Ferill 516. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 516 . mál.


873. Tillaga til þingsályktunar



um heimild til að hefja undirbúning að stofnun reynslusveitarfélaga.

(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



    Alþingi ályktar að heimila félagsmálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun allt að fimm reynslusveitarfélaga, er starfi frá 1. janúar 1995 til 31. desember 1998, á grundvelli hugmynda sem fram koma í skýrslu sveitarfélaganefndar. Með hliðsjón af því skipi félagsmálaráðherra fjögurra manna verkefnisstjórn sem hafi yfirumsjón með framkvæmd þessa tilraunaverkefnis.
    Frumvarp til laga um reynslusveitarfélög verði lagt fyrir Alþingi vorið 1994 að undangengnum viðræðum milli verkefnisstjórnar, reynslusveitarfélaga, félagsmálaráðuneytis og annarra fagráðuneyta um hvernig skuli staðið að framkvæmd tilraunaverkefnisins.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þessari þingsályktunartilögu er þess farið á leit að Alþingi samþykki heimild til handa félagsmálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun fimm svokallaðra reynslusveitarfélaga er starfi tímabundið, þ.e. frá 1. janúar 1995 til 31. desember 1998, með vísan til hugmynda sem fram koma í skýrslu sveitarfélaganefndar til félagsmálaráðherra dags. 26. mars 1993.
    Í skýrslu þessari segir m.a.: „Sveitarfélaganefnd lagði fram í áfangaskýrslu sinni í október 1992 tillögu um að stofnað verði til nokkurra reynslusveitarfélaga á Íslandi í 4 ár í tengslum við sameiningu sveitarfélaga, til undirbúnings á færslu verkefna og tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga og sem aðdragandi breytinga í stjórnsýslu sveitarfélaga.
    Að lokinni kynningu meðal sveitarstjórna um allt land lýsti fundur fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga 26. og 27. febrúar 1993 yfir stuðningi við tillögu nefndarinnar um stofnun reynslusveitarfélaga.
    Sveitarfélaganefnd telur að stofnun reynslusveitarfélaga sé mikilvæg leið til þess að efla sveitarstjórnarstigið enn frekar á Íslandi. Því leggur nefndin til að stofnuð verði reynslusveitarfélög sem starfi frá 1. janúar 1995 til 31. desember 1998. Lagt er til að þingsályktunartillaga um reynslusveitarfélög verði afgreidd frá Alþingi á vorþingi 1993. Lögð er áhersla á að sem flest reynslusveitarfélög verði stofnuð í tengslum við sameiningu sveitarfélaga.“
    Þá segir í sömu skýrslu: „Sveitarfélaganefnd skilgreinir hugmyndina um reynslusveitarfélög hér á landi þannig að á grundvelli umsókna fái sveitarfélög heimild í tiltekinn tíma og í tilraunaskyni til: að taka að sér framkvæmd nýrra verkefna; að vera undanþegin tilteknum ákvæðum laga og reglugerða sem kveða á um skyldur sveitarstjórna og takmarka ákvörðunarvald þeirra; að reyna nýtt rekstrar- og fjármögnunarfyrirkomulag í tilteknum málaflokkum; og að þróa nýjungar í stjórnsýslu. Til þess að reynslusveitarfélög fái slíkar heimildir þarf samþykki hlutaðeigandi ráðherra og samþykkt laga frá Alþingi.“
    Í framangreindri skýrslu sinni leggur sveitarfélaganefnd til að unnið verði að stofnun reynslusveitarfélaga með eftirfarandi hætti:
    Lögð verði fyrir Alþingi til samþykktar á vorþingi 1993 þingsályktunartillaga þess efnis að stofnað verði til allt að fimm reynslusveitarfélaga.
    Félagsmálaráðherra skipi fjögurra manna verkefnisstjórn sem í eigi sæti tveir menn tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveir af félagsmálaráðherra og skal annar þeirra vera formaður.
    Einstök sveitarfélög, eða sveitarfélög sem undirbúa sameiningu, leggi fram umsókn til félagsmálaráðuneytisins um þátttöku. Lagt er til að ekki verði sett annað skilyrði en að þau sveitarfélög, sem taka þátt, hafi a.m.k. 1.000 íbúa. Þó verði heimilt að velja eitt sveitarfélag með færri en 1.000 íbúa. Sveitarfélög, sem sækja um verkefnið í tengslum við sameiningu, hafi forgang, einkum þegar sveitarfélög á stóru svæði sameinast.
    Verkefnisstjórn fjalli um umsóknir og velji sveitarfélög til þátttöku. Ákvörðun verkefnisstjórnar um val á sveitarfélögum verður að hljóta staðfestingu félagsmálaráðherra til að öðlast gildi.
    Hugmyndir um verkefni, undanþáguákvæði o.fl. verði þróuð í samvinnu verkefnisstjórnar, reynslusveitarfélaga og hlutaðeigandi ráðuneyta.
    Unnið verði að gerð samnings um verkefni, tekjustofna, undanþáguákvæði o.fl. milli reynslusveitarfélaga annars vegar og félagsmálaráðuneytis hins vegar að höfðu samráði við hlutaðeigandi fagráðuneyti. Samningsdrög liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 1994. Í þeim þarf að koma fram hvernig skuli staðið að tilraunaverkefninu í heild sinni, þ.e. hvaða tiltekin verkefni verði færð frá ríki til sveitarfélags, frá hvaða laga- og reglugerðaskyldu sveitarfélagið skal vera undanþegið og hvernig framkvæmdinni skuli nákvæmlega hagað.
    Lög um reynslusveitarfélög verði lögð fyrir Alþingi til samþykktar á vorþingi 1994.
    Samningar verði lagðir fyrir sveitarstjórn reynslusveitarfélaga til samþykktar og skulu fara fram tvær umræður um málið í sveitarstjórn í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Að því loknu verði samningarnir lagðir formlega fyrir félagsmálaráðherra og aðra ráðherra, sem hlut eiga að máli, til undirritunar. Gert verði ráð fyrir því að lög um reynslusveitarfélög verði sett á árinu 1994 þegar drög að samningum milli ríkisins og reynslusveitarfélaganna liggja fyrir. Í lögunum komi m.a. fram hvaða verkefni verði flutt frá ríki til reynslusveitarfélaga og undan hvaða lagaskyldum megi víkja með vísan til hlutaðeigandi laga og einstakra lagaákvæða.
    Verkefnisstjórn fylgist með framvindu tilrauna- og þróunarstarfs hjá reynslusveitarfélögum og vinni að endurskoðun samninga ef með þarf.“