Ferill 588. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 588 . mál.


1150. Frumvarp til laga



um Íslenska fjárfestingarbankann hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.


1. gr.


    Íslenski fjárfestingarbankinn er hlutafélag og telst til lánastofnana eftir fyrirmælum laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Ákvæði þeirra laga og laga um hlutafélög taka til Íslenska fjárfestingarbankans hf. að því leyti sem annað leiðir ekki af þessum lögum.

2. gr.


    Tilgangur bankans er að efla framleiðslu, framleiðni, samkeppnishæfni og aðrar umbætur í atvinnulífinu með því að veita lán og ábyrgðir til fjárfestinga, vöruþróunar og markaðssóknar.
    Eftir því sem nánar er ákveðið í samþykktum bankans getur hann einnig haft með höndum sérhverja aðra starfsemi sem tengist þessu og starfsemi sem öðrum lánastofnunum en viðskiptabönkum og sparisjóðum er heimil að lögum.
    Íslenski fjárfestingarbankinn hf. hefur aðalstöðvar sínar í Reykjavík.

3. gr.


    Óheimilt er að ákveða að hluthafar njóti hagstæðari kjara en aðrir eða annarra sérstakra hlunninda í viðskiptum við bankann vegna eignarhlutar síns. Hömlur má ekki leggja á viðskipti með hluti í félaginu, sbr. þó ákvæði laga þessara um hlutabréf í bankanum í eigu Iðnaðarsjóðs og Vöruþróunar- og markaðssjóðs.
    Á hluthafafundi getur enginn einn hluthafi eða hópur fjárhagslega tengdra hluthafa farið með meira en fimmtung atkvæða. Þetta gildir þó ekki um stofnendur Íslenska fjárfestingarbankans hf. að því leyti sem þeir kunna að eiga meira en fimmtung hlutafjár hverju sinni.

4. gr.


    Stjórn félagsins skal kjörin af hluthöfum á aðalfundi og vera skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara.
    Stjórnin ræður framkvæmdastjóra bankans og setur almennar reglur um starfsmannamál og skipulag hans.
    Að öðru leyti en leiðir af ákvæðum II. og III. kafla ákveður stjórn bankans starfsemi hans hverju sinni innan þeirra marka sem tilgangur hans skv. 1. mgr. 2. gr. og samþykktir setja og kveður eftir þörfum á um skiptingu bankans í deildir. Stjórnin setur almennar reglur um helstu lánaflokka bankans, lánakjör og tryggingar sem verða áskildar fyrir lánveitingum hans og ábyrgðum.

5. gr.


    Bankinn aflar sér fjár til útlána með lántökum innan lands og erlendis að því leyti sem eigið fé hans nægir ekki til. Gætt skal jafnvægis í gengis- og vaxtaáhættu í lánastarfsemi bankans.

II. KAFLI


Vöruþróunar- og markaðssjóður.


6. gr.


    Við Íslenska fjárfestingarbankann hf. starfar Vöruþróunar- og markaðssjóður sem hefur sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Tilgangur hans er að örva nýsköpun í atvinnulífinu, auka útflutning vöru og þjónustu og að auðvelda fjárfestingu erlendis í tengslum við sölu á innlendum framleiðsluvörum og þjónustu.
    Hlutverk sitt rækir Vöruþróunar- og markaðssjóður með því að:
    veita lán til vöruþróunar, hönnunar og annarrar nýsköpunar,
    veita lán til útflutnings- og markaðsstarfsemi,
    veita framlög til nýsköpunar- og markaðsverkefna, rannsókna- og þróunarstarfsemi og aðgerða til að auka útflutning vöru og þjónustu,
    kaupa og selja hlutabréf í starfandi félögum og taka þátt í stofnun nýrra félaga,
    gangast í ábyrgð við aðrar lánastofnanir vegna skuldbindinga sem til hefur verið stofnað vegna verkefna sem falla undir 1. og 2. tölul.
    Vöruþróunar- og markaðssjóður getur afskrifað kröfur sem hann eignast skv. 1., 2. eða 5. tölul. 2. mgr. ef verkefni sem lánað var til heppnast ekki.

7. gr.


    Stjórn Vöruþróunar- og markaðssjóðs skipa þrír menn sem ráðherra skipar til tveggja ára í senn. Skulu tveir þeirra vera samkvæmt tilnefningu stjórnar Iðnaðarsjóðs, sbr. ákvæði 9. gr. og einn skipar ráðherra án tilnefningar. Ráðherra skipar einn stjórnarmanna formann stjórnar.
    Vöruþróunar- og markaðssjóður hefur sjálfstæðan fjárhag, óháðan Íslenska fjárfestingarbankanum hf. og bera aðrir ekki sjálfkrafa ábyrgð á skuldbindingum hans. Fjármálum sjóðsins skal haldið aðgreindum í reikningshaldi Íslenska fjárfestingarbankans hf. og sjálfstæð reikningsskil gerð fyrir hann.
    Íslenski fjárfestingarbankinn hf. annast daglegan rekstur Vöruþróunar- og markaðssjóðs, en kostnaður af starfsemi sjóðsins greiðist af tekjum hans, þar á meðal þóknun stjórnarmanna.

8. gr.


    Til starfsemi sinnar hefur Vöruþróunar- og markaðssjóður til ráðstöfunar eignir sínar og arð af þeim, svo og framlag úr Iðnaðarsjóði, sbr. ákvæði 10. gr., og aðrar lögbundnar tekjur.
    Vöruþróunar- og markaðsjóður má aldrei verja hærri fjárhæð árlega en nemur tekjuafgangi liðins árs samanlagt til:
    Framlaga skv. 3. tölul. 2. mgr. 6. gr.
    Afskrifta skv. 3. mgr. 6. gr.
    Leiði halli á starfsemi sjóðsins til þess að gengið sé á eigið fé hans má ekki ráðstafa fjármunum að hætti 2. mgr. fyrr en eigið fé er komið aftur í fyrra horf.
    Verði Vöruþróunar- og markaðssjóður lagður niður rennur andvirði eigna hans til ríkissjóðs. Skal því varið til að efla framþróun í íslensku atvinnulífi í samráði við samtök fyrirtækja á sviði iðnaðar.

III. KAFLI


Iðnaðarsjóður.


9. gr.


    Iðnaðarsjóður er sameign Félags íslenskra iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna.
    Iðnaðarsjóður skal hafa sérstaka stjórn og sjálfstæðan fjárhag og starfa samkvæmt samþykktum sem eigendur hans setja með staðfestingu ráðherra.
    Ráðherra skipar einn af endurskoðendum Iðnaðarsjóðs og skal þóknun fyrir störf hans greidd af sjóðnum.

10. gr.


