gert ráð fyrir að einyrkjar, atvinnurek­endur, námsmenn eða aðrir slíkir geti einnig orðið atvinnulausir. Atvinnuleysisbætur eiga auðvitað að vera almennur réttur, mannréttindi, sem fólk á að fá óháð því hvort viðkomandi er aðili að stéttar­félagi eða ekki.
    Ekki er hróflað við núverandi kerfi í frumvarpinu að öðru leyti en því að fluttar eru tillögur um lagfæringar á lögunum, bæði til að tryggja betur réttindi atvinnulausra og til að einfalda kerfið í því skyni að draga úr skriffinnsku og seinagangi sem oft er erfitt fyrir þá atvinnulausu. Hér er byggt á þeirri grundvallarstefnu að allir eigi rétt á bótum á þeim forsendum að þjóðfélagið allt ber ábyrgð á því að við búum hér við hagkerfi sem getur haft í för með sér atvinnuleysi eins og dæmin hafa nú sannað.
    Aðalbreytingarnar, sem hér er gert ráð fyrir, eru sem hér segir:
     1 .     Lagt er til að allir eigi rétt á atvinnuleysisbótum, enda hafi viðkomandi verið atvinnulaus í fjórar vikur — ef hann fellur ekki undir ákvæði laganna að öðru leyti. Er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins setji að öðru leyti vinnureglur um réttindi þess fólks sem hér um ræðir umfram það sem lögin kveða á um að öðru leyti vegna þeirra sem eiga rétt af því að þeir eru í stéttarfélög­um. Verður að gera ráð fyrir að sömu reglur gildi um bótaupphæðir, enda er byggt á því að nú­verandi kerfi með hlutabótum breytist nokkuð.
     2 .     Lagt er til að sextán vikna tíminn án bóta falli niður og þar með séu ekki lengur tímamörk á því hversu lengi einstaklingurinn getur fengið atvinnuleysisbætur.
     3 .     Lagt er til að Atvinnuleysistryggingasjóður verði sjálfstæð stofnun en ekki inni í kerfi Tryggingastofnunar ríkisins. Ástæðan er sú að atvinnuleysi er nú svo víðtækt vandamál að nauðsyn­legt er að sjálfstæð stofnun fjalli um málið auk þess sem gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að atvinnuleysistryggingar verði fluttar frá tryggingamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytis­ins.
     4 .     Lagt er til að bætur fyrir hvert barn á framfæri umsækjanda verði 12% af kauptaxta í stað 4% nú.
     5 .     Lagt er til að ríkissjóður greiði sérstaklega þann umframkostnað sem frumvarp þetta hefði í för með sér ef að lögum verður.
     6 .     Í gildandi lögum missir hinn atvinnulausi rétt til bóta ef hann er veikur. Hér er miðað við að hann haldi bótarétti uns hann kemst á bætur samkvæmt kjarasamningi eða öðrum lögum. Það er þá hlutverk stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að tryggja að viðkomandi njóti réttar síns annars staðar áður en hann er strikaður út af atvinnuleysisskrá.
     7 .     Lagt er til að sá sem hefur nám eða tekur þátt í viðurkenndri starfsþjálfun á atvinnuleysistíma geti haldið bótum í allt að sex mánuði í stað sex vikna nú. Að sex mánuðum loknum er stjórn sjóðsins heimilt að breyta stuðningnum í lán þannig að viðkomandi verði í svipaðri stöðu og þeir sem fá lán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það er þá hlutverk stjórnar sjóðsins að tryggja að viðkomandi einstaklingur komist inn á lánakerfi LÍN áður en réttur hans til atvinnu­leysisbóta fellur niður.
