Ferill 515. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 515 . mál.


872. Frumvarp til laga



um breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði X. kafla laga þessara skal félagsmálaráðherra á árunum 1993 og 1994 beita sér fyrir sérstöku átaki í sameiningu sveitarfélaga. Það skal gert í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og einstök sveitarfélög. Í stað ákvæða um aðdraganda, undirbúning og framkvæmd sameiningar í X. kafla laganna skal við þá sameiningu byggt á eftirfarandi:
    Stjórnir landshlutasamtaka skulu fyrir 1. júní 1993 kjósa fimm til níu manna umdæmanefndir á starfssvæðum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga.
                  Hlutverk umdæmanefnda er að gera tillögur að nýrri skiptingu hvers landshluta í sveitarfélög í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Jafnframt er hlutverk þeirra að hafa yfirumsjón með kynningu á sameiningartillögum og að sjá um almenna atkvæðagreiðslu um þær.
                  Tillögur umdæmanefnda skulu vera tilbúnar fyrir 15. september 1993. Tveimur umræðum í sveitarstjórnum um tillögur umdæmanefnda skal lokið án atkvæðagreiðslu sveitarstjórna innan sex vikna frá því að tillögur eru lagðar fram. Almennri atkvæðagreiðslu um tillögurnar skal lokið innan tíu vikna frá sama tíma.
                  Umboð umdæmanefnda fellur niður þegar þær hafa lokið störfum og í síðasta lagi 31. mars 1994.
    Umdæmanefndir ákveða hver fyrir sig í samráði við landshlutasamtök og sveitarfélög á svæðinu hvenær almenn atkvæðagreiðsla skuli fara fram um sameiningartillögu. Atkvæðagreiðsla skal fara fram samtímis á starfssvæði hverra landshlutasamtaka. Um atkvæðagreiðslu fer eftir ákvæðum III. kafla laganna eftir því sem við getur átt.
                  Hljóti tillaga umdæmanefndar meiri hluta greiddra atkvæða í öllum þeim sveitarfélögum sem málið varðar skulu sveitarstjórnir þær sem hlut eiga að máli taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna, fjölda fulltrúa í nýrri sveitarstjórn, nafn hins sameinaða sveitarfélags og önnur nauðsynleg atriði. Tilkynning um ákvarðanir þessar skal send félagsmálaráðuneytinu sem ákveður hvenær sameining fer fram og auglýsir hana í Stjórnartíðindum.
                  Hljóti tillaga umdæmanefndar ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2 / 3 þeirra er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna enda hamli ekki landfræðilegar aðstæður.
    Verði ekki af sameiningu á grundvelli atkvæðagreiðslu skv. 2. tölul. að framan er umdæmanefnd heimilt að leggja fram nýja tillögu. Skal það gert fyrir 15. janúar 1994. Sömu reglur og tímamörk gilda um seinni tillögu og þá fyrri, svo og sömu ákvæði um ákvarðanir í framhaldi af almennri atkvæðagreiðslu.
    Fyrir 1. júní 1993 skal félagsmálaráðherra skipa sérstaka samráðsnefnd um sameiningarmál sveitarfélaga. Starfstími nefndarinnar er til ársloka 1994. Samráðsnefndin skal skipuð fulltrúum tilnefndum af þingflokkum á Alþingi, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneyti. Nefndin skal m.a. vera umdæmanefndum til ráðuneytis.
    Kostnaður við störf umdæmanefnda og samráðsnefndar skal greiddur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en kostnaður við atkvæðagreiðslur skal greiddur af viðkomandi sveitarfélögum.
    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd bráðabirgðaákvæðis þessa.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er í öllum aðalatriðum byggt á tillögum svokallaðrar sveitarfélaganefndar og ályktun fulltrúaráðsfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var í febrúar sl. Sveitarfélaganefndin var skipuð af félagsmálaráðherra í febrúar 1992. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar tilnefndir af þingflokkunum á Alþingi, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun og félagsmálaráðuneyti. Verkefni nefndarinnar var að vinna að tillögum varðandi sameiningu sveitarfélaga og mál henni tengd. Nefnd tilnefnd af sömu aðilum og með svipuð verkefni var einnig starfandi árið 1991.
     Á sl. tveimur árum hefur farið fram mjög mikil umræða um sameiningu sveitarfélaga. Á árinu 1991 hélt sveitarfélaganefndin fundi með nær öllum sveitarstjórnum á landinu. Síðan voru haldnir stærri fundir með sveitarstjórnarmönnum um allt land þar sem áfangaskýrsla nefndarinnar var kynnt. Áfangaskýrsla núverandi sveitarfélaganefndar, sem kom út í október sl., var einnig kynnt á fundum með sveitarstjórnarmönnum um land allt.
     Eftir að hafa kynnt sér rækilega viðhorf sveitarstjórnarmanna hefur sveitarfélaganefndin nú gengið frá endanlegum tillögum sínum. Í þeim er m.a. lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög, nr. 8/1986, á vorþingi 1993. Lagt er til að settar verði á fót umdæmanefndir í öllum landshlutum sem geri fyrir 15. september 1993 tillögu að nýrri skiptingu landshluta í sveitarfélög sem greidd verði atkvæði um í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum. Atkvæðagreiðsla skal fara fram samtímis á starfssvæði hverra landshlutasamtaka. Um atkvæðagreiðslu fer eftir ákvæðum III. kafla sveitarstjórnarlaga eftir því sem við getur átt. Meiri hluta greiddra atkvæða þarf til að tillaga um sameiningu teljist samþykkt. Umræðum í sveitarstjórnum skal lokið innan 6 vikna frá því að tillaga var sett fram og atkvæðagreiðslu um hana skal lokið innan 10 vikna frá sama tíma. Sé tillaga felld er umdæmanefnd heimilt að leggja fram aðra tillögu fyrir 15. janúar 1994 og gilda sömu tímamörk um umræður og atkvæðagreiðslu. Umdæmanefndirnar skulu ljúka störfum í seinasta lagi 31. mars 1994.
