Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 138 . mál.


783. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjarskipti, nr. 73/1984.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á fund sinn frá samgönguráðuneytinu Þórhall Jósefsson, aðstoðarmann samgönguráðherra, og Ragnhildi Hjaltadóttur skrifstofustjóra. Þá komu á fund nefndarinnar Guðmundur Ólafsson, forstöðumaður Fjarskiptaeftirlits ríkisins, Ólafur Tómasson, póst- og símamálastjóri, og Þorvarður Jónsson, framkvæmdastjóri Póst- og símamálastofnunar. Nefndinni bárust umsagnir frá Fjarskiptaeftirliti ríkisins, Póst- og símamálastofnun, Verslunarráði Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, flugmálastjóra og Tölvumiðstöð sparisjóðanna.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Breytingin á 1. gr. felur annars vegar í sér að orðin „með sjónmerkjum“ eru felld brott úr skilgreiningu á hugtakinu fjarskipti, enda teljast sjónmerki falla undir aðra þætti skilgreiningarinnar. Þá er bætt við greinina skilgreiningu á hugtakinu „fjarskiptavirki“ þannig að áfram gildi sama skilgreining og notuð er í 1. gr. laga nr. 73/1984.
    Nokkrar breytingar eru lagðar til við 2. gr. Með breytingunni á 2. mgr. er ætlað að skýrt verði að einkarétti ríkisins er ætlað að ná til talsímaþjónustu á almennum fjarskiptanetum. Þá er lagt til að uppröðun málsgreina breytist að nokkru, án efnisbreytinga. Einnig að við greinina bætist ný 5. mgr. þess efnis að ekki þurfi sérstakt leyfi til að annast sölu á notendabúnaði en það er í samræmi við ákvæði 2. mgr. 3. gr. gildandi laga og þykir rétt að halda því í frumvarpinu. Loks er gerð tillaga um nýja málsgrein þar sem kveðið verði á um að ráðherra geti veitt ákveðnum aðilum heimild til að stofna og reka fjarskiptanet enda verði það til eigin nota eingöngu. Þannig getur leyfishafi t.d. ekki nýtt slíkt leyfi í atvinnuskyni eða selt aðgang að fjarskiptanetum.
    Breytingin á 3. gr. felur í sér áréttingu þess að þegar fluttur verður inn fjarskiptabúnaður, sem skoðaður hefur verið af viðurkenndri prófunarstofu, verður ekki gert ráð fyrir að Fjarskiptaeftirlitið endurmeti þá skoðun heldur nægir staðfesting þess á að viðkomandi prófunarstofa sé viðurkennd.
    Lagt er til að ný málsgrein bætist við 4. gr. þar sem ráðherra verði heimilað að ákveða með almennri reglugerð uppsetningu jarðstöðva til móttöku á sjónvarpsefni til eigin nota. Þannig mun ekki þurfa leyfi ráðherra fyrir hverja einstaka jarðstöð heldur nægir viðurkenning frá Fjarskiptaeftirlitinu um að hver stöð fyrir sig uppfylli tæknilegar kröfur.
    Breytingin á gildistökuákvæði 7. gr. byggist á því að þær breytingar, sem frumvarpið felur í sér, þykja eðlilegar og til bóta án tillits til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
    Nefndin vill árétta þann skilning á gjaldtökuákvæðum þessa frumvarps að við ákvörðun gjalda verði jafnræðis gætt þannig að samkeppnisaðilum verði ekki mismunað og að mið verði tekið af kostnaði við fjarskiptaþjónustu.
    Frumvarpinu fylgir ekki kostnaðaráætlun frá fjármálaráðuneytinu og er hún því birt sem fylgiskjal með áliti þessu.

Alþingi, 23. mars 1993.



Pálmi Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Sturla Böðvarsson.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Árni Johnsen.

Stefán Guðmundsson.



Guðni Ágústsson.

Jóhann Ársælsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,


með fyrirvara.





Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjarskipti.


    Með frumvarpi þessu er lögum nr. 73/1984, um fjarskipti, breytt til samræmis við ákvæði samnings um hið Evrópska efnahagssvæði. Innan Evrópubandalagsins hefur verið unnið markvisst að því að auka samkeppni á sviði fjarskipta.
    Helsti kostnaðarþáttur frumvarpsins er að fjarskiptaeftirlitsdeild Póst- og símamálastofnunar verður gerð að sjálfstæðri stofnun, Fjarskiptaeftirliti ríkisins. Það er gert til að aðskilja alfarið rekstur og eftirlit í þessari grein. Fyrstu skrefin í þá átt hafa reyndar þegar verið tekin þar sem fjarskiptaeftirlitsdeildin er mjög sjálfstæð starfseining innan Póst- og símamálastofnunar.
    Samkvæmt upplýsingum samgönguráðuneytis er rekstrarkostnaður fjarskiptaeftirlitsdeildarinnar um 70 m.kr. á ári og endurheimtist eingöngu með gjaldtöku fyrir veitta þjónustu. Gera má ráð fyrir að kostnaður aukist um 5–10 m.kr. við þessa breytingu og mun gjaldskrá Fjarskiptaeftirlitsins hækka sem því nemur.
    Að teknu tilliti til þess verður ekki séð að frumvarpið hafi kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.