     8 .     Lagt er til að heimilt verði að breyta úthlutunar-, skráningar- og útborgunarkerfinu frá því sem nú er enda fallist stjórn sjóðsins á það með samhljóða atkvæðum. Núverandi kerfi er þungt í vöfum og ógagnsætt. Það er nóg lagt á hvern þann mann sem missir atvinnuna þó ekki bætist við sú áþján sem felst í því að þurfa að ganga í gegnum frumskóg stimplana og pappírsfjöll til þess að geta náð þeim takmörkuðu fjármunum sem felast í atvinnuleysisbótunum.
                  Hér er því opnað fyrir þann möguleika að skráning atvinnuleysis, útreikningur bóta og út­borgun fari fram á einum stað þar sem einnig mætti hugsa sér að hafa vinnumiðlunina sem starfar samkvæmt sérstökum lögum.
     9 .     Lagt er til að breytingar verði gerðar á gildandi lögum um vinnumiðlun sem hér segir:
                   a .     Gert er ráð fyrir að komið verði á fót skrifstofu er hafi með höndum samræmingu vinnumiðlunarstarfs um land allt. Skal þessi skrifstofa, er nefnist Landsskrifstofa vinnumiðlana, hafa eftirfarandi aðalverkefni:
                  —         að sjá um samræmingu á vinnumiðlun sveitarfélaganna og tryggja með samkomulagi við sveitarfélögin að vinnumiðlun sé alls staðar starfrækt og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög,
                  —         að fylgjast grannt með þróun vinnumála í landinu að því er varðar vinnumarkaðinn eins og hann er á hverjum tíma, atvinnutækifæri og síðan atvinnuleysið,
                  —         að hafa forustu um rannsóknir á afleiðingum atvinnuleysis fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild.
                   b .     Gert er ráð fyrir að ráðgjafarnefnd vinnumiðlunar geti haft frumkvæði að tillögum sem lagðar verða fyrir aðila vinnumarkaðarins í kjarasamningum um fjölgun atvinnutækifæra og jöfnun þeirrar vinnu sem fyrir er í landinu.
                   c .     Landsskrifstofan annist enn fremur þau verkefni sem falin eru vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins samkvæmt gildandi lögum, en vinnumálaskrifstofunni verði síðan færð ný verkefni.
     10 .     Þá er gerð tillaga um breytingar á lögum um vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins og að skrifstofan skipti starfsemi sinni í þrjú aðalsvið. Hún skal fylgjast með
                   a .     vinnumarkaðnum eins og hann er og veita upplýsingar um þróun hans eins og ætla má að hún verði,
                   b .     starfsemi Landsskrifstofu vinnumiðlana og vinnumiðlunar sveitarfélaganna eftir því sem þörf krefur,
                   c .     framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar.
                  Miðað er við að ráðinn verði framkvæmdastjóri vinnumálaskrifstofunnar sem afmarki þannig skýrar en ella sérstöðu vinnumálaskrifstofunnar sem sjálfstæðs aðila. Ekki þarf því endilega að gera ráð fyrir að vinnumálaskrifstofan verði inni í húsnæði félagsmálaráðuneytis­ins. Mætti hugsa sér að öll sú starfsemi, sem fjallað er um í frumvarpi þessu, hafi miðstöð á ein­um og sama staðnum.
