Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 188 . mál.


1276. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 21 5. maí 1990, um lögheimili.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og bárust henni umsagnir frá Félagi eldri borgara, Landssambandi aldraðra og Hagstofu Íslands.
    Í máli þessu er gert ráð fyrir að þeim sem búa á dvalarheimili fyrir aldraða eða í húsnæði sem sérstaklega er ætlað öldruðum sé heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem þeir höfðu fasta búsetu áður. Minni hluti nefndarinnar bendir á að lög um lögheimili eru tiltölulega ný af nálinni og við setningu þeirra laga var sérstaklega fjallað um málefni aldraðra. Þá er bent á að einn helsti tilgangur þeirrar lagasetningar var að tryggja að jafnan færi saman lögheimili manns og föst búseta. Hugtakið föst búseta er þungamiðjan í núverandi lögum. Þegar þessi lög voru sett þótti nauðsynlegt að skapa meiri festu um ákvörðum lögheimilis en verið hafði vegna þess að margháttuð réttindi og skyldur eru háð lögheimilisskráningu. Því skiptir miklu að um hana gildi skýrar reglur sem unnt sé að framfylgja með einföldum og sanngjörnum hætti. Sú regla að menn séu skráðir þar sem þeir búa hefur um langt skeið verið í löggjöf nágrannaþjóðanna og þykir þar sjálfsögð. Þar eru jafnframt nær engar undantekningar leyfðar. Hér á landi gera lögin ráð fyrir undantekningum þegar í hlut eiga tilteknir hópar þegnanna sem eru tilneyddir til að dveljast tímabundið fjarri þeim stöðum þar sem þeir hafa fasta búsetu. Um alla þessa hópa gildir að gengið er út frá því að um tímabundna dvöl sé að ræða. Ljóst er að þeir sem flytjast á dvalarheimili aldraðra koma þangað til að dveljast til frambúðar og taka þar upp fasta búsetu. Á þessum hópum er því greinilegur eðlismunur. Á það hefur verið bent að öðlist þetta frumvarp lagagildi muni það grafa undan lögunum og valda vandkvæðum við framkvæmd þeirra. Gætu menn hagað lögheimilisskráningu að vild sinni og látið lögheimili sitt standa á allt öðrum stað en þeir búa yrði sjálft lögheimilishugtakið marklaust.
    Formanni nefndarinnar hefur borist bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 6. maí sl., þar sem lagt er til að frumvarpið verði ekki afgreitt á yfirstandandi þingi. Jafnframt óskar sambandið eftir því að stjórn þess verði gefinn kostur á að kanna málið betur, taka það til frekari umfjöllunar og gefa um það efnislega umsögn.
    Núgildandi lögheimilislög voru samþykkt á Alþingi 21. apríl 1990 og tóku gildi 5. maí 1990. Lagafrumvarpið olli engum ágreiningi þegar það var til meðferðar á Alþingi, en ein meginforsenda þess frumvarps var það ákvæði sem nú er gerð tillaga um að breyta. Minni hlutinn telur alls ekki þá reynslu komna á þetta ákvæði að ástæða sé til að breyta því. Á hinn bóginn er sjálfsagt að framkvæmd þess og áhrif séu könnuð. Er það því tillaga minni hluta nefndarinnar að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 6. maí 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Sigbjörn Gunnarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.