Ferill 546. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 546 . mál.


906. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



1. gr.


    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein sem verður 4. gr. a, svohljóðandi:
4.1.        Eftirlit á varnarsvæðunum skal vera í samræmi við lög þessi. Utanríkisráðherra, sbr. lög nr. 106/1954, skal semja um framkvæmd þessa eftirlits við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.
4.2.        Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja skal hafa eftirlit með eftirlitsskyldri starfsemi á varnarsvæðunum, sbr. 7.–8. og 12.–17. tölul. 2. og 3. gr. Heimilt er að innheimta gjald af þessari eftirlitsskyldu starfsemi til að standa straum af kostnaði vegna samningsins við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, sbr. 1. mgr. Gjaldið er innheimt samkvæmt sérstökum samningi eða samkvæmt gjaldskrá sem utanríkisráðherra setur að höfðu samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vegna 2. gr. og umhverfisráðherra vegna 3. gr. Gjaldskrána skal birta í B-deild Stjórnartíðinda. Gjöld samkvæmt þessari grein má innheimta með aðför.
4.3.        Rísi ágreiningur um framkvæmd heilbrigðiseftirlits á varnarsvæðunum gilda ákvæði laganna eftir því sem við á.

2. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í gildandi lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit er ekki sérstaklega tekið fram að lögin gildi um heilbrigðis- og mengunareftirlit á varnarsvæðunum. Í framkvæmd hefur þetta eftirlit verið þannig að varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur í krafti samkomulags við varnarliðið falið heilbrigðiseftirliti Suðurnesja að annast heilbrigðis-og mengunareftirlit á varnarsvæðunum. Varnarliðið greiðir heilbrigðiseftirliti Suðurnesja árlega fjárhæð vegna eftirlits með eftirlitsskyldri starfsemi á þess vegum. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli greiðir síðan um það bil þriðjung af rekstrarhalla heilbrigðiseftirlits Suðurnesja vegna eftirlits þess á varnarsvæðum, en íbúafjöldi á varnarsvæðum er þriðjungur af íbúafjölda sveitarfélaganna á Suðurnesjum.
    Íslensk fyrirtæki, sem starfa á varnarsvæðunum, bera á hinn bóginn engan kostnað vegna eftirlitsskyldrar starfsemi sinnar líkt og íslensk fyrirtæki annars staðar á landinu. Þessu vilja menn nú breyta þannig að utanríkisráðherra geti annaðhvort gert samning við viðkomandi fyrirtæki um greiðslu vegna eftirlits heilbrigðiseftirlits Suðurnesja eða sett um það sérstaka gjaldskrá. Meðal þeirra fyrirtækja, sem hér um ræðir, eru Íslenskir aðalverktakar hf. og Flugleiðir hf.
    Með frumvarpi þessu er lögfest að eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nái einnig til varnarsvæðanna og að utanríkisráðherra, sem samkvæmt lögum nr. 105/1954 hefur lögsögu á varnarsvæðunum, skuli semja við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja til að framkvæma það eftirlit.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að inn í lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum, verði bætt nýrri grein sem verði 4. gr. a. Þar verði í 1. mgr. skýrt tekið fram að lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nái til varnarsvæðanna og að utanríkisráðherra skuli semja um framkvæmd eftirlitsins við heilbrigðiseftirlit Suðurnesja.
    Í 1. mgr. er tiltekið hvaða starfsemi sé eftirlitsskyld og er ákvæðið samhljóða 3. mgr. 5. gr. hvað þetta snertir. Jafnframt er þar tekið fram að fyrir eftirlitið megi innheimta gjald annaðhvort á grundvelli samnings eða gjaldskrár sem utanríkisráðherra setur. Gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra skuli setja gjaldskrá vegna eftirlits skv. 2. gr. í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og vegna eftirlits skv. 3. gr. í samráði við umhverfisráðherra.
    Í 3. mgr. er sérstaklega tilgreint til að taka af öll tvímæli að verði ágreiningur um innheimtu eftirlitsgjalda skuli fara með þann ágreining samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit eftir því sem við á.

Um 2. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 1993 þannig að sem fyrst megi hefja innheimtu gjalds vegna eftirlits eftirlitsskyldra fyrirtækja á varnarsvæðum.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og


heilbrigðiseftirlit, nr. 81/1988, með síðari breytingum.


    Eins og kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarp þetta er tilgangur þess m.a. sá að taka af tvímæli um hvernig háttað skuli framkvæmd laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit á varnarsvæðunum. Málum er þannig háttað nú að varnarliðið greiðir 79.000 dollara (rúmar 5 m.kr.) til heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og einnig greiðir flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli um 3,8 m.kr. Fyrirtæki, sem starfa á Keflavíkurflugvelli, hafa hins vegar fram að þessu ekki greitt fyrir heilbrigðiseftirlit sem fyrirtæki utan varnarsvæðisins hafa orðið að gera.
    Talið er að heildartekjur af álagningu heilbrigðiseftirlitsgjalds á fyrirtæki geti numið 2–3 m.kr. Þær tekjur mundu koma til lækkunar því framlagi sem flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli mundi annars þurfa að greiða og hreinar tekjur ríkissjóðs af starfsemi embættisins ættu að öðru jöfnu að hækka um sömu fjárhæð.