    Frumvarpið, ef að lögum verður, mun að sjálfsögðu hafa veruleg útgjöld í för með sér. Kerfi vinnumiðlunar og atvinnuleysisbóta á Íslandi er vanþróað af þeim eðlilegu ástæðum að hér hefur ekki verið stórfellt atvinnuleysi fyrr en nú. Í frumvarpinu er byggt á þeirri forsendu að veitt verði fé til sérstakra verkefna á fjárlögum hverju sinni. Þá er gert ráð fyrir aukningu á kostnaði vegna þess að hlutabætur eru felldar niður eftir tiltekinn tíma. Enn fremur mun það að sjálfsögðu hafa kostnað í för með sér að einyrkjar, námsmenn og aðrir slíkir hópar, sem eru utan stéttarfélaga og hafa e.t.v. aldrei haft vinnu, fái nú rétt til atvinnuleysisbóta. Ekki er ljóst hver sá fjöldi fólks er sem þarna um ræðir, en talað hefur verið um þúsundir einstaklinga. Vissa fæst ekki í þeim efnum fyrr en með fram­kvæmdinni. Þá hlýst einhver aukakostnaður af því að gert er ráð fyrir að breyta stjórnkerfinu sjálfu og að það heyri allt undir félagsmálaráðuneyti. Flutningsmenn eru tilbúnir til að fallast á sérstaka tekjuöflun í því skyni að standa undir atvinnuleysistryggingunum og annarri starfsemi sem þetta frumvarp hefur í för með sér ef að lögum verður. En í heildina er hér tekið á mannréttindamáli sem þjóðfélagið hlýtur að bera kostnað af, auk þess sem vinnumiðlun, sem er virk, mun skila þjóðarbú­inu beinum arði í peningum til lengri og skemmri tíma litið.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þegar í stað hefjist samræmd heildarendurskoðun laganna um atvinnuleysistryggingar, vinnumiðlun og vinnumálaskrifstofu og að endurskoðuninni ljúki fyrir lok ársins 1994. Gera verður ráð fyrir að aðilar vinnumarkaðarins og samtök atvinnulausra verði kvödd til í því skyni að hafa áhrif á samningu frumvarps um heildarlöggjöf á þessu sviði.
    Flutningsmenn ræddu fjölmarga aðra möguleika til breytinga á rétti þeirra sem ekki hafa at­vinnu, t.d. sérstakar húsnæðisbætur þeim til handa. Þau mál verður að taka til sérstakrar skoðunar því atvinnulausir eru nú hundruðum saman að missa íbúðir sem hefur óhjákvæmilegar afleiðingar og alvarlegar fyrir allt efnahagskerfið. Þá var það rætt hvort ekki væri nauðsynlegt að hækka meira en hér er gerð tillaga um bætur fyrir hvert barn á framfæri hins atvinnulausa. Hér var þó ákveðið að staldra við tölu sem er í raun þreföldun frá gildandi lögum — en er samt lág.
    Með frumvarpinu fylgir skýrsla um málefni atvinnulausra þar sem fram koma margs konar til­lögur. Þá hafa einstakir aðilar verið flutningsmönnum til ráðuneytis og komið á framfæri fjölmörg­um öðrum tillögum sem verður gerð grein fyrir í framsöguræðu.
    Flutningsmenn telja að með þessu frumvarpi sé kominn traustur umræðugrundvöllur fyrir Al­þingi um þau mál, sem hér um ræðir, í heild.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að þeir sem hafa sannanlega verið atvinnulausir næstliðnar fjórar vikur fái atvinnu­leysisbætur þótt þeir uppfylli ekki önnur skilyrði laganna um aðild að stéttarfélögum og fleira.
    Þá er hér lagt til að lögin í heild, svo og þau lög sem gert er ráð fyrir að breyta í frumvarpinu, verði undir stjórn félagsmálaráðherra.