    Stofnfé Iðnaðarsjóðs er 40% hlutabréfa í Íslenska fjárfestingarbankanum hf. Eigendur sjóðsins geta lagt frekari eignir til hans.
    Iðnaðarsjóði er frjálst að selja hlutabréf sín í Íslenska fjárfestingarbankanum hf., en er óheimilt að ráðstafa þeim á annan hátt.
    Standi til að selja hlutabréf sjóðsins í bankanum á lægra verði en nemur gangverði þeirra á hlutabréfamarkaði á ríkissjóður forkaupsrétt að þeim. Það sama á við ef til stendur að sjóðurinn selji sama kaupanda fjórðung af upphaflegri hlutafjáreign sinni í bankanum eða meira.
    Að því leyti sem Iðnaðarsjóður selur hlutabréf sín í Íslenska fjárfestingarbankanum hf. skal hann verja söluverðinu til kaupa á öðrum eignum sem tryggja að stofnfé sjóðsins haldist óskert og beri arð.
    Tekjum af eignum Iðnaðarsjóðs skal verja til þróunarstarfs í iðnaði á vegum samtaka fyrirtækja á sviði iðnaðar og á vegum Vöruþróunar- og markaðssjóðs. Skal skipting teknanna milli samtakanna og Vöruþróunar- og markaðssjóðs ákveðin af eigendum með staðfestingu ráðherra.
    Iðnaðarsjóði og eigendum hans er óheimilt að ráðstafa eignum sjóðsins og tekjum á annan veg en segir í þessari grein.

IV. KAFLI


Ýmis ákvæði.


11. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og með umboð ríkisins á hluthafafundum félagsins.

12. gr.


    Vöruþróunar- og markaðssjóður og Iðnaðarsjóður eru undanþegnir tekjuskatti og eignarskatti, svo og gjöldum til sveitarfélaga.

13. gr.


    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

V. KAFLI


Gildistökuákvæði o.fl.


14. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ráðherra skal efna til stofnfundar Íslenska fjárfestingarbankans hf. á árinu 1993 og hann skal taka til starfa 1. janúar 1994.

15. gr.


    Þegar Íslenski fjárfestingarbankinn hf. tekur til starfa hættir Iðnlánasjóður störfum og falla frá sama tíma úr gildi eftirtalin lög og lagaákvæði:
    Lög um Iðnlánasjóð, nr. 76 19. ágúst 1987, með áorðnum breytingum.
    Lög um Útflutningslánasjóð, nr. 47 8. maí 1970.
    4. gr. laga um Iðnþróunarsjóð, nr. 9 13. febrúar 1970, með áorðnum breytingum.
    Ráðherra skal auglýsa í Stjórnartíðindum þegar sameining Iðnþróunarsjóðs við Íslenska fjárfestingarbankann hf. kemur til framkvæmda samkvæmt ákvæðum laga þessara. Hættir Iðnþróunarsjóður þá störfum og falla frá sama tíma úr gildi lög nr. 9 13. febrúar 1970, með áorðnum breytingum.
    Greiðslustaður skuldbindinga við Iðnlánasjóð og einstakar deildir hans skulu vera í Íslenska fjárfestingarbankanum hf. frá því að hann tekur til starfa. Sama gildir um skuldbindingar við Iðnþróunarsjóð eftir að sameining hans við bankann kemur til framkvæmda. Almenn opinber auglýsing til viðskiptamanna sjóðanna nægir til að gera þeim þetta kunnugt.

16. gr.


    Þegar Íslenski fjárfestingarbankinn hf. tekur til starfa tekur Vöruþróunar- og markaðssjóður við öllum sérgreindum eignum og skuldbindingum vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs og telst það stofnfé sjóðsins.

17. gr.


    Eigi síðar en sex mánuðum eftir að Íslenski fjárfestingarbankinn hf. tekur til starfa skulu hlutabréf í honum gefin út til stofnenda.

18. gr.


    Ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs heldur gildi sínu að því leyti sem eignir Íslenska fjárfestingarbankans hf. og eftir atvikum Vöruþróunar- og markaðssjóðs hrökkva ekki til. Ríkissjóður ber einnig sams konar ábyrgð á erlendum lántökum Íslenska fjárfestingarbankans hf. á árinu 1994, enda séu þær í samræmi við ákvæði lánsfjárlaga.
    Að öðru leyti en kveðið er á í þessari grein ber ríkissjóður ekki ábyrgð á skuldbindingum Íslenska fjárfestingarbankans hf. eða Vöruþróunar- og markaðssjóðs.

19. gr.


    Við stofnun Íslenska fjárfestingarbankans hf. verður öll dagleg umsýsla Iðnþróunarsjóðs flutt til bankans og verður stjórn bankans ásamt framkvæmdastjóra Iðnþróunarsjóðs jafnframt framkvæmdastjórn sjóðsins skv. 3. mgr. 5. gr. samnings um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland, sbr. 4. gr. laga nr. 9/1970.
    Jafnframt fellur úr gildi skipan framkvæmdastjórnar sem gerð var með bréfi iðnaðarráðherra 29. apríl 1991.

20. gr.


    Stofnendur félagsins eru ríkissjóður ásamt Félagi íslenskra iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna. Heimilt er tveimur síðarnefndu aðilunum að láta sameiginlegt félag, sem myndað er með samruna þeirra og fleiri samtaka íslenskra fyrirtækja á sviði iðnaðar, taka við hlut sínum í félaginu annaðhvort við stofnun þess eða síðar og takast jafnframt á hendur þær skyldur sem á samtökunum hvíla samkvæmt lögum þessum. Gildir það einnig um hlut samtakanna í Iðnaðarsjóði.
    Við stofnun Íslenska fjárfestingarbankans hf. greiða stofnendur skv. 3. gr. stofnfé sitt með því að ríkissjóður leggur fram Iðnlánasjóð sem sameiginlegt framlag þeirra að frátöldum sérgreindum eignum vöruþróunar- og markaðsdeildar hans. Tekur bankinn við öllum eignum og réttindum Iðnlánasjóðs og öllum skuldbindingum hans er ekki varða vöruþróunar- og markaðsdeild sjóðsins. Hlutafé stofnenda telst innborgað í einu lagi þegar Íslenski fjárfestingarbankinn hf. tekur til starfa.
    Heildarfjárhæð hlutafjár í bankanum á stofnfundi hans skal nema 50% af eigin fé Iðnlánasjóðs 31. desember 1992 en halda skal framhaldsstofnfund þegar ársreikningar Iðnlánasjóðs fyrir árið 1993 liggja fyrir og skal þá hækka hlutafé í 75% af eigin fé Iðnlánasjóðs 31. desember 1993 að frátöldum eignum og skuldbindingum vöruþróunar- og markaðsdeildar. Af heildarhlutafénu koma 60% í hlut ríkissjóðs en 40% í hlut Iðnaðarsjóðs, sbr. 9. gr.
    Takist ekki samkomulag milli stofnenda um verðmat á eigin fé Iðnlánasjóðs 31. desember 1993 skal matsnefnd skera úr um það og er mat hennar endanlegt. Ráðherra skipar þrjá menn í matsnefndina, einn samkvæmt tilnefningu eigenda Iðnaðarsjóðs, sbr. 9. gr., einn samkvæmt tilnefningu Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar sem jafnframt er formaður nefndarinnar. Ráðherra setur nefndinni erindisbréf en hún skal ljúka störfum fyrir 1. maí 1994. Skal þá boða til framhaldsstofnfundar og skrá upphæð hlutafjár í samræmi við 2. mgr.
    Kostnaður við stofnun bankans, þar á meðal af starfi matsnefndar skv. 4. mgr., greiðist af bankanum.
    Ákvæði þetta kemur í stað stofnsamnings fyrir Íslenska fjárfestingarbankann hf. ásamt öðrum ákvæðum laga þessara sem við geta átt.

