Ferill 560. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 560 . mál.


927. Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning að alþjóðlegum skipstjórnar- og fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum.

Flm.: Árni Johnsen, Kristín Ástgeirsdóttir, Svavar Gestsson,

Guðni Ágústsson, Egill Jónsson.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja undirbúning að starfrækslu alþjóðlegs skipstjórnar- og fiskvinnsluskóla í Vestmannaeyjum.

Greinargerð.


     Í Vestmannaeyjum eru allar aðstæður mjög ákjósanlegar fyrir alþjóðlegan skipstjórnar- og fiskvinnsluskóla sem yrði í nánum tengslum við slíkt nám fyrir Íslendinga. Í Vestmannaeyjum er stýrimannaskóli, framhaldsskóli m.a. með vélstjórnarbraut, útibú frá Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, eina safnið með lifandi fiskum á landinu þar sem prófessor í fiskifræði við Háskóla Íslands mun einnig hafa aðsetur. Síðast en ekki síst er um 100 skipa floti í þessari stærstu verstöð landsins, floti með skip af öllum stærðum og gerðum í nábýli við hin auðugu fiskimið Suðurlands.
    Húsnæði fyrir slíkan skóla er fyrir hendi í Vestmannaeyjum og því ástæða til þess að flýta sem kostur er undirbúningi að starfrækslu slíks skóla í Eyjum.
    Reynsla Íslendinga af fiskveiðum við erfiðar aðstæður og fjölbreyttar getur skapað góðan og eftirsóknarverðan grundvöll fyrir erlenda aðila, bæði hvað varðar veiðar og vinnslu.
    Í fyrstu lotu eru full rök fyrir því að kanna til botns hvaða rekstrarmöguleika slíkur skóli hefur og hvernig hann gæti skilað sem mestum árangri.