Um 2. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður verði sjálfstæð stofnun og stjórnin ráði honum forstjóra til fjögurra ára í senn. Þar með verði starfsemi sjóðsins tekin út úr Tryggingastofnun ríksins og eru rökin aðallega þau að starfsemi sjóðsins sé svo viðamikil í því mikla atvinnuleysi sem nú er að ekki samrýmist hlutverki hans að vista hann og starfsemi hans innan annarrar stofnunar.

Um 3. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að sjóðurinn haldi tekjum sínum en ríkissjóður greiði sérstaklega og umfram þau lög sem nú eru í gildi þann kostnað sem fellur til vegna þess frumvarps sem hér er flutt, ef sam­þykkt yrði. Má segja að kostnaðurinn sé tvenns konar. Annars vegar lögbundin hækkun bóta með breytingu bóta vegna barna og með fjölgun þeirra sem fá aðild að sjóðnum. Hins vegar er kostnaður sem fer eftir því hve mikið fé er veitt til verkefnisins á fjárlögum hverju sinni. Með þessari framsetn­ingu er miðað við í raun að það hrikalega atvinnuleysi, sem nú er um að ræða, sé tímabundið.

Um 4. gr.


    Hér er lögð sú sönnunarbyrði á umsækjanda að hann sýni fram á að hafa verið atvinnulaus í fjór­ar vikur. Stjórn sjóðsins er síðan ætlað að setja reglur um framkvæmd þessa ákvæðis. Er víða gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins sé ætlað að móta framkvæmdareglur í stað þess að stafa það á lögbókina í smáatriðum hvað sjóðsstjórnin á að gera.

Um 5. gr.


    Í a-lið greinarinnar er gerð tillaga um að þeir sem stunda náms- eða starfsþjálfun skv. 18. gr. geti fengið atvinnuleysisbætur í sex mánuði í stað sex vikna nú. Hafi viðkomandi ekki lokið námi á sex mánuðum geti hann annaðhvort farið inn á lánakerfi námsmanna eða fengið lán úr sjóðnum sem verði verðtryggð en beri ekki vexti.
    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að umsækjandi missi rétt til atvinnuleysisbóta ef hann veik­ist. Þetta er fráleitt ákvæði og mætti hugsa sér að veikindaréttur manna væri sá sami í atvinnuleysi og atvinnu. Í b-lið greinarinnar er hins vegar farin sú leið að ætla mönnum atvinnuleysisbætur uns þeir komast á aðrar bætur samkvæmt samningum eða lögum. Verður að ætla stjórn sjóðsins að tryggja hagsmuni hans við þessar aðstæður.

Um 6. gr.


    Hér er rýmkuð staða umsækjanda í veikindum frá því sem er í gildandi lögum.

Um 7. gr.


    Hér er gerð sú breyting að bætt er við upptalningu laganna orðunum „þar á meðal vinnutími“ til að undirstrika að fólk getur haldið bótum þótt það hafni vinnu sem unnin er á allt öðrum tíma en hentar umsækjanda vegna heimilisaðstæðna.

Um 8. gr.


    Með þessum tillögum er felldur niður bótalausi tíminn, sextán vikurnar, og virðist um það al­menn samstaða að við núverandi aðstæður sé þetta fyrirkomulag óviðunandi.

Um 9. gr.


    Í a-lið þessarar greinar felst ein meginbreyting frumvarpsins. Nú fær umsækjandi 83 kr. á dag með hverju barni á framfæri. Hér er gert ráð fyrir að sú upphæð verði um 250 kr. á dag fyrir hvert barn, en ekki er gerð tillaga um að hækka bótaupphæðirnar að öðru leyti.
    Í lögunum um Atvinnuleysistryggingasjóð er gert ráð fyrir hlutabótum handa atvinnulausu fólki með hliðsjón af því hve lengi viðkomandi hefur verið á vinnumarkaði næstliðin missiri. Í b-lið greinarinnar er gerð tillaga um að nokkur aðdragandi eigi sér einnig stað þar til þeir sem nú eru utan laganna komast á bætur og hafi þeir unnið hluta úr starfi næstliðin fimm ár frá umsókn verði tekið tillit til þess við ákvörðun atvinnuleysisbóta. Í þessu sambandi er stjórn sjóðsins ætlað að móta regl­ur sem séu í senn sanngjarnar gagnvart þeim sem ekki hefur vinnu og tryggi hagsmuni sjóðsins.

Um 10. gr.


    Einn helsti vandi atvinnuleysistrygginganna í dag, og sérstaklega umsækjendanna sjálfra, er það hve kerfið er flókið og þungt í vöfum. Hér er gert ráð fyrir að heimila stjórn sjóðsins að sameina alla þessa þætti, skráningu, útreikning og útborgun, á einum stað, enda takist um þá ákvörðun full sam­staða í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Um 11. gr.


    Í II. kafla er fjallað um vinnumiðlun. Þar er gert ráð fyrir óbreyttri skipan að öðru leyti en því að mynduð verði Landsskrifstofa vinnumiðlana sem samræmi störfin eins og kostur er. Landsskrifstof­an starfi undir stjórn ráðgjafarnefndarinnar sem starfar samkvæmt gildandi lögum um vinnumiðlun. Í greininni er rækilega talið upp hver verða eigi verkefni Landsskrifstofunnar.

