Ferill 458. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 458 . mál.


794. Tillaga til þingsályktunar



um að styrkja stöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Ingibjörg Pálmadóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir,


Valgerður Sverrisdóttir, Guðrún Helgadóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sem styrki stöðu brotaþola við meðferð kynferðisbrotamála.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er flutt til að freista þess að ná fram þeim breytingum á lögum um meðferð opinberra mála sem svokölluð nauðgunarmálanefnd lagði til að gerðar yrðu. Eru þær helstar að tryggja endurgjaldslausan aðgang þolenda kynferðisbrota að löglærðum talsmanni, auka tillitssemi í garð brotaþola við málsmeðferð og tryggja greiðslu þeirra bóta sem brotaþola eru dæmdar.
    Málið á sér langa forsögu því að 22. maí 1984 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar frá þingkonum Kvennalistans um að skipa nefnd til að kanna hvernig háttað væri rannsókn og meðferð nauðgunarmála og gera tillögur til úrbóta í þeim efnum. Nefndin var skipuð skömmu síðar og samkvæmt erindisbréfi átti hún m.a. að skoða „löggjöf og lagaframkvæmd sem tengist því sviði sem fjallað er um í þingsályktuninni“. Nefndin skilaði tillögum sínum í viðamikilli skýrslu sem út kom árið 1989 og skipti hún tillögunum upp í fjóra meginþætti.
    Í fyrsta lagi lagði hún til að gerðar yrðu umtalsverðar breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en sá kafli fjallar um kynferðisbrot. Lagði nefndin reyndar fram frumvarp til slíkra laga. Síðar var unnið mun ítarlegra frumvarp sem lagt var fram þrisvar sinnum áður en lögunum var loks breytt á síðasta þingi.
    Í öðru lagi lagði nefndin til að gerðar yrðu talsverðar breytingar á þágildandi lögum um meðferð opinberra mála. Þar lagði hún hins vegar ekki fram neinn frumvarpstexta en taldi rétt að tekin yrði afstaða til meginstefnu áður en farið væri út í frumvarpsgerð. Þótt ný lög um meðferð opinberra mála hafi verið samþykkt á Alþingi 12. mars 1991 vantar enn talsvert upp á að þær réttarbætur, sem nefndin lagði til, hafi náð fram að ganga eins og vikið verður að síðar. Af þeim sökum er þessi þingsályktunartillaga nú flutt.
    Í þriðja lagi lagði nefndin til að komið yrði á fót neyðarmóttöku þar sem boðið yrði upp á samræmda og markvissa þjónustu og aðstoð við fórnarlömb kynferðisbrota og annarra ofbeldisbrota. Þessi neyðarmóttaka hefur nú loksins verið sett á stofn og er það fagnaðarefni þó að aðdragandi þess hafi verið langur.
    Í fjórða lagi lagði nefndin til að haldin yrðu námskeið fyrir lögreglumenn og starfsfólk heilbrigðisþjónustu um áhrif kynferðisbrota á brotaþola og kynnt hvernig best verði staðið að rannsókn og meðferð slíkra mála. Vegna undirbúnings neyðarmóttöku hefur starfsfólk slysadeildar Borgarspítala og Rannsóknarlögreglu ríkisins sótt þjálfunarnámskeið en mikilvægt er að starfsfólk og aðrir, sem að þessum málum koma, eigi kost á reglubundinni endurmenntun. Einnig þarf að gera ráð fyrir þessari fræðslu í grunnnámi starfsfólks heilbrigðisstétta og lögreglumanna.
    Markmið flutningsmanna þessarar tillögu er að ýta á eftir þeim réttarbótum sem nefndin lagði til að gerðar yrðu með breytingum á lögum um meðferð opinberra mála. Í skýrslu nefndarinnar voru þessar tillögur helstar:
    Að þolendur kynferðisbrota öðlist fortakslausan rétt til endurgjaldslausrar aðstoðar löglærðs talsmanns allt frá upphafi rannsóknar og þar til meðferð máls lýkur.
    Að vikið verði frá frjálsu sönnunarmati varðandi fyrri kynferðishegðun brotaþola. Sönnunarfærsla um fyrri kynhegðun brotaþola verði almennt útilokuð nema hún teljist hafa verulega þýðingu í máli sem til umfjöllunar er.