21. gr.


    Innan tveggja mánaða frá því að ríkissjóður verður eini eigandi Iðnþróunarsjóðs eftir ákvæðum 6. mgr. 2. gr. samnings um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland, sbr. lög nr. 9/1970, skal sjóðurinn sameinaður Íslenska fjárfestingarbankanum hf. að fullu. Um leið og sameiningin tekur gildi skal hlutafé Íslenska fjárfestingarbankans hf. aukið sem svarar 3 / 4 af bókfærðu eigin fé Iðnþróunarsjóðs á þeim degi sem ríkissjóður eignast hann með öllu. Komi upp ágreiningur um verðmæti eigin fjár Iðnþróunarsjóðs á yfirtökudegi skal úr honum skorið með áliti þriggja matsmanna sem ráðherra skipar og er úrskurður þeirra endanlegur. Skal einn þeirra tilnefndur af stjórn Íslenska fjárfestingarbankans hf., annar af bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og sá þriðji af viðskiptaráðherra og er hann formaður nefndarinnar. Ráðherra setur nefndinni nánari fyrirmæli í erindisbréfi og skal nefndin ljúka störfum innan mánaðar frá skipun hennar. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist af bankanum.
    Við framangreinda hlutafjáraukningu Íslenska fjárfestingarbankans hf. skal gefa út hlutabréf í bankanum sem nemur henni. Skal helmingur hlutabréfa afhentur ríkissjóði en helmingur bréfanna verður eign Vöruþróunar- og markaðssjóðs.
    Ekki skal beita atkvæðisrétti í félaginu sem fylgir hlutabréfum Vöruþróunar- og markaðssjóðs meðan bréfin eru í eigu sjóðsins. Verðmæti þeirra skoðast sem viðbót við stofnfé sjóðsins.
    Heimilt er stjórn sjóðsins með staðfestingu ráðherra að selja af hlutabréfaeign sjóðsins í bankanum, en óheimilt er að ráðstafa henni á annan hátt. Standi til að selja hlutabréf sjóðsins í bankanum á lægra verði en nemur gangverði þeirra á ríkissjóður forkaupsrétt að þeim. Það sama á við ef til stendur að selja sama kaupanda fjórðung af upphaflegri hlutafjáreign sjóðsins í bankanum eða meira.
    Að því leyti sem Vöruþróunar- og markaðssjóður selur hlutabréf sín í bankanum skal verja söluverðinu til kaupa á öðrum eignum sem tryggja að stofnfé sjóðsins haldist óskert og beri arð, en stjórn sjóðsins er einnig heimilt að verja því til útlána með góðum tryggingum fyrir endurgreiðslu að mati stjórnarinnar.

22. gr.


    Þegar Íslenski fjárfestingarbankinn hf. tekur til starfa skal öllum fastráðnum starfsmönnum Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, sem taka laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga, boðið starf við bankann að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa. Skal gæta jafnræðis milli starfsmanna stofnananna við ráðstöfun starfa.
    Forstjóri Iðnlánasjóðs, framkvæmdastjóri Iðnþróunarsjóðs, svo og aðrir fastráðnir starfsmenn sjóðanna, sem ekki eru félagar í stéttarfélögum, skulu eiga kost á sambærilegu starfi við Íslenska fjárfestingarbankann hf. og þeir höfðu eftir því sem unnt er.
    Nú tekur maður við starfi hjá Íslenska fjárfestingarbankanum hf. í samræmi við 1. eða 2. mgr. og verður þá sú breyting á ráðningarkjörum hans að gagnkvæmur uppsagnarfrestur hans og bankans verður tólf mánuðir nema skemmri uppsagnarfrestur hafi gilt um ráðningu hans við Iðnlánasjóð eða Iðnþróunarsjóð sem helst þá óbreyttur. Þetta raskar þó ekki ákvæðum ráðningarsamnings um tímabundna ráðningu.
    Maður, sem tekur við starfi hjá Íslenska fjárfestingarbankanum hf. í samræmi við 1. eða 2. mgr., skal njóta þar sama réttar varðandi starfsaldur, veikindi, barnsburð og orlof og hann naut í fyrra starfi sínu. Hann nýtur ekki réttinda til biðlauna skv. 14. gr. laga nr. 38/1954. Fylgi lægri laun nýja starfinu en starfsmaður naut í fyrra starfinu skal bankinn greiða honum launamismuninn til loka uppsagnarfrests sem gilti um ráðningu í fyrra starfið, þó aldrei lengur en í tólf mánuði.
    Fastráðinn starfsmaður Iðnlánasjóðs eða Iðnþróunarsjóðs sem hafnar starfi hjá Íslenska fjárfestingarbankanum hf. eða á ekki á kost á endurráðningu á tilkall til biðlauna skv. 14. gr. laga nr. 38/1954, enda fullnægi staða hans og ráðningarkjör skilyrðum þeirra laga.

23. gr.


    Ráðherra er heimilt með samþykki fjármálaráðherra að selja af hlutafjáreign ríkissjóðs í bankanum eftir því sem markaðsaðstæður leyfa og rennur andvirði hlutabréfanna í ríkissjóð. Við sölu bréfanna skal við það miðað að eignaraðild að bankanum verði sem víðtækust.

24. gr.


