Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 504 . mál.


856. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á e-lið 30. gr. laganna:
    Fyrri málsliður 1. mgr. orðast svo: heimilt að innheimta sérstakt jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt ákvæðum í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.
    Eftirfarandi orð í 1. tölul. falla brott: „þegar það er ákveðið skv. 13.–15. gr. á innlendri framleiðslu“.
    Eftirfarandi orð í 2. tölul. falla brott: „sé heildsöluverð viðkomandi framleiðsluvöru hér á landi ekki ákveðið skv. 13.–15. gr.“.

2. gr.


    55. gr. laganna orðast svo:
     Innflutningur á búvörum, unnum sem óunnum, og tilsvarandi vörum er háður samþykki landbúnaðarráðherra. Hann skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni nema þegar um er að ræða innflutning á kartöflum, nýju grænmeti, sveppum og blómum. Ráðherra skal þá leita álits nefndar sem skipuð er tveimur fulltrúum framleiðenda tilnefndum af samtökum þeirra, tveimur fulltrúum innflytjenda þessara vörutegunda tilnefndum af viðskiptaráðherra og oddamanni tilnefndum af landbúnaðarráðherra. Skal nefndin láta ráðherra í té rökstutt álit um hvort innflutnings sé þörf og hve mikils. Ráðherra getur að fengnu áliti nefndarinnar ákveðið að innflutningur þessara vara skuli tímabundið vera undanþeginn leyfisveitingu. Innflutningur garðyrkjuafurða skal því aðeins leyfður að innlend framleiðsla fullnægi ekki eftirspurn.
     Ráðherra getur þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilað innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt látið að öðru leyti koma til framkvæmda ákvæði í slíkum samningum, bókunum og viðaukum sem teljast óaðskiljanlegur hluti þeirra, svo og breytingar sem kunna að verða gerðar á slíkum samningum og bókunum og viðaukum við þá.
     Áður en ákvarðanir eru teknar um útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins.

3. gr.


    56. gr. laganna fellur brott.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í tengslum við frumvarp um aðild Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sjá nánar 2. kafla II. hluta samningsins.
     1. gr. frumvarpsins fjallar um álagningu og innheimtu sérstaks jöfnunargjalds af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim. Vissir vöruflokkar, sem greinin tekur til, falla undir bókun 3 með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði a-liðar er sett til að samræma lögin þeirri bókun. Felld eru brott skilyrði úr gildandi lögum sem valda því að einungis er hægt að beita til jöfnunar verðtolli sem má nema allt að 200% sé heildsöluverð ekki ákveðið af fimmmannanefnd samkvæmt ákvæðum 13.–15. gr. laganna. Við þessa breytingu verður unnt að leggja á jöfnunargjald sem krónutölu eða sem verðtoll. Álagning jöfnunargjalda mun ekki hækka við þessa breytingu.
     Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að efni 55. gr. og 56. gr. laga nr. 46/1985, með síðari breytingum, sé sameinað í eina grein.
     Ákvæði 1. mgr. fjallar almennt um innflutning búvara og vara sem unnar eru úr þeim. Landbúnaðarráðherra er falið forræði þessara mála, en „hann skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni“.
     Í gildandi lögum segir um þetta efni: „Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.“
     Eftir gildistöku laga nr. 88 17. nóvember 1992, um innflutning, er nauðsynlegt að skilgreina upp á nýtt forræði fyrir innflutningi búvara.
     Ákvæði í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins um innflutning garðyrkjuafurða eru efnislega samhljóða 56. gr. gildandi laga. Þó er gerð sú breyting að í stað meðmæla er nægilegt að álit innflutningsnefndar liggi fyrir. Rétt þykir að endanlegt ákvörðunarvald á þessu sviði sé hjá ráðherra.
     Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er landbúnaðarráðherra heimilað að leyfa innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Þetta ákvæði er nýmæli og er fyrst og fremst tekið mið af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, en er jafnframt nauðsynlegt til að unnt sé að uppfylla fríverslunarsamninga sem búið er að gera eða unnið er að. Hér er farin sama leið og í 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, og í frumvarpi til breytinga á þeim lögum sem liggur fyrir Alþingi.