Um 12. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að ráðgjafarnefndin skuli ekki einungis annast verkefni frá degi til dags, eins og þau falla til, heldur eigi hún líka að sinna stefnumótun og standa fyrir beinni tillögugerð til úrbóta í tengslum við gerð kjarasamninga.

Um 13. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að þeir einkaaðilar sem vilja reka ráðningarstofur eða vinnumiðlun þurfi til þess sérstakt leyfi frá félagsmálaráðherra. Leyfið verði þá bundið tilteknum skilyrðum enda setji ráðgjafarnefndin um það efni almennar reglur.

Um 14. gr.


    Í þriðja kaflanum er fjallað um þau lagaákvæði sem breytt verði í lögum um vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytisins. Í þessari grein er kveðið á um víðtækara verkefni skrifstofunnar, svo og að forráðamenn þeirra aðila, sem fjallað er um í frumvarpi þessu, komi saman til fundar reglulega til að samræma störf sín.

Um 15. gr.


    Í þessari grein er gert ráð fyrir að vinnumálaskrifstofa ráðuneytisins geti falið Landsskrifstof­unni að annast verkefnin sem kveðið er á um í gildandi lögum.

Um 16. gr.


    Í þessari grein er lögð sú lagaskylda á opinbera aðila að fara með öll störf sem losna fyrir vinnu­miðlanir. Þá er lagt á einkaaðila að gera hið sama nema sérstakar aðstæður hamli. Nú er ljóst að erfitt er að koma þessu við að því er varðar einkaaðilana, en með reglubundnu samstarfi við atvinnurek­endur á að vera unnt að koma þessari reglu á einnig hvað þá áhrærir.

Um 17. gr.


    Þar sem hér er um viðamikla lagasetningu að ræða er gert ráð fyrir að lögin taki ekki gildi fyrr en eftir sex mánuði frá því að frumvarpið er flutt. Við afgreiðslu málsins gæti orðið nauðsynlegt að færa gildistökutímann enn frekar til.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er lögð áhersla á að öll þau lög, sem hér um ræðir, verði skoðuð og að flutt verði fyrir árslok 1994 nýtt frumvarp á grundvelli heildarendurskoðunar. Í frumvarpinu, sem hér er flutt, er gerð til­laga um bráðabirgðaskipan mála sem gildi meðan atvinnuleysið er jafnhrikalegt og tölur bera vott um.



Fylgiskjal I.


NÝ LEIÐ ÍSLENDINGA



Tillögur í efnahagsmálum. Sóknaraðgerðir í atvinnulífi.


(Samþykkt þingflokks Alþýðubandalagsins í október 1992.)





(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal II.


Samantekt um málefni atvinnulausra, atvinnuleysisskráningu,


vinnumiðlun og vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis


( Janúar 1993. )




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)


Fylgiskjal III.

Hagstofa Íslands:

Upplýsingar úr Landshögum Íslands 1992.


Töflur yfir meðalvinnutíma á viku eftir störfum, vinnuaflsnotkun


og hlutfallslega skiptingu vinnuafls eftir atvinnugreinum,


vinnuaflsnotkun eftir atvinnuvegum og landshlutum, skráða atvinnulausa


og hlutfall þeirra af mannafla eftir mánuðum og eftir landshlutum og kyni.


(Hagskýrslur Íslands III, 8. )




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal IV.

Vinnumálaskrifstofa félagsmálaráðuneytis:

Yfirlit um atvinnuástandið.


(12. febrúar 1993. )





(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal V.

Kópavogskaupstaður, atvinnumáladeild:

Nokkrir punktar um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun.




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)



Fylgiskjal VI.

Tillögur Norræna verkalýðssambandsins (NFS) um atvinnumál.


(Ósló 2. mars 1993. )





(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)