    Leggja skal á 0,12% gjald, vöruþróunargjald, á allan iðnað í landinu í því skyni að afla tekna fyrir Vöruþróunar- og markaðssjóð. Gjaldið rennur óskert til sjóðsins og greiðist honum eftir því sem það er innheimt. Um gjaldendur, gjaldstofn og innheimtu fer með sama hætti og um getur í 1. og 2. gr. laga um iðnaðarmálagjald, ásamt síðari breytingum.
    Vöruþróunargjald skal vera frádráttarbært sem rekstrarkostnaður við álagningu tekjuskatts, svo og tekjuútsvars ef um er að ræða. Óheimilt er að leggja gjaldið við verð á vörum eða þjónustu iðnfyrirtækja.
    Vöruþróunargjald skal lagt á í fyrsta sinn árið 1994 á gjaldstofn ársins 1993. Vöruþróunargjaldið lækkar í 0,09% árið 1995 á gjaldstofn ársins 1994, lækkar í 0,06% árið 1996 á gjaldstofn ársins 1995 og lækkar í 0,03% árið 1997 á gjaldstofn ársins 1996.
    Vöruþróunargjald skal leggja á í síðasta sinn árið 1997 á gjaldstofn ársins 1996. Eftir það fellur ákvæði þetta úr gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið sem liður í endurskipulagningu og eflingu fjármálastofnana sem settar hafa verið á fót til að styðja sérstaklega fjárfestingu og nýsköpun í atvinnuvegum landsmanna. Á árinu 1991 voru teknar upp viðræður milli iðnaðarráðuneytisins og helstu samtaka iðnfyrirtækja í landinu, þ.e. Félags íslenskra iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna um þær lánastofnanir sem sérstaklega hafa verið settar á fót til að þjóna iðnaðinum, þ.e. Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð.
    Iðnlánasjóður var stofnaður með lögum árið 1935 að frumkvæði samtaka iðnfyrirtækja. Hafa samtökin frá upphafi skipað meiri hluta stjórnar sjóðsins og allar breytingar, sem gerðar hafa verið á lögum sjóðsins, hafa verið gerðar í samráði og reyndar oft að frumkvæði samtakanna. Markmiðið með stofnun Iðnlánasjóðs var að bæta úr brýnustu lánsfjárþörf iðnaðarins. Með breytingum á lögunum árið 1941 var hlutverk sjóðsins gert víðtækara og honum falið að lána til hvers konar iðnaðar- og iðjustarfsemi. Frá 1953 varð Iðnlánasjóður sérstök deild í Iðnaðarbankanum sem tók til starfa það ár.
    Árið 1962 eða fyrir rúmlega 30 árum skipaði þáverandi iðnaðarráðherra nefnd til þess að endurskoða löggjöf um sjóðinn. Árangur þess starfs var svo setning laga sem tóku gildi árið 1963 og enn eru í gildi að stofni til. Þar var ákveðið að sjóðurinn yrði gerður að sjálfstæðri stofnun, starfssvið hans var aukið og ákveðið var að leggja á iðnfyrirtæki sérstakt gjald, svokallað iðnlánasjóðsgjald, til eflingar og uppbyggingar sjóðsins. Var gjaldið lagt á sama gjaldstofn og aðstöðugjald til sveitarfélaga sem fyrst var lagt á með nýjum lögum um tekjustofna sveitarfélaga frá árinu 1962.
    Árið 1985 var svokallaður Iðnrekstrarsjóður, sem komið hafði verið á fót til að auka útflutning iðnaðarvarnings og auka samkeppnishæfni íslensks iðnaðar, sameinaður Iðnlánasjóði og um leið var sett á fót sérstök vöruþróunar- og markaðsdeild við Iðnlánasjóð til að halda áfram þeirri starfsemi er áður var í höndum Iðnrekstrarsjóðs. Um leið var ákveðið að fyrirtæki í iðnaði greiddu til deildarinnar 0,25% af ársveltu sinni gegn jafnháu árlegu framlagi ríkisins. Framlag ríkisins var þó fljótlega fellt niður, en iðnfyrirtækin hafa með greiðslu iðnlánasjóðsgjalds haldið starfsemi deildarinnar gangandi.
    Samtök fyrirtækja í iðnaði hafa um margra ára skeið haldið fram því sjónarmiði að fyrirtæki í iðnaði ættu Iðnánasjóð eða að öðrum kosti væri hann óskipt sameign iðnaðarins og ríkissjóðs. Í ársskýrslu Iðnlánasjóðs árið 1990 er að finna fróðlegar upplýsingar sem samtök iðnaðarins hafa mjög vitnað til. Þar er að finna annars vegar upplýsingar um framlög ríkisins og hins vegar tekjur sjóðsins af iðnlánasjóðsgjaldi áranna 1963–1990. Við þær tölur þarf að bæta framreiknuðum framlögum úr ríkissjóði á árinunum 1935–1962 og iðnlánasjóðsgjaldi síðustu ára.
    Niðurstaðan er sú að í grófum dráttum má segja að væru framlögin reiknuð til verðlags í dag næmu framlög ríkissjóðs um 1,7 milljörðum króna en gjöld iðnfyrirtækja á sama tíma næmu 4,1 milljarði króna. Forsvarsmenn ríkissjóðs hafa bent á að við þessa útreikninga þurfi að bæta verðmæti ríkisábyrgðar sem Iðnlánasjóður hefur notið frá upphafi og núvirði skattafrádráttar sem iðnfyrirtæki hafa notið vegna greiðslu iðnlánasjóðsgjalds.
    Iðnlánasjóður fékk Markús Sigurbjörnsson prófessor til þess að gefa lögfræðilega álitsgerð um eignarhald að Iðnlánasjóði. Niðurstaða Markúsar var að hann taldi að iðnfyrirtæki gætu ekki sótt rétt sinn til eignarhalds á Iðnlánasjóði á grundvelli laga, en hins vegar taldi hann að uppbygging sjóðsins með álagningu iðnlánasjóðsgjaldsins takmarki heimildir löggjafans til að breyta rekstrarformi, sjálfstæði eða eignarhaldi Iðnlánasjóðs. Þeir sem greitt hafi til sjóðsins eigi rétt á því að njóta áfram góðs af starfsemi hans. Að fenginni þessari álitsgerð fóru samtök iðnfyrirtækja fram á samninga um eignarhald að sjóðnum og er samkomulag um efni þessa frumvarps í öllum meginatriðum.
    Samtök iðnfyrirtækja hafa mjög hvatt til þess að lánasjóðir iðnaðarins, Iðnlánasjóður og Iðnþróunarsjóður, verði sameinaðir í einn öflugan fjárfestingarlánasjóð eða fjárfestingarlánabanka. Iðnþróunarsjóður var stofnaður í tengslum við inngöngu Íslands í EFTA en í því sambandi var rætt um að auka þyrfti útlán til fjárfestinga í iðnaði hér á landi. Niðurstaða af viðræðum norrænna embættis- og stjórnmálamanna var samningur um stofnun norræns iðnþróunarsjóðs fyrir Ísland sem undirritaður var í Reykjavík 12. desember 1969. Var samningurinn staðfestur með lögum nr. 9 frá 13. febrúar 1970 og sjóðurinn stofnaður með framlögum frá Norðurlandaríkjunum fimm.
    Endurgreiðslur stofnframlaga hófust frá tíunda ári eftir stofnun sjóðsins og skal þeim lokið að enduðum 25 árum frá stofnun sjóðsins eða á árinu 1995. Þegar Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eiga ekki lengur hlutdeild í stofnfé sjóðsins samkvæmt ákvæðunum um endurgreiðslu stofnframlaga verður sjóðurinn eign og undir stjórn íslenska ríkisins.
    Upphaflegur tilgangur sjóðsins var að stuðla að tækni- og iðnþróun Íslands, auðvelda aðlögun iðnaðarins að breyttum markaðsaðstæðum, stuðla að þróun útflutningsiðnaðar og auknu samstarfi á sviði iðnaðar og viðskipta milli Íslands og annarra ríkja á Norðurlöndum. Með lögum sem tóku gildi á árinu 1986 var verksvið sjóðsins víkkað. Samkvæmt þeirri breytingu skal tilgangur Iðnþróunarsjóðs vera að stuðla að uppbyggingu alhliða og samkeppnishæfs atvinnulífs á Íslandi með megináherslu á tækni og iðnþróun.
    Samkvæmt ársreikningum ársins 1992 eru helstu lykiltölur í rekstri og efnahag Iðnlánasjóðs, vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs sem hér segir (í millj. kr.):

Iðnlána-

Vöruþróunar-

Iðnþróunar-


sjóður

og markaðsd.

sjóður



Hagnaður     
53
3 100
Eignir     
14.236
514 7.639
Skuldir     
11.552
24 5.010
Eigið fé     
2.685
490 2.629