    Að tilgreint verði tæmandi í lögum hvenær ákæruvaldið megi falla frá saksókn. Einnig verði sett ákvæði um rökstuðning fyrir niðurfellingu í meiri háttar málum og hverjum hún skuli kynnt.
    Að endurskoðuð verði gildandi lagaákvæði um meðferð mála fyrir dómstólum í því skyni að veita þrotaþolum aukna vernd og stuðning. Þannig öðlist brotaþoli skýlausan rétt til að krefjast þess að með mál verði farið fyrir luktun dyrum, heimiluð verði skýrslutaka af brotaþola án návistar hins brotlega og ákveðnar reglur verði settar um fortakslaust fréttabann á persónulegar upplýsingar um brotaþola nema knýjandi nauðsyn sé til þess að birta þær.
    Brotaþola verði tryggð greiðsla þeirra bóta sem dómstólar dæma honum eða henni með því að ríkissjóður greiði bæturnar og endurkrefji síðan dómþola.
    Sumar þessara tillagna rötuðu með einum eða öðrum hætti inn í þau lög um meðferð opinberra mála sem samþykkt voru á Alþingi árið 1991 og áður er minnst á. Þannig er nú tilgreint í lögunum hvenær falla megi frá saksókn (112.–114. gr.) en ekki er gerð krafa um annan rökstuðning en þann að í tilkynningu ákæranda skuli tiltekið við hvaða lagagrein ákvörðun um niðurfellingu styðjist. Í núgildandi lögum er kveðið á um að dómari geti ákveðið að dómþing skuli haldið fyrir luktum dyrum, m.a. til hlífðar brotaþolum (8. gr.), hann geti bannað opinbera frásögn af atriðum sem fram koma í þinghaldi (10. gr.) og hann geti vikið sakborningi úr þinghaldi meðan skýrsla er tekin af vitni (59. gr.) en ekki er að sjá að brotaþoli eigi nokkra kröfu eða rétt á slíkri tillitssemi. Það er skoðun flutningsmanna að þennan rétt þurfi að skilgreina.
    Að undanförnu hafa orðið miklar umræður um hversu erfitt það hefur reynst fórnarlömbum kynferðisbrota að fá greiddar þær bætur sem þeim eru dæmdar af dómstólum. Virðist það regla fremur en undantekning að slíkar bætur innheimtist bæði seint og illa. Fyrir Alþingi liggur nú tillaga til þingsályktunar frá Sólveigu Pétursdóttur o.fl. um að skipuð verði nefnd til að kanna hvort ríkissjóður eigi að ábyrgjast greiðslur slíkra bóta. Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að niðurstaða varðandi þetta atriði liggi fyrir hið fyrsta svo að hægt verði að ganga þannig frá málum að fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis þurfi ekki, ofan á allt annað, að eyða orku, tíma og fjármunum í að eltast við bótagreiðslur frá mönnum sem þau vilja síst af öllu hafa nokkuð saman við að sælda.
    Eins og fyrr sagði hefur verið opnuð neyðarmóttaka fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis. Neyðarmóttakan er á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík og var hún formlega opnuð 8. mars sl., á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Er þetta tvímælalaust stórt skref í þá átt að bæta meðferð þeirra sem fyrir slíku verða en samt er ekki nóg að gert. Á neyðarmóttökunni stendur þeim sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi til boða aðstoð ef þeir ákveða að kæra. Þar verður málsleið skýrð út og Rannsóknarlögreglan kölluð til. Væri það tvímælalaust til að efla þennan þátt starfseminnar og gera neyðarmóttökuna að þeirri réttarbót sem að var stefnt ef starfsfólk neyðarmóttökunnar gæti kallað til löglærðan talsmann sem aðstoðaði þá sem þangað leita, allt frá upphafi máls og þar til niðurstaða dómsyfirvalda lægi fyrir.


..........




    Með tillögunni var birtur sem fylgiskjal kafli úr skýrslu nauðgunarmálanefndar, Rannsókn og meðferð nauðgunarmála, Reykjavík 1989. Um fylgiskjalið vísast til þingskjalsins ( lausaskjalsins) og skýrslu nauðgunarmálanefndar, bls. 41–50.