Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 451 . mál.


778. Frumvarp til laga



um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93).



1. gr.


    Verkfall Stýrimannafélags Íslands á ms. Herjólfi, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, er óheimilt.

2. gr.


    Hafi Skipstjórafélag Íslands, Stýrimannafélag Íslands, Vélstjórafélag Íslands, Brytafélag Íslands og Sjómannafélagið Jötunn annars vegar og stjórn Herjólfs hf. hins vegar ekki náð samkomulagi um vinnutilhögun og launakjör fyrir 1. júní 1993 skal Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm sem skuli ákveða vinnutilhögun, kaup og kjör skipverja á ms. Herjólfi fyrir 1. ágúst 1993.
     Hæstiréttur kveður á um hver hinna þriggja gerðardómsmanna skuli vera formaður dómsins.
     Gerðardómurinn setur sér starfsreglur, aflar nauðsynlegra gagna og er rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum, opinberum aðilum og fyrirsvarsmönnum Herjólfs hf. og eftirtalinna stéttarfélaga: Skipstjórafélags Íslands, Stýrimannafélags Íslands, Vélstjórafélags Íslands, Brytafélags Íslands og Sjómannafélagsins Jötuns, Vestmannaeyjum.

3. gr.


    Gerðardómurinn skal við ákvörðun vinnutilhögunar, kaups og kjara samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu.
     Ákvarðanir gerðardóms skv. 2. gr. skulu vera bindandi fyrir aðila frá gildistöku laga þessara.

4. gr.


    Kostnaður við störf gerðardóms skv. 2. gr. laga þessara greiðist úr ríkissjóði.

5. gr.


    Með brot gegn lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála og varða þau sektum ef ekki liggja við þyngri refsingar samkvæmt öðrum lögum.

6. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda til 31. desember 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við svohljóðandi ályktun sem bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti samhljóða á fundi sínum 16. mars sl.:
    „Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að óska eftir við ríkisstjórn Íslands að flutt verði frumvarp til laga á Alþingi til að binda enda á kjaradeilur, verkfall og verkbann, á ms. Herjólfi.
    Bæjarstjórn Vestmannaeyja áréttar að óhjákvæmilegt er að í lögunum verði tekið á kjarasamningum allra stéttarfélaga sem aðild eiga að deilunni og málið þannig leyst í heild sinni.
    Það er orðið mjög brýnt fyrir Vestmannaeyinga að þessari deilu ljúki sem fyrst því að skipið er helsta samgöngutæki Eyjanna og hefur verið úr rekstri í sex vikur nú þegar og ekki er útlit fyrir að lausn finnist í deilunni.“
    Verkfall stýrimanna á Herjólfi hófst 3. febrúar og hefur skipið legið bundið við bryggju í Vestmannaeyjum frá þeim degi. Á Herjólfi eru tvö stöðugildi stýrimanna. Sáttatilraunir, bæði hjá ríkissáttasemjara og milli deiluaðila sjálfra, hafa verið árangurslausar og eru engar líkur á lausn deilunnar í bráð. Stjórn Herjólfs hf. ákvað því 16. mars með samþykki framkvæmdastjórnar Vinnuveitendasambands Íslands að leggja verkbann á alla skipverja á ms. Herjólfi frá og með 24. mars nk.
    Ljóst er því að vinnustöðvun stýrimanna hefur þegar haft áhrif á atvinnuöryggi annarra skipverja, auk þess sem atvinnuöryggi þeirra sem með beinum eða óbeinum hætti hafa atvinnu af rekstri og þjónustu skipsins er teflt í tvísýnu.
    Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvaða þýðingu rekstur Herjólfs hefur fyrir íbúa Vestmannaeyja, en honum er ætlað að halda uppi daglegum áætlunarferðum milli lands og eyja. Verkfallið hefur þegar valdið margvíslegri röskun og tjóni, vöruskorts er farið að gæta og aðdrættir allir dýrari en ella. Brýna nauðsyn ber því til að binda enda á deilurnar sem stöðva siglingu Herjólfs milli lands og eyja.