Eiginfjárhlutfall (af heildarfjármagni)     
21,5%
34,4%

Útlán námu í árslok (fyrir afskriftir)     
12.734
239 6.288

    Í frumvarpi þessu er lagt til að sjóðirnir verði sameinaðir um leið og Iðnþróunarsjóður verður að öllu leyti eign ríkissjóðs en rekstur þeirra verið samhæfður undir einni stjórn um leið og lögin koma til framkvæmda. Sjóðirnir myndi stofn í nýjum fjárfestingarbanka, Íslenska fjárfestingarbankanum hf., sem verði í upphafi í sameign samtaka iðnfyrirtækja og ríkissjóðs. Stefnt verði að almennri eignaraðild að bankanum, en arður af eignarhlut samtaka iðnfyrirtækja fari til þess að kosta þróunarstarf í iðnaði á vegum samtakanna og sérstaks Vöruþróunar- og markaðssjóðs sem tekur við hlutverki vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs.
    Felld eru niður ákvæði í núgildandi lögum um Iðnlánasjóð varðandi tryggingardeild útflutningslána, en þau þykja hafa komið að takmörkuðu gagni og greiðslutryggingar vegna útflutnings eru nú boðnar á almennum markaði af öðrum aðilum.
    Þær breytingar, sem frumvarpið leggur til, gera auðveldara að leysa heildarfjármögnun nýframkvæmda í atvinnulífinu og það gerir ráð fyrir að vöruþróunar- og markaðsstuðningur við íslensk fyrirtæki verði aukinn. Þá er starfssviðið víkkað þannig að bankinn er ekki eins bundinn við lánveitingar á sviði iðnaðar og Iðnlánasjóður er nú, en getur þjónað öllu atvinnulífi landsmanna eftir því sem þörf krefur. Þá styrkir sameining sjóðanna samkeppnisstöðuna á innlendum og erlendum fjármagnsmarkaði. Tilgangur frumvarpsins er að bæta skipulag lánastofnana atvinnulífsins og gera rekstur þeirra hagkvæmari og markvissari um leið og stuðlað er að hagræðingu í atvinnulífinu sjálfu og innan samtaka þess.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Starfsemi stærstu fjárfestingarlánasjóðanna hér á landi flokkast undir það sem erlendis er oftast nefnt fjárfestingarbankastarfsemi eða „investment banking“ á enskri tungu. Undir þá skilgreiningu fellur tvímælalaust starfsemi Iðnlánasjóðs og enn frekar eftir sameiningu hans og Iðnþróunarsjóðs. Heitið „sjóður“ eða á enskri tungu „fund“ veldur stofnuninni nokkrum erfiðleikum í þeirri kynningu á erlendri grund sem henni er nauðsynleg vegna fjáröflunar til útlána sinna. Því er lagt til nafnið „Íslenski fjárfestingarbankinn“ og að hann verði stofnaður í hlutafélagsformi. Vísað er til laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði en slík lög eru hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Frumvarp til þeirra laga liggur þegar fyrir Alþingi og er hér gert ráð fyrir að það verði lögfest þannig að lögin geti öðlast gildi í síðasta lagi um leið og EES-samningurinn kemur til framkvæmda.

Um 2. gr.


    Í þessari grein um tilgang bankans er lögð áhersla á að starfsemi hans nýtist atvinnulífinu í heild og að hann geti eftir því sem ákveðið er í samþykktum bankans einnig haft með höndum sérhverja aðra starfsemi sem heimiluð verður í áðurnefndum lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
    Í 2. mgr. kemur fram að bankinn hafi aðalstöðvar sínar í Reykjavík, en það á sér hliðstæðu í 2. gr. laga nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð. Í tengslum við þetta er vakin athygli á því að 2. mgr. tekur ekki afstöðu til rekstrar bankans á útibúum sem færi eftir almennum reglum væntanlegra lánastofnanalaga og ákvæðum hlutafélagslaga.

Um 3. gr.


    Ákvæði fyrstu málsgreinar er samið til að koma í veg fyrir að almenn ákvörðun verði tekin um sérstök hlunnindi hluthafa í viðskiptum við bankann í einstökum tilvikum. Í þessari málsgrein er einnig kveðið á um að ekki megi leggja hömlur á viðskipti með hluti í félaginu, en þó er gerð undantekning með þá hluti sem Iðnaðarsjóður eignast og er um það nánar fjallað í skýringum við 10. gr. frumvarpsins og skýringum við ákvæði 21. gr. að því er varðar hlutabréf Vöruþróunar- og markaðssjóðs.
    Í síðari málsgrein er lagt til að lögfest verði sú regla að enginn einn hluthafi eða hópur fjárhagslegra tengdra hluthafa getið farið með meira en fimmtung atkvæða. Þetta gildir þó ekki um stofnendur bankans að því leyti sem þeir kunna að eiga meira en fimmtung hlutafjár hverju sinni, en stofnendur skv. 20. gr. eru ríkissjóður, Félag íslenskra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna.

Um 4. gr.


    Í þessari grein koma fram fáeinar reglur varðandi stjórn bankans.
    Reglurnar verður að skoða með tilliti til almennra reglna 7. gr. frumvarps til laga um lánastofnanir sem áður er vísað til og gilda mundu um bankann. Með 4. gr. er hins vegar ráðgert að mun fleiri atriði varðandi stjórnun þessa banka yrðu ákveðin í lögum þessum en almennt mundu gilda um lánastofnanir. Þessi atriði eru:
    Með 1. mgr. er ekki vikið frá almennum reglum í væntanlegri löggjöf um lánastofnanir nema að því leyti að hér er ráðgert að bundið verði í lög að stjórn bankans sé skipuð fimm mönnum. Án þessarar reglu yrði lagt á vald hluthafa að ákveða tölu stjórnarmanna í samþykktum fyrir félagið.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að stjórnin ráði framkvæmdastjóra og setji almennar reglur um starfsmannamál og skipulag bankans. Gert er ráð fyrir að almennar reglur um verksvið framkvæmdastjóra í væntanlegum lánastofnanalögum muni gilda um það atriði. Hafa verður í huga í þessu sambandi ákvæði 22. gr. sem er bráðabirgðaákvæði sem kveður á um rétt núverandi starfsmanna Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs á störfum hjá bankanum.
    Hér er ákvörðunarvald stjórnar bankans áréttað um fjögur atriði. Þau snúa í fyrsta lagi að valdi stjórnar til að ákveða hver starfsemi bankans verði innan ramma tilgangs hans skv. 2. gr. og samþykkta, þar á meðal hvernig honum sé skipt í deildir, en í upphafsorðum 3. mgr. er þó vakin athygli á því að þessu ákvörðunarvaldi stjórnar séu settar skorður í II. og III. kafla frumvarpsins þar sem bein fyrirmæli koma fram um tvær deildir bankans. Í öðru lagi er áréttað vald stjórnar um ákvörðun lánaflokka. Í þriðja lagi er áréttað vald stjórnar um almenn lánakjör bankans og loks er í fjórða lagi tekið fram að stjórnin setji reglur um nauðsynlegar tryggingar vegna lánveitinga og ábyrgða bankans.

Um 5. gr.