     Ályktun fulltrúaráðsfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í febúar sl. er mjög á sama veg og tillögur sveitarfélaganefndarinnar.
     Með frumvarpi þessu er í öllum aðalatriðum orðið við tillögum sveitarfélaganefndarinnar og fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga.
     Meginmarkmið frumvarpsins er að láta á það reyna í sem flestum sveitarfélögum hver afstaða almennings er til sameiningar sveitarfélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í X. kafla sveitarstjórnarlaganna eru ákvæði um hvernig standa skuli að sameiningu sveitarfélaga. Hér er lagt til að þrátt fyrir þau ákvæði verði unnið að sameiningu sveitarfélaga með sérstökum hætti á árunum 1993 og 1994. Heppilegt þykir að velja þennan tíma með tilliti til þeirrar miklu umræðu sem undanfarið hefur farið fram um sameiningu sveitarfélaga og rétt þykir að almennar kosningar um sameiningu sveitarfélaga fari fram fyrir næstu almennar sveitarstjórnarkosningar.
     Ekki er lagt til að ákvæði núgildandi X. kafla falli úr gildi. Nú er t.d. í undirbúningi sameining nokkurra sveitarfélaga og er reiknað með að sameiningu þeirra verði lokið samkvæmt ákvæðum X. kaflans. Eftir gildistöku bráðabirgðaákvæðis þessa skal á árunum 1993 og 1994 farið með önnur sameiningarmál á grundvelli þessa ákvæðis.
     Í 1. tölul. eru ákvæði um kosningar umdæmanefnda, hlutverk þeirra og hvernig skuli með tillögur þeirra fara. Lagt er til að stjórnir landshlutasamtaka sveitarfélaga kjósi umdæmanefndirnar enda starfa þegar á vegum sumra þeirra hliðstæðar nefndir. Of viðurhlutamikið þykir að kalla saman sérstaka fulltrúafundi sveitarfélaganna vegna þessa.
     Umdæmanefndirnar ættu með tilliti til góðrar staðarþekkingar og samráðs við viðkomandi sveitarstjórnir að geta gert skynsamlegar tillögur um sameiningu sveitarfélaga sem væru í samræmi við vilja íbúa sveitarfélaganna.
    Gert er ráð fyrir að í hverri hlutaðeigandi sveitarstjórn fari fram tvær umræður um tillögurnar án atkvæðagreiðslu en það er sama fyrirkomulag og fylgt hefur verið, sbr. 108. gr. Tímafrestir varðandi tillögurnar eru við það miðaðir að atkvæðagreiðslu um þær verði lokið talsvert löngu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram eiga að fara næsta vor. Ekki þykir ástæða til að umdæmanefndirnar starfi nema til loka mars 1994 enda eiga þær þá að hafa lokið hlutverki sínu.
     Í 2. tölul. eru ákvæði um hvernig standa skal að ákvörðun um kjördaga, eftir hvaða reglum atkvæðagreiðsla skal fara fram og hvernig fara skal með úrslit atkvæðagreiðslu og ákvarðanir í framhaldi af henni. Lagt er til að atkvæðagreiðsla um sameiningu fari fram samtímis á starfssvæði hverra landshlutasamtaka. Um atkvæðagreiðslurnar fari eftir ákvæðum III. kafla laganna eftir því sem við getur átt. Eru það sömu ákvæði og nú eru í 108. gr. Á þetta fyrirkomulag er komin góð reynsla við sameiningu sveitarfélaga á undanförnum árum. Tillaga umdæmanefndar telst samþykkt í sveitarfélagi ef hún hlýtur meiri hluta þeirra sem afstöðu taka í sveitarfélaginu. Vakin er athygli á að þetta er önnur aðferð en nú gildir skv. 109. gr. Hljóti tillaga samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum skulu þau sameinuð og að því staðið á sama hátt og gert er ráð fyrir í 109. gr. Ekki þykir rétt þótt kjósendur í miklum minni hluta hlutaðeigandi sveitarfélaga felli tillögu um sameiningu sveitarfélaga að þá þurfi það að koma í veg fyrir sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkja sameiningu. Lagt er því til að sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga, sem samþykkt hafa tillöguna, hafi heimild til að taka ákvarðanir um sameiningu í ljósi aðstæðna á hverjum stað.
     Í 3. tölul. eru ákvæði um hvernig með skuli fara ef ekki verður af sameiningu á grundvelli atkvæðagreiðslu skv. 2. tölul. Er þá haft í huga að í umræðum um atkvæðagreiðslu og niðurstöðu hennar hafi komið fram viðhorf sem umdæmanefnd meti á þann veg að rétt sé að leggja fram nýja tillögu.
     Í 4. tölul. er lagt til að félagsmálaráðherra skipi sérstaka samráðsnefnd um sameiningu sveitarfélaga sem m.a. er ætlað að vera umdæmanefndum til ráðuneytis. Ætlunin er að starf hennar komi í framhaldi af starfi sveitarfélaganefndanna undanfarin tvö ár. Stefnt er að því að gert verði sérstakt samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna um hvernig unnið verði að sameiningar-, verkaskipta- og tekjustofnamálum á árunum 1993 og 1994 og að í þessu samkomulagi verði nánar kveðið á um störf og hlutverk samráðsnefndarinnar.
     Ekki er þörf sérstakra skýringa á 5. og 6. tölul.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.