Forræði á innflutningi búvara

74. fundur
Mánudaginn 24. janúar 1994, kl. 16:40:57 (3335)


[16:40]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Tillaga sú sem lögð verður fram á morgun var unnin að frumkvæði forsrh. í samvinnu við landbrh. Síðan var tillagan send öðrum ráðherrum til athugunar.
    Vegna þess sem menn hafa sagt hér um þetta mál og óskýr vinnubrögð á þinginu, ef menn hafa lesið dóm Hæstaréttar, þá er það svo eins og hér hefur komið fram rétt áðan að dómur Hæstaréttar tekur til 41. gr. laga 46/1985. Það er sá málatilbúnaður sem er ekki nógu skýr. Meiri hluti Hæstiréttar kýs að túlka það svo að hin ljósu ákvæði laganna sjálfra, lagatextans, víki til hliðar vegna skýringar í greinargerð. Um þetta var héraðsdómur þriggja dómenda ósammála Hæstarétti og þrír af sjö hæstaréttardómurum þannig að hér er bersýnilega um mikið lögfræðilegt vafaatriði að ræða. Þó auðvitað, eins og sagt hefur verið, gildir meirihlutadómur Hæstaréttar. En það er þetta atriði sérstaklega og síðan hitt að meiri hluti Hæstaréttar virðist telja að 1992 hafi hér orðið breyting þrátt fyrir að í því tilvikinu séu öll lögskýringargögnin, ræða þáv. viðskrh., samhljóða álit efh.- og viðskn. og framsaga formanns þeirrar nefndar, gengur ekki í þá veru. Þá eru lögskýringargögnin ekki látin gilda heldur lagatextinn. Þarna eru sem sagt notaðar tvær aðferðir sem ganga hvor á móti annarri. En þetta þýðir það með öðrum orðum að þegar við fórum heim í vor þá var í sjálfu sér ekki nein óvissa að okkar áliti í þessu máli. Við höfðum ekki talið, neitt okkar hygg ég vera, að það hefði orðið nein breyting á árinu 1992 í innflutningsmálum. Enginn okkar taldi það vera. (Gripið fram í.) Enginn taldi það vera. Það kann að vera mat dómsins en það er ekki mitt mat í sjálfu sér. Það er niðurstaða dómsins má segja.
    En meginmálið er að það frv. sem lagt verður fram á morgun af hæstv. landbrh. er að mínu viti algjörlega ótvírætt og full samstaða er um það mál í þinginu. Ég vil líka taka

það fram að dómur Hæstaréttar hefur ekkert með innflutning á kalkúnalöppum í Keflavík að gera. Fjallar ekkert um það mál og snertir það ekki.