    Hér er kveðið á um að bankinn afli sér fjár til útlána með lántökum innan lands og erlendis að því leyti sem fé hans nægir ekki til. Bankinn er ekki innlánsstofnun og því kemur fé til útlána hans ýmist af eigin fé eða með útgáfu skuldabréfa eða annars konar fjáröflun á fjármagnsmarkaði. Bankinn lánar síðan með vaxtamun sem myndar tekjur hans. Einnig er kveðið á um að jafnvægis skuli gætt í gengis- og vaxtaáhættu bankans. Þetta er unnt að gera með því að lána jafnan í sömu mynt og fjármagns er aflað í og með vaxtakjörum sem standi í hlutfalli við þá vexti sem bankinn greiðir af því fé sem endurlánað er eða með því að notfæra sér mynt- og vaxtaskipti við aðrar fjármálastofnanir og þannig mæta óskum lántakanda um mynt og fyrirkomulag vaxtagreiðslna.

Um 6. gr.


    Í greininni er fjallað um Vöruþróunar- og markaðssjóð sem ætlað er að koma í stað vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs. Nýmæli er að sjóðurinn hefur sérstaka stjórn, en auk þess er lagt til að hann hafi sjálfstæðan fjárhag á sama hátt og vöruþróunar- og markaðsdeild Iðnlánasjóðs hefur nú.
    Helsta nýmæli í greininni er að sjóðnum er m.a. ætlað að auðvelda fyrirtækjum fjárfestingu erlendis í tengslum við sölu á innlendum framleiðsluvörum og þjónustu. Ekki eru tekin upp fyrirmæli í núgildandi lögum um að framlög (styrkir) megi ekki leiða til skerðingar á höfuðstól sjóðsins, en regla, sem nær til þessa atriðis, er hins vegar sett í 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 8. gr. núgildandi laga um Iðnlánasjóð er kveðið á um sérstaka heimild handa vöruþróunar- og markaðsdeild til að veita lán með þeim kjörum að þau séu afborgunarlaus fyrstu þrjú árin. Um þetta er ekki fjallað í 6. gr. enda er gengið út frá því að lánakjör bankans yrðu ekki lögákveðin gagnstætt því sem nú er í lögum nr. 76/1987 og sama er látið gilda um Vöruþróunar- og markaðssjóð.
    Samkvæmt ákvæðum 6. gr. er starfsemi sjóðsins ekki bundin við aðgerðir í þágu iðnaðarins, enda er oft um óljós mörk að ræða í keðju atvinnulífsins og aðgerðir á einu sviði þess geta komið fyrirtækjum á öðrum sviðum til góða.

Um 7. gr.


    Lagt er til að skipan stjórnar Vöruþróunar- og markaðssjóðs verði með sama hætti og nú er um stjórn Iðnlánasjóðs, þ.e. að stjórn Iðnaðarsjóðs, sem er í eigu helstu samtaka fyrirtækja í iðnaði, tilnefni tvo stjórnarmenn en ráðherra skipi einn stjórnarmann án tilnefningar. Um Iðnaðarsjóð er fjallað í 9. gr. og eru eigendur hans Félag íslenskra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna og í 20. gr. er gert ráð fyrir að sameiginlegt félag þeirra og e.t.v. fleiri samtaka fyrirtækja á sviði iðnaðar geti komið í þeirra stað. Er þetta tekið fram í frumvarpinu í tilefni af viðræðum sem staðið hafa yfir um sameiningu fyrrgreindra samtaka ásamt Verktakasambandi Íslands og Félagi íslenska prentiðnaðarins í ein heildarsamtök.
    Í 2. mgr. er að finna skýringu á þeim orðum 1. mgr. 9. gr. að Vöruþróunar- og markaðssjóður hafi sjálfstæðan fjárhag, en þetta er afmarkað nánar á tvennan hátt. Annars vegar kemur fram að fjárhagur sjóðsins sé óháður bankanum, en í því ljósi ber sjóðurinn enga ábyrgð á skuldbindingum bankans og bankinn getur ekki nýtt sér fé hans í starfsemi sinni. Hins vegar kemur fram að aðrir aðilar beri ekki sjálfkrafa ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, en þar með er tekið af skarið um að hvorki bankinn né ríkið ábyrgist skuldbindingar sjóðsins nema þá með því að gangast beinlínis undir þá ábyrgð.
    Í 3. mgr. eru ákvæði sem snúa að þjónustu eða aðstöðu sem bankinn veitir Vöruþróunar- og markaðssjóði. Er talið nauðsynlegt að marka þannig meginlínurnar í samskiptum bankans og sjóðsins.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. eru ákvæði um ráðstöfunarfé sjóðsins, tekjur hans og takmarkanir á heimildum til þess að nýta fé hans til styrkja eða eftirgjafa á kröfum. Til nánari skýringar á þessum fyrirmælum er rétt að taka fram að í upphafi 1. mgr. er gengið út frá því að sjóðurinn hafi til ráðstöfunar eignir sínar og arð af þeim. Um stofnfé sjóðsins er nánar fjallað í V. kafla frumvarpsins, en það er eigið fé vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs sem í árslok 1992 nam 490 milljónum króna eins og áður hefur komið fram í þessum athugasemdum.
    Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái tekjur af hlutabréfaeign í Iðnaðarsjóði, sbr. ákvæði 10. gr., og loks er gert ráð fyrir að sjóðurinn eignist helming þeirra hlutabréfa sem bankinn gefur út við sameiningu Iðnlána- og Iðnþróunarsjóðanna, enda bætist andvirði bréfanna þá við höfuðstól Vöruþróunar- og markaðssjóðs, sbr. ákvæði 21. gr., og njóti þá arðs af þeim verðmætum.
    Nefndar eru í 1. mgr. aðrar lögbundnar tekjur, en með því er fyrst og fremst átt við ákvæði 24. gr. um sérstakt vöruþróunargjald sem lagt er til að innheimt verði á árunum 1994–1997 af rekstri iðnfyrirtækja. Er þar lagt til að gjaldið fari lækkandi þar til það fellur brott, en um er að ræða aðgerð til aðlögunar við niðurfellingu iðnlánasjóðsgjalds. Iðnlánasjóðsgjaldið var, eins og áður hefur komið fram, lagt á með lögunum frá 1963 og var það lagt á aðstöðugjaldsstofn. Aðstöðugjald hefur nú verið fellt niður og því er lagt til að það verði á aðlögunartímanum lagt á virðisaukaskattsstofn, en frumvarp um breytingu á lögum um iðnaðarmálagjald sem lagt er fram samtímis frumvarpi þessu gerir ráð fyrir að það verði einnig innheimt stiglækkandi af sama stofni á sama tíma. Tekið skal fram að notkun þessa álagningarstofns er nú til athugunar í fjármálaráðuneytinu og mun það e.t.v. verða tilefni breytingartillögu við síðari umfjöllun um frumvarpið.
    Eftir að innheimta vöruþróunargjalds og iðnaðarmálagjalds félli niður fengju Vöruþróunar- og markaðssjóður, sem og samtök fyrirtækja í iðnaði, einungis þær tekjur sem eignir þeirra og tekjustofnar samkvæmt frumvarpi þessu gæfu af sér. Um leið er gert ráð fyrir að úr skattheimtu á iðnfyrirtæki dragi.
    Þótt áætlað sé að eignirnar samkvæmt frumvarpi þessu eigi að geta gefið talsverðan arð er ljóst að svo verður ekki í upphafi og því yrði tekjulækkun bæði hjá samtökunum og eins hjá Vöruþróunar- og markaðssjóði miðað við núverandi skipan mála. Því er lagt til að á aðlögunartíma verði innheimt vöruþróunargjald í stað iðnlánasjóðsgjalds af sama stofni og lagt er til í fyrrnefndu frumvarpi að iðnaðarmálagjald reiknist af, en að gjöldin verði í upphafi lægri en núverandi skattheimta gefur af sér og að þau fari síðan stiglækkandi þar til þau falli með öllu úr gildi frá og með árinu 1998.
    Í 2 mgr. er að finna takmörkun á hverju sjóðurinn má verja árlega til að veita styrktarframlög og afskrifa útistandandi lán vegna misheppnaðra aðgerða. Um þetta eru nú fyrirmæli í 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 76/1987.
    Áður hefur verið vikið að 3. mgr., en þar er að finna takmarkanir á því hvað verja má að hætti 2. mgr. ef sjóðurinn hefur verið verið rekinn með halla þannig að gengið hafi á eigið fé hans.
    Í 4. mgr. er ákvæði um hvernig með skuli fara ef vöruþróunar- og markaðsdeild verður lögð niður af einhverjum ástæðum.

