Ferill 500. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 500 . mál.


852. Tillaga til þingsályktunar



um námsbraut í öldrunarþjónustu.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að koma á fót námsbraut í öldrunarþjónustu við framhaldsskólana fyrir þá sem hefðu hug á að stunda heimaþjónustu við aldraða sem atvinnu.

Greinargerð.


    Íslendingar lifa nú lengur en íbúar flestra annarra landa og með ári hverju fjölgar ellilífeyrisþegum hér á landi. Mikil uppbygging hefur orðið í málefnum aldraðra fyrir tilstilli ríkisvalds, sveitarfélaga, dugmikilla einstaklinga og félagasamtaka. Stór hópur aldraðra býr við góða heilsu og er andlega hress. Þessir einstaklingar hafa væntingar til áframhaldandi þátttöku í daglegu lífi. Aðrir sem ekki njóta góðrar heilsu gera kröfu um aðstoð og þjónustu á heimilum sínum sem auðveldar þeim að búa sem lengst á eigin heimili. Til að hægt sé að veita slíka þjónustu þarf á vel menntuðu og þjálfuðu starfsfólki að halda. Til þessa hefur verið gengið út frá því að til að sinna öldrunarþjónustu þurfi ekki sérstaka menntun, nema þá helst menntun í umönnun sjúkra. Þetta er alrangt því að góð öldrunarþjónusta krefst góðrar menntunar starfsfólks. Kunnáttuleysi starfsmanna í öldrunarþjónustu er vísasti vegurinn til að gera hana bæði kostnaðarsama og afkastalitla.
    Öldrunarþjónustan er orðin umfangsmikil starfsgrein og því eðlilegt að ætla öldrunarfræði stað í menntakerfinu. Sú fræðsla, sem nú er veitt í öldrunarþjónustu, er annars vegar fræðsla um öldrun sem er hluti margra faggreina, t.d. hjúkrun aldraðra sem er hluti hjúkrunarfræðináms og félagsleg þjónusta við aldraða sem er hluti náms í félagsráðgjöf. Hins vegar er fræðsla sem er veitt á námskeiðum um einstök viðfangsefni öldrunarþjónustu og á samningsbundnum námskeiðum fyrir ófaglært starfsfólk í öldrunarþjónustu.
    Það er því fyllilega tímabært að til verði skilgreind námsbraut í öldrunarfræðum þar sem veitt yrði alhliða þekking fyrir þá sem starfa eða ætla að starfa við öldrunarþjónustu. Til þess að svo megi verða þarf að gera ráð fyrir því hve margháttuð öldrunarþjónustan er. Hún tekur bæði til afar sérhæfðs starfsliðs sem ófaglærðs. Því þarf að bjóða fræðslu á ólíkum stigum og með mjög sveigjanlegum hætti. Fræðslan verður að falla að því skóla-, starfsfræðslu- og endurmenntunarkerfi sem fyrir er. Nám á öldrunarbraut í framhaldsskóla að viðbættum verkþjálfunarþætti ætti því að gefa viss réttindi við öldrunarþjónustu auk þess að vera grunnur undir frekara nám.