Um 9. gr.


    Ef frumvarp þetta verður að lögum er gert ráð fyrir að stofnað verði sérstakt eignarhaldsfélag samtaka fyrirtækja í iðnaði er nefnist Iðnaðarsjóður. Samkvæmt 1. mgr. yrði hann í eigu Félags íslenskra iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna, en jafnframt gætu ný heildarsamtök komið í þeirra stað, sbr. ákvæði 20. gr., enda hafi þau samtök sambærilegan tilgang og þau félög sem nefnd eru í þessari grein.

Um 10. gr.


    Í þessari grein er fjallað um stofnfé Iðnaðarsjóðs sem er 40% hlutafjár í Íslenska fjárfestingarbankanum hf. eins og nánar er fjallað um í ákvæði til bráðabirgða II. Settar eru hömlur á sölu hlutabréfanna, en þó er gert ráð fyrir að slík sala geti átt sér stað enda skal þá verja söluverðinu til kaupa á öðrum eignum sem tryggja ekki síður að stofnfé sjóðsins haldist óskert og beri arð. Með því að selja af hlutabréfaeigninni og kaupa t.d. önnur markaðsverðbréf, svo sem hlutabréf í öðrum félögum fyrir andvirðið, getur sjóðurinn dreift áhættu sinni og tryggt betur reglubundna arðgjöf af eignum sínum.
    Tekjum af eignum Iðnaðarsjóðs skal verja til þróunarstarfs í iðnaði á vegum samtaka fyrirtækja í iðnaði og á vegum Vöruþróunar- og markaðssjóðs. Skulu eigendur ákveða skiptingu teknanna milli samtakanna og sjóðsins, en leita skulu þeir staðfestingar ráðherra á þeirri ákvörðun.

Um 11. gr.


    Hér er kveðið á um að viðskiptaráðherra fari með málefni bankans eins og annarra banka. Málefni lánasjóða iðnaðarins hafa fallið undir verksvið iðnaðarráðherra, en frumvarp um sameiningu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytanna liggur nú fyrir Alþingi.

Um 12. gr.


    Hér er kveðið á um skattfrelsi Vöruþróunar- og markaðssjóðs annars vegar og Iðnaðarsjóðs hins vegar. Það leiðir af eðli þessara stofnana að þær séu undanþegnar skattskyldu til ríkis og sveitarfélaga.

Um 13. gr.


    Greinin gefur ráðherra heimild til þess að setja nánari reglur um framkvæmd laganna, en slíkar reglur yrðu settar með reglugerð.

Um V. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um gildistöku og brottfall laga, en auk þess eru í kaflanum ýmis ákvæði sem hafa tímabundið gildi og missa þýðingu um leið og þau hafa komið til framkvæmda.

Um 14. gr.


    Hér er lagt til að lögin taki þegar gildi við birtingu þeirra. Lagt er til að stofnfundur bankans verði haldinn á árinu 1993 og að hann taki til starfa 1. janúar 1994.

Um 15. gr.


    Hér er fjallað um brottfall laga, en þar er er um að ræða núgildandi lög um Iðnlánasjóð sem m.a. hafa að geyma ákvæði um iðnlánasjóðsgjald. Einnig er um að ræða lög um Útflutningslánasjóð sem Iðnlánasjóður hefur nú yfirtekið og ekki er lengur þörf sérstakra laga um starfsemi hans. Þá er gert ráð fyrir að felld verði brott 4. gr. laga um Iðnþróunarsjóð sem fjallar um skipan framkvæmdastjórnar hans, en í 19. gr. er lagt til að stjórn bankans ásamt framkvæmdastjóra sjóðsins taki við hlutverki framkvæmdastjórnarinnar um leið og bankinn tekur til starfa.
    Þá er gert ráð fyrir að lögin um Iðnþróunarsjóð falli úr gildi þegar sameining sjóðsins við bankann kemur til framkvæmda, sbr. 21. gr., og skal ráðherra þá auglýsa sameininguna í Stjórnartíðindum.
    Loks er í 3. mgr. fjallað um greiðslustað skuldbindinga Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs eftir að þeir hafa verið sameinaðir bankanum. Þarfnast þau ákvæði ekki frekari skýringa.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 17. gr.


    Gert er ráð fyrir að hlutabréf í bankanum verði gefin út hálfu ári eftir stofnun hans, en þá er reiknað með að endanleg niðurstaða liggi fyrir um upphæð hlutafjárins, sbr. 20. gr.

Um 18. gr.


    Hér er fjallað um ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum bankans.
    Sú ábyrgð, sem hvílir á ríkissjóði vegna skuldbindinga Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, fylgir þeim til Íslenska fjárfestingarbankans hf. Til viðbótar er lagt til að ríkissjóður takist á hendur sams konar ábyrgð á erlendum lántökum nýja bankans í eitt ár, enda séu þær í samræmi við ákvæði lánsfjárlaga. Er hér um aðlögunartíma að ræða fyrir bankann sem tryggja þarf sér góð erlend viðskiptasambönd í upphafi rekstrar síns.
    Ríkissjóður ber ekki ábyrgð á skuldbindingum bankans eða Vöruþróunar- og markaðssjóðs og mun mjög draga úr heildarábyrgðum ríkissjóðs í þessu sambandi á næstu árum um leið og eldri lán Iðnlána- og Iðnþróunarsjóðs verða greidd upp.

Um 19. gr.


    Lagt er til að bankinn taki við allri daglegri umsýslu Iðnþróunarsjóðs um leið og hann tekur til starfa og að það verði undanfari að fullri sameiningu hans við bankann um leið og Iðnþróunarsjóður verður að fullu í eigu ríkissjóðs. Jafnframt er lagt til að stjórn bankans myndi ásamt framkvæmdastjóra Iðnþróunarsjóðs framkvæmdastjórn sjóðsins og að núverandi skipan framkvæmdastjórnar falli niður. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. samningsins um norrænan iðnþróunarsjóð fyrir Ísland skulu í framkvæmdastjórninni sitja fulltrúar íslenska bankakerfisins og það er svo nánar útfært í 4. gr. laganna um sjóðinn, nr. 9/1970, þar sem ákveðið er að fulltrúar viðskiptabanka og Iðnlánasjóðs sitji í framkvæmdastjórninni. Í 15. gr. er lagt til að 4. gr. falli brott um leið og lög þessi taka gildi.
    Síðast var skipað í framkvæmdastjórn sjóðsins 29. apríl 1991 og gilti sú skipan frá aðalfundi sjóðsins 1991 til og með aðalfundi sjóðsins árið 1994.

Um 20. gr.


    Í þessu ákvæði er fjallað um stofnendur bankans og fyrirkomulag við stofnun hans. Stofnendur eru ríkissjóður ásamt Félagi íslenskra iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna, en síðarnefndu aðilunum er heimilt að láta sameiginlegt félag eða samtök, sem mynduð eru með samruna þeirra og fleiri samtaka íslenskra fyrirtækja á sviði iðnaðar, taka við hlut sínum í félaginu annaðhvort við stofnun þess eða síðar. Þetta gildir einnig um hlutinn í Iðnaðarsjóði eins og áður er um getið.
    Iðnlánasjóður myndar stofnframlag til bankans að frátöldum sérgreindum eignum vöruþróunar- og markaðsdeildar. Telst það hlutafé stofnenda og allt innborgað þegar bankinn tekur til starfa.
    Ekki er hægt að ákveða endanlega nafnverð hlutafjárins 1. janúar 1994, þ.e. þá liggja ekki fyrir reikningar Iðnlánasjóðs. Því er lagt til að það verði í upphafi skráð sem 50% af eigin fé Iðnlánasjóðs í árslok 1992, en síðan þegar ársreikningar liggja fyrir og greitt hefur verið úr hugsanlegum ágreiningi um verðmat á eigin fé sjóðsins verði fyrri hlutafjárskráning leiðrétt og þá miðað við 75% af eigin fé sjóðsins í lok ársins 1993.
    Hlutafé skiptist þannig milli stofnenda að ríkissjóður á 60% en Iðnaðarsjóður, sbr. 12. gr., á 40% hlutafjárins.
    Lagt er til að kostnaður við stofnun bankans greiðist af bankanum sjálfum.
    Þetta ákvæði kemur í stað stofnsamnings fyrir bankann ásamt öðrum ákvæðum laganna sem við geta átt.

Um 21. gr.


    Í þessu ákvæði er fjallað um samruna Iðnlánasjóðs við bankann, en það skal gerast innan tveggja mánaða frá því að ríkið verður eini eigandi sjóðsins. Bankinn skal greiða fyrir Iðnlánasjóð með því að gefa út hlutabréf fyrir sem svarar til 3 / 4 af bókfærðu eigin fé Iðnþróunarsjóðs á þeim degi sem ríkissjóður eignast hann að fullu.
    Komi upp ágreiningur um verðmat á eigin fé Iðnþróunarsjóðs skal hann útkljáður af sérstakri matsnefnd.
    Helmingur þeirra hlutabréfa, sem bankinn gefur út, skal afhentur ríkissjóði, en helmingurinn verður eign Vöruþróunar- og markaðssjóðs og skoðast sem viðbót við stofnfé sjóðsins. Nýtur hann arðs af þessum hlutabréfum, sbr. ákvæði 8. gr., og nýtir arðinn til starfsemi sinnar, en ekki skal beita þeim atkvæðisrétti í félaginu sem fylgir hlutabréfum sjóðsins meðan þau eru í eigu hans.
    Í 4. og 5. mgr. er heimilt að selja af hlutabréfaeign sjóðsins í bankanum með staðfestingu ráðherra á slíkri ákvörðun sjóðstjórnar. Til slíkrar sölu getur komið ef stjórn sjóðsins telur t.d. æskilegt að dreifa áhættu sinni með sölu á hlutabréfum í bankanum og samsvarandi kaupum á fjölbreyttari verðbréfaeign, en við söluheimildinni eru settir varnaglar sem taldir eru upp í greininni. Stjórn sjóðsins kynni einnig að telja rétt að selja hlutabréf hans í því skyni að losa um fé sem notað yrði til útlána í atvinnulífinu með öruggum tryggingum.

Um 22. gr.


    Gert er ráð fyrir að fastráðnir starfsmenn Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs færist til Íslenska fjárfestingarbankans hf. að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa. Í greininni er fjallað nánar um réttindi starfsmannanna, en áunnin réttindi þeirra skulu ekki skerðast við breytinguna.

Um 23. gr.


    Hér er lagt til að ráðherra hafi með samþykki fjármálaráðherra heimild til að selja af hlutafjáreign ríkisjóðs í bankanum eftir því sem markaðsaðstæður leyfa. Gert er ráð fyrir að hlutabréf bankans verði fljótlega skráð á Verðbréfaþingi Íslands og að markaðsverð myndist í viðskiptum með þau.
    Með því að útvíkka eignaraðild að bankanum með þessum hætti er um leið verið að styrkja hann og opna möguleika á því að afla honum aukins eigin fjár með hlutafjárútboði. Sérstaklega er tekið fram að við sölu bréfanna skuli við það miðað að eignaraðild að bankanum verði sem víðtækust.

Um 24. gr.


    Starfsemi vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs hefur verið fjármögnuð með tekjum af iðnlánasjóðsgjaldi sem nú er 0,18% af aðstöðugjaldsstofni. Við hlutverki deildarinnar tekur Vöruþróunar- og markaðssjóður samkvæmt frumvarpinu og eru honum markaðir sérstakir tekjustofnar, sbr. 8. og 10. gr. frumvarpsins.
    Mestur hluti væntanlegra tekna sjóðsins verður arður af hlutabréfum í bankanum eða arðberandi eignum sem keyptar verða í þeirra stað. Arður af þessum eignum mun fyrst um sinn ekki skila sjóðnum nægilegum tekjum til þess að tryggja órofið framhald þeirrar starfsemi sem hér um ræðir. Því er talið nauðsynlegt að leggja á tímabundið vöruþróunargjald á allan iðnað í landinu sem innheimt verði árunum 1994–1997, sbr. athugasemdir við 8. gr. frumvarpsins.
    Lagt er til að gjaldið verði í upphafi 0,12% af gjaldstofni iðnaðarmálagjalds sem í stað aðstöðugjaldsstofns verður velta, sbr. 11. og 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
    Áætlað er að tekjur Vöruþróunar- og markaðssjóðs af vöruþróunargjaldi verði um það bil 25% minni en verið hefði með óbreyttri álagningu iðnlánasjóðsgjalds, en hún nam samtals um 148 milljónum króna á árinu 1992. Gjaldið fer síðan stiglækkandi ár frá ári og verður síðast lagt á árið 1997 á gjaldstofn ársins 1996.